Feykir


Feykir - 19.03.2015, Qupperneq 5

Feykir - 19.03.2015, Qupperneq 5
11/2015 5 Sjarmerandi veitingastaður á sjávarkambinum Sjávarborg opnar á Hvammstanga UMSJÓN Berglind Þorsteinsdóttir Veitingastaðurinn Sjávarborg opnaði á Hvammstanga þann 27. mars sl. Hann er staðsettur við höfnina, á efri hæð Selaseturs Íslands, þar sem var sláturhús hér á árum áður en hefur verið notað sem geymsluhúsnæði síðustu ár. Blaðamaður Feykis rak nefið inn á dögunum, þegar hádegis ösin stóð sem hæst, og ræddi við rekstaraðila staðarins, Jóhann Albertsson og Sigríði Lárusdóttur frá Gauksmýri. Veitingasalurinn er stór og rúmgóður og sjarmerandi loftbitarnir ljá honum hlýlegt yfirbragð. „Þegar korkurinn var rifinn af loftinu komu í ljós þessir loftbitar og nú fá þeir að njóta sín. Það eina sem minnir á gamla sláturhúsið eru þessar pípur,“ segir Jóhann og bendir á svartmálaðar pípur sem ganga í hlykkjum á einum veggnum. „Staðurinn er ekki alveg tilbúinn, enn eiga eftir að koma nokkur húsgögn og fleiri skrautmunir,“ útskýrir Sigríður. Það var Hólmfríður Jónsdóttir arkitekt frá Sauðárkróki sem hannaði útlit staðarins og minnir það á hafnarlífið og sjóinn. Steinvölum er raðað meðfram stórum gluggum sem þekja hliðina sem snýr að sjónum, barborðið er steypt með grófu grjóti og yfir barnum hanga ljósakrónur úr renndum rekavið gerðar af Daníel Karlssyni. Fallegt útsýnið nýtur sín þar sem horft er yfir Miðfjörð, Heggstaðanes og Strandafjöllin. Æðakollurnar og blikarnir busla í fjörunni fyrir neðan og að sögn Jóhanns og Sigríðar sjást stundum selir og jafnvel hvalir í firðinum. Nafnið Sjávarborg vísar í húsið Sjávarborg, eða Möllershús, sem stóð á sjávarkambinum þar sem síðar var byggt frystihús Kaupfélags Vestur Húnvetninga. Húsið var flutt þrisvar og stendur nú við Spítalastíg en það er talið vera elsta húsið á Hvammstanga. Opna formlega skömmu fyrir páska Hjónin Jóhann og Sigríður hafa rekið Sveitasetrið Gauksmýri um árabil, þar hafa þau boðið upp á gistingu, hestaleigu og rekið veitingastað við góðan orðstír. Þegar Sveitarfélagið Húnaþing vestra auglýsti eftir aðila til að hafa umsjón með skólamötuneyti fyrir Gunnskóla Húnaþings vestra, jafnframt því að reka veitingastað á Hvammstanga, sóttust þau eftir því og kom það í þeirra hlut. Maturinn er eldaður á veitingastaðnum undir styrkri stjórn Halldóru Tryggvadóttur og hann er fluttur í skólann þar sem hann er framreiddur til nemenda og starfsfólks. „Okkur fannst þetta eiga vel saman og sáum hag í því að geta samnýtt starfsemina sem við erum búin að byggja upp á Gauksmýri og svo veitingastaðinn hér, þ.e. innkaup, starfsfólk og að geta beint fólki á milli,“ útskýrir Jóhann. Það er Kaupfélag Vestur-Húnvetninga sem er eigandi húsnæðisins og sá um allar breytingar sem gerðar voru á húsinu og fjármögnun þess. Hjónin áforma að opna formlega skömmu fyrir páska og hefur kokkur verið ráðinn sem tekur til starfa í lok mánaðarins. Fram til þessa hefur verið boðið upp á hádegismatseðil, þann sama og hefur verið í skólanum, og hafa matargestir verið um 20-40 talsins. „Í sumar verður opið frá kl. 10-22 og eitthvað lengur um helgar. Svo verður hitt bara að ráðast yfir veturinn,“ útskýrir Sigríður en þau gæla einnig við þá hugmynd að bjóða upp á tónlistaratriði á staðnum og vera með notalega kaffihúsastemningu. Þá verð- ur verður einnig hægt að sitja úti, beggja vegna hússins, og virða fyrir sér mannlífið og náttúruna. Uppskrift af bláberjatertu í boði Sjávarborgar er á bls. 19 Jóhann Albertsson og Sigríður Lárusdóttir. MYNDIR: BÞ

x

Feykir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.