Morgunblaðið - 30.05.2016, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 30.05.2016, Blaðsíða 26
26 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 30. MAÍ 2016 AF LEIKLIST Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Annað árið í röð lagði undirrituð leið sína til Berlínar með það að markmiði að skoða leikhúslífið þar í borg til að víkka sjóndeildarhringinn og skrifa um það sem fyrir augu bar. Á um þremur vikum náði rýnir að sjá sam- tals fimmtán sýningar í fimm leik- húsum borgarinnar, þ.e. Maxim Gorki Theater, Deutsches Theater, Volksbühne, Berliner Ensemble og Schaubühne. Allar voru þær leiknar á þýsku, en fimm textaðar á ensku, þar af tvær í Schaubühne. Í þessari fyrri grein af tveimur er sjónum beint að sýningunum sjö sem rýnir sá í Schau- bühne, en seinni greinin birtist að viku liðinni. Sú sýning sem upp úr stóð í fyrra var uppfærsla Thomasar Ostermeier á Ríkarði þriðja eftir William Shake- speare, þar sem Lars Eidinger fór á kostum í titilhlutverkinu, og því vildi greinarhöfundur reyna að sjá eins margar sýningar og hægt væri í hans leikstjórn. Auk Ríkarðs, sem frum- sýndur var 2015, var í boði að sjá leik- ritið Bella Figura eftir Yasminu Reza sem heimsfrumsýnt var 2015, Brúð- kaup Maríu Braun sem byggist á samnefndri kvikmynd eftir Rainer Werner Fassbinder og frumsýnt var 2007, Þjóðníðing eftir Henrik Ibsen sem frumsýnt var 2012 og Crave [Þrá] eftir Söruh Kane frá 2000. Afstaðan ávallt skýr Seint verður sagt að Crave sé auð- skilið verk. Fjórar raddir, tvær af hvoru kyni, tala um ástina, vonir sín- ar og þrár, vonbrigði, örvæntingu og einsemd. Áhorfendum er það hulið hvort og hvernig raddirnar tengjast. Nálgun Ostermeier á þetta vanda- sama mósaíkverk var skýr. Leik- ararnir fjórir, sem aðskildir voru á jafnmörgum gráum pöllum, notuðust við míkrófóna til að koma textanum til skila. Þó tengsl persóna væru óljós og lítið hægt að lesa í fas og fatnað þeirra var afstaða leikaranna gagn- vart textanum alltaf fullkomlega ljós og tilfinningar sterkar. Fyrir vikið skapaðist heillandi heimur á sviðinu. Berskjaldaðar persónur Bella Figura skrifaði Reza að beiðni Ostermeier og með leikarana Ninu Hoss og Mark Waschke í huga. Leikritið hverfist um And- reu (Hoss) og Bor- is (Waschke) sem staðið hafa í ástar- sambandi í fjögur ár þó Boris sé giftur. Áhorfendur fylgjast með stolinni kvöldstund í lífi þeirra sem tekur óvænta stefnu þeg- ar vinkona eiginkonu Borisar mætir á sama veitingastað og elskendurnir ásamt manni sínum og tengdamóður. Uppleggið hljómaði spennandi, en útfærslan var merkilega tilþrifalítil. Illskiljanlegt var hvers vegna Andrea vildi endilega dvelja á veitingahúsinu sem lengst meðan Boris var stöðugt að reyna að koma henni heim og binda þannig enda á vandræðagang- inn. Ekki bætti síðan úr skák að valin var sú leið að láta Andreu vera ofur- ölvi nánast alla sýninguna, sem veikti alla dramatík. Markmið Reza mun hafa verið að skoða persónurnar þegar þær eru sem berskjaldaðastar og í raun ómeð- vitaðar um að þær séu til skoðunar. Þetta var undirstrikað í leikmynd Jans Pappelbaum í nokkrum senum sem leiknar voru inni á salerni þar sem veggirnir voru úr glæru plexigleri svo áhorfendur gætu gaumgæft persónur verksins líkt og væru þeir fluga á vegg. Heilt yfir virkuðu leikmyndin og skiptingar hins vegar þunglamalegar, en tylft sviðsmanna þurfti til að ýta inn og út af sviðinu heilum bíl, þungu sófa- setti og fiskabúri meðan í bakgrunni mátti sjá ýmis myndbönd af ólíkum skordýrum með tilheyrandi náttúru- hljóðum sem bættu litlu við upplif- unina. Opið samtal við áhorfendur Mun betur tókst til í útfærslunni á Þjóðníðingi úr fórum Ibsen í leikgerð Florians Borchmeyer, sem kom reyndar að dramatúrgíu nær allra sýninga Ostermeier. Leikrit norska meistarans var fært til nútímans með býsna góðum árangri, þó vissulega verði allt tal um notkun prenttækn- innar til að koma mikilvægum upplýs- ingum til almennings örlítið ankanna- legt á tímum samfélagsmiðla á borð við Facebook. Vel tókst til við fækkun persóna og snjallt t.d. að sameina hlut- verk mæðgnanna Katrínar og Petru Stokkmann í eitt, en hjónin voru að- eins látin eiga eitt ungabarn í upp- færslunni. Sú ákvörðun að láta Stokk- mann-hjónin vera í yngri kantinum dregur óneitanlega úr dramanu, þar sem þau ættu hæglega að geta hafið nýtt líf þó Tómas missi vinnuna hjá böðunum sem allt verkið hverfist um. Christoph Gawenda náði í túlkun sinni á Tómasi Stokkmann að draga upp trúverðuga mynd af manni sem tilbúinn er að leggja allt í sölurnar til að upplýsa sannleikann um mengun baðanna þó það kosti hrun bæjar- félagsins. Samspilið við Ingo Hüls- mann, sem fór með hlutverk eldri bróður Tómasar og bæjarstjóra, var skemmtilegt, ekki síst þegar Gawenda datt inn í að stríða bróður sínum líkt og væru þeir enn ungir strákar. Thom- as Bading fór á kostum sem Marteinn Kíl, tengdafaðir Tómasar, og minnti á djöfulinn sjálfan þegar hann silaðist haltrandi inn á sviðið í fylgd með risa- stórum sheffer-hundi. Í uppfærslu Os- termeier er það skilið eftir opið til túlkunar hvort Stokkmann-hjónin hyggist ætla að fara að ráðum Kíl og selja sannfæringu sína sér til hagsbóta og var lokamyndin af unga parinu sterk. Leikmynd Pappelbaum var einföld, en svart/hvítt lita- valið undirstrik- aði einstrengings- lega afstöðu Tómasar til hlut- anna. Fyrir fjórða þáttinn, þ.e. borg- arafundinn, mættu allir karlleikarar sýningarinnar að Gawenda undanskildum með máln- ingarfötur og máluðu svartan bak- vegginn hvítan, sem gaf forsmekkinn fyrir málningarsletturnar sem kaf- færðu Tómas undir lok fundar með til- heyrandi gusugangi yfir áhorfendur. Í þessum sama þætti var gerð áhuga- verð tilraun til að virkja áhorfendur þar sem okkur var breytt í fundargesti og boðið að eiga rökræður við persón- ur leikritsins, en eins og við mátti bú- ast tóku áhorfendur heilt yfir ein- dregna afstöðu með sannleiksboðskap Tómasar gegn valdhöfum og fyrir vik- ið lentu leikarar í nokkrum vandræð- um með að keyra sýninguna áfram samkvæmt forskrift Ibsen. Hættulega heillandi Ekki var hægt að sækja Schau- bühne heim án þess að sjá aftur Rík- arð þriðja fyrst það var á dagskrá leik- hússins, enda stórkostleg sýning þar á ferð sem undirrituð fjallaði ítarlega um í grein fyrir ári. Uppfærslan hefur farið víða og var m.a. sýnd á leiklistar- hátíðinni í Avignon sl. sumar (leiklist- arunnendur geta nálgast upptöku af þeirri sýningu á Youtube) og verður sýnd í Edinborg í ágúst nk. Gaman var að sjá hvernig sýningin hafði þróast milli ára. Hinn ögn feimni og vand- ræðalegi Ríkarður hafði vikið fyrir talsvert öruggari manni í meðförum ólíkindatólsins Eidinger, sem var eftir sem áður jafn hættulega heillandi í hlutverki illmennisins. Snemma í sýningunni þurfti Eid- inger að stöðva leikinn sökum veikinda eins áhorfanda, en blessunarlega sló það hann ekkert út af laginu. Ef eitt- hvað var virtist hann gefa í þegar kom að samspilinu við salinn. Sem dæmi gekk hann milli áhorfenda áður en hann gekk til hvílu í fimmta þætti og bauð okkur afganginn af kvöldverði sínum og spurði gesti um uppruna þeirra og hvar í borg þeir gistu, sem rúmaðist vel innan ramma verksins þar sem klikkaði kóngurinn talar við þegna sína. Eidinger er einstakur leik- ari sem býr yfir þeirri útgeislun og sviðssjarma sem hverri stórstjörnu er nauðsynleg. Gaman hefði verið að sjá túlkun hans á Hamlet í leikstjórn Ostermeier, en því miður var sýningin ekki sýnd dagana sem rýnir dvaldi í Berlín og bíður því betri tíma. Öllu fórnað fyrir ástina Þess í stað gafst tækifæri á að sjá magnaða uppfærslu á Brúðkaupi Mar- íu Braun sem valin var hluti af Thea- tertreffen vorið 2008 þar sem hún þótti ein af tíu bestu leiksýningum í þýsku leikhúsi á því leikári. Sagan hverfist um brúðhjónin Maríu og Hermann Braun sem virðast sköpuð til að skilja á tímum seinni heims- styrjaldar, því eftir aðeins hálfan dag og eina nótt saman þarf Hermann að fara á vígvöllinn. Fyrst skilur stríðið þau að, þar sem hann er raunar talinn af, og síðan fangaklefinn þegar Her- mann tekur á sig sökina á andláti elskhuga Maríu sem hún drap óvart. Til að eignast þak yfir höfuðið og und- irbúa framtíð þeirra þegar afplánun lýkur ræður María sig í vinnu hjá iðn- jöfrinum Karli Oswald og gerist síðar ástkona hans. Karl getur ekki hugsað sér að missa Maríu og býður eig- inmanni hennar að arfleiða þau hjón af auðæfum sínum ef Hermann láti sig hverfa úr landi þegar hann losni úr fangelsi. Hvorugur þeirra upplýsir Maríu um ráðabruggið og því fær hún ekki skilið hvers vegna Hermann yf- irgefur hana fyrirvaralaust og snýr ekki aftur fyrr en Karl er allur. Magnað verk um konu sem fórnar öllu fyrir ástina til þess eins að kom- ast að því að allar fórnirnar leiddu til þess að ástin dó. Í útfærslu Oster- meier fór ekkert á milli mála að gas- sprengingin undir lok verks var ekki slys heldur yfirvegað sjálfsmorð, enda hafði María ekkert til að lifa fyr- ir þegar hún komst að því að mað- urinn sem hún fórnaði öllu fyrir hafði farið á bakvið hana og var því orðinn henni sem ókunnugur. Leikararnir Sebastian Schwarz, Thomas Bading, Robert Beyer og Moritz Gottwald brugðu sér í hátt í þrjátíu ólík hlut- verk af mikilli leikni. Á örskotsstundu skiptu þeir um hlutverk, kyn og jafn- vel húðlit með einföldum búninga- lausnum og iðulega látbragðinu einu. Ursina Lardi var frábær María sem þróast úr því að vera ung og saklaus yfir í að verða tálkvendi á frama- braut. Henni tókst með afskaplega áhrifaríkum hætti að koma sársauka hennar og vonleysi til skila. Fábrotin leikmynd Ninu Wetzel þjónaði verkinu vel þar sem tæplega þrjátíu hægindastólar af ólíkum gerð- um fylltu stóra sviðið. Eina stóra sviðsskiptingin var þegar María flutti Sterkar sögur í höndum Ljósmynd/Arno Declair Ástarbál Robert Beyer, Sebastian Schwarz, Moritz Gottwald og Ursina Lardi sem túlkaði Maríu Braun. Ljósmynd/Gianmarco Bresadola Ádeila Gyllt konfetti og dollaramerkt jakkaföt voru áberandi í . Ljósmynd/Arno Declair Fól Lars Eidinger sem Ríkarður. Thomas Ostermeier, leikstjóri og einn listrænna stjórnenda Schaubühne í Berlín, hefur einstakt lag á að laða fram það besta í leikurum sínum. Leiklistarrýnir Morgunblaðsins sá nýverið sjö sýningar hússins, þar af fimm í hans leikstjórn. Ljósmynd/Gianmarco Bresadola Sorg Mæðgin (Ursula Werner og Felix Witzlau) með verði (Celina Rongen). » Styrkur Ostermeierfelst ekki síst í því að nálgast ólík verk á þeirra forsendum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.