Feykir


Feykir - 30.04.2015, Blaðsíða 3

Feykir - 30.04.2015, Blaðsíða 3
16/2015 3 Á Sæluviku er sitthvað þekkt og sýnist harla lítið, því þá er allt svo eðlilegt sem annars þykir skrítið. „Svo yrkir Hreinn Guðvarðar- son og hittir naglann á höfuðið. Enn er haldið á vit ævintýra og gáska í Sæluviku Skagfirðinga sem hóf göngu sína formlega sunnudaginn 26. apríl í Húsi frítímans á Sauðárkróki. Vísna- keppni Safnahúss Skagfirðinga er einn þeirra liða sem fastan sess hefur átt í þeirri menn- ingarviku og þykir sú íþrótt, að botna vísur eða setja þær saman, enn skemmtileg. Að þessu sinni sendu alls tuttugu og sex vísnavinir, botna og/eða vísur, inn í keppnina og er það um 150% aukning frá fyrra ári. Skýringuna má öðru fremur finna í því að fyrripartarnir fóru mun víðar en fyrir ári, einkum á Feyki.is, Facebooksíðunni Boðnamjöður sem vísnavinir þekkja vel, og í Morgunblaðinu en þar er Björn Jóhann Björnsson okkur sem haukur í horni. Fyrripartarnir voru alls sex talsins og flestir sem glímdu við þá alla og einhverjir sendu inn fleiri en einn botn. Má því gera ráð fyrir því að botnarnir hafi verið vel á annað hundrað en undirritaður þó ekki enn búinn að telja þá. Var það því ærið verk fyrir dómnefndina að velja úr það sem henni þótti skara fram úr en í henni sátu undirritaður Páll Friðriksson, Guðbjörg Bjarnadóttir og Ágúst Guðmundsson. Líkt og fyrir ári voru það Fljótamennirnir Hreinn Guðvarðarson og Har- aldur Smári Haraldsson sem smíðuðu fyrripartana og marg- ir góðir botnar sem bárust í keppnina sem og vísur og valið því ansi erfitt fyrir dómnefnd að gera upp á milli. Sem fyrr er það Sparisjóður Skagafjarðar sem er aðal styrktaraðili keppninnar en verðlaunin deilast á milli þeirra er besta botninn gerði og bestu vísuna að mati dómnefndar og vert að þakka stjórnendum sjóðsins fyrir það framlag. Hagyrðingar voru beðnir um að yrkja um það hvernig hinn dæmigerði Skagfirðingur kæmi þeim fyrir sjónir sem og að botna einn eða fleiri af eftirfarandi fyrripörtum. Í svipnum greini létta lund Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga 2015 Nú skal heimta hærri laun og hafna vesaldómi. Dalir, firðir, fjöll og grund fegurst er á vorin. Nálgast ellin alla jafnt enda brellin kelling. Eltir aftur lægðin lægð lát er vart að finna. Sé ég blik við sjónarrönd Sæluvika kemur. Á Sæluviku feginn fer að fanga menninguna. Við hefjum hér leik með Hörpu sem botnar: Dalir, firðir, fjöll og grund fegurst er á vorin. Fugl í lofti, fjör í lund og fyrsta ærin borin. Harpa botnar einnig lipurlega hér: Sé ég blik við sjónarrönd Sæluvika kemur. Enginn hikar, engin bönd ekkert kviku temur. Harpa reyndist, þegar að var gáð, vera Eyþór Árnason kennd- ur við Uppsali í Blönduhlíð. Hagyrðingum tókst einna best upp er þeir reyndu við fyrripartinn um dalina og fjöllin og svona orðaði Einar Jónsson, er hafði dulnefnið Fálán, hlutina. Dalir, firðir, fjöll og grund fegurst er á vorin. Er sólin hækkar lyftist lund léttari verða sporin. Og Skarphéðinn Ásbjörnsson segir: Dalir, firðir, fjöll og grund fegurst er á vorin. Birta tekur lyftist lund léttast ævisporin. Helgi R. Einarsson sem býr í Mosfellsbæ lýkur lægðavísunni svona: Eltir aftur lægðin lægð lát er vart að finna. Loksins birtist hæð með hægð heiðríkju að spinna. Jón Gissurarson í Víðimýrarseli er einnig bjartsýnn á að veðrið fari að lagast og segir: Eltir aftur lægðin lægð lát er vart að finna. Samt hún burtu berst með hægð brátt mun þessu linna. Jón sendi einnig inn vorvísu sem ekki var gjaldgeng í keppnina en fær hér að fljóta með. Víkur svali vetrarhríða vermir sólin kalda jörð. Senn mun vorsins blessuð blíða baða allan Skagafjörð. Nú hafa verkföll staðið yfir hjá ýmsum stéttum í landinu og fleiri hafa boðað slíkar aðgerðir á næstunni til að bæta sín kjör. Tjonni sendi inn botn en Karl Lúðvíksson í Varmahlíð stóð á bak við það dulnefni. Hann botnar svo: Nú skal heimta hærri laun og hafna vesaldómi. Bágindi er beggja raun og bætur enginn sómi. UMFJÖLLUN Páll Friðriksson Andrés Erlingsson sá þetta á þennan veg: Nú skal heimta hærri laun og hafna vesaldómi. Réttlæti skal heimta í raun svo ríki í landi sómi. En Tófan, sem Þórólfur Stefáns- son líkti sér við, lætur það vera svona: Nú skal heimta hærri laun og hafna vesaldómi. „Ora“ veit ég eina baun upp í mínum gómi. Guðmundur Arnfinnsson úr Kópavogi veit sitthvað um hvað Sæluvikan snýst og hann botnar: Á Sæluviku feginn fer að fanga menninguna. Kveðið, sungið saman er, sáttir menn þar una. Hann reynir einnig við „Elli kellingu“, en þar var mikill tungubrjótur á ferðinni. Nálgast ellin alla jafnt enda brellin kelling. Frár á velli feta samt frír við skella hrelling. Benedikt Benediktsson á Stóra Vatnsskarði hefur hana svona: Nálgast ellin alla jafnt enda brellin kelling. Fer um svellin fimur samt fær af skellum helling. Og Hilmir Jóhannesson botnar hana svona: Nálgast ellin alla jafnt enda brellin kelling. Henni skelli hrygginn samt, heilög, smellin stelling. Það er ekki bara mannfólkið sem á það á hættu að misstíga sig í Sæluvikunni eins og Hilmir segir frá hér. Sé ég blik við sjónarrönd Sæluvika kemur. Heimskur bliki eltir önd, asnastrikin fremur. Fjólmundur Fjólmundsson „Austanmaður“ segir þetta um Sæluvikustemninguna: Á Sæluviku feginn fer að fanga menninguna. Þar sumir fara fram úr sér sem fæstir vilja muna. Ég vona nú samt að fólk hagi sér það vel á Sæluvikunni að óminnishegrinn þurfi ekki að vera besti vinur mannsins. En áfengið hefur alloft komið við sögu þar sem Skagfirðingar koma saman til að skemmta en flestir farið vel með. Hagyrðingar voru beðnir um að yrkja um hinn dæmigerða Skagfirðing og það verður að segjast eins og er að samkvæmt innsendum vísum er hann hvítur, miðaldra söng- maður, drykkfelldur hestamaður sem daðrar við konur án nokkurrar sektarkenndar. Svona lýsir Óttar Skjóldal í Enni hinum dæmigerða Skagfirðingi. Hann er bísna hugumstór heldur á glasi af landa. Syngur dátt í kvæðakór og kyssir til beggja handa. Ingólfur Ómar Ármannsson sér hann á þennan hátt: Viðmótsþýður vænn og hlýr vinsæll frjáls og glaður, sönghneigður og skrambi skýr skemmtilegur maður. En Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri þekkir persónulega hinn eina sanna Skagfirðing og segir okkur hver hann er hér: Lífsglaður með bros á brá bregst ei tónninn skýri. Þetta er eins og allir sjá Ingi á Flugumýri. Hér höfum við stiklað á stóru í vísnakeppninni þetta árið og einungis eftir að upplýsa hvaða botn og vísa þóttu best að mati dómnefndar að þessu sinni. Besti botninn er á þessa leið: Sé ég blik við sjónarrönd Sæluvika kemur. Ör og kvikur óþekkt lönd andinn hiklaust nemur. „Botninn er suður í Borgarfirði,“ sagði einn Bakkabræðranna forðum en okkar botn kom úr nágrenninu því eigandi hans er Guðmundur Kristjánsson á Akranesi. Besta vísan um Skagfirðing- inn dæmigerða hljómar svo: Í svipnum greini létta lund lifnar á gleðifundum. Leikur brag á lífsins stund lætur skeiða á grundum. Eigandi hennar er hestamaður- inn kunni héðan af Krók, Guðmundur Sveinsson. Dómnefnd óskar vinningshöf- um til hamingju með árangur- inn og þakkar jafnframt þátt- takendum fyrir framlag þeirra til keppninnar. Fulltrúi dómnefndar Vísnakeppninnar, Páll Friðriksson, les gestum pistilinn. MYND: LAUFEY KRISTÍN SKÚLADÓTTIR

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.