Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Page 139
í Fellsöxl og Guðrún Þorbjarnardóttir. Sá Þorbjörn var Sigurðsson, bróðir
Guðríðar, sem var móðir síra Böðvars Jónssonar prests og sálmaskálds í
Reykholti. Voru þeir síra Böðvar og Bjarni skáldi því að öðrum og þriðja
að skyldleika.
Guðrún móðir Bjarna hafði eignast tvær dætur áður en hún giftist
Jóni bónda sínum, með Þorsteini Sighvatssyni í Höfn í Melasveit. Hann
kvæntist síðar Astu Einarsdóttur frá Hvanneyri. Meðal barna þeirra, sem
hann átti með henni, voru síra Jón Þorsteinsson, sálmaskáld og píslarvottur.
(Tekinn af lífi í Tyrkjaráninu 1627). Önnur dóttir Guðrúnar og Þorsteins
hét Helga, móðir Þórhalla skálds Hildibrandssonar. Hin hét Sigurborg,
sem átti merkan mann, Jón Grímsson á Húsafelli og síðar í Kalmanstungu.
Ungur að árum mun Bjarni hafa verið tekinn í fóstur af Sigurborgu systur
sinni og Jóni, manni hennar. Ólst hann upp hjá þeim, fyrst á Húsafelli og
síðar í Kalmanstungu. Átti hann hjá þeim góða daga á uppvaxtarárunum,
enda minntist hann þeirra hlýlega í fögru saknaðarljóði, er hann síðar orti
eftir þau.
Grunnavíkur-Jón lætur Bjarna skálda getið nokkrum sinnum, segir hann
hafa verið skyggnan og tekist á við tröll. Konu Bjarna nefnir Jón Margréti
og tilfærir eftir hann þessa vísu um hana:
Bjarni skáldi ber um haus
ber sig að fastna Möngu;
elskað hefir sú arma taus
aula þann fyrir löngu.
Eftir að Bjarni kvæntist hefir hann svo búið í Bæ og í Fellsöxl, eins og
fram kemur í einu handriti að kvæðum hans. Þessir bústaðir hafa valdið skilj-
anlegum ruglingi í hugum þeirra, sem nefna hann „Bjarna í Húsafellsöxl.“
Sú jörð hefir aldrei verið til, en slegið hefir saman nöfnum hinna tveggja
dvalarstaða Bjarna, Húsafelli og Fellsöxl.
Til er um Bjarna þáttur, örstuttur skráður af Gísla Konráðssyni (AM
276, 8vo.) „eftir skrifuðum blöðum, ekki mjög gömlum, með viðaukn-
um nokkrum munnmælum,“ að því er Gísli segir. Má af ummælum hans
merkja, að hann sé að litlu leyti höfundur þáttarins. Fremur lítið er á
137