SÍBS blaðið - feb. 2016, Blaðsíða 17

SÍBS blaðið - feb. 2016, Blaðsíða 17
17 1. tbl. 2016 „Ég fann það svo sterkt þegar ég byrjaði í barnaskóla að það var eitthvað að hjá mér og leið strax illa innan um krakkana,“ sagði Eymundur þegar við hittumst á dögunum yfir kaffibolla í stuttri heimsókn hans til höfuðborgarinnar. „Ég var fullur kvíða og skammaðist fyrir sjálfan mig. Þetta fór þó ekki að hafa veruleg áhrif á mig fyrr en ég varð ellefu tólf ára gam- all og gelgjuskeiðið að hefjast. Þá var ég kominn með mikla félagsfælni. Vanlíðanin var stöðug og ég var farinn að fela ástandið með trúðslátum til að enginn sæi hvernig mér liði. Ég átti erfitt með að læra, erfitt með að einbeita mér og sá engan tilgang með náminu. Ég var jafnframt reiður yfir því hvernig mér leið, reiður í eigin garð. Ég þorði heldur ekki að tala um líðan mína við nokkurn mann, var svo hræddur um að gert yrði lítið úr mér. Eftir grunnskólann var því ekki mögulegt fyrir mig að halda áfram og hefja nám í framhaldsskóla.“ Sjálfsmorðshugsanir á hverjum degi Eymundur fór að vinna hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Sana. „En ég fór ekki í kaffi, ekki í mat og mætti ekki á starfsmannafundi. Samt var ég alltaf virkur í íþróttum. Margir eiga mjög erfitt með að skilja það. Ég var meira að segja í félagsíþrótt, spilaði fótbolta með Þór. Ég leit út fyrir að fúnkera félagslega, en eftir að ég varð fimmtán sextán ára fór ég aldrei með félögunum í bíó eða neitt svoleiðis. Ég þorði aldrei að fara og þorði aldrei að segja þeim af hverju það var. Ég vissi heldur í rauninni ekki hvað var að mér. Ég réði ekkert við taugakerfið, ég roðnaði og klökknaði í tíma og ótíma og það gerðist bara án þess ég réði nokkru um það. Ég notaði áfengi heilmikið til að slá á líðanina, þegar félagarnir voru að drekka þá gat ég komið, og var alltaf búinn að drekka í mig kjark til að komast til þeirra. Hins vegar kláraði ég íþróttirnar, fór upp alla leið upp í meistaraflokkinn hjá Þór – en skipti þá yfir til Magna í Grenivík, hinumegin Eyjafjarðarins, vegna þess að ég treysti mér ekki lengur til að vera með gömlu félögunum. Ég var alltaf að flýja. Alltaf þegar ég lagðist til svefns á kvöldin kveið ég fyrir að vakna daginn eftir, kveið fyrir öllum deginum, kveið fyrir að þurfa að hitta annað fólk.“ Tók fjölskylda þín ekki eftir hvernig þér leið? „Nei, mér tókst alltaf að leyna þessu. Ég var fjórði í röðinni af sex systkinum og reyndi eins og ég gat að taka ekki þátt í fjölskyldulífinu. Ég fór ekki einu sinni út í búð. Átján ára var ég farinn að borga þeirri yngstu af þremur systrum mínum fyrir að út í búð fyrir mig, hún var níu ára og ég lét hana einnig fara í bankann fyrir mig. Allir héldu að ég væri svona góður að skaffa henni tækifæri til að vinna sér inn pening. Ég keypti mér íbúð árið 1995 og bjó í henni í hálft ár. Ég fór aldrei í Bónus að versla inn, heldur í Hagkaup klukkan hálfátta á kvöldin, þá voru fæstir að versla og ég fór alltaf í kerfi fyrir framan kassastelpuna. Þegar ég tók bílpróf og eignaðist bíl rúntaði ég aldrei niður í bæ á kvöldin, heldur fór í myrkrinu í stóran hring utan um bæinn. Mér fannst meira að segja óþægilegt að stoppa á rauðu ljósi og þegar ég ók á milli Akureyrar og Reykjavíkur stoppaði ég aldrei í vegasjoppun um, heldur einhvers staðar á milli þeirra ef mér var mál að pissa.“ Hvað með kærustur? „Það var ekkert svoleiðis í gangi hjá mér. Ég kynntist koni- um þegar ég var undir áhrifum áfengis og sumar vildu nánara samband, en ég bara gat það ekki. Ég hætti í fótbolta 27 ára gamall, greindist með bein í bein í mjaðmarlið. Fjórum árum seinna var skipt um þann lið í mér, það var 1998. Ég fór illa með mig á þessum árum, vann eins og brjálæðingur. Ég vann lengstaf í bjórframleiðslunni hjá Víkingi á Akureyri. Ég var einn á lagernum, sá um allt þar, og þótt ég fengi mörg tilboð um önnur störf þorði ég aldrei að hreyfa mig út af lagernum. Ég var í eins konar syndrómi og þorði ekki að fara úr því. Enn þann dag í dag veit ég ekki af hverju ég er á lífi, vegna þess að frá tólf, þrettán ára aldri herjuðu sjálfsmorðshugsanir á mig á hverjum degi.“ Viðsnúningurinn hefst Eymundur telur það hafa bjargað lífi sínu þegar hann þurfti árið 2004 að fara aftur í mjaðmaliðarskipti, sömu megin. „Aðgerðin heppnaðist reyndar ekki nógu vel þannig að ég hef verið verkjasjúklingur æ síðan. En þess vegna þurfti ég að fara í verkjaskólann inni á Kristnesi, og þar fékk ég mína fyrstu fræðslu um kvíða, félagsfælni og þunglyndi. Þá má segja að ferð mín til bata hefjist, því þegar ég fór að lesa mér til um þessa hluti rann rann upp fyrir mér ljós: Ég var þarna að lesa um sjálfan mig frá a til ö og skildi af hverju mér hafði liðið svona illa allar götur frá því ég var krakki. Þetta var algjör opinberun og þá sá ég líka að ég átti von um að losna úr þessu víti. Ég talaði strax við yfirlækninn á Kristnesi og hann útvegaði mér viðtal við sálfræðing á staðnum. Ég man vel eftir því að ég hágrenjaði bara í fyrsta tímanum hjá honum. Þarna er ég 38 ára gamall. Þetta var að vori og ég átti von á framhaldstímum um sumarið, en það varð aldrei. Um haustið fór ég svo í örorkumat. Þá kom læknir að sunnan að meta mig og hann spurði meðal annars um hvort ég ætti við einhverja andlega erfiðleika að stríða. Ég sagði honum undan og ofan af ástandi mínu og hann ráðlagði mér að hafa samband við heim- ilislækninn minn og byrja að gera eitthvað í mínum málum. Eftir að hafa hlustað á sögu mína spurði heimilslæknirinn hvort ég vildi leggjast inn á geðdeild. Ég hélt nú ekki. Ég væri ekki svoleiðis. Ég var auðvitað undir áhrifum frá bíómyndum og hélt að geðdeildir snerust um raflost og spennitreyjur. Við ákváðum þá að ég færi í samtalsmeðferð hjá honum, tvo tíma á viku og ég fór á kvíðastillandi lyf sem heitir seroxat. Þetta stóð yfir í þrjá mánuði og létti heilmikið á mér. En þar sem ég hafði notað mikið áfengi til að drekka í mig kjark þá fór ég að drekka oní lyfið og það gekk auðvitað ekki. Það var einn félagi minn, sem er AA-maður, sem hafði boðið mér hjálp ef ég vildi og eftir samtalsmeðferðina hjá heimilislækninum hringdi ég hann og fór í framhaldi af því í áfengismeðferð á Vogi í janúar 2006. Og þegar ég kom þangað inn var eins og ég fengi einhvern kraft í mig og ég hugsaði að nú hefði ég tækifæri til að eignast eitthvert líf. En til að eignast það líf þyrfti ég að vinna fyrir því. Ég gerðist því mjög virkur í SÁÁ strax á meðan ég var á Vogi og Staðarfelli. Og þegar ég kom aftur heim til Akureyrar hélt ég áfram og var á tveimur til þremur fundum á dag og nýtti mér alltaf pontuna til að takast á við sjálfan mig. Ég féll reyndar eftir hálft ár en strax daginn eftir hugsaði ég með mér að ég hefði náð vissum árangri á sex mánuðum og vildi halda áfram. Það varð því bara þessi eini dagur sem ég féll og ég fékk mér trúnaðarmann í AA-samtökunum og fór að vinna með 12-sporakerfið.“ Starfsendurhæfing og innlögn á geðdeild Næst skrefið tók Eymundur í ársbyrjun 2007 hjá Starfsendur- hæfingu Norðurlands. „Þar er unnið að sjálfseflingu og þar er líka skólanám og ég sem hafði hætt eftir grunnskólann Ég þorði ekki að tala um líðan mína við nokkurn mann, var svo hræddur um að gert yrði lítið úr mér

x

SÍBS blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SÍBS blaðið
https://timarit.is/publication/1222

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.