Morgunblaðið - 22.07.2017, Qupperneq 32
32 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. JÚLÍ 2017
Nú er þrauta-
göngu Ólafs föður
míns loksins lokið.
Eftir erfið og marg-
þætt veikindi sem
hafa staðið yfir næstum áratug
er pabbi búinn að kveðja í síðasta
sinn. Pabbi var mér bæði mikil
fyrirmynd og kær vinur. Hann
byrjaði snemma að koma fram
við mig sem jafningja og var það
einkennandi fyrir hann að setja
sig hvorki yfir né undir menn,
koma vel fram við alla og að
sama skapi óhræddur að nálgast
alla til að skiptast á skoðunum og
fróðleik.
Hann var um margt óvenju-
legur, eflaust, og alls ekkert full-
kominn, frekar en neinn. Hann
var renaissance-maður af gamla
skólanum, hæfur myndlistar-
maður, beittur penni, mikill
fróðleiksmaður og alltaf þyrstur
að læra meira og miðla því sem
hann vissi. Eitt af því sem ég er
þakklátur honum í uppeldinu er
að hafa smitað okkur systkinin
af óbifandi forvitni hans á lífinu,
efnisheiminum og helst þá
mannfólkinu. Pabbi sá það já-
kvæða í öllu. Oft gat okkur
greint á um merkileika og gagn-
semi hluta. Í kvikmyndum, sem
öðrum gat fundist óaðgengilegt
torf sá hann djúpar allegoríur
og metnaðarfull efnistök. Í fólki
sem öðrum fannst kannski sér-
vitringar fann pabbi spekinga og
sérfræðinga sem breikkuðu
sjóndeildarhring hans og tókst
að fá okkur til að sjá það líka. Í
einföldu grjóti sá hann jarðsög-
una og uppruna Íslands. Og í
óhörðnuðum vandræðaunglingi
sem var í eilífu veseni með sjálf-
an sig sá hann í mér efnilegan
mann sem næði langt.
Pabbi átti mörg líf, á mismun-
andi vettvangi, og vini um allt
land og víðar, sem ég hef ekki
tölu á. Oft hef ég talið mig
þekkja pabba ágætlega en svo
hitt vini hans úti í bæ sem hrópa
„Ertu sonur Ólafs?!“ og hafa þá
sagt mér ótrúlegar sögur og aus-
ið hann lofi, hvort sem var af
uppátækjum úr skólaárum í MR,
róttækum hippaárum í Kaup-
mannahöfn, sem grunnskóla-
kennari í Stykkishólmi, virðuleg-
ur ritstjóri á Heima er best og
Þjóðviljanum, sem fjölmiðlamað-
Ólafur Hermann
Torfason
✝ Ólafur Her-mann Torfason
fæddist 27. júlí
1947. Hann lést 17.
júlí 2017.
Útför Ólafs fór
fram 21. júlí 2017.
ur eða úr hinum
mörgu vinahópum
sem pabbi átti hlut
að.
Þær eru ótelj-
andi minningarnar,
sem ég á, um að
vera stundum treg-
ur dreginn með
honum hingað og
þangað, að sjá
vinnustaði, mennta-
stofnanir, menning-
arviðburði, skrítnar kvikmyndir
og heimsækja og ræða við ólík-
legasta fólk, sem eftir á að
hyggja var ómetanlegur undir-
búningur fyrir lífið. Hann lagði
mikið upp úr því að kynna okkur
börnin fyrir tækni og tölvum
snemma, sem varð beinn grunn-
ur að starfsvettvangi mínum
seinna meir.
Ég er óendalega þakklátur
maka hans, Sigríði Dóru Jó-
hannsdóttur, fyrir fórnfýsi sína
og stuðning við pabba síðustu ár
í veikindum hans. Ást hennar og
kærleikur var pabba mikil lífs-
gjöf síðustu 12 ár ævi hans.
Torfi Ólafsson, afi minn, lést
fyrir nokkrum árum og hafði oft
á orði, vel heilum áratug áður,
hversu sáttur hann væri við lífið
og reiðubúinn að kveðja, því
hann hefði áorkað svo miklu og
skilið svo margt gott eftir sig. Þó
svo að ævi pabba hafi verið allt of
stutt, og honum eflaust fundist
margt óklárað lít ég svo á að
pabbi hafi átt góða ævi, lýst upp
og bætt líf ótal fólks, með kær-
leika sínum, fróðleik og vinskap
og kveð hann sáttur og þakklátur
fyrir samveruna.
Torfi Frans
Ólafsson.
Persónutöfrar eru flókið fyr-
irbæri og koma víst aldrei að ut-
an, ævinlega að innan. Þá átti
Óli í ríkum mæli og að honum
laðaðist auðveldlega fólk af öllu
tagi.
Fundum okkar Óla bar fyrst
saman í Hagaskóla, en barna-
skólanum hafði hann varið hjá
kaþólskum í Landakoti, enda átti
hann til kaþólskra að telja.
Æskuheimilið var sérstakt, for-
eldrar hans höfðu skilið sem þá
var að miklum mun sjaldgæfara
en nú og jók enn á sérstöðuna að
faðirinn,Torfi, annaðist heimilis-
hald og forsjá barnanna.
Jafnlyndari mann en Torfa
var erfitt að hugsa sér. Morgun
hvern steig hann á bak sínum
hjólhesti og hélt til vinnu í seðla-
bankanum. Þegar hann kom
heim að vinnudegi loknum þurfti
einatt að klofa yfir haf af skótaui
og skólatöskum því börnin voru
vinmörg og heimilið griðastaður
þar sem hvorki ríktu boð né
bönn og ekkert yfirsjálf. Til
marks um hve börnin skipuðu
ríkan sess á Melhaga 4 vantaði
alveg þetta mubleraða tómarúm
sem kallast betristofa, börnin
höfðu hvert sitt herbergi og
unglingurinn Óli breytti stof-
unni umsvifalaust í listasmiðju
þar sem var samið, málað, kvik-
myndað og þar sem hin ríka
söfnunarástríða hans fékk útrás.
Vistarveruna nefndi hann „The
Memory Congress Palace“ eða
Minnisþinghöllina.
Jafnframt kvikmyndagerð
fékkst Óli við skáldskap og var
þar svo bráðþroska að við félagar
hans vorum eins og barnaskóli í
samanburði. Á meðan við vorum
enn í Alistair MacLean og
Fimmbókunum var hann að
brjótast í Ulysses og Finnegans
Wake.
Í menntaskóla hafði hann
kynnst æskuástinni, henni Sig-
nýju, og að stúdentsprófi loknu
héldu þau utan til Kaupmanna-
hafnar þar sem Óli hóf að nema
kvikmyndafræði og Signý leik-
hús. Þetta voru umbrotatíma-
rnir miklu í kjölfar ’68. Flest
okkar létu sér nægja að heim-
sækja þá atburðarás þegar vel
stóð á, en í dæmi Óla og Signýj-
ar má segja að atburðarásin hafi
tekið hús á þeim, Krónprins-
essugata nr. 39 varð brátt eins
og útvíkkuð mynd af Melhaga 4.
Og Óli var skiptiborð allra þess-
ara hræringa með sinn rauða
makka sem óx beint upp í loftið
og breiddist út til hliðanna eins
og laufmikil króna á voldugum
baðmi.
Heimkominn var starfsvett-
vangur Óla lengst af í fjölmiðlum
og hlustendur Rásar 2 minnast
vikulegra kvikmyndapistla þar
sem hann miðlaði af yfirburða-
þekkingu sinni á mönnum og
málefnum. Af fræðiverkum hans
ber hæst 800 bls. rit sem Sankti
Jósefssystur fólu honum að taka
saman í tilefni af 100 ára starfs-
afmæli þeirra á Íslandi, en varð í
höndunum á Óla að alhliða sam-
félagslýsingu, þrátt fyrir hinn
hógværa titil: St. Jósefssystur á
Íslandi 1896-1996.
Óli og Signý áttu saman tutt-
ugu gjöful ár og börnin sem al-
þjóð þekkir, Melkorku leikhús-
fræðing, Torfa hugbúnaðarsmið
og Guðrúnu Jóhönnu söngkonu.
Þá settu þau bú saman Óli og
Þorgerður Sigurðardóttir, mynd-
listarmaður, en hún lést árið
2003. Lífsförunautur Óla eftir
það var Sigríður Dóra Jóhanns-
dóttir sem átti með honum góð
ár, en líka árin erfiðu undir lokin
þar sem hún umvafði Óla allt til
hinsta andvarps.
Um þær þrautir sem lögðust á
Óla undir lokin kemur manni í
hug biblíusagan um Job. Að
þessar listfengu hendur skyldu
missa máttinn og hugurinn
snjalli minnið, sögumaðurinn
málið. Nú er sú þrautaganga á
enda og sá Óli sem var heldur
áfram. Og er.
Pétur
Gunnarsson.
Vinnustaðurinn er stór þáttur
í lífi manna. Þar kemur saman
fólk sem stefnir að sameiginleg-
um markmiðum, oft úr ólíkum
áttum og hefur ólíka sýn á við-
fangsefnin. Orð Einars Bene-
diktssonar að með öðrum sé
maðurinn meiri en hann sjálfur,
kristallast í góðu samstarfi þar
sem margir leggja skerf til mál-
anna. Það á við vinnufundi en
einnig samfundi á kaffistofunni,
hjarta vinnustaðarins, þar sem
tekið er upp óformlegt spjall.
Þannig var að vinna með Ólafi
H. Torfasyni. Kynni okkar hóf-
ust er Ólafur kom heim frá námi
í kvikmyndagerð árið 1975 ásamt
fjölskyldu sinni með börnin Mel-
korku Teklu sér við hönd og
Torfa Frans á handlegg. Guðrún
Jóhanna var ekki enn fædd. Við
Ólafur kenndum saman við
Grunnskólann í Stykkishólmi um
sex ára skeið. Í minningunni
verða þessi ár á litlu kennara-
stofunni að opnum háskóla. Ný
sýn opnaðist á myndlist, Ólafur
var afar hagur vatnslitamálari;
trúmál, Ólafur var kaþólikki;
jarðfræði, landafræði, sögu,
heimspeki og fleiri fræðigreinar,
Ólafur bjó yfir náðargáfu
fræðarans. Hann varpaði nýju
ljósi á málin og hóf umræðuefnið
upp yfir hversdagsleikann. Börn-
in okkar urðu leikfélagar og fjöl-
skyldurnar áttu ófáar stundir
saman. Börn mín dásömuðu ferð-
ir með Ólafi og ferð að Rauða-
sandi varð að ævintýri í hugum
þeirra.
Oft fer svo að kunningsskap-
urinn dvínar þegar samstarfinu
lýkur en ekki vinskapurinn við
Ólaf. Hann gat lyft umræðuefn-
um yfir kvöldverði upp í hæðir
með fróðleik sínum og ferskri
sýn. Eftir að hann varð kvik-
myndarýnir RÚV var óbrigðult
að leita til hans um álit á kvik-
myndum. Svo varð hann félagi í
gönguklúbbnum Fet fyrir fet,
þar sem hann auðgaði göngu-
ferðirnar með margháttuðum
fróðleik. Hann þekkti sagnir og
rústir, minjar um horfna veröld,
oft í næsta nágrenni alfaraleiða.
Eftir er aðeins að þakka góð-
um félaga langa og dýrmæta vin-
áttu og harma ótímabært fráfall
hans. Við Halldór og göngu-
klúbburinn allur vottum börnum
hans, aldraðri móður og Siggu
Dóru, félaga okkar og vinkonu,
og tryggum lífsförunaut Ólafs
síðustu árin, innilega samúð.
Minning hans lifir.
Kristín
Bjarnadóttir.
Tíminn stendur í stað við úti-
dyrnar okkar þar sem tengda-
pabbi minn er að kveðja okkur.
Það kyngir niður snjó og orðið
hvasst úti og ég held að tengda-
pabba sé að snjóa niður þar sem
hann stendur rétt fyrir utan
dyrnar hjá okkur. En hann hagg-
ast ekki, hann er í miðri sögu.
Sonur hans kinkar kolli, hlær og
virðist jafn laus við að átta sig á
því að menn geta orðið úti í svona
kulda en ég kann ekki við að
benda honum á að drífa sig aftur
inn um dyrnar og klára söguna
innandyra. Þetta eru þeir feðgar
í hnotskurn, djúpt sokknir í sam-
tal og sögur og jafnvel ofsaveður
eða bílstjórar sem liggja á flaut-
unni geta hvorki haggað sögu-
manninum, né hlustandanum.
Það kom því ekki á óvart að
þegar sonarsonurinn, Konráð
Bjartur, mætti á svæðið var Óli
afi fljótur að kveikja í þorstanum
eftir góðum sögum. Drengurinn
sem var aðeins nokkurra ára
gamall þegar hann stakk lítilli
hendi í afalófa og þeir gengu
saman inn í stóru kvikmyndahús
borgarinnar. Þar rýndu þeir
saman og ræddu um nýjustu
teiknimyndirnar og allt í einu var
Ólafur Torfason bíógagnrýnandi
Rásar 2 farinn að fjalla óvenju
oft um barnamyndir í vikulegri
umfjöllun sinni um það heitasta í
bíósenu heimsins. Í útvarpinu
vitnaði hann ósjaldan í afasoninn
sem gaf hverri mynd einkunn á
sinn barnslega hátt „milljón
stjörnur, geggjað góð, en dálítið
hræðileg“ og svo hló afi í beinni
útsendingu. Við sátum ósjaldan í
bílnum á leiðinni heim úr leik-
skólanum og hlustuðum á afa
fara yfir síðustu bíóferð. Barnið
ljómaði í aftursætinu, hann fann
sem var að hann var risastór
hluti af lífi afa síns. Þá tilfinningu
þekktu hans nánustu vel. Hann
var alltaf með sitt fólk ofarlega í
huga, sama hversu mikið var að
gera hjá honum. Ósjaldan hafði
hann séð eitthvað sem hann taldi
að gæti vakið athygli manns,
klippt út grein eða safnað saman
heilu ári af Time Magazine svona
ef ske kynni að mann vantaði
gott lesefni. Hann hafði einlægan
áhuga á sínu fólki sem og sam-
félaginu öllu og öllum, ekki síst
þeim sem voru efni í góða sögu.
En afinn Óli var líka óspar við
að týna sér í leik með barnabörn-
unum, bak við sófa, úti í garði
eða sitja yfir sömu misgóðu
barnamyndunum í sjónvarpinu.
Þegar nafni hans Árni Ólafur
fæddist, kraftmikill og snar í
snúningum, elti Óli hann skelli-
hlæjandi um allt. Þegar þarna
var komið var sjúkdómurinn far-
inn að láta á sér kræla en aldrei
skorti þolinmæðina við barnið
sem hafði endalausa orku.
Tengdapabbi minn átti nefni-
lega það sem okkur finnst okkur
alltaf skorta, nægan tíma handa
öllum sínum. Hann var aldrei að
flýta sér og gaf af tíma sínum
rausnarlega, nákvæmlega eins
og fullkominn afi á að vera.
Blessuð sé minningin um
elsku tengdaföður minn.
Bryndís Ísfold
Hlöðversdóttir.
Á unglingsárunum var Ólafur
Torfason Listamaðurinn með
stórum staf í vinahópi sem
seinna óx upp í að verða fyrir-
ferðarmikill í heimi listanna. Sem
myndlistarmaður hafði hann
náttúrugáfu, sem gaf honum
aukatekjur á yngri árum, þegar
hann teiknaði nokkra árganga af
Menntaskólafánunni. Löngu síð-
ar, þegar hann bjó í Stykkis-
hólmi, fór hann að mála með
vatnslitum – með þeim árangri
að áður en langt um leið hafði
hann fengið pantanir héðan og
þaðan frá bændum sem vildu
eignast mynd eftir Óla af bænum
sínum og nánasta umhverfi.
Hann fór að gera 8 mm stutt-
myndir á undan okkur hinum, og
þær myndir voru fyndnari og
frumlegri en allt sem aðrir voru
að gera. Það var upphafið að
miklu grúski um kvikmyndir,
hann vissi brátt allt um bíó, og
því var einsýnt að til hans yrði
leitað þegar Rás 2 vantaði kvik-
myndagagnrýnanda. Því starfi
sinnti Ólafur um árabil, var sann-
gjarn, uppfræðandi og vel met-
inn af öllum sem gátu haft gagn
af umsögnum hans. Bestur var
hann þegar hann kom í spjall í
síðdegisútvarpið og sagði skoðun
sína á myndum þeim sem þá
voru í sýningu, mælskur, skýr og
smellinn.
Síðast lágu leiðir okkar saman
í Kvikmyndaráði, þar sem Ólafur
var tilnefndur formaður af þá-
verandi menntamálaráðherra.
Þau störf vann Ólafur af alúð og
meðfæddri sanngirni sem hafði
góð áhrif á aðra í ráðinu. Því mið-
ur voru veikindi hans þá komin
fram og þau fóru sýnilega að há
honum áður en skipunartíma
okkar í ráðinu lauk – þó aldrei
þannig að það truflaði þetta jafn-
aðargeð sem ævinlega prýddi
manninn, né heldur starfið sem
þurfti að sinna.
Ólafur var alinn upp í kaþ-
ólskri trú og var alla tíð hand-
genginn söfnuðinum. Mér var
sagt að nunnurnar í Stykkis-
hólmi hefðu séð hann sem helgan
mann, sem er í rauninni ekki
skrýtið: hann umgekkst þær æv-
inlega sem helgar konur. Hann
gerðist söguritari kaþólskra á Ís-
landi og vann þar mikið starf af
nákvæmni og yfirgripsmikilli
þekkingu. Sá tími sem fór í þau
fræðastörf var aldrei mældur,
enda var Ólafur aldrei háður tím-
anum. Það sem hann sinnti
hverju sinni átti hug hans allan.
Svona var hann strax á unglings-
árunum, og þá gafst til dæmis
ekki alltaf tími til að fara í skól-
ann: Óli Torfa hafði um annað að
hugsa.
Þó er ótalið það sem er mest
um vert, en það er lunderni
þessa hægláta manns, hlýja og
hæverska. Í návist hans vildi
maður ekki vera að blaðra neitt,
maður hafði á tilfinningunni að
hann hlyti að vita allt um við-
komandi málefni betur en maður
sjálfur, þótt hann hefði ekki á því
orð.
Mér er næst að halda að nunn-
urnar í Stykkishólmi hafi haft
rétt fyrir sér.
Ágúst Guðmundsson.
Ólafur H. Torfason eða Óli
Torfa sem við kölluðum hann
daglega er einn þeirra sem mað-
ur er innilega þakklátur fyrir að
hafa kynnst og átt samleið með.
Það var mikill fengur að fá
þau Óla og Signýju til kennslu-
starfa við Grunnskólann í Stykk-
ishólmi haustið 1975. Við Ingi-
björg vorum þá við búskap í
Bjarnarhöfn og börnin sóttu
skóla í Stykkishólm. Fljótlega
tókst náin og góð vinátta milli
fjölskyldnanna. Og næstu árin
voru þau Óli og fjölskylda eins og
hluti af okkar fjölskyldu í Bjarn-
arhöfn.
Óli var einstakt ljúfmenni,
náttúrubarn með glöggt auga
listamannsins, ljósmyndarans,
sögumannsins, já mannvinarins.
Hann færði okkur nýjar víddir
í að sjá náttúruna og njóta fjöl-
þættra mynda hennar. Óli var
með okkur í smalamennsku,
eyjaferðum, sauðburði o.s.frv.,
og varla var sú fjölskyldusam-
koma í Bjarnarhöfn að þau Óli og
fjölskylda væru ekki mætt sem
ein af okkur. Þá gjarnan var
myndavélin á lofti.
Börnin dáðu Óla sem kennara
og fræðara.
Hann var eins og hluti af
hópnum, spurði sömu spurning-
anna og börnin vildu fá svör við.
Það voru einmitt sérkenni
Ólafs og gerði hann að einum
vinsælasta útvarpsmanni, þátta-
stjórnanda og fjölmiðlamanni um
árabil. Ólafur hafði svo einstak-
lega góða návist, kankvísa bros-
ið, leiftrandi góðleg augun og yf-
irveguð framkoma gæddi
umhverfi hans hlýju en jafnframt
þrungið eftirvæntingu.
Málverk Óla frá tímunum fyr-
ir vestan prýða veggi heimilis
okkar.
Sumarið 1982 koma þau Óli og
fjölskylda við hjá okkur á Hólum
í Hjaltadal, Óli var kaþólskur og
við sammála um að hver blettur á
Hólastað væri heilagur.
Signý var þá að sækja um leik-
hússtjórastöðu á Akureyri og
þau spennt hvort staðan félli
henni skaut.
Í anddyri Hóladómkirkju er
áheitabaukur.
„Nú heitum við á Jón Arason
biskup að þú fáir stöðuna,
Signý.“
Og það gekk eftir og þau Óli
fluttust til Akureyrar. Minnt-
umst við oft á þetta síðar meir.
Jón Arason bregst ekki sínum.
Og vináttan og samstarfið
dafnaði áfram eftir að Óli og fjöl-
skylda fluttu til Akureyrar og við
á Hólum. Óli var mikill vinur
Hóla í Hjaltadal og þau ár sem
hann vann hjá Ríkisútvarpinu á
Akureyri og hjá Heima er best
voru þau ófá myndaskotin, við-
tölin og fréttirnar sem hann miðl-
aði landsmönnum um það sem
var að gerast á Hólum. Sama var
einnig í ritstjóratíð hans á Þjóð-
viljanum og sem forstöðumaður
Upplýsingaþjónustu landbúnað-
arins. Óli vann fyrsta kynningar-
myndbandið um Hólaskóla og
Hólastað sem sýnt var í sjónvarpi
og í skólum landsins til að trekkja
að nemendur heim að Hólum.
Náttúran í allri sinni fjöl-
breyttu dýrð, sagan og aldalöng
menning þjóðarinnar léku
grunnstefið í öllu því sem Ólafur
tók sér fyrir hendur. Færni hans
sem blaðamanns, þátta-
stjórnanda, fræðimanns, ljós-
myndara, myndlistarmanns og
rithöfundar lék honum á fingri.
Við fjölskyldan öll minnumst
Ólafs með djúpu þakklæti og
virðingu og þökkum einlæg og
góð kynni í gegnum árin.
Guð gefi landi voru marga
slíka.
Blessuð veri minning góðs vin-
ar, Ólafs H. Torfasonar.
Fjölskyldu Ólafs sendum við
einlægar samúðarkveðjur.
Ingibjörg Kolka og
Jón Bjarnason.
Vesturhlíð 2 Fossvogi | Sími 551 1266 | útför.is
Útfararstofa kirkjugarðanna
Við erum til staðar
þegar þú þarft á
okkur að halda
Útfarar- og lögfræðiþjónusta
Við önnumst alla þætti
undirbúnings og framkvæmd
útfarar ásamt vinnu við dánar-
bússkiptin. Við þjónum með
virðingu og umhyggju að
leiðarljósi og af faglegum metnaði.
Sigrún Óskarsdóttir,
guðfræðingur