Morgunblaðið - 18.10.2016, Síða 23

Morgunblaðið - 18.10.2016, Síða 23
aði mig á því að hún hefði lifað mörg líf. Hún var bara átta ára þegar hún varð munaðarlaus og æsku hennar lauk skyndilega. Afa mínum kynntist hún svo á balli, og þau komust að því að þau voru fædd sama dag – sama árið! Þegar afi minn fórst með bátnum sínum og öllum áhafn- armeðlimum varð amma að vinna mörg störf, dag og nótt, til þess að borga öllum sem báru skaða af því hörmulega sjóslysi. Seinna átti hún eftir að ferðast mikið og búa sér ágætt líf í Reykjavík. En það sem við töl- uðum um síðast þegar hún kom síðast heim til mín í mat í sumar var að hana dreymdi alltaf um að verða dansari. Og það hefði verið spurning um að fá styrk til þess að fara til Danmerkur að læra. Hvað það hefði verið stór- kostlegt! Amma var alltaf eit- ursvöl. Hún bar tilfinningar sín- ar ekki á torg. Samt vissi ég að margt sem hún hafði lifað var það dramatískt og sorglegt að við sjáum bara svona hluti í bíó. Hún var tuttugustu aldar kona sem hafði gengið í gegnum margt af því grimmasta sem gerðist á síðustu öld á Íslandi. En hún var sjálfstæð kona, hafði dansað, drukkið og kysst þrátt fyrir tárin. Ég mun alltaf minn- ast hennar. Hrönn Sveinsdóttir. Elsku flotta amma mín. Sterk, úræðagóð, sjálfstæð, tignarleg, tímalaus, elegant, með fallegustu hendur á Íslandi. Ég var lítil stelpa sem átti yndislega táningsmömmu en engan pabba, afa eða föður- ömmu. En ég átti þig, amma, og þú varst mitt annað foreldri. Þökk sé þér og mömmu er barnæska mín stútfull af falleg- um, sólríkum minningum. Á hverju vori fórstu með mig í Sundhöllina á sundnámskeið og beiðst á meðan Ernst Bachman kenndi mér sundtökin og keyptir svo appelsín fyrir mig fyrir dugnaðinn. Síðan gekk ég með þér í vinnuna, fylgdist með þér í pínulitlu reykmettuðu miðasöl- unni, stalst inn á mynd eða hljóp um anddyrið í Austurbæjarbíói. Heima hjá þér í Stigahlíðinni stóð ég á stól við háan svefn- herbergisgluggann og horfði á umferðina á Miklubraut. Á brennuna í mýrinni. Fálmaði of- an í fínan lakkskó og fann mand- arínu og múrsteinakökur. Á aðfangadag kúrði ég í sóf- anum sem ég seinna um kvöldið svaf í og gæddi mér á marm- araköku sem þú galdraðir fram en mundir aldrei uppskriftina að. Á jóladagsmorgun færðir þú mér síðan heitt súkkulaði í rúm- ið. Alvöru súkkulaði. Sex ára var ég send í sveit. Mamma var einstæð móðir en sumarfrí hennar var ekki í sam- ræmi við skólafríið. Mér leið illa í sveitinni og þú, amma, varst í sumarvinnu hjá orlofi húsmæðra og komst að heimsækja mig. Klædda fallegri dragt og háhæl- uðum skóm leiddi ég þig inn um skítugar bakdyr og það tók þig fimm mínútur að ákveða að þetta væri barnabarni þínu ekki samboðið. Áður en ég vissi af varstu búin að pakka niður dótinu mínu og hafa mig með þér á brott. Út um framdyrnar. Ég gleymi aldrei gleðinni þegar við ókum á brott. Með tóp- aspakka í aftursætinu sá ég bæ- inn fjarlægjast. Þú amma, hetj- an mín. Þú varst ekki amma sem sat í ruggustól og þú prjónaðir ein- göngu til að safna fyrir utan- landsferðum. Og þú sast ekki með mér yfir kverum og æv- intýrum en saman sáum við Á hverfanda hveli í Gamla bíói og allar Apaplánetumyndirnar í Nýja bíói. Á þjóðhátíðardaginn trommaðir þú með mig sjö ára á ball á Hótel Borg. Sem unglingur átti ég athvarf hjá skilningsríkri ömmu sem stjanaði við skapþunga barna- barnið og hvatti það til að dansa og fara seint að sofa. Mörgum árum síðar gerði ég mér grein fyrir því að þú varst ekki bara flotta amma sem bauð vinum mínum í bíó. Þú varst ótrúlega sterk kona. Munaðar- laus átta ára og ekkja með tvö börn 34 ára. Þú vannst myrkr- anna á milli svo að við sem þér þótti vænst um liðu ekki skort. En þrátt fyrir það hefði enginn nokkurn tímann gripið þig fyrir utan hússins dyr án eyrnalokka eða í lummó skóm. Þú varst prinsippkona og tókst aldrei stuttu leiðina ef sú langa var heiðarlegri og réttsýnni. Löngu seinna lærði ég að þú áttir draum um að verða dans- ari, sem þótti út í hött á fjórða áratugnum. En þú elskaðir að dansa og lést aldurinn aldrei halda aftur af þér ef Haukur Mortens eða Raggi Bjarna hljómuðu. Ég hélt að þú værir ódauðleg. Fegurð þín og styrkur virtust aldrei þverra. Ég vona að mér takist að miðla einhverju af öllum þínum guðsgjöfum til dætra minna. Bless í bili, amma mín eina. Ragna Björg. Þó svo að ég hafi alist upp í mörg þúsund mílna fjarlægð fannst mér við langamma alltaf nánar. Þegar við mamma kom- um í okkar árlegu heimsóknir til Íslands var ömmu Lóu hús oft- ast fyrsta stopp. Litla íbúðin hennar var nostursamlega skreytt og snyrtileg og amma tók ætíð á móti okkur í sínu fín- asta pússi; kjól og jakka í stíl, háum skóm, með eyrnalokka og hárið blásið og lagt. Hún brosti sínu fallega brosi og gamalkunn- ugt sambland af blómalykt og soðnum fiski tók á móti okkur og mér leið eins og ég væri komin heim. Þó svo að sjón hennar dapraðist mikið með árunum var ekki að sjá það á heimili hennar né útliti. Hún sleppti aldrei tækifæri til að bjóða okkur kon- fekt, bakkelsi, kaffi eða eitthvað sterkara. Gestrisni hennar náði út fyrir öll mörk og hún naut þess að gera vel við okkur. Eftir því sem ég eltist gerði ég mér betur og betur grein fyr- ir því hvað ég var heppin að hafa tækifæri til að kynnast lang- ömmu minni. Stundum gengum við saman út í Kringlu og sátum úti með bjór og spjölluðum. Eitt skiptið sátum við lengi fram eft- ir, bara við tvær og pöntuðum nokkrar umferðir á meðan sólin entist á okkur. Hún sagði mér af ástríðu sinni fyrir dansi og ferðalögum, talaði um ástina og lífið. Ég gleymi aldrei hvað það var auðvelt fyrir okkur að tala saman, jafnvel þó að íslenskan mín væri ekki alltaf rétt og enskan hjá ömmu ekki til staðar. Mér fannst alltaf að þrátt fyrir stóran aldursmun og miklar fjarlægðir þá sæi hún pínulítið af sér sjálfri í mér. Mér var virðing af því. Líf Lóu ömmu var ekki alltaf auðvelt. Hún var flest sín full- orðinsár ekkja og þurfti oft að vinna mikið til að sjá börnunum sínum tveimur farborða. En viljastyrkur hennar leyfði aldrei uppgjöf og hún hætti aldrei að hugsa og skapa fyrir fólkið sitt. Hennar þrautseigju, styrk og ást er að þakka fyrir okkar nánu fjölskyldutengsl. Fjölskylda var henni mikilvæg. Þó svo að hún sé ekki lengur með okkur höld- um við henni nærri með hefðum sem hún skapaði. Á hverjum jól- um hamast mamma við að end- urskapa uppáhaldssúpuna mína, bestu súpu í heimi; rjómalagða aspassúpu. Uppskriftin kemur frá ömmu Lóu og fyrir mér er súpan ómissandi á jólahátíðinni. Ég vonast til að halda þessari hefð og öðrum sem hún kenndi áfram fyrir komandi kynslóðir. Ég hefði svo viljað að við hefðum átt meiri tíma saman, ég vona að henni hafi þótt tíminn sem við höfðum jafndýrmætur og mér. Alla mína ást, Melkorka. MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. OKTÓBER 2016 flestar tunnurnar eftir söltunar- törn sem hafði staðið yfir þann daginn eða nóttina. Hún var lífs- glöð og skemmtileg, hafði smit- andi hlátur. Þá voru Bítlaárin og allar stelpur með túberað hár. Sveitaböllin og hljómsveitir í hverju þorpi. Ég man eftir að ballferðirnar voru vítt og breitt um Austurland. Svo var hlustað á Lög unga fólksins á þriðju- dagskvöldum og svo Radio Lux- embourg seint á kvöldin ef veð- urskilyrði voru góð. Þó svo Jóhanna hafi verið 10 árum eldri en ég þá vorum við náin og hún var alltaf stóra góða systirin sem ég gat leitað til. Þannig var það alla tíð milli okk- ar. Hún var harðdugleg, hvatvís og vílaði ekkert fyrir sér sem koma þurfti í verk. Hún var jafn- lynd, jákvæð og einstaklega áreiðanleg. Orðum hennar mátti treysta. Jóhanna var hjálpfús og lagði sig fram um að gera allt vel sem hún tók að sér. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur og stofnaði heimili þá lágu leiðir okkar oft saman. Ég t.d. leigði hjá henni í tvo vetur á menntaskólaárunum og naut þar sem fyrr hennar að- stoðar í svo mörgu. Það var notalegt að vera á hennar heim- ili. Mér þótti afar vænt um Jó- hönnu og hennar fjölskyldu. Mörgum árum seinna flutti Jó- hanna með Sveini, seinni manni sínum í Mosfellsbæ, í næsta ná- grenni við mig og mína fjöl- skyldu. Samgangur var mikill milli heimilanna. Það var svo notalegt að kíkja inn og fá kaffi- bolla og spjalla um lífið og til- veruna, fjölskyldumál eða hvað sem var. Jóhanna vann síðustu 20 árin á Reykjalundi sem launagjaldkeri. Starf sitt rækti hún af samviskusemi. Lagði stundum heldur hart að sér, að margra mati. Vinnan tók oft mikið af hennar tíma en þannig var Jóhanna. Að leiðarlokum vil ég, Ingunn kona mín og börn þakka Jó- hönnu fyrir allt það góða sem hún gaf okkur. Minningin um hana mun lifa. Við vottum Sveini, Hallgrími, Írisi og Elsu okkar samúð og biðjum góðan Guð að styrkja þau á sorgarstundu. Far í friði, kæra systir. Pétur Pétursson. Langar í nokkrum fátækum orðum að minnast okkar fallegu vinkonu Ingu. Fyrir um 25 árum var ég svo heppinn að kynnast konunni í lífi mínu, henni Berglindi. Ég hef verið hamingju- samasti maður landsins síðan. Það sem færri vita er að þá kynntist ég einnig skemmtilegasta vinkon- uteymi Hafnarfjarðar. Æskuvin- konum sem ólust upp saman í norðurbænum í árdögum Víð- istaðarskóla og sem meira er, hafa haldið sambandi æ síðan. Alla tíð verið fallegustu, skemmtilegustu og bestu vinkonur í heimi. Betri vini er ekki hægt að hugsa sér. Í dag erum við að gera hið ómögulega, kveðja eina úr þessum sterka vinahópi, sjálfa Ingu. Elsku Ingu sem við öll elskuðum svo heitt. Ingu sem var alltaf til taks fyrir okkur öll hin og var allt- af tilbúin að gera okkur greiða eða hvað sem er, alltaf með bros á vör. Þegar ég hugsa um Ingu kem- ur mér bara hlátur í hug því við hittumst aldrei öðruvísi en að hlæja að öllu og öllum. Ferðin okkar til Nice í Frakklandi var ein rússíbanareið fyrir hláturtauga- rnar og ég veit að Inga er enn að hlæja að bullinu og ruglinu okkar í þeirri ferð. Veiðiferðin með öllum vinunum í Víðidalsá var annað ruglið. Gátum aldrei minnst á þá ferð án þess að springa úr hlátri. En bestu stundirnar voru samt þegar átti að gera eitthvað saman heima á Arnarhrauni 27. Matar- boð voru ekkert mál. Útskriftarp- artí, fermingarveislur eða sushi- veislur. Allt græjað og gert saman af þessum sterka vinahópi. Ó, hvað það var gaman. Ekkert mun koma í stað þessara dýrmætu stunda. Takk, elsku Inga. Frá hjartans rótum þakka ég þér fyrir allan vinskapinn öll þessi ár. Takk fyrir hjálpsemina, vináttuna og örlætið. Takk fyrir að gera líf okkar á A-27 skemmtilegra og dýrmætara. Hvíl í friði, elsku besta vinkona. Pétur Gautur. Ingibjörg Óskarsdóttir ✝ Ingibjörg Ósk-arsdóttir fæddist 28. júní 1967. Hún lést 4. október 2016. Útför Ingibjargar fór fram 14. október 2016. Elsku besta fal- lega skemmtilega yndislega Inga vin- kona mín kvaddi okkur 4. október síðastliðinn. Ég kynntist henni þegar við unnum saman hjá heildversluninni Miklagarði árið 1992 og eftir að Mikligarður hætti starfsemi unnum við að því að stofna heildverslunina Stíl árið 1993 og unnum þar saman í mörg ár og höfum verið bestu vinkonur síðan. Hver man ekki eftir Stíl úr fjöl- skyldunni eða vinahópnum okkar, hvað það var gaman hjá okkur í vinnunni alla daga og öll árin. Ég og Inga unnum jafnt í öllum störf- um fyrirtækisins frá innkaupum til sölustjórnunar og samninga- gerðar, við kunnum þetta allt og nálguðumst þetta á sama máta þar sem við tvær vorum með frá stofnun og ég man sérstaklega þegar við vorum að setja upp tölvukerfin, þá var léttara að spyrja Ingu um kennitölur kaup- félagana en að lesa af skrá, hún sat brosandi með kaffi latte og þuldi upp kennitölur, heimilisföng og aðrar upplýsingar, þvílíkt minni hjá henni Ingu. Við unnum mjög þétt saman og ferðuðumst mikið saman innan- lands sem utan og minningarnar eru margar og allar góðar. Við keyrðum um allt landið saman sumar, vetur, vor og haust og lentum í ýmsum ævintýrum, m.a. að sækja verslunarstjórana í bei- tuskúrinn, í saltfiskinn, í frysti- húsið, í fjósið og stundum að bíða í allt að nokkra klukkutíma því að það voru skilaboð á hurðinni „skrapp í kaffi“. Við kynntumst góðu fólki um allt land og kynnt- umst landinu okkar nokkuð vel í öllum veðrum, við áttum góðar stundir og við hlógum svo mikið saman, alla daga, allan daginn. Inga var mjög vel að sér í Ís- lendingasögum og landafræði og mér leið oft eins og ég væri að ferðast með pabba mínum sem var alveg eins og Inga, vissi hvar allt hafði gerst og þekkti alla söguna og ártöl. Nú, þegar við vorum er- lendis vissi Inga að sjálfsögðu hvar flottustu búðirnar voru, þekkti öll nöfnin á hönnuðum og hvað var að koma í tísku, hún vissi nöfnin á öll- um sem við vorum að fara að hitta, hvað fyrirtækin hétu, hún mundi allt, hún vissi allt um allt. Í ferðunum okkar var ég eins og karlinn því Inga var svo mikil dama og vaknaði alltaf einum klukkutíma á undan mér til að blása hárið og gera sig sætari á meðan ég hraut, svo vakti hún mig og ég var til á fimm mínútum, sem henni fannst alltaf svo fyndið. Við unnum náið með flottum hópi og kjarninn var Elín Þórunn, Guðrún Jóna, Sigurrós, Inga og ég og þessi tími var nú bara eins og einn stór kvennaklúbbur, gaman saman í vinnunni. Við áttum einnig mjög góða tíma með okkar við- skiptavinum og eignuðumst vini fyrir lífið þar má nefna Júlíus á Akureyri og Þuru á Egilsstöðum. Það sem ég er búin að vera heppin að njóta allra þessa ára með Ingu minni og kynntast henn- ar yndislegu fjölskyldu og vinum og hún kynntist minni fjölskyldu sem elskuðu hana eins og ég. Ég votta vinum og vinkonum hennar Ingu og fjölskyldu inni- legrar samúðar og minningin hennar Ingu mun lifa með mér alla ævi. Minning þín er mér ei gleymd; mína sál þú gladdir; innst í hjarta hún er geymd, þú heilsaðir mér og kvaddir. (Káinn) Hrönn Ingólfsdóttir. Elskulegur eiginmaður minn, faðir, afi og langafi, HALLDÓR ÞORLEIFUR ÓLAFSSON, Leifur, Miklabæ, Óslandshlíð, lést 12. október á Akureyri. Útförin fer fram frá Hofsóskirkju laugardaginn 22. október klukkan 14. . Guðrún Jónsdóttir, Jón Ingi, Anna Elísabet, Ólafur Gunnar, Ingibjörg Arnheiður, barnabörn og barnabarnabörn. Ástkær móðir mín, tengdamóðir, amma og langamma, GUÐNÝ MARGRÉT GUNNARSDÓTTIR bóndi, Bakkárholti í Ölfusi, lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði aðfaranótt laugardagsins 15. október. Útförin auglýst síðar. . Helga Guðný Kristjánsdóttir, Björn Birkisson, Fanný Margrét Bjarnardóttir, Eiríkur G. Johansson, Sindri Gunnar Bjarnarson, Þórunn Ólafsdóttir, Aldís Þórunn Bjarnardóttir, Geir Gíslason, Hólmfríður María Bjarnardóttir, Guðrún María, Sigubjörg Ólöf og Rakel Ósk. Ástkær eiginkona mín og minn besti vinur, móðir okkar, tengdamóðir og amma, GUÐRÚN PÁLSDÓTTIR, Víðihlíð 15, Reykjavík, lést á líknardeild sunnudaginn 16. október. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju mánudaginn 24. október klukkan 13. . Ásgeir Már Jakobsson, Páll Daði Ásgeirsson, Ástdís Þorsteinsdóttir, Jakob Ingi Ásgeirsson, Gyða Hrönn Ásgeirsdóttir, Ásgeir Guðbjartur Pálsson, Ingibjörg Lilja Halldórsd., Hörður Valsson og barnabörn. Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ÓLAFUR ÞÓR ÓLAFSSON bóndi, Valdastöðum, Kjós, lést á heimili sínu laugardaginn 15. október. Útförin fer fram frá Reynivallakirkju í Kjós laugardaginn 22. október klukkan 13. Blóm og kransar vinsamlegast afþökkuð en þeim sem vilja minnast hans er bent á Krabba- meinsfélagið. . Þórdís Ólafsdóttir, Ólafur Helgi Ólafsson, Ásdís Ólafsdóttir, Vigdís Ólafsdóttir, Ásgeir Þór Árnason, Valdís Ólafsdóttir, Jóhann Davíð Snorrason, barnabörn og barnabarnabarn. Morgunblaðið birtir minn- ingargreinar endurgjalds- laust alla útgáfudaga. Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dög- um fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað get- ur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skilafrestur rennur út. Undirskrift | Minningargreina- höfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stutt- nefni undir greinunum. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.