Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Page 40
um að kenningin væri rétt í hinum helgu ritum — væri hún það ekki mættu
þau alveg eins missa sig. Nú tel ég að gildi textans sé meira virði í flestra
augum en áður þegar merking hans var talin skipta meginmáli. En samt
hefur vitund biblíuþýðenda alla tíð verið sterk um hið fagurfræðilega gildi
textans. Bókmenntatexti er ekki eins og hver annar texti. Texti er ekki aðeins
spurning um smekk, einnig um stílfræði. Þar sem hún er ekki í hávegum
höfð er undir hælinn lagt hver útkoman verður. Góð og nákvæm þýðing
ein sér nægir ekki, það sýnir umræðan um hina nákvæmu þýðingu Robert
Alters. Stíllinn gerir útslagið á góðan texta eða miðlungs.
Hlutur þýðandans er verulegur þegar um stíl textans er að ræða. Hann
gætir þess að hebreskum anda textans sé haldið, hann gætir þess með öðrum
orðum að textinn komist yfir á íslensku í þeim anda sem hann er ritaður,
hvort honum er komið til skila sem virðulegum, upphöfnum, ljóðrænum,
hversdagslegum, írónískum eða hvers eðlis hann kann að vera. Glímunni
við myndmálið þarf að halda til streitu þar til sigur vinnst hverju sinni í
stað þess að grípa til annars konar myndmáls sem þekkt er í okkar máli. f
framandi ritverk er eitt og annað að sækja sem önnur verk bjóða ekki uppá.
Þýðing er að þessu leyti þáttur í því að gera íslenskuna frjórra tungumál.7 Og
þar með íslenska menningu og svo lengi sem kirkjan lætur sig menninguna
varða og telur það hlutverk sitt að móta mótendur samfélagsins og vera burð-
arás samfélagslegra grunngilda kemst hún ekki undan því að vanda textann
til hins ítrasta. Þetta á einnig við um þýðingarnefndina. Hennar ábyrgð var
mikil því að hlutverk hennar var að finna þann stíl sem hæfði hinum forn-
helgu ritum.
Eg held að deilur séu ekki ómarktækur mælikvarði á gæði heldur mark-
tækur, texti sem hittir í mark er að sönnu ekki hafinn yfir gagnrýni en gæði
hans slá vopnin úr höndum gagnrýnenda, hvort það hefur tekist í störfum
þýðingarnefndar hinnar nýju Biblíu mun tíminn einn leiða í ljós.
7 Sjá ritgerð Astráðs Eysteinssonar: „Af annarlegum tungum". Andvari 1989, bls. 99 o.áfr.
38