Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.08.2016, Síða 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.08.2016, Síða 18
VIÐTAL 18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21.8. 2016 H vorki útlitið, fasið né röddin bera það með sér en varla lýg- ur Þjóðskrá Íslands; Svanur Jóhannesson bókbindari er fæddur á því herrans ári 1929. Hefði ég ekki búið að þeim upplýsingum fyr- irfram hefði ég giskað á að hann væri tíu, jafn- vel fimmtán árum yngri. Svanur heilsar glað- lega á heimili sínu í Hveragerði og teymir sendinefnd Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins rakleitt inn í eldhús, þar sem hann hefur tínt til sitthvað af því sem hann er að sýsla við um þessar mundir. Hann þekkir líklega ekki einu sinni merkingu orðasambandsins „að setjast í helgan stein“. Þegar ég hef orð á því að honum falli augljóslega ekki verk úr hendi færist bros yfir varir Svans. „Þú meinar að ég sé ofvirkur,“ segir hann og skellir upp úr. Tja, það voru ekki mín orð en ég hef heyrt menn kalla Svan eldhuga. Hann sé alltaf boðinn og búinn að leggjast á árarnar, gerist þess þörf. Svanur sýnir mér meðal annars prófarkir af tveimur bókum sem hann hefur látið sig varða undanfarið og koma út á næstunni. Önnur bók- in, sem kemur út í haust, nefnist „Vísnakver Jó- hannesar“ og hefur að geyma lausavísur sem faðir Svans, Jóhannes úr Kötlum, orti við ýmis tækifæri. Stundum var það í samstarfi við aðra og í nokkrum tilvikum er um að ræða vísur sem aðrir ortu til hans. Minnst af þessu efni hefur komið út á bók áður en verið aðgengilegt á net- inu, meðal annars á skáldasetri hans, johann- es.is. Vill taka af öll tvímæli Hin bókin heitir „Hveragerði er heimsins besti staður“ og kemur út á næstu dögum. Hún kom upphaflega út fyrir fimm árum en nú í end- urbættri útgáfu. Þar er að finna Hveragerð- isbraginn og fleira gamanefni sem flutt var á skemmtunum garðyrkju- og listamanna í Hveragerði fyrr á árum. Jóhannes úr Kötlum kemur þar líka við sögu, eins séra Helgi Sveins- son og Kristmann Guðmundsson og nú hefur Kristján frá Djúpalæk bæst í hópinn sem er skemmtilegt, því hundrað ár voru liðin frá fæð- ingu hans fyrr í sumar. Allt eru þetta menn sem Svanur kynntist vel á sínum tíma. „Það er svipað sjónarmið á bak við báðar þessar bækur; ég vil að til skila komist eftir hverja þessir bragir eru. Sumir þeirra eru sagð- ir vera eftir einhverja aðra og ég vildi taka af öll tvímæli í þeim efnum,“ segir Svanur. Hann segir brögð að því að sumar þessara vísna séu beinlíns rangar á netinu og það sé brýnt að leiðrétta. Allt efnið í „Vísnakveri Jó- hannesar“ er sótt beint í skáldasetur hans á netinu en þar byrjaði Svanur að safna vísum föður síns saman þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu hans, 1999. Svanur gefur Hveragerðisbókina út sjálfur en sonur hans, Einar Svansson, er útgefandi að vísnakverinu. Jóhannes úr Kötlum lést árið 1972 en kveð- skapur hans hefur lifað vel með þjóðinni. Leyf- ist manni að segja óvenju vel. „Það gleður mann hvað pabbi hefur lifað ljómandi vel með þjóð- inni. Sumir af samtímamönnum hans eru alveg gleymdir,“ segir Svanur og bætir við að bækur föður síns séu enn að seljast. Hin sívinsæla bók „Jólin koma“ kom til dæmis út á ensku fyrir síð- ustu jól og hefur selst prýðilega. Ekki síst í sumar. Sönglögin sívinsæl Spurður hvað valdi þessum vinsældum Jóhann- esar úr Kötlum segir Svanur „Jólin koma“ eiga stóran þátt í því, eins hafi barnaljóð hans al- mennt og sönglögin mikið að segja. Margir hafi samið lög við ljóð Jóhannesar og nefnir hann Valgeir Guðjónsson sérstaklega í því sambandi. „Hann hefur verið mjög duglegur að kynna pabba. Kórar hafa líka gert mikið af því að syngja þessi lög, í ýmsum útsetningum.“ Jóhannes úr Kötlum átti sér, sem kunnugt er, líka alvarlegri hlið og gat verið óspar á um- vandanir stjórnvöldum til handa. Svanur telur Sóleyjarkvæði, sem ort var í andrúmslofti sárra tilfinninga vegna inngöngu Íslands í NATÓ og komu bandarísks setuliðs til Íslands, líklega halda minningu andófsmannsins Jóhannesar hæst á lofti. Sjálfur gerði Svanur ekki ráð fyrir því að bækur og prentverk ættu eftir að leika jafn- stórt hlutverk í sínu lífi og raun ber vitni. „Ég ætlaði að verða rafvirki en það var engin leið að komast að sem lærlingur í því fagi á þeim tíma. Pabbi þekkti hins vegar bókbindara í Reykjavík sem var tilbúinn að taka mig í læri,“ upplýsir hann. Þannig kviknaði áhugi Svans á prentsögu þessarar þjóðar. Hann starfaði sem ungur mað- ur hjá Bókfelli á Hverfisgötunni, bjó í sama húsi og kom jafnan niður snemma á morgnana til að spjalla við Aðalstein Sigurðsson meistara sinn, en hann var hafsjór af fróðleik um gamla bóka- gerðarmenn og Svanur byrjaði að safna efni í bókbindaratal. Það var á þessum árum sem Svanur kom fyrst að útgáfumálum, fyrst „Iðn- nemanum“ sem þeir lærlingarnir gáfu út og svo seinna voru þrír í Bókfelli í ritnefnd blaðs sem nefnt var „Bókbindarinn“ og Bókbindarafélagið gaf út. Helgi Hrafn Helgason og Tryggvi Svein- björnsson voru með Svani í þeirri ritnefnd. Það var tóm vitleysa! Svanur gaf sig ungur að félagsmálum en bóka- gerðarmenn skiptust lengi niður á fjögur félög sem loksins sameinuðust í Félagi bókagerð- armanna (FBM) árið 1980. Svanur réðst þá til starfa hjá félaginu og starfaði þar óslitið til árs- ins 1996, að hann þurfti reglum samkvæmt að láta af störfum vegna aldurs, 67 ára. „Það var tóm vitleysa,“ segir hann og hristir höfuðið. Tæknin í prentiðnaði breyttist hratt eftir 1980 og iðulega var hringt í Svan þegar vélar gengu úr sér og átti að henda þeim. Hann reyndi eftir fremsta megni að koma þessum minjum í öruggt skjól og tókst það oftar en ekki. „Það voru fleiri sendibílar sendir til okkar hjá FBM og sem betur fer var Þjóðminjasafnið mjög duglegt að taka við vélunum. Þór Magn- ússon var þjóðminjavörður á þessum tíma og hafði áhuga á þessum málum. Hann var alltaf blíður og góður að eiga við. Ég vissi ekki lengi vel hvernig gengið hafði verið frá þessum minj- um en nýlega fékk ég að skoða þetta allt sem safnast hefur saman. Það er mjög gaman að sjá loksins afrakstur þessa ævintýris.“ Svanur segir lítið hafa verið skráð af þessum minjum á sínum tíma en nú sé hafið samstarf um það verkefni við Prentsögusetur sem sett var á laggirnar fyrir hálfu öðru ári. Svanur situr sjálfur þar í stjórn. Einhverjar prentvélar fóru líka á Árbæj- arsafnið og eru þar til sýnis sumar hverjar. Svani þykir safnið þó að ósekju mega gera meira úr þeirri eign sinni, til dæmis fá gam- alreynda bókagerðarmenn annað slagið til að sýna gestum hvernig þær virka. „Efnt var til lif- andi sýningar á Árbæjarsafninu árið 1990, þar sem bókbindarar voru að binda og prentarar að prenta og mæltist það vel fyrir.“ Svanur var lengi virkur í félagsskap bók- bindara og var m.a. formaður í sjö ár og eftir að bókagerðarmenn sameinuðust var hann kosinn fyrsti heiðursfélagi þess. Hann stóð að því ásamt fleirum að stofna hóp handbókbindara, Jam-hópinn svonefnda, og tók þátt í sýningum hans. Hann er líka heiðursfélagi þar, en segir starfsemi hans hafa legið niðri um skeið. Komst í allskyns félagsstörf Þegar Svanur hætti hjá FBM fyrir tuttugu ár- um sneri hann sér aftur að bókbandinu og var með eigið verkstæði fram til ársins 2005 að hann flutti til Hveragerðis. Eftir það hefur eng- inn tími gefist til að binda. „Nú ég komst auðvit- að í allskyns félagsstörf hér,“ segir hann og hlær. Svanur tók meðal annars þátt í að hleypa af stokkunum verkefninu Bókabæirnir aust- anfjalls fyrir tveimur árum, ásamt Bjarna Harðarsyni bóksala og fleirum, en það er klasi samstarfsaðila sem tengjast bókum, menningu og ferðaþjónustu á svæðinu. Svo hefur mikill tími farið í Prentsögusetrið, sem áður bar á góma. Prentsögusetri er ætlað að gera skil á þróun í setningu, skeytingu, prentun og bókbandi, þ.e.a.s. prentverki og bókagerð allt frá stofnun prentsmiðjunnar á Hólum í Hjaltadal fyrir miðja sextándu öld til dagsins í dag. Setrið heldur úti veglegri heimasíðu, prent- sogusetur.is, sem sonur Svans, Páll, hefur yf- irumsjón með og uppi eru áform um að opna safn en fengist hefur húsnæði fyrir setrið í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka, þar sem Jó- hann Jónsson ræður húsum. „Það var Anna Jónsdóttir bókakona á Eyrarbakka sem kom okkur í samband við Jóhann og hann hefur sýnt starfi okkar mikinn áhuga,“ segir Svanur en hugmyndir Jóhanns um rekstur í húsnæðinu rúma meðal annars þá hugmynd að Prent- sögusetur yrði þar í 400 fm plássi í tengslum við aðra starfsemi, svo sem veitinga- og gistiheim- ili. Að sögn Svans er Björn G. Björnsson hönn- uður reiðubúinn að hanna safnið. „Eins og staðan er núna strandar bara á fjár- mögnun. Prentsögusetur á um milljón krónur en það dugar skammt. Ríkið þyrfti að koma að málum og setja góðan pening í verkefnið. Það er nauðsynlegt að eiga svona safn Sunnanlands. Þessi saga þarf að vera aðgengileg almenningi.“ Stöðugt bætist í safnið en í fyrra fékk Prent- sögusetur meðal annars að gjöf frá Hólastað eftirlíkingu af prentpressu eins og þær gerðust á dögum Gutenbergs. Prentstaðir hugfólgnir Annað stórt áhugamál Svans, þessu tengt, eru prentstaðir á Íslandi en hann hefur um árabil Ofvirkur eldhugi Svanur vinnur nú að útgáfu bókar með vísum föður síns, Jóhannesar úr Kötlum. Félagslögum samkvæmt varð Svanur Jóhannesson að láta af störfum hjá Félagi bóka- gerðarmanna þegar hann varð 67 ára. Tuttugu árum síðar er hann enn í fullu fjöri og með mörg járn í eldinum. Hann kemur að útgáfu tveggja bóka, situr í stjórn Prent- söguseturs og hefur verið að safna upplýsingum um alla prentstaði á Íslandi. Þá er Svanur mjög virkur á samskiptamiðlum og á netinu og ber út blöð. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is ’ Ríkið þyrfti að komaað málum og setja góð-an pening í verkefnið. Þaðer nauðsynlegt að eiga svona safn Sunnanlands. Þessi saga þarf að vera að- gengileg almenningi.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.