Feykir


Feykir - 17.03.2011, Blaðsíða 8

Feykir - 17.03.2011, Blaðsíða 8
8 Feykir 11/2011 ( ÁSKORENDAPENNINN ) Ég hef ferðast vítt og breitt um heiminn og hitt fyrir Íslendinga á ólíklegustu stöðum – í Hanoi, Höfðaborg, Bangalore og Buenos Aires. Alltaf er gaman að hitta landann í framandi umhverfi og flestir hafa þeir komið sér vel fyrir á nýjum stöðum og eru landi sínu og þjóð til mikils sóma. En það er alveg sama hversu vel þeim vegnar, almennt sækir að þeim einhver angurvær heimþrá þegar talið berst heim til Íslands og að bernsku árum þeirra heima á Fróni. Flestum þykir miður að hafa ekki greitt landinu fósturlaun sín og þeir sem eiga afkvæmi eru bitnir sektarkennd yfir því að hafa haft af börnunum þau forréttindi að alast upp sem Íslendingar. Því hvað sem segja má um hin miklu útlönd og um stöðu landsmála í dag, þá er eftir sem áður hvergi betra að vera barn en á Íslandi. Eitthvað svipað er upp á teningnum hjá brottfluttum Skagfirðingum – þeir eru aldrei fyllilega sáttir við að hafa yfirgefið Norðurlandið og ef tveir slíkir hittast þá er ekki verið að ræða um Icesave eða Stjórnlagaþingið heldur um alla þá góðu kosti sem prýða Skagfirðinga og Skagafjörð. Ég er sjálfur fæddur á Ísafirði um miðja síðustu öld og alin þar upp og víðar á Vestfjörðum. Samt var mér frá fyrstu tíð innprentað að ég væri Skagfirðingur. Mamma var þaðan og allt hennar fólk aftur í miðaldir, hennar frændgarður hafði búið í öllum sveitum Skagafjarðar frá fremstu dölum og út allar sveitir. Pabbi átti sitt fólk í Húnavatnssýslum og á Barðaströndinni, en það var ekki talið skipta máli. Við vorum Skagfirðingar!! Allt fólkið í kringum okkur var að vestan, innan úr Djúpi, af Hornströndum eða vesturfjörðunum. Sjálfbjarga, harðduglegt og drífandi. Mömmu fannst það í sjálfu sér ágætt, en þau voru ekki hestamenn eða hagyrðingar. Með þessa byrði fór ég út í lífið. Vestfirðingur sem átti engan frændgarð fyrir vestan, Skagfirðingur sem aldrei hafði búið í Skagafirði. Árin fyrir vestan voru spennandi mótunarár og sumrin í sveitinni hjá afa og ömmu á Hofi við Hofsós voru yndisleg. Mér fannst ég tilheyra báðum heimum og vildi helst fá að skilgreina mig sem vestfirskan Skagfirðing. Svo kom allt í einu að því að ég varð að gera upp hug minn. Vildi ég vestur eða norður. Ég hafði rétt lokið mínu háskólanámi og Jón Baldvin bauð mér að kenna í eitt ár við Menntaskólann á Ísafirði, en á sama tíma var mér boðið að taka í nokkra mánuði við stöðu framkvæmdastjóra sútunarverksmiðjunnar Loðskinns á Sauðár- króki. Amma á Hofi sagði að ég ætti að fara norður, það væri heitt vatn á Króknum en ekkert á Ísafirði. Hún fékk að ráða og mánuðirnir á Sauðár- króki urðu 116, drengirnir okkar Maríu urðu þrír, vinir margir og félagar óteljandi. Nú er ég sannarlega orðinn Skagfirðingur. Tel það kost á hverjum manni að vera að norðan, spyr gjarna nýja starfsmenn mína hvort þeir séu ekki Skagfirðingar, les Feyki mér til sáluhjálpar, gleðst óendanlega yfir því að sjá að mitt gamla fyrirtæki er í góðum höndum og verð að endurnæra mig með skagfirsku sumarlofti „handan vatna“ á hverju sumri til að halda sönsum. Vinahópurinn að norðan, karlar og konur, hittist yfir veturinn einu sinni í mánuði í laugardagshádegi til að taka stöðu heimsmálanna, sem oftast snúast um Skagafjörð. Þeir sem enn búa fyrir norðan eiga að sjálfsögðu ekki alltaf heimangengt, þess vegna tökum við langa helgi í lok júlí á hverju sumri til að stilla saman strengi og halda vinskapnum lifandi. Þessi félagsskapur gefur lífinu fyllingu og lit og dregur úr sektarkennd okkar sem erum brottflutt. Norðurlandið hverfur aldrei alveg, við erum enn heima. - - - - - Ég skora á félaga minn Jónas Snæbjörnsson fyrrverandi umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Norðurlandi með aðsetur á Sauðárkróki, að skrifa næsta pistil. Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu Nú er horfið Norðurland, nú á ég hvergi heima Trésmiðjan Stígandi ehf. á Blönduósi hóf starfsemi 1. maí 1947 og telst fyrirtækið því í hópi elstu byggingarfyrirtækja á Íslandi. Um 20 manns skipa að jafnaði samheld- inn starfshóp sem hefur fagmennsku og vönduð vinnubrögð að leiðarljósi enda flestir fagmenntaðir smiðir og hafa mjög mikla reynslu í starfi. Þekking þeirra og útsjónarsemi ásamt vönduðum tækja- búnaði gerir félaginu kleift að leysa flókin verkefni af ýmsu tagi. -Starfsemi fyrirtækisins er tví- þætt, segir Einar Kolbeinsson framkvæmdastjóri Stíganda. –Annarsvegar erum við með vinnuflokk úti sem eru í nýbyggingum og hvers konar viðhaldi á svæðinu og hinsvegar erum við með vel búið verkstæði. Þar smíðum við m.a. innréttingar og innihurðir af ýmsu tagi ásamt margskonar sérsmíði á stigum, gluggum og hverju öðru er viðskiptavini okkar vanhagar um hverju sinni. Við höfum verið mikið í endurbótum á gömlum húsum og sérsmíði í kringum það. Einar segir að smíðin á verkstæðinu sé að stærstum hluta fyrir viðskiptamenn utan héraðsins og mest á höfuð- borgarsvæðinu. Fyrirtækið hefur um árabil notið góðs af mjög góðu samstarfi við marga af færustu arkitektum landsins og eru hnökralaus samskipti hönnuða og framkvæmdarað- ila lykillinn að vel heppnuðu verkefni ásamt faglegum vinnubrögðum. Stór verkefni hjá Stíganda eru nú að baki eins og sund- laugarbyggingin á Blönduósi ásamt nokkrum öðrum hús- byggingum og er nú aðallega verið að sinna viðhaldsverk- efnum þar sem lítið er um nýbyggingar. Einar segir að verkefnin hafi breyst eftir hrunið, þannig að meira sé um einfaldari innréttingar. –Það er minna um mikinn íburð eins og var fyrir hrun. Þá var ekki endilega verið að spá í hvað hlutirnir kostuðu. Nú er leitað eftir ódýrari eða venjulegum útfærslum ef hægt er að orða það svo, segir Einar. -Áður var mikið smíðað beint frá arkitektum sem vildu meiri íburð en það hefur minnkað eitthvað þó ekki sé það búið. Nú er meira smíðað beint fyrir kúnnann en þó finnst mér vera aukning í tilboðsbeiðnum frá arkitektunum. Stígandi hefur verið í nokkuð merkilegri sér- smíði fyrir Nýja bíó í Lækjar- götu sem varð eldi að bráð fyrir nokkrum árum. –Við erum núna að klára að smíða gluggana í þá byggingu en það er mjög flókin smíði. Þeir eru stórir og flottir,bogadregnir og sveigðir með ótal póstum og þetta er búið að vera mikið ævintýri, segir Einar en smíðin krafist þess að góður og full- kominn tækjabúnaður væri notaður við hana. Einnig voru hurðirnar smíðaðar hjá fyrir- tækinu, stigi í húsið og gegn- heilar innihurðir með fulning- um, allt í gömlum stíl. Stígandi hyggst endurnýja vélar og tæki á næstunni og þá þarf að byggja við núverandi húsnæði. –Við höfum fest kaup á tölvustýrðri plötusög og þurftum að byggja við til að koma henni fyrir. Einnig er ætlunin að koma upp aðstöðu á Hnjúkabyggðinni en þar höfum við afdrep fyrir úti- deildina. Einar segir að fyrir- tækið hafi verið vel tækjum búið en það þarf alltaf að endurnýja og styrkurinn liggur í því að geta tekið að sér fjölbreytt verkefni og samnýtt gömlu iðn-verkþekkinguna og nýjustu tækni til að leysa flókin verkefni. Stígandamenn líta björtum augum til framtíðar enda ýmis tækifæri til staðar og þeir tilbúnir til að sinna öllum þeim verkefnum sem kunna að rata á þeirra borð. Fyrirtækið skartar glæsilegri heimasíðu á Netinu þar sem hægt er að fræðast nánar um fyrirtækið og skoða þá framleiðslu og þjónustu sem í boði er bæði í máli og myndum og er slóðin http://www.stigandihf.is Fyrirtæki vikunnar Trésmiðjan Stígandi Innréttingar og sér- smíði er okkar fag Bogadregnu gluggarnir í Nýja bíó er sannkölluð listasmíð. Ýmislegt í gangi hjá verkstæðismönnum.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.