Læknablaðið - 01.04.2017, Blaðsíða 29
LÆKNAblaðið 2017/103 189
Það eru spennandi tímar framundan í heilsugæslu, nýtt fjármögn-
unarfyrirkomulag, nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar, nýir
svæðisstjórar og tilfærsla á starfsfólki. Tækifæri fyrir breytingar
og loksins hvati til að bæta þjónustuna í nýju og breyttu
samkeppnisumhverfi. Boltinn er hjá okkur að nýta þessi tækifæri.
Það fyrsta sem þarf að gera er að bæta aðgengi og samfellu í
þjónustu fyrir alla.
Heilsugæsla á að sinna grunnheilbrigðisþjónustu og vera fyrsti
viðkomustaður skjólstæðinga nema aðstæður og ástand krefjist
annars. Margra vikna biðtími eftir viðtali eða símatíma samrým-
ist ekki grunnheilbrigðisþjónustu. Skjólstæðingar heilsugæsl-
unnar þurfa að geta treyst því að vandamál þeirra fái umfjöllun
og forgangsröðun hratt og örugglega. Samfelld þjónusta er eitt
af því sem einkennir heimilislækningar og heilsugæslu en þar
getur samband við ákveðinn lækni, ákveðið teymi eða samfellt
eftirlit með ákveðnu ástandi allt átt við. En það er ekki samfelld
þjónusta að vera skráður á steypuna* og spila lottó í hvert skipti
sem maður óskar eftir tíma hjá heimilislækni og það er hrópandi
óréttlæti í því að hluti íbúa hér á landi séu skráðir hjá ákveðnum
heimilislækni og hluti ekki. Hver ákvað hvernig dregið var í því
lottói? Ástæðan er hins vegar einföld, heimilislæknar á Íslandi
eru of fáir miðað við íbúafjölda, nýliðun í stéttinni heldur ekki í
við eðlilegt brottfall og heimilislæknar eru ekki tilbúnir til að fela
vandamálið með því að skrá hjá sér fleiri skjólstæðinga og þar
með eru skjólstæðingar skráðir á steypuna.
Ágæt lausn til þess að bæta aðgengi og samfellu væri að fjölga
heimilislæknum, en það hefur gengið hægt og auk þess virðast
þeir eldast hratt. Verri lausn væri að fækka landsmönnum. Það er
hins vegar hlutverk okkar lækna að finna lausn á þessum vanda
því ef við bíðum eftir að aðrir geri það þurfum við að bíða lengi.
Það þarf að auka afköst á heilsugæslunum og það þarf að búa til
svigrúm fyrir heimilislækna til þess að sinna því sem þeir þurfa
að sinna í stóru samlagi. Til þess að það gangi þarf að auka sam-
starf milli fagstétta, færa til verkefni, færa til ábyrgð og breyta
hlutverkum. Við þurfum ekki annað en að horfa til þeirra landa
sem við viljum bera okkur saman við til þess að sjá skilvirkari
teymisvinnu, nánari samvinnu og aðrar fagstéttir með stærri
hlutverk og meiri ábyrgð. Teymisvinna er hluti af lausninni en
teymið verður að hafa sameiginlegt viðfangsefni, sem er samlag-
ið, og sameiginlegt markmið, að stuðla að og viðhalda heilsu
samlagsins. Allir íbúar Íslands eru viðfangsefnið, ekki bara þeir
sem nú þegar eru skráðir hjá ákveðnum heimilislækni og til þess
að heimilislæknar á Íslandi geti sinnt öllum íbúum landsins þurfa
fleiri að koma að verkefninu, heimilislæknar þurfa meiri aðstoð
annarra fagstétta og þeir þurfa sjálfir að vera tilbúnir að þiggja
þá aðstoð. Heimilislæknirinn þarf að segja upp störfum sem
framkvæmdastjóri samlagsins og sinna eingöngu þeim störfum
sem krefjast sérþekkingar hans og vera tilbúinn að leyfa öðrum
að taka við nýjum hlutverkum og aukinni ábyrgð þegar það á við.
Læknirinn á ekki að sinna verkefnum sem aðrar fagstéttir geta
sinnt jafn vel eða betur og læknirinn á ekki að sinna erindum án
þess að áður hafi farið fram greining á þörfum skjólstæðingsins
og forgangsflokkun þannig að úrræði séu í samræmi við þarfir,
allt frá stuttu símtali við læknaritara til bráðaviðtals við hjúkr-
unarfræðing til ítarlegs viðtals við lækni. Þannig getum við bætt
aðgengi, sinnt fleirum og bætt þannig samfellu fyrir alla.
Ég undanskil hér tæknina sem mun vonandi hjálpa okkur að
sinna skjólstæðingum á auðveldari og skilvirkari hátt, til dæmis
með heilsuvera.is og heilsugátt og ég undanskil þá augljósu stað-
reynd að með aukinni ábyrgð sem aðrar fagstéttir munu taka á
sig þurfi eðlilega að fylgja kjarabót.
Það er sameiginlegt verkefni lækna og annarra fagstétta innan
heilbrigðiskerfisins að efla heilsugæslu og standa saman. Hvar
eru til dæmis „physician assistant“ og „nurse practitioner“ á
Íslandi? Í mínum huga verða það í framtíðinni sjúkraliðar sem
aðstoða heimilislækna við móttöku, hjúkrunarfræðingar sem
skrifa lyfseðla fyrir getnaðarvörnum, læknaritarar, sjúkraliðar
og hjúkrunarfræðingar sem forgangsraða verkefnum og hjúkr-
unarfræðingar með sérmenntun sem sinna hluta af móttöku
á heilsugæslu í náinni samvinnu við lækna. Og ef við höldum
áfram: hjúkrunarfræðingar sem sinna sjúkraflutningum og svæf-
inga- og gjörgæsluhjúkrunarfræðingar sem sinna sjúkraflugi
ásamt læknum.
Og kannski eiga þessar hugrenningar betur heima í blaði
hjúkrunarfræðinga.
----------------------------------------------------------------------------
*Skráð á steypuna = skráð á ákveðna heilsugæslustöð en ekki á ákveðinn heimilislækni.
Þorbjörn Jónsson formaður
Orri Þór Ormarsson varaformaður
Björn Gunnarsson gjaldkeri
Magdalena Ásgeirsdóttir ritari
Agnar H. Andrésson
Arna Guðmundsdóttir
Hjalti Már Þórisson
Jóhanna Ósk Jensdóttir
Þórarinn Ingólfsson
Stjórn LÍ
Ú R P E N N A S T J Ó R N A R M A N N A L Í
Ísland er verkefnið
Jóhanna Ósk Jensdóttir
sérfræðingur í heimilislækningum
jojensdottir@gmail.com
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.
Toujeo–stöðugt insúlín
gefur lengri blóðsykurlækkandi áhrif
samanborið við Lantus2
Fyrir fullorðna með sykursýki tegund 1 og 21
SA
IS
.T
JO
.1
7.
03
.0
00
2
insúlín glargín 300 einingar/ml
Í framhaldi af
LANTUS
Frá framleiðanda
LANTUS®
insúlín glargín100 einingar/ml
1. Toujeo SPC 15.09.2016 kafli 4.1
2. Toujeo SPC 15.09.2016 kafli 5.1
Sanofi - Vistor / Hörgatúni 2 / 210 Garðabæ / Sími 535-7000
Nálgast má upplýsingar um Toujeo, fylgiseðil þess og gildandi samantekt á eiginleikum lyfs á vef Lyfjastofnunar, www.serlyfjaskra.is
Nálgast má upplýsingar um verð og greiðsluþátttöku á vef lyfjagreiðslunefndar, www.lgn.is