Feykir


Feykir - 07.06.2012, Blaðsíða 4

Feykir - 07.06.2012, Blaðsíða 4
4 Feykir 22/2012 Smá í Feyki :: Síminn er 455 7171 smá AUGLÝSINGAR Kvígur til sölu Til sölu kvígur. Burðartími júní – júlí. Upplýsingar í síma 862 5653. - Halldór RAV 4 til sölu Eldhress 3ja dyra RAV4 er til sölu. Bíllinn er árgerð 2004, ekinn 66 þúsund kílómetra og afar vel með farinn. Upplýsingar í síma 893 5417. - Brynjar Hvolpar til sölu Gullfallegir, hreinræktaðir Labradorhvolpar til sölu. Upplýsingar í síma 892-1803 eða á helga1967@hotmail.com Sigursagan Ljóða-, smásögu- og ljósmyndakeppni Húss frítímans Hús frítímans efndi til ljóða-, smásögu- og ljósmyndakeppni fyrir Sæluviku þar sem þema keppninnar var að leyfa sköpunar- gleði Skagfirðinga að njóta sín í máli og myndum. Dæmt var eftir því hvernig höfundar náðu að fanga skagfirska sælu í verkum sínum. Feykir birtir verðlaunaverkin og nú er komið að smásögunni „Sveitasæla“ eftir Eddu Vilhelmsdóttir en fyrir hana fékk hún fyrstu verðlaun. /PF EDDA VILHELMSDÓTTIR Sveitasæla Dagurinn var hlýr, glampandi sól og sunnan- þeyr. Ég horfi á grasið bylgjast í golunni, nýt ilmsins af nýslegni og þurrkaðri töðunni. Ýti tánni í nýsleginn skárann og velti honum við, skelkaður ánamaðkur hraðar sér niður undir yfirborðið. Hrokafull könguló skrönglast á milli stráa, upphafin á sínum ódauðleika. Slapp við ljáinn. Sólin lækkar á lofti, skuggar líða um brekkurnar og teygja langa dökka fingur út með ásnum. Dúnmjúk grá slæða, liðast um fjalltoppana, smá þéttist og verður að feimnum dansandi hnoðrum sem stækka og hoppa, létt fram og til baka.Vita að þeim er óhætt fram að sólarupprás. Niður vatnanna virðist hækka í kyrrðinni, færist nær og nær, uns ég hverf inn í hann, samsamast honum. Ég finn ekki þyngdarlögmálið, verð sviflétt og finn ólýsanlega vellíðan og birtan er engu lík. Í fjarlægð vellur spóinn hvellt, ég kem snöggt inn í veruleikann, finn vonbrigði og söknuð. Ég hef skynjað eitthvað ólýsanlegt, eitthvað himneskt. Var þetta brot af eilífðinni? Já þetta var hún. Nú kvíði ég engu. Edda Vilhelmsdóttir (t.v.) tekur við verðlaunum fyrir bestu smásöguna. Fyrsta ferðin ógleymanleg Gengið um Austurdal Gísli Rúnar hefur boðið upp á eina til tvær ferðir á sumri frá árinu 2005 en áhugann segir hann hafi kviknað um tveimur árum áður. „Ég fór sem leiðsögumaður fyrir Ferðafélag Skagfirðinga niður dalinn sumarið 2003 og upp úr kviknaði áhugi á að bjóða upp á svipaðar ferðir.“ Gísli Rúnar sem er borinn og barnfæddur Skagfirðingur, frá Frostastöðum í Blönduhlíð, fór í fyrsta sinn í Austurdalinn haustið 1983. Hann rifjar upp þegar þeim Stefáni Hrólfssyni á Keldulandi kom saman um að hann myndi fara með þangað í göngur. „Ég var við fjárdrátt í Silfrastaðarétt á mánudegi, hafði verið í göngum í Silfrastaðaafrétt þá um helgina. Síðan rákum við safnið áleiðis út Blönduhlíð og fyrir neðan Sunnuhvol mættum við þeim Sigurði Hansen og Þórólfi á Hjaltastöðum, ríðandi með hóp af hrossum. Þeir voru á leið í Austurdalsgöngur og ég sneri við og slóst í för með þeim,“ segir Gísli Rúnar en þá segir hann að gangnatilhögun hafi verið nokkuð önnur en í dag því Hildarsel var ekki komið til sögunnar. „Þennan dag riðum við í Merkigil og gistum þar. Daginn eftir riðum við fram í Grána í glampandi sólskini og sterkjuhita. Sá dagur er mér ógleymanlegur og ætli megi ekki segja að þá hafi ég kolfallið fyrir dalnum,“ rifjar hann upp. Gísli Rúnar segir erfitt að benda á hvað það er nákvæmlega sem gerir dalinn svona einstakan en í hans huga er það ekkert eitt atriði, heldur spila ýmsir þættir þar inn í. „Náttúrufegurðin er mikil, auk þess ósnortin og metur fólk það mikils. Þá er einstök veðursæld í dalnum. Fyrrum var talsverð byggð í Austurdal og margar sögur til frá þeim tíma, bæði af fólki og draugum. Sjálfsagt er það einhver blanda af þessu öllu, ásamt einhverju öðru, sem gerir dalinn svona sérstakan og upplifunina jafn áhrifamikla og raun ber vitni.“ Fleiri og öðruvísi gönguferðir Gísli Rúnar ætlar að bjóða upp á fimm gönguferðir í sumar, í samstarfi við ferðaþjónustuna á Bakkaflöt, með ólíku sniði og áherslum. „Hingað til hefur þetta verið tómstundagaman hjá mér en í sumar ætla ég að prófa að bjóða upp á fleiri ferðir og öðruvísi,“ segir hann. Tvær helgarferðir verða um Austurdalinn og verður önnur þeirra fjölskylduferð um verslunarmannahelgina en þar verða gengnar stuttar dagleiðir um gott gönguland. Ein ferð verður farin úr Hjaltadal í Blönduhlíð og gist í tjöldum á Austurdalurinn í Skagafirði er ósnortin náttúruperla úr alfaraleið. Gísli Rúnar Konráðsson hefur boðið upp á gönguferðir niður dalinn undanfarin ár en þetta árið segist hann ætla að bjóða upp á fleiri ferðir og öðruvísi. Tjaldeyrum á Vindárdal. Dagana 23. - 27. júlí verða síðan sérstakir göngudagar sem hann kallar „Gönguvika - gleðibragur og gamlar sagnir“. Þá verða farnar dagsferðir vítt og breitt um Skagafjörð alla dagana, t.d. með Bólugili og Kotagili og upp í Tryppaskál en samkvæmt Gísla Rúnari verður hægt er að velja einn dag eða fleiri eftir áhuga hvers og eins. Síðasta ferð sumarsins verður svo farin í ágúst úr Eyjafirði í Skagafjörð og verður þá farin nokkuð óhefðbundin leið að hluta til. „Gengið verður frá Hólsgerði upp í Bergland fyrsta daginn og næsta dag niður á Fossárdal og í Hildarsel. Síðasta daginn er haldið niður úr og endað á Bakkaflöt,“ segir Gísli Rúnar. Aðspurður um hvort gönguferðirnar henti öllum svarar hann að flestar þeirra geri það en þó sé betra að vera sæmilega á sig kominn í ferðinni yfir Nýjabæjarfjallið, þ.e. úr Eyjafirði í Austurdal. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Bakkaflatar, bakkaflot. com undir Afþreying en hægt er að skrá sig í ferðirnar í netfanginu g.konradsson@gmail.com og eftir 28. júní í síma 893 6634. Einnig er hægt að hafa samband við Bakkaflöt í símum 453 8245 og 453 8099. /BÞ Gísli Rúnar Konráðsson fararstjóri og göngugarpur. Gengið verður um fagra dali.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.