Feykir


Feykir - 04.05.2016, Blaðsíða 5

Feykir - 04.05.2016, Blaðsíða 5
17/2016 5 Hafðu samband! Hafðu samband í síma 455 7176 eða sendu Feyki póst á feykir@feykir.is Costa áfram með liðið Körfuknattleiksdeild Tindastóls -Það er lykillinn að öllu að Costa haldi áfram með liðið, sagði Stefán Jónsson formaður körfuknattleiks- deildar Tindastóls við Feyki á dögunum en Stólarnir hafa komist að samkomulagi við spænska þjálfarann, Jou Costa, um að hann haldi áfram að þjálfa Tindastól næsta tímabil. Costa tók við liði Stólanna um miðjan nóvember eftir að Pieti Poikola var látinn fara. Gengi liðsins og stemning Stólanna var ekki upp á marga fiska og því ekki annað í stöðunni en leita annað. Costa var fljótur að laga leik Tindastóls en það var þó fyrst nú á nýju ári sem hann náði að móta liðið að eigin mynd í kjölfar þess að Jerome Hill yfirgaf herbúðir Tindastóls. Caird og Björgvin semja Þá hefur Tindastóll samið við Christopher Caird til tveggja ára og mun því þessi sterki Breti spila með Stólunum næstu tvö tímabil. Caird kemur frá FSu á Selfossi þar sem hann var í hörkuformi framan af vetri en hann meiddist nú eftir áramótin. Caird er framherji, 26 ára gamall og 198 sm á hæð. Hann var með um 20 stig að meðaltali, tók yfirleitt á bilinu 7-8 fráköst í leik og átti 3,5 stoðsendingar að meðaltali í þeim 15 leikjum sem hann spilaði í vetur. Björgvin Hafþór Ríkharðs- son, leikmaður ÍR undanfarin tímabil, hefur einnig skrifað undir samning við körfuknatt- leiksdeild Tindastóls og spilar því með liðinu næsta vetur. Björgvin var einn besti maður ÍR í vetur og gerði margar glæsikörfur. Hann var með um 10 stig að meðaltali í leik, tók 6 fráköst og átti 4,3 stoðsendingar. Björgvin, sem er Borgnesingur að upplagi, spilaði alla 22 leiki ÍR í vetur. /ÓAB ÍÞRÓTTAFRÉTTIR Fleiri íþróttafréttir á Feykir.isF Stólarnir áfram Fyrsta umferð Borgunarbikarsins Fyrsti alvöruleikur knattspyrnu- vertíðarinnar hjá Tindastóli fór fram á laugardag en þá léku strákarnir við lið Dalvíkur/ Reynis í Borgunarbikar karla. Leikið var á gervigrasvelli KA-manna þar sem rétt eins og Sauðárkróksvöllur þá er völlurinn á Dalvík ekki tilbúinn fyrir upphaf fótboltasumarsins. Bæði liðin féllu í fyrra úr 2. deild og alllangur tími leið þar til mark kom í leikinn. Leikurinn var framlengdur eftir að hvorugu liðinu hafði tekist að skora í venjulegum leiktíma og það var ekki fyrr en fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik framlengingarinnar sem Ágústi Friðjónssyni, sem var þá nýkominn inn á, tókst að skora fyrsta markið. Það var síðan á lokamínútu framleng- ingarinnar sem Tindastóll fékk vítaspyrnu og úr henni skoraði Arnar Skúli Atlason. Þriðjudaginn 10. maí spila Stólarnir síðan í annari umferð en þá mæta þeir 1. deildar liði KA kl. 19:00. Keppni í 3. deild hefst 16. maí en þá spilar lið Tindastóls við Vængi Júpíters á Fjölnisvelli en fyrsti heimaleikur Stólanna er settur á 21. maí en spurning hvort hann fer fram á Króknum því vart er að sjá eitt einasta grænt gras enn sem komið er á Sauðárkróksvelli og lítið annað en kuldi í veður- spánum. /ÓAB Frábær árangur á Íslands- móti yngri flokka Júdódeild Tindastóls Júdódeild Tindastóls átti þrjá keppendur á Íslandsmóti yngri flokka í júdó sem haldið var í Laugabóli, hjá júdódeild Ármanns í Reykjavík, 30. apríl síðastliðinn. Íslandsmótið er stærsta mót ársins þar sem allir sterkustu júdóiðkendur landsins koma saman og etja kappi. Keppt er í aldurs- og þyngdarflokkum en yngri flokkar eru einskorðaðir við aldurinn frá 11 til 20 ára. Allir keppendur voru til fyrirmyndar og náðist frábær árangur þar sem Þorgrímur Svavar Runólfsson hampaði Íslandsmeistaratitli í U15 -81 og Viktor Darri Magnússon varð annar í U13 -66. /Fréttatilkynning Ömmur og afar Ömmur og afar. Afar og ömmur. Ég man alltaf svo vel eftir litla skiltinu sem hangir yfir dyrunum á baðherberginu hjá ömmu heima í sveit þar sem stendur „Guð getur ekki alltaf verið allsstaðar, þess vegna skapaði hann afa og ömmu“. Níu ára ég tók vel undir þessa staðreynd í fyrsta skipti sem ég sá skiltið. Það voru jú amma og afi sem pössuðu mig þegar foreldrar mínir fóru á söngæfingar. Hvers vegna? Nú, af því Guð getur ekki verið allstaðar. Ég fékk þá blessun að vera yngst sex systkina, systkina sem ég er þakklát fyrir á hverjum einasta degi. Mamma og pabbi tóku sér sinn tíma í að eignast okkur en það munar heilu tuttugu og einu ári á milli mín og elsta bróður míns. Hvorki meira né minna. Foreldrar mínir voru, eins og þið getið kannski giskað á, engin voðaleg unglömb þegar ég kom í heiminn og væntanlega ekki afar mínir og ömmur heldur. Þess vegna finnst mér alltaf skemmtilegt að heyra systkini mín segja sögur af öfum og ömmum mínum síðan þau voru lítil og þau þá yngri, sögur af þeim gera eitthvað sem ég kannski sá aldrei. Þá sérstaklega þykir mér vænt um að heyra sögur um hann afa Valdimar sem lést úr krabbameini áður en ég fæddist og ég fékk því aldrei að kynnast. Ekki misskilja mig, ég hef aldrei pirrað mig á því að eiga eldri ömmur og afa en flestir vinir mínir. Síður en svo. Ég á svo margar minningar úr barnæsku um ömmu Dóru og allar ferðirnar út í ísbúð. Minningar um afa Magnús að segja brandara, herma eftir veðurfréttakonunni og að fylgja mér yfir í hitt húsið ef það var komið myrkur. Ömmu Jóhönnu að elda tvíréttað (já, tvíréttað... alltaf!) í hádeginu fyrir mig, pabba og afa, og ég er svo heppin að ég fæ ennþá að skapa AÐSENT ÞÓRA KRISTÍN ÞÓRARINSDÓTTIR SKRIFAR minningar með henni, 95 ára gamalli. Öll knúsin, kossarnir, sögurnar, heilræðin og skil- yrðislausa ástin sem ég fékk frá þeim öllum. Þegar ég var 12 ára dó elsku amma Dóra og ég man það eins og það hafi verið í gær. Ég man hversu ósanngjarnt mér fannst að ég hefði ekki fengið fleiri ár með henni en lærði fljótt að vera þakklát fyrir þau ár sem ég fékk. Afi Magnús og amma Jóhanna hafa búið í næsta húsi síðan ég fæddist, sem eru þvílík forréttindi. Afi varð níræður árið 2008, þegar ég var 14 ára. Á næstu árum var afi alveg hættur að geta séð um sig sjálfur og því fylgdi skiljanlega mikið óöryggi. Enda er það eitthvað sem fólk getur rétt ímyndað sér, að geta einn daginn ekki gert hluti sem það hefur alla tíð gert. Það hryggir mig að segja að afi breyttist úr því að vera elsku afi minn yfir í að vera gamall maður í næsta húsi sem ég sinnti, en sýndi þó óbilandi ást og umhyggju. Í dag veit ég þó að þetta var alltaf hann afi minn. Ég áttaði mig á því að í staðinn fyrir að einblína á alla hans frábæru kosti, allar góðu minningarnar og allt þakklætið þá lét ég endalausar spurningar hans um hvar allir á heimilinu væru fara í taugarnar á mér og varð sár þegar hann var önugur eða pirraður. Af þessu lærði ég og núna nýt ég hverrar mínútu sem ég á með ömmu Jóhönnu, elsku ömmu minni, sem býr í næsta húsi heima í sveit. Það er sama hvað hún spyr mig sömu spurninguna oft, ég svara með brosi á vör. Ég verð ekki pirruð þegar hún man ekki að ég bý á Akureyri og vinn á leikskóla. Ég verð ekki afbrýðissöm út í þá sem eiga ömmur sem fara ennþá út í búð og koma heim með pakka eða fara ennþá til útlanda þegar ég hjálpa ömmu minni í fötin og gef henni að borða. Síður en svo. Amma mín er kona sem ég hef alltaf, alla tíð, litið upp til. Hún er dugleg, samviskusöm og yndisleg. Hún gagnrýnir ekki og er blíðasta kona sem ég veit um. Hún hefur afrekað margt í lífinu og hefur eignast svo mikið af fallegum húsgögnum og hlutum í gegnum ævina sem ég fæ aldrei leið á að dást að. Amma mín er kona sem er orðin gömul, eins og við verðum vonandi flest ef Guð leyfir. Einhvern tíma munum við ekki geta klætt okkur eða komist hjálparlaust á klósettið. Og þegar ástvinir okkar, eins og ömmur og afar eða mömmur og pabbar, þurfa á hjálp að halda þá skulum við muna að það voru þau sem kenndu okkur að labba, að skrifa og að elska. Þóra Kristín Þórarinsdóttir Þóra Kristín með Jóhönnu ömmu sinni. MYND: ÚR EINKASAFNI

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.