Ægir - 01.08.2016, Page 11
11
Síðar smíðaði Axel nýjan bát,
Sunnu Rós sem hann kláraði ár-
ið 2014. Þegar Landssamband
smábátaeiganda útnefndi Axel
trillukarl ársins 2016 var í rök-
stuðningi bent á að auk þess að
smíða sjálfur bátinn hefði hann
einnig smíðað makríl- og grá-
sleppuveiðibúnað um borð. Það
þótti sérstaklega eftirtektarvert
hve einfaldur, léttur og afkasta-
mikill búnaðurinn er og var þess
jafnframt getið að Axel var með
einn af aflahæstu makrílbátun-
um 2016 þrátt fyrir að vera einn
um borð.
93 þúsund tonn
Axel segir að þegar smábátar 6
brl. og stærri voru settir í afla-
markskerfið í kringum 1990 hafi
verið um 2100 bátar í flotanum.
Þeir smábátaeigendur sem áttu
báta minni en 6 brl. fengu að
velja um aflamarkið eða bann-
daga sem átti að ljúka með
kvótasetningu 1. september
1994. Hann segir að um 1.100
hafi farið í banndagakerfið en
hinir í aflamarkið. Þá hófust
þegar mikil uppkaup og úreld-
ing á bátum til að ná kvótanum
og í dag eru að sögn Axels ein-
ungis um 130 smábátar eftir á
aflamarki. Hann segir að bann-
dagakerfinu hafi verið bjargað
frá aflamarkinu og nú séu þeir
bátar í krókaaflamarki þar sem
óheimilt er að færa veiðiheim-
ildir yfir í aflamark. „Það gefur
auga leið að ef Landssamband-
ið hefði ekki staðið vaktina á
þessum tíma væri engin smá-
bátaútgerð stunduð hér en auk
aflamarks og krókaaflamarks er
nú öflugur floti á strandveiðum,
grásleppu- og makrílveiðum,“
segir Axel. Í Landssambandi
smábátaeigenda eru í dag 950
bátar og á síðasta ári veiddi
þessi floti alls 93 þúsund tonn
af fiski. Þar af 27% af öllum
þorski sem veiddur var við
landið, 32% af ýsu og 58% af
ufsa.
Vistvænar veiðar
Axel segir spennandi verkefni
að halda áfram að berjast fyrir
tilverurétti smábátaflotans því
rökin fyrir honum séu bæði
mörg og góð. Hann segir áríð-
andi að opna augu stjórnmála-
manna fyrir gildi vistvænna
smábátaveiða og því hve miklu
þær skipta fyrir byggðirnar í
landinu. Tilflutningur á afla-
heimildum stórra skipa geti sett
líf heilu byggðarlaganna í upp-
nám eins og nýleg dæmi sýni.
„Mér finnst við hafa talað of
lengi fyrir daufum eyrum
stjórnmálamanna en það skýr-
ist af því að stórútgerðin rekur
mjög harða hagsmunagæslu
og hefur með skefjalausum
áróðri komið sínu fram. Okkar
rök eru sterk og þeim verður
ekki öllu lengur haldið frá um-
ræðunni.“
Axel segir sótspor fiskveiða
veigamikil rök fyrir útgerð smá-
báta. „Smábátaveiðarnar eru
umhverfisvænstu veiðarnar og
sótspor af hverju kílói af smá-
bátafiski er skv. nýlegri skýrslu
Matís aðeins einn þriðji af sama
magni af togaraveiddum.“
Verkefnin
Að sögn Axels eru stærstu verk-
efnin núna að efla strandveiðar,
aukning hlutdeildar smábáta í
makríl og afnám reglugerðar
um kvótasetningu makríls. Á
strandveiðum er krafan að
leyfðar verði frjálsar veiðar fjóra
daga í viku í fjóra mánuði á ári.
„Það er bæði skilvirkara og ör-
uggara. Eins og kerfið er í dag
fara menn á sjó hvernig sem
virðrar því núna er það „fyrstur
kemur fyrstur fær“ og það býð-
ur hættunni heim.“
Hann segir kröfu um að
auka hlutdeildina í makríl úr 5%
í að lágmarki 16% og bendir á
að þegar makríllinn var kvóta-
settur hafi smábátar ekki fengið
sanngjarnt tækifæri til að afla
sér veiðireynslu. Eftir að makríl-
veiðarnar voru kvótasettar árið
2015, gegn miklum mótmæl-
um, hófu einungis 50 bátar
veiðar vegna lágs verðs og
fjöldi þeirra rúmleg 130 báta
sem fengu úthlutun, féngu ekki
nóg til að réttlæta tilkostnað
við að hefja veiðar. Fyrsta árið
náðist ekki að veiða nema tæp-
an helming af 7000 tonna kvóta
sem smábátum var úthlutað. Í
ár gengu makrílveiðarnar mjög
vel og þeir 47 bátar sem fóru til
veiða veiddu tæp 9000 tonn.
Allur fiskur á markað
Axel segir smábátasjómenn af-
dráttarlaust þeirrar skoðunar að
allur fiskur eigi að fara á markað
og að þeir sem landi á markað
eigi að njóta einhverskonar
ívilnunar. „Virðisaukningin hjá
þeim sem eru með vinnslu, út-
gerð og sölu erlendis er mjög
mikil en það er lítið greitt af
þeim virðisauka til samfélags-
ins. Auðlindagjaldið miðast
bara við aflann þegar hann
kemur að bryggjunni. Til að
hvetja menn til að landa frekar
á markaði myndi breyta miklu
að lækka veiðigjöld hjá þeim
sem landa á markaði,“ segir Ax-
el Helgason formaður Lands-
sambands smábátaeigenda.
Axel á makrílveiðum um borð í Sunnu Rós en hann smíðaði sjálfur bæði bátinn og mest af veiðibúnaðinum um borð. Mynd: Gunnar Már Yngvason