Skólavarðan - 01.04.2005, Blaðsíða 19

Skólavarðan - 01.04.2005, Blaðsíða 19
SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 5. ÁRG. 2005 sinni. Enginn þarf að vera fullkominn. Þetta gerir að verkum að öll samskipti verða auðveldari en ella. Við leitumst við að virkja börnin og sýna þeim hvers þau eru megnug. Til þess notum við hvað-, hvernig- og hvers vegna- spurningarnar. Við göngum út frá þessu í öllu starfinu; tónlist, myndlist, málörvun og hreyfingu. Hér gilda m.ö.o. vinnubrögð lýðræðis. Allir mega hafa skoðun og allir eiga að leggja eitthvað til málanna og svo ákveður hópurinn hvaða leið skuli valin. Við erum auðvitað með ramma kringum starfið en börnin raða inn í rammann,“ sagði Sólveig. Flugvélar og bútasaumur Sólveig og Jenný sögðu að hóparnir ynnu oft með ákveðið þema í lengri eða skemmri tíma. “Einn er til dæmis með þemað flugvélar síðan í haust og er það í sífelldri þróun. Börnin eru leidd áfram með spurningum um þemað og þannig er vilji þeirra sjálfra settur á oddinn. Þau eru spurð hvort hægt sé að búa til lag um flugvélar og það er nú ekki vandamál, það er líka hægt að leika þær, teikna og smíða. Flugvélin hefur orðið börnunum mjög hugleikið verkefni. Þau hafa skoðað í þaula hvernig flugvélar líta út og séð að það eru stafir á þeim. Þau hafa nú smíðað sína eigin flugvél og eru afar stolt af henni. Mikla lukku gerði það þegar þau fengu svo að fara í vettvangsferð út á flugvöll. Ein af konunum hér kom með efnisbúta og börnin fengu það verkefni að búa eitthvað til úr þeim. Ekki vantaði hugmyndirnar. Það væri hægt að búa til teppi eða kjól og það varð úr. Þau saumuðu kjól og notuðu meira að segja saumavél við það. En þau saumuðu líka risastórt bútasaumsteppi. Börn hafa ótrúlegt hugmyndaflug og eru afar sveigjanleg. Þau laga sig að aðstæðum og umhverfi eftir þörfum og þá beinist hugur þeirra í eina markvissa átt, til dæmis þegar þau eru í tónlistartíma hjá Jenný þá er tónlistin ríkjandi. Þá vilja þau ekki einu sinni tala um flugvélina eða saumaskapinn.“ G-lykill er mikil krúsindúlla Tónlistin er aðalatriði hér í Fögrubrekku en myndlist og hreyfing eru sterkir þættir líka. Kennsla Jennýar, sem fer fram í smáhýsi á skólalóðinni, byggist á mjög öruggum spuna. Hún grípur á lofti atriði sem verða til í samræðum milli hennar og barnanna og vinnur með þau á fræðandi hátt með leiðandi spurningum. Landamæri milli greina eru virt að vettugi og samræður um grænmeti og ávexti snerta margar fræðilegar hliðar eins og liti, tölur og bókstafi, form og lögun, nótnatákn, dýra- tegundir og íslenskan orðaforða. „Það er í raun mjög flókið að vera Reggio-kennari,“ sagði Jenný. „Maður þarf að geta stokkið inn í aðstæðurnar og spunnið út frá þeim. Ég var kannski búin að ákveða eitthvað voða sniðugt en það fékk svo engan hljómgrunn hjá börnunum. Ég er steinhætt þessu. Ég vinn tímana eftir á og byrja kennslustundina á því að rifja upp hvað við gerðum síðast. Núna rifjuðum við upp orðið lykill og þá komu upp orð eins og skiptilykill og fleira.“ Erla samstarfskona Jennýar sótti möppur barnanna og þar var til dæmis mynd af g-lykli frá því síðast. Í framhaldi af þessu fór mikið verkefni í gang sem fólst í því að teikna nótnatáknið. Börnin fengu stór blöð sem lögð voru á gólfið og fyrsta vers var að búa til fimm línur. Síðan var rifjað upp hvernig farið var að því að skrifa g-lykil og Jenný gaf forskrift. Síðan reyndu börnin að herma eftir. Um leið sagði Jenný að þegar tónlistarmenn væru komnir með g-lykil á línurnar sínar þá fyrst væri hægt að skrifa ta-tí-tí-nótur. Þau virtust alveg með á nótunum. Það reyndist vera mikill vandi að teikna g-lykilinn og ýmsar útgáfur hans voru býsna frumlegar enda er g-lykill flókin krúsindúlla. Sólveig var spurð að því hvort þær hefðu fylgst með frekara tónlistarnámi barnanna sem lokið hefðu námi í Fögru- brekku. „Við vitum dæmi þess að börn, sem hafa verið hér hjá okkur, hafa stokkið yfir forskóla tónlistarskóla og farið beint í hljóðfæranám. Nú í vor útskrifast frá okkur 18 börn og það er fyrsti hópurinn sem sem hefur verið í tónlistarnámi frá tveggja ára aldri. Þau spila öll á flautu og hafa lært nokkrar nótur.“ Enn sem komið er hafa þær Fögru- brekkukonur ekki haldið námskeið eða kennt öðrum að vinna eftir aðferðum sínum en þær hafa miklu að miðla þeim sem hafa hug á að vinna markvisst með listir, en eins og stendur á heimasíðu Fögrubrekku taldi Platón að iðkun lista væri undirstaða allrar menntunar. Guðlaug Guðmundsdóttir Ljósmyndir Skólavarðan Úllen dúllen doff, kikkelane koff, koff, koff. Hrafnhildur Irma, hvar ert þú? Hér er ég. Hvert er uppáhaldsgrænmetið þitt? Hrafnhildur Irma: Gúrka, kring- lótt gúrka. Strákur: Gúrkur eru ekki kring- lóttar! Stelpa: Jú, þegar búið er að skera þær. Jenný: Hver vill vera næstur og teikna g-lykil? Strákur: Ég. -Ég ætla að gera krass! Jenný: Erum við að æfa það? Allir: Nei! Stelpa: Þú átt að gera g-lykil. Úllen dúllen doff, kikkelane koff, koff, koff. Rúnar, hvar ert þú? Hér er ég. Hvert er uppáhaldsgrænmetið þitt? Rúnar: Vínber. Jenný: Er vínber grænmeti? Strákur: Nei, það er ávöxtur. Bubbi byggir-hópurinn lék lag á flautur og ásláttarhljóðfæri á fagnaðarfundi. 19

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.