Morgunblaðið - 25.08.2016, Page 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST 2016
TWIN LIGHT gardínum
Betri birtustjórnun með
Álnabær
Allt fyrir gluggann… úrval, gæði og þjónusta.
40 ára
Síðumúla 32, Reykjavík. S. 588 5900 ■ Tjarnargötu 17, Keflavík. S. 421 2061 ■ Glerárgötu 32, Akureyri. S. 462 5900 ■ alnabaer.is
OPIÐ: VIRKA DAGA FRÁ 10-18
Sendum frítt hvert á land sem er gegn staðgreiðslu
Íslensk framleiðsla eftir máli
Hringdu núna og bókaðu tíma í máltöku
Laufey Rún Ketilsdóttir
laufey@mbl.is
„Þetta hefur verið algjört ævintýri í
rauninni – algjör kúvending á lífinu
og bara gerðist allt í einu,“ segir Jó-
hannes Haukur Jóhannesson leikari,
en hann hefur verið á faraldsfæti um
heiminn undanfarin tvö ár þar sem
hann hefur tekið að sér fjölbreytt
hlutverk í sjónvarpsþáttum og kvik-
myndum á erlendri grundu.
„Ég fór frá því að vera daglega
niðri í Þjóðleikhúsi og heima hjá mér
yfir í að vera í Marokkó, Búdapest
eða Vancouver að gera eitthvað allt
annað,“ bætir hann við, en ævintýrið
hófst 2014 þegar hann landaði hlut-
verki í þáttunum AD Kingdom and
Empire á sjónvarpsstöðinni NBC.
Upp frá því hefur hann leikið hlut-
verk í tveimur þáttum sjónvarps-
þáttaseríunnar Game of Thrones
ásamt hlutverkum í kvikmyndinni
The Coldest City og The Solutrean
en þær hafa ekki enn verið sýndar í
kvikmyndahúsum hér á landi.
„Núna er ég svo í þáttunum The
Last Kingdom – þetta er voðalega
fínt og maður fær góð hlé á milli,“
segir hann, en frítímann nýtir hann
á Íslandi þar sem hann býr með fjöl-
skyldu sinni.
„Með því betra sem ég hef séð“
Jóhannes er þó ekki alfarinn út í
hinn stóra heim leiklistarinnar því
næsta verkefni hans er á nálægari
slóðum, í Reykjavík og á Ísafirði.
Hann tekur að sér eitt aðalhlutverk-
anna í nýrri íslenskri kvikmynd, Ég
man þig, sem byggð er á samnefndri
spennusögu Yrsu Sigurðardóttur, en
Óskar Þór Axelsson gerir handritið
og leikstýrir myndinni. „Ég er rosa-
lega glaður með það og rosalega gott
að leika á móðurmálinu og í svona
sögu – ofboðslega góð saga og leik-
stjórinn í miklu uppáhaldi hjá mér,“
segir Jóhannes, en Óskar leikstýrði
einnig myndinni Svartur á leik þar
sem Jóhannes fór með eitt hlutverk-
anna.
Jóhannes leikur lækni sem hefur
misst son sinn og í kjölfarið slitnar
upp úr hjónabandinu og hann flytur
til Ísafjarðar til að reyna að lifa líf-
inu eftir áfallið. Því næst flækist
hann í ákveðna atburðarás sem fer
af stað fyrir vestan og ýfir jafnframt
upp fortíðina.
„Handritið er með því betra sem
ég hef séð,“ segir hann, en stefnt er
að því að frumsýna myndina um
páskana. Búið er að taka upp fyrri
hluta myndarinnar en seinni hlutinn,
þar sem Jóhannes kemur við sögu,
verður tekinn upp nú í haust. Sara
Dögg Ásgeirsdóttir fer með hitt að-
alhlutverkið á móti Jóhannesi í þeim
hluta myndarinnar og segist hann
afar ánægður að fá að vinna með
henni. „Við vorum saman í bekk í
Leiklistarskólanum í fjögur ár og
þekkjum hvort annað ansi vel eftir
að hafa rúllað um gólfið í svita hvors
annars þrisvar í viku í fjögur ár,“
segir hann hlæjandi, en leikstjórinn
hafi prófað saman ýmsa leikara áður
en endanleg ákvörðun var tekin.
Standa vel að vígi
„Íslenskir leikarar fá rosalega
mikið af fjölbreyttri reynslu sem
aðrir búa ekki að,“ segir Jóhannes,
en hann hafi tekið eftir því þegar
hann hóf að vinna með leikurum er-
lendis. „Ég man til dæmis þegar ég
fór í fyrsta skipti í leikhús í London,
þá var mér pínu létt því ég var svo
viss um að mér myndi finnast við
heima eitthvað glötuð en það sem
mér fannst innst inni var að við vær-
um bara miklu betri en þetta – ég
fann ekki til minnimáttarkenndar,“
segir hann, en erlendis séu ákaflega
margir um hituna og leikararnir
frekar settir í ákveðna flokka. „Hér
fá menn tækifæri til að sinna ólíkum
hlutum. Ég hef til dæmis leikið
skúrka og illmenni í kvikmyndum og
sjónvarpi, gamanhlutverk í gaman-
þáttum og Mikka ref í barnaleikriti,“
bætir hann við, en fjölbreytnin hjálpi
leikara á öllum vígstöðvum.
Spurður hvort honum þyki
skemmtilegra að vinna við sjón-
varpsþætti eða kvikmyndagerð er-
lendis velur hann sjónvarpið. „Það
er skemmtilegra að gera meira
þannig að dagarnir á sjónvarpssetti
eru skemmtilegri,“ segir hann, en
þar sé meira efni tekið upp á hverj-
um degi í samanburði við kvikmynd-
irnar. „Þegar maður er í bíómynd-
unum leyfa þeir sér kannski að
skjóta bara eitt atriði á dag og
nostra svo kannski við uppsetningar
og flókin kranaskot – það þýðir
miklu minni vinnu fyrir leikarann,“
segir hann, en á meðan bíði leikar-
arnir í hjólhýsi í góðu yfirlæti.
Viðurkennir hann léttur í bragði að
það sé mikið „fyrsta heims vanda-
mál“ að kvarta yfir því að þurfa að
bíða í hjólhýsi á kvikmyndasetti.
„Þannig að maður vælir ekki en
maður verður pínu iðjulaus svona.“
Segist hann þó lítinn mun finna á
að leika fyrir framan myndavélina
hér heima og úti. „Það kom mér
skemmtilega á óvart að þegar maður
er loksins mættur á tökustaðinn og
kominn fyrir framan myndavélina er
þetta svolítið kunnuglegt og maður
kannast aðeins við sig,“ segir hann,
en það hefur heldur ekki reynst hon-
um fjötur um fót að leika á enskri
tungu. „Ég hef þurft að leika með
rússneskum og breskum hreim og
mér finnst mjög gaman að vinna í
því,“ bætir hann við, en talþjálfari
hjálpi líka til.
Verkefni í farvatninu
Fram undan eru mörg tækifæri
fyrir Jóhannes í leiklistinni úti í
heimi þótt ekkert sé enn fast í hendi.
„Það eru tvö verkefni núna sem ég
er búinn að prófa fyrr og það lítur
vel út og ég er kominn í lokaúrtak –
en ég er líka búinn að læra að það
þýðir í raun ekkert og alveg eins lík-
legt að ég fái það ekki,“ segir hann,
en umboðsmenn hans í Los Angeles
í Bandaríkjunum og London í Bret-
landi vinna hörðum höndum að því
að senda honum möguleg verkefni.
„Ég fór yfir það um daginn að það
tekur mig fimmtán prufur að fá eitt
tilboð.“ Yfirleitt rekist verkefnin
sem hann fær tilboð um að gera ekki
á en það hefur þó gerst. „Það var
ótrúlega blóðugt að þurfa að velja á
milli verkefna því maður vill auðvit-
að gera allt sem býðst.“
Á móti Charlize Theron
„Mig langaði það auðvitað alltaf
því mann langar að prófa hluti og
þetta er mjög heillandi – þessi
Hollywood-heimur og þessar er-
lendu kvikmyndir eru það sem mað-
ur hefur haft fyrir sjónum frá því að
maður var barn,“ segir Jóhannes
spurður hvort það hafi verið mark-
mið hans frá upphafi að komast í
leiklistina erlendis. „Það er rosalega
gaman að vera allt í einu að leika á
móti Charlize Theron sem hefur
unnið Óskarsverðlaunin,“ bætir
hann við.
Hann hefur þó aldrei sett stefn-
una á nein ákveðin hlutverk heldur
reynt að hafa fjölbreytileikann að
leiðarljósi. Þó sé margt að læra við
að taka að sér ný verkefni og sér-
staklega í nýju umhverfi „Þegar
maður byrjar á nýju verkefni finnst
manni maður aldrei kunna neitt og
þetta hefur verið svona frá því að ég
útskrifaðist,“ bætir hann við, en í
hvert einasta skipti sem hann vinni
með einhverjum öðrum, nýjum leik-
stjóra til að mynda, lærist eitthvað
nýtt. „Maður lærir líka að stressa
sig ekki á þessari tilfinningu.“ Hann
rifjar upp eitt sinn þegar hann tók
að sér verkefni með Sigga Sigurjóns,
reyndum og ástsælum leikara hér á
landi, sem hafi haft orð á því að fyrra
bragði að honum fyndist hann ekk-
ert kunna í hvert sinn sem hann
byrjaði á nýju verki. „Ég var svo
glaður að heyra þetta því ég upplifði
nákvæmlega það sama og hann upp-
lifði þrátt fyrir allt sem hann hefur
gert,“ segir Jóhannes.
Hann stefnir á að vinna við leik-
listina í víðu samhengi í framtíðinni
og viðurkennir að hann hugsi alltaf
stutt fram í tímann. „Fjölbreytileik-
inn er bestur og markmiðið er að
geta haldið áfram.“
Markmiðið að geta haldið áfram
Jóhannes Haukur Jóhannesson hefur leikið í sjónvarpi og kvikmyndum erlendis í tvö ár Leikur
aðalhlutverk í nýrri íslenskri kvikmynd, Ég man þig Að meðaltali í fimmtán prufur fyrir eitt tilboð
Morgunblaðið/Eggert
Lífið er leikur Jóhannes Haukur, leikari, leikur næst hlutverk í nýrri íslenskri kvikmynd, Ég man þig, sem er byggð á samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur.