Konan og nútíminn - 01.04.1936, Blaðsíða 7

Konan og nútíminn - 01.04.1936, Blaðsíða 7
[Konan og nútíminn] Margrét Jónsdóttir: KONUR! Eg heyri gný, eg heyri vopnabrak, og hrollur um mig fer, eg skelf af ótta. ......................... Eg mundi vilja leggja langt á flótta, en flúið hvergi fæ, eg verð að staldra við og sjá og heyra, horfast fast í augu við skrímsli það, er yfir löndin æðir og heimtar blóð og tár og bölvan, ógnir og dauða, eymd og svívirðing. Hver orð fá talið stríðsins vitfirring? Á allt að hníga, allt að falla í rústir? Á valdafíkn og fégirnd enn að drottna, og enn að bera á blótstall vopnaguðsins og blóta honum, þar til yfir lýkur, uns steinn ei framar yfir steini stendur ? Á engu að vægja, er aldir hafa skapað með snilli og djörfung mannlegs anda og máltar? Þér konur, mæður mannasona og dætra, er mælirinn ei fylltur út á barma? Hví gangið þér ei fram í breiðri fylking, frá öllum löndum, öllum heimsins þjóðum? — Þér hafið meira vald en margur hyggur, — og stöðvið þetta tryllta ógnar-æði! Og hvílík býsn, þér hönd á plóginn leggið, og eggið jafnvel yðar einkasyni til orustu, til bræðravígs og dauða. Vér stöndum fjarri, en skynjum allt er skeður, og sjáum skuggann rísa hærra og hærra, er hótar einnig hólmanum í norðri hungri og drepsótt, fári, kúgun, dauða. Vér hrökkum upp af sljóum draumadvala, vér eigum einnig mál, þótt íslenzk tunga sé ókunn flestum, lágvært kall ei heyrist. Ó, mikli guð! Þú andi, er eilíft varir, mun nokkru sinni birta af betra degi? Mun nokkru sinni sól úr ægi rísa, er skíni aftur yfir frjálsa jörð og mannkyn leyst úr hernaðarins hlekkjum, og ríkja friður, frelsi, bræðralag, jöfnuður, eining, allt hið fagra og góða! Þú mannkyns helft, þér mæður, dætur, systur, eiginkonur- Kallið svo hátt, að hrynji björg og klofni. Biðjið svo heitt, að færist fjöll úr stað. Starfið þó fyrst og fremst, allar sem ein og undir sama merki, er frið og frelsi heimtar, til handa öllum, öllum jarðarbörnum. Margrét Jónsdóttir. 7

x

Konan og nútíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Konan og nútíminn
https://timarit.is/publication/1185

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.