Ráðunautafundur - 15.02.1992, Side 160
150
slíkar mælingar er ekki svo mikil að hægt sé að meta þetta sem raunhæfan mun.
Víkjum þá að jarðvegshitanum í 5 cm dýpt. Meðaljarðvegshitinn hefur verið teiknaður
upp í línurit til frekari glöggvunar (sjá 1. mynd). Þar fer ekki á milli mála að hitastig í
brenndum reitum fer 0,5-1,0 °C upp fyrir hita í óbrenndum reitum að degi til, mest í júlí og
síðari hluta maí 1968, en 1969 mest í maí og júlí til 10. ágúst, en minna í júní bæði árin. Að
næturlagi eða réttara sagt snemma morguns, þegar hiti er lægstur, virðist lítill sem enginn
munur á reitunum. Ástæðan til þess að tímabilið 16.-31. maí 1968 er tekið sérstaklega með
er sú, að fram til 15. maí er hiti í 5 cm dýpt mjög nálægt ffostmarki og fór ekki að stíga að
ráði fyrr en um miðjan mánuðinn. Frost var því ekki horfið fyrr úr jörðu í þessum efstu
lögum. Fyrri hluta mánaðarins var því hitastig mjög svipað í báðum reitum, jafnvel svolítið
hærra í óbrenndum reit, en á þessu varð mikil breyting þegar hiti fór að aukast. Þótti því rétt
að gera þessu tímabili sérstaklega skil. Þess má geta að 15. maí var meðalhiti 2,2 °C í
óbrenndum reit en 1,9 °C í brenndum reit. Þá er tekið sérstaklega tímabilið 1.-10. ágúst 1969,
vegna þess að mælingar stóðu 10 dögum lengur það ár. Ef tekinn er meðalhiti hvers mánaðar
bæði árin, kemur ekki fram mjög mikill munur. Þó má álíta að um raunverulegan mun sé að
ræða seinni hluta maí 1968 (4,9 og 5,4 °C) og í júlí bæði árin (12,1 og 12,5 °C 1968, 10,3 og
10,8 °C 1969), einnig 1.-10. ágúst 1969 (12,0 og 12,4 °C). Hámarks- og lágmarksmælingar
styðja þetta enn frekar. Hámarks- og lágmarkstölur sýna að í maí, júlí og byrjun ágúst var
hámarkshitinn 1,0-1,4 °C hærri í brenndum reit en í óbrenndum, en í júní var munurinn 0,5-
1,0 °C. Er þessi munur því ótvíræður.
Tilraun þessi sýnir að hitastig við yfirborð, (þar sem dægursveifla er að jafnaði stærst),
og í efsta lagi jarðvegsins er greinilega hærra að degi til, þar sem sina hefur verið brennd.
Virðist þessi hitamunur nema 1,0 °C og er það nægilegt til að það komi fram í meðalhita
sólarhringsins, enda þótt lítill sem enginn munur virðist á hita á reitum að næturlagi þegar hiti
er lægstur.
Líklegasta skýringin á þessum mun er sú, að brenndi reiturinn er dekkri fram eftir
sumri og nýtir þess vegna sólarorkuna betur. Einnig er sá reitur laus við gamla sinu, sem
væntanlega getur hindrað varma í að ná til jarðvegsins. Til stuðnings þessum skýringum má
til dæmis nefna að dagana 3.-6. júlí og 8. júlí 1968 var léttskýjað eða heiðríkt. Reyndist
hámarkshiti dagsins í 5 cm dýpt að meðaltali 1,8 °C hærri í brenndum reit þá daga. Þess má
einnig geta að meðalskýjahula var mun meiri í júní 1968 en í maí og júlí, þar er ef til vill
fundin skýring á því að hitamunur var minnstur í þeim mánuði.