Feykir


Feykir - 13.03.2014, Blaðsíða 7

Feykir - 13.03.2014, Blaðsíða 7
10/2014 Feykir 7 Færir ró og frið í sál fyrsta lóukvakið Líkt og margir Skagfirðingar hefur Jói mikið yndi af hestum og var hann með hesta þar til fyrir um fimm árum síðan. Jóa er líka annt um aðrar skepnur. „Það er sama hvar ég hef komið, þá hafa hundar og kettir ævin- lega verið komnir upp í fangið á mér eftir smástund,“ segir hann. Aðspurður um uppáhalds- hestinn segist hann hafa haft einna mestar mætur á hesti sem honum var ráðlagt að lóga ótömdum. „Hann var sendur á tamningastöð og mér var sendur hann aftur eftir nokkra daga með boðum um að ég skyldi skjóta hann á færi. En ég hef nú alltaf verið þrár svo ég tók hann og tamdi sjálfur og hann var mér óskaplega traustur. En hann var ekki nema fyrir mig einan, og reyndar lítil börn, það var alveg sama hvernig þau voru í kringum hann. Þetta var stórvitur hestur en okkur samdi vel.“ Sjálfur fékkst Jói nokkuð við tamningar sem ungur maður og þá gaf hann sér alltaf góðan tíma til að kynnast hestunum áður en hann fór að eiga nokkuð við þá. „Hestasálin er ekkert ólík manns sálinni,“ segir hann. Áttræður með hrossastóð yfir Sprengisand Líkt og með Skagafjörðinn reyndist Jóa ekki auðvelt að skilja við hestana. „Ég ætlaði nú að hætta með hestana þegar ég fór suður en endurskoðaði þá ákvörðun og var með þá fyrir sunnan. Ég kom svo ríðandi með þá yfir Sprengisand þegar ég kom norður.“ Um þetta ferðalag orti Jói m.a.: Jói í viðtali við Feyki á dögunum. Mynd: KSE Áfram ríð ég ótrauður. Öllu hafna grandi. Yndi er að vera áttræður uppi á Sprengisandi. Ekki þarf að ræða lengi við Jóa til að átta sig á að hann er mikið náttúrubarn. Landið og dýrin eru honum hugleikin og hann segist hvergi una sér betur en á fjöllum. Meðan hann dvaldi fyrir sunnan fór hann árlega í vikulangar hestaferðir. „Það var nú eiginlega eina fríið sem ég tók mér. Það voru dásamlegir tímar því að yfirleitt var ég heppinn með veður og að komast í fjallafrelsið með góðum félögum, það var stórkostlegt.“ Auk vísna sem tengjast hestum og fjallafrelsi eru göngur og réttir áberandi þegar flett er í gegnum útgefinn kveðskap Jóa og segist hann áður fyrr hafa farið á heiðarnar, bæði Hofsárrétt og Auðuns- staðaheiði, sem útheimti fjög- urra til fimm daga útivist á fjöllum. Aðeins einu sinni hefur Jói komið út fyrir landssteinana og fór þá til Færeyja, ásamt kór af Suðurlandinu, til að kveða rímur og skoða sig um, og hafði mikla ánægju af. Hann segist ekki hafa gefið sér tíma til frekari utanlandsferða og segir erlendar stórborgir ekki heilla sig, en gæti hugsað sér að skoða Noreg eða Grænland. Eins og getið var í upphafi er Jói landþekktur hagyrðingur. Hann telur sig hafa verið í kringum tíu ára aldur þegar hann fór að yrkja og telur hæfileikann til að setja saman vísur bæði meðfæddan og lærðan. „Það var mikið verið með vísur heima og það hefur eflaust haft sín áhrif. En ég fór nú dult með það því ég fékk svo miklar ákúrur fyrir þetta þegar ég var krakki og það var gert grín að mér, svo ég lokaðist alveg. Ég lét engan mann heyra þetta fyrr en löngu eftir að ég varð fullorðin. En þetta hefur alltaf verið önnur hliðin á mér.“ Áratugir liðu því þar til Jói gerði kveðskapinn opinberan. „Ég hugsa að ég hafi ekki látið þetta flakka fyrr en ég var kominn mikið á fertugsaldur, þá vissu menn ekkert um það hér í sveitinni að ég setti saman vísur.“ Aðspurður um hvað fékk hann til að láta fyrstu vísuna flakka opinberlega segir hann að það hafa gerst í einhverjum galsa. „Þegar farið var að yrkja á mann, þá varð maður að reyna að svara fyrir sig!“ Jói segir ennþá nokkuð um að menn kveðist á, einkum á hagyrðingamótum. Talið berst að landsmóti hagyrðinga, en Jói, ásamt Inga Heiðmari Jónssyni, er for- sprakkinn að þeirri vinsælu samkomu sem nú er árviss viðburður en var fyrst haldið á Hveravöllum árið 1990. „Við tókum okkur tveir saman og fórum norður á Skagaströnd og hittum nokkra menn bæði héðan og úr Húnavatns- sýslunum. Við borðuðum saman um kvöldið og ræddum málin, það má segja að það hafi verið fyrsta samkoman, við ákváðum svo að hittast á Hveravöllum næsta sumar.“ Næsta mót þar á eftir var haldið á Laugum í Sælingsdal og síðan hefur mótið farið fimm hringi í kringum landið, en mótin eru haldin í landsfjórðungum til skiptis, að haustlagi. Síðast liðið haust var í fyrsta sinn sem mót féll niður. Þá átti að halda það á Borgarfirði eystri, en eins og menn muna gerði mikið hret um mánaðarmótin ágúst- september og það féll því niður. Sjálfur hefur Jói mætt á öll mótin nema það síðasta, en hann segist eiga orðið erfitt með að vera í margmenni þar sem heyrnin er farin að svíkja hann. Mikill og skemmtilegur félagsskapur hefur myndast milli hagyrðinga vítt og breytt um landið, ekki síst með tilkomu hagyrðingamóta. Jói segir það ánægjulegt að unga fólkið sé líka að yrkja og telur að hefðin fyrir kveðskap sé óvíða sterkari en í Þingeyjarsýslum. Hann nefnir enda Þingeying, Friðrik Steingrímsson á Gríms- stöðum í Mývatnssveit, þegar hann er beðinn um að nefna einhvern af sínum uppáhalds hagyrðingum, en þeir hafa gjarnan ljóðað hvor á annan. Jói segir vísurnar oftast verða til í hita augnabliksins, en það sem ort sé eftir pöntunum, t.d. fyrir þorrablót eða önnur manna- mót, taki oftast lengri tíma að setja saman. Slíkt hefur hann oft verið beðinn um. Auk frumsaminna vísna, ljóða og kvæða hefur Jói aðeins fengist við þýðingar á ljóðum úr Norðurlandamálum en gerir nú lítið úr þeirri iðju sinni, segir það vandasamt verk og að sig skorti tungumálakunnáttu til að gera meira af því. Mikilvægast að hafa bjarma í efninu Jói segist löngu hættur að skrifa niður og halda til haga öllu sem hann yrkir en hann er minn- ugur á eigin kveðskap og annarra og sér mest eftir að hafa ekki lagt á minnið nöfn höfunda á því sem hann lærði sem strákur. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort Jói eigi sér uppáhalds bragarhátt? Hann segir svo ekki vera, en tekur þó fram að hann kunni ekki að meta nútímakveðskap. „Ferskeytlan er alltaf ofarlega og hún er náttúrulega misjafn- lega dýr eftir því hvað menn leggja í hana. Ég legg nú ekki aðallega upp úr að kveða dýrt heldur að það sé einhver svona bjarmi í efninu sem að ég er með,“ segir Jói. Þessu verður kannski ágætlega lýst með hans eigin orðum: Á góðri stund í glöðum ræðum greinilega á það treysti. Að úr sálar gömlu glæðum, geti hrokkið stöku neisti. Tvær bækur hafa komið út eftir Jóa í Stapa, annars vegar Axarsköft, árið 2006 og hins vegar Ný axarsköft, árið 2011. Sjálfur segist Jói vera þekktastur af axarsköftum sínum. Athygli vekur að bækurnar eru myndskreyttar af höfundi en hann hefur alla tíð fengist við að teikna sér til ánægju. Þegar að er gáð reynist hann þó aðeins eiga eina mynd í fórum sínum, mynd af folaldi í haga sem hann málaði eftir pöntun en tilvonandi eiganda láðist að sækja. Hann kom einnig að kennslu í Steinsstaðaskóla í þrjá vetur og kenndi þar smíðar, teikningu og ýmsar hannyrðir og hafði mikla ánægju af, enda allt tíð haft mikið yndi af börnum og náð vel til þeirra. Jói ber það ekki með sér að vera kominn á tíræðisaldur, enda er hann heilsuhraustur og frár á fæti. Hann ekur sjálfur flestra sinna ferða, en segir ferðirnar þó hafa minnkað þar sem hann sæki ekki lengur fjölmennar samkomur. Hann les mikið, einkum sagnir og fróðleik en segist ekki mikið fyrir skáldsögur. Undanfarin tíu ár hefur hann búið í lítilli og notalegri íbúð í Varmahlíð og unir hag sínum vel þar. Sem sjá má er andinn ungur og það er við hæfi að enda ánægjulegt spjall við hagyrðinginn og þúsundþjalasmiðinn Jóa í Stapa á nýjustu vísu hans, sem ort var fyrir fáeinum dögum: Áhyggjur ég engar hef ýmsar gefast bætur meðan enn get stuðlað stef og stend í báða fætur. Jói skrifar niður vísur í sjötugsafmæli sínu í Árgarði. Mynd: Úr safni Feykis / HSk. Jói kveður rímur á Ásbirningablóti í Kakalaskála. Mynd: BÞ

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.