Skólavarðan - 01.01.2001, Blaðsíða 20
Ég er svo heppin að fá að vinna við það
sem mér þykir óstjórnlega skemmtilegt.
Þakklát fyrir að fá að vera í „farvegi lífsins“,
eins og ég kalla skólastarfið með sjálfri mér.
Að fá að umgangast öll þessi yndislegu börn
og foreldra þeirra sem ég hef lært svo
margt af. Lífið er dásamlegt og margbreyti-
legt og það kristallast í skólastarfinu, í
vinnu minni með nemendum, þeir eru frjó-
angarnir, framtíðin.
Í þessu starfi er endalaust hægt að gera
betur en smásigrarnir eru margir, gleðin
yfir tilsvörum, augnatilliti, vaknandi skiln-
ingi, framförum. Þessi ánægjulega vinna er
stöðug ögrun, áskorun. Áskorun um að
mæta nemendum okkar nákvæmlega þar
sem þeir eru og leiðbeina þeim við að afla
sér þekkingar og ná færni á öllum þeim
sviðum sem mannlegt samfélag krefst.
Mannlegt samfélag árið 2000 á Íslandi sem
er reyndar gegnsýrt af skelfilegu neyslu-
brjálæði, efnislegu lífsgæðakapphlaupi,
kaupa, kaupa, eiga, eiga. Og það er látið
eins með þekkinguna, þar á allt að gleypa,
gleypa, tölvur, tölvur, meira, meira.
„Kerisminn“ allsráðandi
Mér hefur oft dottið í hug að undanförnu
það sem einn af lærifeðrunum í Kennarahá-
skólanum talaði um: mismuninn á „ker-
isma“ og „jurtisma“. Fyrrgreinda stefnan
byggist á því að hella þekkingunni ofan í
nemendur, með góðu eða illu, en hin á því
að hlúa að nemandanum eins og blómi
þannig að hann fái bestu mögulegu skilyrði
til þess að geta blómstrað. Kerisminn er
allsráðandi í samfélagi okkar núna, heyrst
hefur til dæmis frá valdamiklum aðilum í
skólakerfinu að upplagt sé að spara kennara
og láta tölvurnar um að koma fróðleiknum
ofan í börnin. Hvernig eiga svo blessuð
börnin að vinna úr öllum þessum upplýs-
ingum sem stappað er í þau? Áreitin sem
börn og unglingar verða fyrir eru gífurleg.
Og þá þarf sem aldrei fyrr sterka, vel
menntaða kennara til þess að leiðbeina æsk-
unni um úrvinnslu á öllum sviðum, náms-
lega, tilfinningalega, félagslega og jafnvel
andlega. Kennara sem eru sælir, ánægðir og
öruggir með launin sín, kennara sem geta
treyst því að samstarfsfólkið hafi svipaðar
forsendur þannig að hægt sé að byggja upp
kraftmikið námsumhverfi.
Sterkt leiðandi afl
Við erum orðin leikin í því að bjarga fyrir
horn en það er ekki hægt að koma þriggja
ára kennaraháskólanámi inn í hausinn á
leiðbeinanda á nokkrum samstarfsfundum
að hausti til þótt viðkomandi sé allur af vilja
gerður. Það verður að hækka launin, það
segi ég af einlægri umhyggju fyrir æsku
þessa lands og raunverulegum áhyggjum af
menntun hennar.
Við skólafólk eigum að vera sterkt, leið-
andi afl í samfélaginu á grundvelli faglegrar
þekkingar okkar, verða áberandi, eiga
frumkvæði og taka þátt í umræðunni. Það
er dálítið erfitt í okkar litla landi því að við
erum að vinna með mislitlar manneskjur og
erum þess vegna mjög varkár í allri opin-
berri umræðu, við erum nefnilega líka svo
dugleg að taka faglega ábyrgð. En við fáum
alltaf annað slagið pílur frá hinum og þess-
um prelátum, tuðaranum á stöð tvö á föstu-
dagsmorgnum, Illuga og Spegilsmönnum.
Við getum látið okkur sárna, farið í vörn og
óhemjulegt píslarvætti eða tekið gagnrýnina
til greina, skoðað, vegið og metið og svar-
að! Oft er þessum pílum skotið af boga fá-
fræði og fordóma en stundum gætum við
kannski lært eitthvað af þeim.
Hvað er árangur og hvernig er
hann mældur?
Eitt af því sem oft er talað um „þarna úti“
er „árangurstenging kennaralauna“. Um
hvað er þá í raun verið að tala? Hvernig á
að mæla? Eiga samræmdu prófin að vera
mælikvarðinn? Hvað með „hina mismun-
andi greind?“ Hver ætlar að mæla gleði
barnsins og vilja til að læra?
Eðli kennarastarfsins er sveigjanleiki
byggður á festu. Þetta er ekki mótsögn. Við
verðum að þora að horfast í augu við nú-
tímann og þær kröfur sem eru gerðar til
skólans. Þora að breyta. Hvernig væri að
hafa vikulangt haustfrí í lok október eins og
tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar? Og
annað í febrúar til þess að æska landsins
geti til dæmis komist á skíði? Og stytta
sumarfríið svolítið? Af hverju opnum við
ekki skólana meira þannig að úr verði eins
konar námsmiðstöðvar fyrir alla fjölskyld-
una? Hvað þýðir „fjárhagslegt sjálfstæði
skóla?“ Heyrst hefur af nýjum tóni á fund-
um okkar fólks og sveitar-
stjórnarmanna, ómþýðum klið
um tiltekt í allt of stöðnuðum
kjarasamningi grunnskólakenn-
ara. Fáum við hærri laun? Á að
binda viðverutíma í skólum
meira? Mikil sveifla er í samfélaginu í þá átt
að vinnutími verði sveigjanlegri. Hvað ætl-
um við að gera? En umfram allt: er ekki
kominn tími til þess að umsjónarkennarar
fái meira greitt fyrir umsjónina? Til dæmis
að hún verði 30% af fullri stöðu?
En við þurfum líka að sýna festu. Börn eru
ekki ker. Tölvur koma ekki í stað kennara.
Það er hinn persónulegi „fundur“ kennara
og nemanda sem er lykilatriði í allri kennslu
og uppeldisstarfi. Þess vegna þarf okkur að
líða vel í vinnunni og það berst enginn fyrir
því ef við gerum það ekki sjálf.
Elín Vigdís Ólafsdóttir.
Höfundur útskrifaðist úr Kennaraháskóla
Íslands árið 1984 og hefur kennt að
mestu í Seljaskóla en undanfarin þrjú
ár á miðstigi í Engjaskóla.
Hún er í sambúð og á þrjá syni.
Skólavarðan janúar 2001
Smiðshöggið
Hugleiðingar kennslukonu á nýliðinni aðventu
Sveigjanleiki byggður á festu
Það er hinn persónulegi „fundur“
kennara og nemanda sem er lykilatriði
í allri kennslu og uppeldisstarfi.
22