Feykir


Feykir - 20.08.2015, Side 2

Feykir - 20.08.2015, Side 2
2 31/2015 Á þessum árstíma, þegar sumarfrí eru að renna sitt skeið á enda, skólakrakkar að koma til náms á ný, heyskapur að klárast og berin orðin þroskuð, hallast maður iðulega að því að nú sé sumarið búið. Útilegudótinu er pakkað í bílskúra og geymslur, misslitinn sumarfatnaður færður í efri skápa og skóladótið tekið fram á ný. Þessum árstíma fylgir líka að taka fram kertaljós, elda heitar og matarmiklar súpur og huga að haustverkunum framundan. Því það styttist jú í að þurfi að sækja fé á fjall og safna matarforða til vetrarins. Það kann einhverjum að þykja það fullsnemmt að blása „sumarið sem aldrei kom“ af upp úr miðjum ágúst. En einhvern veginn er það svo í hugum flestra hér á fróni að þegar verslunarmannahelgin er liðin, já og kannski næstu tvær helgar á eftir, sem eru talsvert annasamar, þá er sumarið á enda. Þá tekur við að svarið við spurningunni sem erlendir ferðamenn hafa stundum spurt mig í sumar: „Hvað gerið þið á veturna?“ Nú er kannski rétti tíminn til að hugleiða hvernig maður ætlar að verja tómstundum sínum þegar allt kemst smám saman í sína daglegu rútínu eða hinar einu sönnu föstu skorður. Er kannski kominn tími til að hafa sig upp úr hjólfarinu, já eða bara sófanum, og finna sér nýtt tómstundagaman? Skella sér í leikfélag? Syngja í kór eða taka þátt í sjálfboðaliðastarfi? Leggja stund á einhverja hreyfingu eða finna sér nýja söfnunaráráttu? Lesa góða bók eða hlusta á tónlist? Hvað sem verða kann fyrir valinu finnst mér haustið alltaf dálítið notalegur og rómantískur tími. Fátt er fallegra en kyrrlátt haustkvöld og litbrigðin sem haustinu fylgja. Í mínum huga markar haustið alltaf nýtt upphaf, ekki síður en vorið. Að vísu eru hálka og óveður ekkert sérstakt tilhlökkunarefni, sérstaklega ekki eftir sumar sem vafamál er hvort borið hafi upp á helgi eða virkan dag þetta árið, en engu síður gerist svo margt skemmtilegt á veturna. Sjálf er ég þeirrar gerðar að ég man varla eftir að hafa látið mér leiðast hin síðari ár. Og hafi það hent að mér leiddist dagpart annað veifið þegar ég var krakki, þá hef ég eflaust haft afar gott af því. Ef ekkert annað rekur á fjörur manns þennan veturinn þá er upplagt að ráðast á pokann með ókláruðu handavinnunni, staflann af ólesnu bókunum eða albúmin með óflokkuðu myndunum. Eftir það held ég að ekki verði verkefnaskortur, hvorki heima, í vinnunni eða félagslífinu. Kristín Sigurrós Einarsdóttir blaðamaður Útgefandi: Nýprent ehf., Borgarflöt 1, Sauðárkróki Póstfang Feykis: Borgarflöt 1, 550 Sauðárkrókur Ritstjóri & ábyrgðarmaður: Berglind Þorsteinsdóttir – berglind@feykir.is & 455 7176, 694 9199 Blaðamenn: Kristín Sigurrós Einarsdóttir – kristin@feykir.is & 867 3164 Óli Arnar Brynjarsson – oli@feykir.is Þóra Kristín Þórarinsdóttir – thora@nyprent.is Áskriftarverð: 530 kr. hvert tölublað með vsk. Lausasöluverð: 650 kr. með vsk. Áskrift og dreifing: Nýprent ehf. Sími 455 7171. Umbrot og prentun: Nýprent ehf. Óháð fréttablað á Norðurlandi vestra - alltaf á fimmtudögum LEIÐARI Sumri tekið að halla Fögnuður við sundlaugina Bjartasta vonin Feykir og Skotta kvik- myndafjelag kalla eftir ábendingum Í samvinnu við Skottu kvikmyndafjelag auglýsir Feykir eftir ábendingum um frumkvöðla í atvinnulífi á Norðurlandi vestra til umfjöllunar í þáttum sem hefja göngu sína í haust. Sérstök áhersla verður lögð á frumkvöðla og fyrirtæki sem skapa ný og áhugaverð störf fyrir ungt fólk og konur í lands- hlutanum. Þættirnir verða sendir út á netinu. Ábend- ingar berist til ritstjórnar. /BÞ Hauststarfið komið á fullt Farskólinn á NLV Starfsfólk Farskólans er nú komið til starfa eftir sumar- frí. Skipulag haustannar er í fullum gangi og námsvísir í smíðum. Næsta ár verður áhersla lögð á heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir, starfstengd námskeið og raunfærnimat, eins og fram kemur í frétt á vef Farskólans. Enn er tími til að senda hugmyndir á Farskólann varðandi nám- skeið þetta skólaár. Hægt er að hafa samband við Far- skólann í 455 6010. /KSE „Hefur gengið heldur hægt“ Heyskapur í Húnaþingi Heyskapur í Húnaþingi og á Ströndum hefur gengið heldur hægt, að sögn Önnu Margrét- ar Jónsdóttur, ráðunautar hjá RML á Blönduósi. „Þurrkar og kuldi hömluðu sprettu framan af svo heyskapur hófst seinna en vant er. Vel gekk þó að heyja í júlímánuði og náðu menn þá vel verkuðum heyjum og flestir kúabændur luku fyrri slætti,“ sagði Anna Margrét í samtali við Feyki. Sauðfjárbændur sem þurftu vegna kaldrar tíðar í vor að beita sín tún lengur en oft áður biðu margir eftir meiri sprettu og áttu því talsvert eftir af fyrri slætti í byrjun ágústmánaðar, að sögn Önnu Margrétar. „Ég held að í Húnaþingi vestra heyskapur hafi víðast gengið þokkalega framan af og fyrri sláttur ætti að hafa náðst vel verkaður en spretta hins vegar víða lítil eða mjög lítil vegna kuldatíðar og þurrka,“ sagði Sigríður Ólafsdóttir ráðunautur hjá RML á Hvammstanga þegar Feykir hafði samband við hana í vikunni. „Núna í ágúst hefur verið votara og hlýrra sem er gott fyrir sprettu en hefur hins vegar aðeins verið að trufla menn við að ná heyjum,“ sagði Sigríður ennfremur. /KSE Sumarslátrun Sláturhús KVH á Hvammstanga Sumarslátrun hófst í sláturhúsi KVH í byrjun vikunnar. Hátt í sjö hundruð lömbum var slátrað fyrsta daginn, eins og haft var eftir Magnúsi Frey Jónssyni, framkvæmdastjóra sláturhúss KVH í frétt á Ríkisútvarpinu. Jafnframt hófst slátrun viku fyrr á síðasta ári. Meðalþungi dagsins var 14,3 kg sem er í samræmi við væntingar og árstíma. Kjötið af lömbunum sem slátrað var á mánudag fer allt á Ameríkumarkað og sagði Magnús í samtali við RÚV að eftirspurnin þar væri meiri en hann gæti annað núna. Hann gerði þó ráð fyrir að slátra í heildina svipuðu magni og í fyrra. /KSE Miklir hagsmunir í húfi Innflutningsbann Rússa Rússar settu í síðustu viku viðskiptabann á vörur frá Íslandi og fjórum öðrum löndum. Íslensk stjórnvöld segjast harma þessa ákvörðun Rússa í tilkynningu sem þau sendu frá sér. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins liggur fyrir að íslenskar vörur verði ekki tollafgreiddar og hætta sé á að vörum verði fargað á landamærunum. „Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við höfum leitað allra leita til að útskýra afstöðu okkar fyrir rússneskum stjórnvöldum og þá hagsmuni sem undir eru,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utan- ríkisráðherra. Í fréttatilkynn- ingunni segir að ljóst sé að bannið feli í sér að íslenskum fyrirtækjum verði ekki lengur unnt að markaðssetja sjávar- afurðir í Rússlandi auk þess sem bannið tekur til landbúnaðarvara að frátöldu lambakjöti, ærkjöti, hrossakjöti og niðursoðnu fiskmeti í dósum. „Ísland mun halda áfram því samtali sem ráðherrar og embættismenn hafa átt við Rússa á síðustu vikum til að draga úr áhrifum þessarar ákvörðunar,“ segir loks í tilkynn- ingu frá utanríkisráðuneytinu. Unnið að því að finna nýja markaði „Þetta er töluvert áfall,“ sagði Gylfi Guðjónsson útgerðastjóri hjá FISK Seafood á Sauðárkróki. Viðskiptabannið hefur mikil áhrif á FISK Seafood, líkt og önnur fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi, en að sögn Gylfa var gert ráð fyrir að selja drjúgan hluta af makríl til Rússlands. „Við erum að vinna í því að finna nýja markaði en það tekur allt tíma. Þetta er auðvitað mjög slæmt, þetta eru miklir hagsmunir,“ sagði Gylfi í samtali við Feyki. /BÞ Húnar á Hálendisvaktinni Björgunarsveitirnar Á sunnudaginn fór hópur frá Björgunarsveitinni Húnum í Húnaþingi vestra á svæði norðan Vatnajökuls til að taka þátt í Hálendisvaktinni. Þátttaka Húna er orðin að föstum lið í starfseminni en þetta er tíunda árið í röð sem hópur er sendur frá sveitinni í Hálendisvaktina. Með Húna í för eru félagar úr Björgunarsveitinni Strönd á Skagaströnd og tveir menn frá systursamtökum Landsbjargar í Wales. Hópurinn var varla mættur á Hálendisvaktina er fyrsta aðstoðarbeiðni barst. Um var að ræða bilaðan rússn-eskan eðalvagn. Framhjólin voru ekki samstíga hvert skildi stefna eins og fram kemur á fésbókarsíðu Húna og sjá má á meðfylgjandi mynd. /KSE Lada Rússanna innskeif. MYND: HÚNAR

x

Feykir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.