Lystræninginn - 01.11.1979, Blaðsíða 28

Lystræninginn - 01.11.1979, Blaðsíða 28
Ólafur Ormsson: BLIKUR Á LOFTI Tjöldin hafa verið dregin fyrir á leiksviðinu við Austurvöll. Revían fór í gang 10. okt. sl., henni var snögglega aflýst, ríkisstjórnin hafði ekki lengur meiri- hluta á alþingi. „Ungu ofurhugarnir" í flokki Grön- dals heimtuðu stjórnarslit, þingrof og nýjar kosningar, enda hafa þeir löngum haft gaman af að skemmta þjóð- inni í fjölmiðlum og á mannamótum. Báru því við, að þeir þyldu ekki lengur 50-60% verðbólgu, hefðu ekki taugar í að standa í brjálaðri verðbólgu dag frá degi, að kommar og framsókn vildu ekki hlusta á rök þeirra og tillögur, og þeir kvöddu með bros á vör. Nokkrum sól- arhringum síðar hafði íhaldið lagt til vottorð um heil- brigði „ungu ofurhuganna" og fleytt þeim inn í stjórn- arráð í ráðherrastólana andspænis möppudýrunum. Ef til vill fyrirboði þess, sem koma skal að loknum kosn- ingum. Það eru blikur á lofti. Svo kann að fara, að ný viðreisn taki að sér stjórn landsins. Hægri öflin í land- inu eru að taka höndum saman, allri menningarstarf- semi til óbætanlegs tjóns. Reynslan hefur sýnt, að það er ekki von á góðu, þegar hægri öflin rotta sig saman. Þvert á móti. Ríkisstjórn hægri aflanna er ekki líklegtil að hlynna að vexti og viðgangi íslenskrar menningar. Áhugamál hennar eru erlend stóriðja, erlend herseta, sníkjustarfsemi við útlendinga. Svo mun fara, að slík ríkisstjórn ræðst til atlögu gegn menningarstarfsemi al- mennt, sker niður fjárframlög til lista í landinu og skip- ar listamönnum að éta það sem úti frýs. Þó svo að frá- farandi ríkisstjórn hafi ekki stutt við bakið á menning- arstarfsemi í landinu eins og vonir stóðu til, sýndi hún samt skilning, vildi vel, en fékk litlu framgengt í menn- ingarmálum sem öðru, enda loforðalistinn langur frá síðustu kosningum. Ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæð- isflokksins myndi fyrst af öllu skammta fé til lista- og menningarstarfsemi. Flokksstjórn Sjálfstæðisflokks- ins, heildsalarnir og lögfræðingarnir, hin nýríka yfir- stétt Reykjavíkur, lokar fyrir fjárframlög til menning- arstarfs í landinu, en eys úrsjóðum ríkisins í kaupsýslu- stéttina. Kjörorð hennar nú sem fyrr er „Frelsi til versl- unarinnar, ófrelsi handa þeim sem vilja hlúa að íslenskri menningarstarfsemi.“ Hvað höfum við að gera við listamenn, sem allir eru að meira eða minna komm- únistar? Sem skrifa bækur og semja tónlist gegn frjálsu framtaki einstaklingsins? Áróður íhaldsins mun ganga í þá átt, að vinstri stjórnin hafi öllu eytt, sjóðir séu tómir og ríkið ekki aflögufært. Grunnur Borgarleikhússins mun ennþá bfasa við okkur, grunnur Utvarpshússins mun fyllast af snjó á komandi vetri. Dyrum verður skellt á þá sem hyggjast biðja um framlög til lista í land- inu. Forsetaframbjóðandinn stendur í dyrunum og púar vindlareyk framan í listamenn. „Elskurnar mínar, leitið ykkur að góðri atvinnu, nóg að gera við höfnina, í álverinu eða suður á Keflavíkurflugvelli. Kannski ég bjóði ykkur upp á kaffisopa á Hótel Borg og tertu.“ Hvað verður um launasjóð rithöfunda, Rithöfunda- sjóð, framlög til leikhúsanna, myndlistarmannanna, ef menntamálaráðuneytið verður í höndum Sjálfstæðis- flokksins? Mér segir svo hugur, að fyrrnefndir sjóðir verði lagðir niður að kröfu íhaldsins, því nú skal sparað, eins og það er orðað. Kannski að Sinfóníuhljómsveitin fái að lifa, nema þá að menntamálaráðherra Sjálfstæðis- flokksins komist að þeirri niðurstöðu, að meirihluti meðlima séu kommúnistar og sveitin gangi því erinda Sovétríkjanna. Já, það eru blikur á lofti, óveðursskýin hrannast upp á himni og það hlakkar í Svarthöfðum við Vísi og Morgunblaðið. Þeir hafa lengi látið sig dreyma um meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, sterka stjórn flokksins, sem segði vinstri öflunum stríð á hendur og gerði áhrif kommúnista í íslensku menningarlífi að engu, eyddi þeim að fullu. Svarthöfðar myndu ekki gráta það, þótt þeir „feðgar“ við Laugaveginn þyrftu að draga saman seglin, eða Alþýðuleikhúsið og önnur starfsemi á vinstra kanti menningarmála. Þeirra tími, þeirra óskastund, er runnin upp, þegar Sjálfstæðis- flokkurinn heldur einn um stjórnartaumana, þá verður þeim raðað á jötuna, geta óáreittir stjórnað menningar- lífinu og Almenna bókafélagið gefur út rit þeirra og ævisögur í tugum binda. Lágkúran héldi innreið sína í íslenskt menningarlíf og eitraði allt andrúmsloft. Að nýju blásið lífi í Eimreiðina í nýjum búningi, ef til vill undir ritstjórn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, sem á sér það æðsta takmark að leita uppi hvern einasta vinstri mann í landinu til að komast að því, hvort hann beri á sér rússneskt flokksskírteini, hvort hann sé ís- lenskur en ekki örugglega rússneskur. Lesbók Morgun- blaðsins fengi aukinn styrk úr andlegu fóðri Svarthöfð- anna, yrði dreift inn á hvert heimili í landinu í banda- rísku fánalitunum að framan og aftan. í stað Laxness, Þórbergs oj’ Jóhannesar - Indriði, Johennessen og Kristmann. I stað framsækins menningarlífs - lágkúra og afturhald. Já, það eru blikur á lofti, óveðursskýin hrannast upp. Dagblaðið efnir til skoðanakönnunar. Niðurstöður: Meirihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins efst á blaði. Sagði ekki einhver góður Sjálfstæðisflokks- maður, að Dagblaðið hefði alltaf rétt fyrir sér, þegar það efndi til skoðanakannana? Það held ég, að Ólafur Ragnar Grímsson hafi raunar sagt líka, stjarnan á himni Alþýðubandalagsins. Og hefur hann ekki alltaf reynst sannspár, prófessorinn í stjórnmálafræðum við Háskóla íslands? 28

x

Lystræninginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lystræninginn
https://timarit.is/publication/1228

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.