Morgunblaðið - 18.11.2016, Qupperneq 16
16 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. NÓVEMBER 2016
verið endurhönnuð til að bæta aksturseiginleikana og
stýrisbúnaðurinn uppfærður svo að auðveldara sé að
hafa stjórn á skrímslinu þegar ekið er á miklum hraða.
Hvernig er svo að aka á svona brjálæðislega kröftug-
um og dýrum bíl? Ofursportbílar í dag eru flestir til-
tölulega þægilegir í akstri og yfirleitt hægt að ýta á
hnapp sem mildar fjöðrun og dempar hávaðann svo að
innanbæjarakstur verður léttari. Sama gildir með
Aventador SuperVeloce og útheimtir bíllinn ekki svo
mikla vinnu eða fimi hvort heldur á sveitavegum eða
hraðbraut. Þetta er breiður bíll
og fyrirferðarmikill og útsýni
ökumanns til hægri mjög tak-
markað, en það eru hlutir sem
maður venst. Vænghurðirnar
eru ekki bara til þess gerðar
að vekja meiri athygli þegar
stigið er út úr bílnum, heldur
koma að miklu gagni í þröng-
um bílastæðum.
Kraftar í kögglum
Eitt finnur maður samt
strax og sest er upp bílinn: að
hann er nánast ekkert nema
vöðvarnir. Allt er hart og stórt
viðkomu og ef ýtt er fast á
bensingjöfina slengist líkaminn
afturábak á meðan drunurnar úr vélinni heyrast langa
leið. Adrenalínið frussast út í blóðrásina og munnurinn
fær á sig svip sem er blanda af breiðu brosi og skelf-
ingu. Ítalirnir eiga til frasa sem lýsir þessari upplifun
ágætlega: „Mamma mia!“
Annað kemur á óvart: þar sem Aventadorinn er
stærri bíll þá er meira pláss fyrir farangur en í Hurac-
áninum. Lamborghini gefur ekki upp tölur um stærð
farangursrýmis en framskottið virðist töluvert stærra í
Aventadornum og þá er stór sylla á bak við sæti far-
þega og ökumanns þar sem mætti rúma tvær töskur
í handfarangursstærð, ef ske kynni að hendast þurfi
út á flugvöll í snatri.
Hvor er svo betri? Litli Lambóinn eða sá stóri? Ef
ég þyrfti að velja myndi ég líklega kaupa mér Hura-
cán. Sá litli er þægilegri að sitja í og yrði fyrir vikið
meira notaður. Verst að hann skuli ekki vera með
vænghurðir eins og stóri bróðir: það er svo skemmti-
leg sýndarmennska að geta sveifla hurðunum upp.
Fleira kemur til: Á meðan
vélin í Aventador SV drynur þá
hefur Huracáninn hljóð sem
minnir á köflum á tryllingslegt
hvæs sem fær hárin til að rísa.
Að innan er vélarhljóðið
skemmtilegra í Huracáninum,
en að utan er hljóðið í Aventa-
dor SV betra, algjört konfekt
fyrir eyrun.
Gleði, bros og „selfies“
Og talandi um drunurnar:
Við hjónin fundum stórt plan í
Modena til að leika okkur á og
þó langt væri í næstu hús þá
bergmáluðu djúpar drunurnar
langar leiðir og löðuðu að hóp
af unglingum og tvo verkamenn sem lögðu pall-
bílnum sínum í kanti plansins og ákváðu að nú gæti
vinnan beðið. Allur skarinn fylgdist með þennan
klukkutíma sem við spönuðum um planið og mynd-
uðum bílinn, og einlæg gleðin skein úr andlitunum
þegar ég leyfði þeim að taka mynd af sér við hlið
þessa draumabíls.
Þarna eru einhverjir galdrar á ferð, sem eru engu
líkir, og sem orð fá ekki lýst.
Sýndarmennska Eins og það sé ekki nógu mikið á mann mænt í þessum bíl, þá setur það punktinn yfir i-ið að hafa á honum vænghurðir. Manni líður eins og rokkstjörnu á áfangastað.
Harka Þó sætin séu ekki óþægileg þá fer maður að finna fyrir þeim eftir einn eða tvo tíma undir stýri. Þetta er bíll fyrir kapp-
akstursbrautir frekar en þjóðvegi og hefur verið strípaður niður til að fækka kílóunum eins og frekast er unnt.
Stjórnborð Rauða lokið yfir start-takkanum minnir á hvað er
verið að leysa úr læðingi.
Kraftar Risastórar keramíkbremsur þarf til að
hafa einhverja stjórn á ofur öflugri vélinni.
Það mætti halda að eitthvað
grunsamlegt væri í kranavatn-
inu í Modena, því á tiltölulega
litlum radíus í kringum þessa
borg í norðurhluta Ítalíu er að
finna fjölda sportbílaframleið-
enda.
Lamborghini er með verk-
smiðju sína og höfðustöðvar í
smábænum Sant’Agata Bolog-
nese, mitt á milli Modena og
Bologna, á meðan Ferrari er í
Maranello, í suðvesturátt. Mase-
rati hefur bækistöðvar sínar í
hjarta Modena og Pagani er ör-
stuttan bíltúr í burtu, til suðaust-
urs en mótorhjólaframleiðand-
inn Ducati á heima í Bologna.
Hvernig stendur á að allir
þessir framleiðendur mergjaðra
bíla og mótorhjóla hafa orðið til
á svona litlum reit?
Skýringin liggur í því að Mo-
dena er í miðju landbún-
aðarhéraði, þar sem flatir akr-
arnir teygja sig eins langt og
augað eygir. Upp úr landbún-
aðinum spratt traktorafram-
leiðsla, og fylgdi starfi bóndans
að kunna að eiga við vélar. Ítalir
eru ekki þekktir fyrir skort á
keppnisskapi og var aðeins
tímaspursmál að þeir færu að
nota vélaþekkinguna til að
smíða hraðskreiða bíla og
keppa sín á milli á beinum
sveitavegunum.
Þannig liggja rætur Lamborg-
hini í traktoraframleiðslu, og má
meira að segja finna þrjá Lam-
borghini-traktora á Íslandi. Er
fræg sagan af því þegar Ferruc-
cio Lamborghini, sem þá var
orðinn nokkuð auðugur iðnjöf-
ur, viðraði nokkrar aðfinnslur
við Enzo Ferrari og kom með
tillögur að því hvernig hann
gæti bætt hjá sér bílana og
þjónustað kaupendur betur.
Enzo hér um bil móðgaðist við
þetta og lét góð ráð Ferruccio
sem vind um eyru þjóta. Og
hvað gerði þá Ferruccio? – Jú,
hann afréð að hefja einfaldlega
framleiðslu á sínum eigin bílum,
eftir eigin höfði. Alla tíð síðan
hafa Ferrari og Lamborghini átt
í vinsamlegri samkeppni sín á
milli um að framleiða hinn eina
sanna ítalska ofursportbíl.
Af hverju varð Modena
að mekku hraðafíkla?