Feykir - 23.07.2015, Síða 9
28/2015 9
Heilir og sælir lesendur góðir.
Byrjum að þessu sinni á vísu eftir Vaglaskáldið
Magnús Gíslason.
Björt þín mund og brúnagler
blika stundum fóru.
Yndisstundir allar mér
eru bundnar Þóru.
Veit ekki af hvaða tilefni næsta vísa er ort,
en hún er í dóti mínu sögð eftir Þorstein
Erlingsson.
Rangárvalla vondu fól
vítiskallinn taki.
Dreymir valla dag né sól
drauga að fjallabaki.
Markús Hallgrímsson hefur trúlega verið
ástfanginn er hann orti þessa.
Ást er háttalykill lífs
ljós frá máttarbrunni.
Yndisþáttur vers og vífs
vor í náttúrunni.
Jón Rafnsson lýsir ferðalagi sínu einhverju
sinni svo.
Oft á mínum vegi varð
visin jörð og lítil spretta.
Margoft fór ég meyjarskarð
miklu gróðursælla en þetta.
Geta lesendur upplýst hver yrkir svo?
Ástin mín var ósköp hrærð
yfir fegurð þinni.
Nú er ég að vagga í værð
vitleysunni minni.
Það er Húnvetningurinn Rögnvaldur Rögn-
valdsson sem yrkir svo.
Viljirðu áfram vera í sátt
við það sem að lifir.
Lyftu þínu höfði hátt
hversdagsleikann yfir.
Vel skiljanleg er þessi vísa Rögnvaldar.
Óhófsemin oft við ber
ýmsir hana þekkja.
Mér er sjálfum, vinur, ver
við að éta en drekka.
Að lokum þessi sannleikur frá Rögnvaldi.
Veröldin er væn og blíð
vill sig bæta, skapa.
Þó er líf vort stöðugt stríð,
stríð sem allir tapa.
Þorsteinn Magnússon frá Gilhaga mun hafa
talað svo, til eins af fuglum himinsins, er hann
orti þessa.
Fjörið er og fæði veitt,
frjálsa vængi ber hann,
Skuldar ekki neinum neitt,
nógu ríkur er hann.
Önnur vísa kemur hér eftir Þorstein og mun
Vísnaþáttur 645 hún ort er fréttist um tíða hjónaskilnaði í Skagafirði.
Ýms hér ganga ektapör
einn og sama veginn.
Sá, er missir veiga-vör
verður tvisvar feginn.
Jóhannes Örn Jónsson frá Árnesi í Skagafirði
er höfundur að þessari.
Mín er lítil menntun, því
myrk var æskunjóla.
Gengið hef ég aðeins í
örlaganna skóla.
Einhverju sinni er mikil veikindi voru
sumstaðar í Skagafirði, en blíðuveður með
sólskini dag eftir dag, orti Jóhannes þessa.
Skagafjarðar skrautleg borg
skín í himins öldum.
Drottningarnar sól og sorg
sitja þar að völdum.
Að lokum þessi eftir Jóhannes.
Ég hef ei til einkins tínt
orð í belginn ljóða,
Ef ég gæti alþjóð sýnt
eina vísu góða.
Það mun vera Ágúst L. Pétursson sem er
höfundur að næstu vísu. Er tilefni hennar það
að góður vinur hans vildi fagna komu hans og
hressti hann á góðum veitingum.
Tíðum hressir vinur vin
á víni ýmiskonar.
Jón hann hellti gini í gin
Gústa Péturssonar.
Næsta morgun mun Ágúst hafa ort þessa.
Mjaðar hiklaust döggin draup
í drengja hvikum solli.
Allt of mikið á ég saup
er því ryk í kolli.
Næsta vísa mun ort nokkuð fyrir stríðslok.
Veit því miður ekki um höfund hennar.
Láttu enda ófriðinn
efldu bræðralagið.
Dreptu Hitler, Drottin minn
og djöflinum gefðu hræið.
Veit því miður heldur ekki um höfund að
þessari ágætu hringhendu.
Vorsins tíð er björt og blíð
blika víða hagar,
blómin hlíða brosa fríð
bjartir líða dagar.
Gott er þá að enda þáttinn með fallegri vísu
eftir Skagfirðinginn Sigurð J. Gíslason.
Mun það vera mest um vert
mála í veröldinni,
Að þú öðrum getir gert
glatt og hlýtt í sinni.
Verið þar með
sæl að sinni.
/ Guðmundur
Valtýsson
Eiríksstöðum,
541 Blönduósi
Sími 452 7154
( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is
Takk Sigfús Ingi
fyrir að senda mér
áskorendapennan og ýta við
mér að skrifa nokkur orð.
Það er satt að segja ansi
margt sem rennur í gegnum
huga minn þessa dagana.
Í fréttum nýverið var sagt frá
því að um helmingur íslenskra
unglinga vilji helst búa erlendis
í framtíðinni samkvæmt
nýrri rannsókn1 Háskólans
á Akureyri. Það er talsverð
aukning frá fyrri rannsóknum.
Ég velti fyrir mér hvað það er
sem gerir önnur lönd svona
eftirsóknarverð í augum
unglinganna. Er það vegna
þess að unglingarnir eru fullir
sjálfstrausts og telja möguleika
sína til náms og starfa betri
erlendis en hér? Eða er viðhorf
þeirra litað af neikvæðri
samfélagsumræðu og böli?
Á mínum yngri árum var
gjarnan horft til þess að fara
til höfuðborgarinnar eða
erlendis um stundarsakir til að
afla sér menntunar. Markmið
flestra var samt að koma aftur
heim, ef þess væri nokkur
kostur. Átaks er vissulega þörf
á Norðurlandi vestra í þeim
efnum að fjölga störfum, efla
námsmöguleika og sporna við
frekari fækkun íbúa. Ég trúi því
og treysti að slíkt átak verði að
veruleika. Að við munum sjá
aukna samvinnu margra aðila
í víðu samhengi.
Það er þó ástæðulaust að
sitja og bíða. Ábyrgð okkar
er sameiginleg. Við getum
hvert og eitt byrjað á því að
horfa okkur nær og ígrunda
í hvernig samfélagi við
uppalendur erum nú þegar
að ala börnin okkar. Hvernig
er andrúmsloftið heima við
eldhúsborðið? Hvaða sýn af
þjóðfélaginu endurspeglast í
umræðunni? Hvernig metur
þú það sem þér finnst gott
og eftirsóknarvert við þá
búsetu sem þú hefur valið
þér? Mögulega getum við
í sameiningu stuðlað að
bættri ímynd með jákvæðari
umræðu. Beint sjónum
okkar að tækifærum og með
því að taka umræðuna á
uppbyggilegan en gagnrýnin
hátt.
Setjum orð á hvað það er
sem gerir landssvæðið okkar
að vænlegum búsetukosti.
Það er sameiginlegt verkefni
okkar uppalenda að halda í
vonir og drauma unga fólksins
þrátt fyrir að aðstæður og
krísur samfélagsins séu oft
á tíðum erfiðar og krefjandi.
Við getum valið að staldra
við og stjórna athygli okkar.
Aukið færni okkar í að hafa
stjórn á hugsunum, líðan og
viðbrögðum. Við getum lært
að lifa í augnablikinu og njóta
betur líðandi stundar.
Ég vil gjarnan sjá að við
stöndum saman um að hlúa
að samfélaginu okkar. Byggja
upp þá ímynd af okkar eigin
búsetu sem ungmenni geta
horft til sem framtíðarheimilis.
Að sem flestir hafi allavega
löngun til að snúa aftur heim
með nýja þekkingu og reynslu.
Það er lærdómsríkt og
þroskandi að flytja frá
heimahögunum en ég get
sagt af eigin reynslu að það er
afar gott að eiga afturkvæmt.
Það er ómetanlegt að eiga val
og ansi margt sem er á okkar
valdi. Ég get svo sannarlega
ekki stjórnað veðrinu en ég get
stjórnað viðmóti mínu og haft
áhrif á það andrúmsloft sem
fylgir mér.
- - - - -
Ég skora á Árný Lilju
Árnadóttur að taka við
áskorendapennanum og
skrifa næstu hugvekju.
1 Rannsóknin er hluti evrópsku
ESPAD rannsóknarinnar og nær til
allra íslenskra unglinga í 10. bekk
grunnskóla. http://www.akureyri.
net/frettir/2015/07/15/helmingur-
islenskra-unglinga-vill-helst-bua-
Hanna Dóra Björnsdóttir á Sauðárkróki skrifar
Jákvæð umræða, okkar eigin ábyrgð
ÁSKORENDAPENNINN
UMSJÓN kristin@feykir.is