Feykir


Feykir - 18.02.2016, Blaðsíða 4

Feykir - 18.02.2016, Blaðsíða 4
4 07/2016 Tólf þúsund efnissíður nú aðgengilegar á netinu Húnavökuritið er komið á Tímarit.is Húnavaka, rit Ungmennasam- bands Austur-Húnvetninga, hefur verið birt á vefsíðunni timarit.is. Að sögn Ingibergs Guðmundssonar ritstjóra var vaxandi eftirspurn á að koma efni Húnavöku á netið svo það yrði öllum aðgengilegt. Samningur við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn var gerður í lok síðasta árs um að mynda síður ritsins og lauk því verki í byrjun febrúar. „Fimm síðustu árgangarnir eru þó ekki birtir strax vegna sölu á ritinu – en hér eftir fer elsti árgangurinn inn árlega,“ sagði Ingibergur. Heimildagildi rits- ins vex eftir því sem árin líða og ljóst er að nú mun efni blaðsins verða fleirum til gagns og gamans. „Húnavökuritið er mikilvægt framlag til sögu héraðsins fyrr og síðar og hefur sem slíkt verulegt heimildagildi. Þar eru upplýsingar um mannlíf og þjóðhætti, störf, vinnubrögð og margt fleira. Ritið hefur líka verið vettvangur fyrir heima- menn til að koma margs konar efni á framfæri sem annars hefði í mörgum tilvikum legið í láginni. Hér er einnig minnst horfinna samferðarmanna og er þá ótalinn stór kafli með fréttum og veðurfari,“ segir hann. Fyrsti árgangur blaðsins kom út árið 1961 í tengslum við Húnavöku, árlega skemmtiviku Húnvetninga sem USAH stóð fyrir, og bar sama nafn og ritið. Forgangsmenn útgáfunnar voru Stefán Á. Jónsson, kennari og Þorsteinn Matthíasson skóla- stjóri á Blönduósi. Ritið var í fyrstu hugsað sem dagskrárrit fyrir skemmtivikuna og voru fyrstu tveir árgangarnir fjölrit- aðir í skólanum en síðan hefur það verið prentað á Akureyri. Ritstjórar hafa aðeins verið þrír. Matthías og Stefán fyrstu fimm árin en síðan var Stefán einn frá 1966-2008, alls 48 ár. „Stefán hafði alla tíð mikinn metnað fyrir hönd ritsins og vildi veg þess sem mestan. Hann var óþreytandi við að safna efni en skrifaði einnig töluvert í ritið, öll umsjón var í hans höndum enda var hann límið sem hélt þessu öllu saman,“ sagði Ingibergur. Hann tók við ritstjórn árið 2009 en var áður í ritnefnd Húnavöku frá árinu 1983. Jafnan er starfandi fimm manna ritnefnd og hana skipa nú; Jóhann Guðmundsson sem hefur setið í nefndinni frá árinu 1970, Unnar Agnarsson sem kom inn 1974, Páll Ingþór Kristinsson er tók sæti 1981, Magnús B. Jónsson sem hefur verið frá árinu 1983 og Einar Kolbeinsson frá 2008. Greinahöfundar allt frá grunnskólaaldri og fram yfir nírætt Frá því útgáfa hófst eru komnir 55. árgangar. Fyrsti árgangur ritsins var 62 bls. en ritið stækkaði hratt og árið 1966 fór efni þess í fyrsta sinn yfir 100 síður. Ritið náði 200 síðum árið 1970 en síðasta aldarfjórðunginn hefur það oftast nær verið milli 250 og 300 síður. Stærsti árgang- urinn var árið 1992 eða 330 síður. Alls eru efnissíður ritsins um 13.000 bls., fyrir utan aug- lýsingar eða um 230-240 bls. að meðaltali. Ingibergur sagði að um leið og ritið fór á netið var líka gerð atriðaskrá svo að auðvelt væri að leita í ritinu. Greinahöfundar Húnavöku hafa alls verið um 500 talsins, þar af tveir þriðju karlmenn og einn þriðji konur. Að sögn Ingi- bergs eru þeir á öllum aldri – allt frá grunnskólaaldri og fram yfir nírætt – og hafa margir þeirra haldið mikilli tryggð við ritið, lagt því til efni árum og jafnvel áratugum saman. „Efnið í ritinu hefur ávallt verið fjölbreytt. Þar skiptast á viðtöl, kveðskapur, frásagnir, smásögur, þjóðfræði, ættfræði, mannalátsgreinar og fréttir svo eitthvað sé nefnt. Hér skipar húnvetnskt efni eðlilega öndvegi enda ritið fyrst og fremst miðað við þann les- endahóp,“ sagði Ingibergur að lokum. Varð ástfangin og sér ekki eftir einni einustu mínútu Guðrún Lára Magnúsdóttir er frá Reykjavík en fluttist í Húnaþingi vestra fyrir tæpum 16 árum. Hún býr á Melstað í Miðfirði ásamt manni sínum Guðna Þór Ólafssyni og starfar sem leikskólastjóri á Hvamms- tanga og Borðeyri. „Ég á fjögur börn og Guðni Þór á fimm börn, ásamt einu fósturbarni. Svo fáum við til okkar yndislegan dreng einu sinni í mánuði sem mér finnst ég eiga pínu í (nú er spurning hvað foreldrarnir segja en ég tek áhættuna). Við eigum 14 barnabörn og tvö á leiðinni. Börnin okkar eru öll farin að heiman. Við búum með hund, kindur og hesta,“ segir Guðrún Lára en hún ríður á vaðið sem fyrsti aðflutti Húnvetningurinn nýjum þætti Feykis. Upprunastaður: -Ég er fædd á Bergþórugötu í Reykjavík. Tveggja ára flutti ég í Árbæjarhverfi og bjó þar alla mína barnæsku og gekk í Árbæjarskóla. Æska mín í Árbæn- um er í minningunni björt og fögur. Hvenær og hvernig kom það til að þú fluttir hingað og hvernig leist þér á það í upphafi? -Ég flutti hingað norður haustið 2000 og er því búin að vera hér bráðum 16 ár. Það voru tímamót í mínu lífi. Ég varð ástfangin af eiginmanninum og hann bjó í Húnaþingi vestra. Nú voru góð ráð dýr. Ég var tilbúin að leggja land undir fót og flytja norður. Ég sé ekki eftir því eina einustu mínútu, það að flytja norður hefur fært mér svo margt gleðilegt sem ég hefði ekki viljað missa af. Var planið að vera hér til lengri eða skemmri tíma? -Ég þekkti samfélagið sem gestur og þekkti því nokkuð af fólkinu hér þegar ég kom. Þegar ákvörðunin var tekin að flytja þá hugsaði ég með mér að ég vildi gefa þessu tíma. Ef börnin mín mundu una sér og vera ánægð þá væri ég sátt. Ég vissi þó það að maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér og því best að hugsa ekki of langt fram í tímann. Hér er ég ennþá og það segir nokkuð um hvernig mér hefur líkað. Hvernig gekk þér/ykkur að koma ykkur fyrir? -Maðurinn minn hafði búið hér í 20 ár. Mér gekk vel að koma okkur fyrir húsnæðislega séð, það krafðist þó nokkurra breytinga og var gengið í þær. Ég Guðrún Lára og Tumi Þór í gönguferð. MYND: ÚR EINKASAFNI var með þrjú börn á mínu framfæri og var ýmislegt sem þurfti að hugsa fyrir, t.d. að aðlaga þau nýjum grunnskóla. Þegar ég hugsa til baka þá gekk vel að aðlaga fjölskylduna. Hvernig gekk að komast inn í samfélagið og eignast vini? -Ég held ég geti sagt að það hafi gengið vel. Það er svo mikið komið undir manni sjálfum hvernig til tekst. Ég man þó eftir því að stundum saknaði ég þess að fólk kæmi við eins og sagt er, léti sjá sig, því var ég vön í bænum og finnst það gaman að fá fólk í heimsókn. Ég tók þátt í því sem var um að vera í samfélaginu. Átti samskipti við foreldra bekkjarsystkina barna minna. Ræktaði vináttu við þá sem ég þekkti fyrir og tengdust mér á einhvern hátt. Fór í kven- félagið, kirkjukórinn og þorra- blótsnefnd. Stofnaði saumaklúbb með nokkrum konum. Einhver eftirminnileg stund eða góð saga frá fyrsta árinu? -Það er kannski helst það að við hjón erum barnmörg alls eigum við saman tíu börn. Það komst sú saga á kreik að nýtt barn væri á leiðinni og einhverjir töldu greinilega að það væri að gerast, þótt það væri ekki á dagskrá hjá okkur. Meira að segja voru þau tvö, frekar en eitt, samkvæmt sögunni. En svona er þetta í öllum samfélögum það fer einhver saga af stað og það verður meira úr henni þegar hún fer á milli manna. Hvernig líkar þér í dag og er eitthvað sem þú hefðir viljað vita þegar þú komst hingað fyrst og vilt miðla til annarra sem eru nýfluttir á svæðið? -Mér finnst gott að búa í Húnþingi vestra, mér þykir það yndislegt og algjör forréttindi að búa hér. Melstaður er dásamlegur staður til að búa á og þangað sæki ég meðal annars lífskraftinn minn. Ég er þakklát fyrir lífið og fyrir að fá að vakna til nýs dags. Ég er kristin kona og sæki styrk minn í trúna á Jesú Krist. Ég hef haft það að leiðarljósi að vera heiðarleg og samkvæm sjálfum mér, og mér líður vel innan um fólk sem sýnir mér slíka framkomu. Það er mitt mottó að leita með hlutina til þeirra sem málið varðar og líkur eru á að geti fundið lausnir á þeim málum sem þarfnast úrlausnar. Ég segi við þá sem koma nýir inn í samfélag almennt að láta ekki annarra álit hafa áhrif á þína skoðun. Best er að kynnast fólki með opnum huga og komast sjálfur að því hvort hann eða hún reynist endilega sá eða sú sem aðrir segja. Eitthvað að lokum? -Lífið er dásamlegt í Húnaþingi vestra og sérstaklega þegar ég er að ganga með gönguhópnum mínum á morgnana í morgunkyrrðinni. Mæti síðan til vinnu og hitti samstarfsfólkið mitt og nemendur þá er lífið bara gott og það fer um mig sælutilfinning. Þakklæti er ofarlega í huga mínum fyrir nýjan dag. Guðrún Lára skorar á Dagbjörtu Diljá Einþórsdóttur að segja frá fyrstu kynnum sínum af því að búa Húnaþingi vestra. ( HINIR AÐFLUTTU ) berglind@feykir.is Guðrún Lára Magnúsdóttir / frá Reykjavík – býr á Melstað í Miðfirði UMFJÖLLUN Berglind Þorsteinsdóttir

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.