Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Síða 145
Enn er af andlegum kveðskap Bjarna ótalið hið mikla kvæði hans, er
hann nefndi „AJdasöng.“ Hygg ég að þar rísi hæst orðsnilld hans, þegar frá
eru taldir áðurnefndu sálmarnir, sem prentaðir hafa verið.
Aldasöngur er að efninu til í flokki svonefndra heimsósómakvæða, sem
mjög voru í tísku á þeim tímum. Það sker sig þó úr á þeim vettvangi að
því leyti, að þar er framsetning öll fegurri og andagiftin skírari og meiri. I
Islenskri bókmenntasögu kemst Böðvar Guðmundsson m.a. svo að orði: „I
Aldasöng ber Bjarni saman samtíð sína við fyrri tíma, eins og þá var mikil
tíska, en hann gerir það á miklu markvissari og ákveðnari hátt en önnur
heimsósómaskáld. Og hann sýnir býsna mikla dirfsku í gagnrýni sinni á
framferði siðaskiptamanna, víst er guðsorðið hreint og kenningin fögur að
vanda, en samt er svo margt sem engan samjöfnuð stenst við kaþólskan
tíma.“
Læt ég hér lokið að sinni umfjöllun um andlega ljóðagerð Bjarna
Borgfirðingaskálds, en huga þess í stað lítillega að öðrum og veraldlegri
greinum í kveðskap hans.
Fyrst skal þá nefnt minningar- og saknaðarljóðið, sem hann orti um mág
sinn, Jón Grímsson, sem fyrr var drepið á. Kvæði þetta er sérstætt mjög
og næsta ólíkt öðrum erfikvæðum. Þar er t.d. sagt frá húsakynnum, lýst
heimlisbrag, gestrisni og mataræði. Einnig kemur þar fram samanburður á
nútíð og fortíð, á svipaðan hátt og skáldið gerir í Aldasöng. Minningarkvæðið
er ort undir vikivakahætti. Viðlagið er svohljóðandi:
Það er mest fyrir minni sjón,
hvað minnka gæðin fjalla,
Galmanstungan Grímsson Jón
grætur um alla
grætur um dagana alla.
Hér fara á eftir nokkur erindi þess mikla og sérstæða minningarkvæðis
sem sýnishorn, en alls er það fjórtán erindi.
143