Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.08.2016, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - Sunnudagur - 21.08.2016, Blaðsíða 28
28 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 21.8. 2016 MATUR Marcus Samuelsson á fimm veitingastaði í New York, einn á Ber-muda og einn í Chicago, auk ótal staða í Svíþjóð og Noregi. Hannkennir í bandarískum og sænskum matreiðsluskólum, hann birtist í ótal tímaritum og sjónvarpsþáttum, sínum og annarra, hann hefur skrifað sex uppskriftabækur og sú sjöunda kemur út núna í október. Hann var yngsti matreiðslumaðurinn, aðeins 24 ára, til að fá 3 stjörnur í New York Times sem yfirmatreiðslumeistari á Aquavit þar í borg og hann var fyrsti gestakokkurinn sem fenginn var til að sjá um máltíð í forsetatíð Baracks Obama. Hann er ríkur, hann er frægur, hann er stjarna. En það sem virðist skipta hann mestu máli er nýja heimilið hans: Harlem-hverfið í New York þar sem hann hefur fundið sig eftir langa leit að sínum stað í veröldinni. Í Harlem hefur hann opnað þrjá veitingastaði, þar sem sögu og menningu blökkumanna er gert hátt undir höfði og þar sem sem núverandi menning hverfisins fær að blómstra. Forsetar, heimamenn jafnt sem aðrir gestir njóta þar saman réttanna sem Samuelsson hefur galdrað fram með því að sækja innblástur í matarmenningu allra þeirra þjóðarbrota sem búa í Bandaríkj- unum. Sjálfur Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagði að Samuelsson hefði með mat sínum bæði varpað nýju ljósi á og blásið nýju lífi í hugmyndina um hvað það er að vera Bandaríkjamaður. Frá ömmu Helgu út í heim Hann var þriggja ára lítill eþíópískur strákur að nafni Kassahun Tsegie þeg- ar hann ásamt systur sinni og móður gekk til næsta bæjar til að reyna að fá hjálp við berklum sem þau þjáðust öll af. Móðirin dó en systkinin lifðu og voru ættleidd af sænskum landfræðingum og alin upp í Gautaborg. Marcus litli fékk snemma áhuga á matargerð og á hverjum laugardags- eftirmiðdegi gekk hann yfir til ömmu Helgu og hjálpaði henni að elda ofn- steiktan kjúkling sem fjölskyldan borðaði saman um kvöldið. „Mér finnst ég alla tíð hafa verið að elda,“ segir Samuelsson á heimasíðu sinni. Á sumrin dvaldi fjölskyldan á vesturstönd Svíþjóðar þar sem hann veiddi daglega í matinn með pabba sínum og bræðrum hans. Þeir veiddu leturhumar, humar og makríl og stundum reyktu þeir aflann. „Helga amma safnaði okkur saman í kringum eldhúsborðið sitt og kenndi okkur að sýra grænmeti, búa til kjötbollur og eplasultu, og að baka pipar- kökur. Þannig lærði ég að meta ferskt hráefni sem vex á staðnum.“ Þarna í eldhúsinu hjá ömmu ákvað hann að verða kokkur og læra klassíska franska matargerð í Frakklandi og opna síðan veitingahús í Svíþjóð. Hann lærði kokkinn í Gautaborg en fór í starfsþjálfun á klassastöðum í Sviss og Austurríki. Á meðan hann beið eftir samningi hjá hinum hæstvirta Georges Blanc í Vonnas, rétt hjá Lyon, skrapp hann aðeins að vinna á skandinavíska veitingahúsinu Aquavit í New York, þrátt fyrir að Frakkarnir reyndu að draga úr honum að fara til hamborgaralandsins mikla. Þar heillaðist Samu- elsson hins vegar af öllum þeim framandi hráefnum og réttum sem menningarsuðupotturinn New York kynnti honum. Elti uppi brögð um allan heim Eftir New York og Frakkland ferðaðist hann um heiminn sem kokkur á skemmtiferðaskipi. Í hverri höfn stökk hann í land, þefaði uppi ný krydd og matarmarkaði, spjallaði við innfædda um mat og borðaði með þeim sérrétti þeirra. Hann hefur flakkað um öll ríki Bandaríkjanna og kynnt sér elda- mennsku þeirra og matarsiði. Hann hefur einnig ferðast aftur til Afríku, til Eþíópíu, að leita pabba síns og uppruna og að kynna sér matarmenningu Afríkubúa. En New York er borgin hans. Hann segir að þar sé rétta stemningin fyrir hann því þar sé mikil eftirspurn eftir mat úr góðu hráefni, faglegri kunnáttu og fallegri framsetningu. Honum finnst íbúar borgarinnar hafa bæði mikið vit og áhuga á mat auk þess að vera mjög opnir fyrir nýjungum. Þannig að leit sænsk-eþíópíska guttans endaði í Harlem-hverfinu þar í borg, þar sem hann býr og hefur opnað þrjá veitingastaði: Red Rooster, Gin- ny’s Supper Club og Street Bird Rotisserie. Hver og einn þessara staða gerir bandarískri alþýðumenningu og mat – ekki síst blökkumanna – hátt undir höfði á sinn hátt. Harlem Renaissance á nýjan leik? Red Rooster er fyrsti veitingastaðurinn sem hann opnaði, þar sem hann ræðst að rótum bandarískrar matargerðar og færir upp á næsta stig. Á mat- seðlinum eru kunnuglegir réttir eins og grillaður kjúklingur, hamborgari og franskar, Mac’n Cheese, en einnig rækjur, graflax og sænskar kjötbollur sem hann tileinkar ömmu Helgu. Í forrétt er mælt með maísbrauði sem er orðið frægt um alla borg og borið fram með hunangssmjöri og tómatsultu. Þetta er mjög lifandi og skemmtilegur staður – hipp og kúl – sem leyfir andrúmslofti hverfisins að fljóta inn með fólkinu. Barinn er vinsæll og þar gengur ljóðskáld staðarins um og semur ljóð um fólkið og hverfið, þar eru myndlistarsýningar í gangi og oftar en ekki lifandi tónlist og þá helst djass. Little Richard blessar mannskapinn með sinni velgreiddu nærveru þar sem hann hangir uppi á vegg. Á neðri hæð Red Roosters er Ginny’s Supper Club. Hann er innréttaður í stíl Cotton Club, næturklúbbsins alræmda frá þriðja áratug seinustu aldar, en hann var einmitt í Harlem. Staðurinn vottar Harlem Renaissance virð- ingu sína, en það er menningar- og listaleg sprengja sem sprakk í hverfinu á þriðja áratug síðustu aldar þar sem menning og matur blökkumanna fékk uppreist æru. Og menningin heldur áfram að blómstra þar með sínum djass- tónleikum um helgar, og gospelunglingakór sem syngur úr sér hjartað fyrir brunch-gesti á sunnudögum. Streetbird Rotisserie er ódýrasti staðurinn. Þar er lögð áhersla á svokall- aðan götumat og þaðan er hægt að panta heimsendan mat. Þessi staður er mun meira röff en hinir, í einskonar hipphoppstíl níunda áratugarins, og gestirnir eru yngri og líklega efnaminni en á fyrrnefndu stöðunum. Á mat- seðlinum er lögð áhersla á vinsælasta „soul-food“ eða sálarréttinn: djúp- steiktan kjúkling og vöfflur, sem einnig á uppruna sinn að rekja til Harlem Renaissance-áranna. Hann varð til á veitingastöðunum sem voru opnir fram á nótt fyrir tónlistamennina sem voru að leika á næturklúbbunum í Harlem. Og nú er bara að reyna uppskriftirnar hér til hliðar.Verði ykkur að góðu! Little Richard er fastagestur á Red Rooster. Margir heimar á einum diski Hann fæddist í Eþíópíu, ólst upp í Svíþjóð en fann sig í Harlem. Marcus Samuelsson er stórstjörnu- kokkur sem hefur endurskilgreint bandaríska matarhefð og talar um The New American Table. Og við það borð er sæti fyrir alla. Hildur Loftsdóttir hildurl@mbl.is Sænski dalahesturinn og harlemsk brúðhjón á Red Rooster. Ljósmynd/hildurl

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.