Feykir


Feykir - 23.08.2012, Page 9

Feykir - 23.08.2012, Page 9
31/2012 Feykir 9 ESB rothögg fyrir kúabændur Það má segja að Þórarinn og Guðrún hafi komið formlega inn í búskapinn árið 1996 þegar Keldudalsbúið ehf. var stofnað en þau áttu upphaflega helmings hlut í því, á móti foreldrum Tóta, Leifi og Kristínu. Nú eiga þau búið að fullu. „Ég hafði náttúrulega verið viðloðandi búskapinn í Keldudal frá barnæsku og vann við búið með námi,“ segir Þórarinn. Foreldrar hans höfðu rekið þar hefðbundið blandað bú, með kýr, sauðfé og hross og þegar Þórarinn og Guðrún tóku við héldu þau áfram uppteknum hætti. „Hér er ennþá rekið blandað bú, en mjólkurframleiðslan hefur þrefaldast og við leggj- um minni áherslu á hrossin en Leifur gerði. Svo eru auðvitað heimilishænur og nokkrar geitur hafa bæst við bústofn- inn,“ segir Guðrún og bætir við að sjaldan sé dauður tími á blönduðu búi og bústörfin fjölbreytt. Þau hafa bæði gaman af ræktun, bæði búfjár og nytjajurta en undanfarin ár hafa þau einnig lagt stund á kornrækt og hafa verið með um 12-15 ha af byggi. „Í vor sáðum við líka hveiti - svona til gamans,“ segir Þórarinn en hveitið virtist ætla að ná ágætis þroska - enda tíðarfar til kornræktar verið með einsdæmum gott í sumar. „Það er alltaf gaman þegar góður árangur næst,“ bætir Guðrún við og brosir. Fátt segja þau þó veita þeim meiri ánægju í þeirra búskap en að ríða út á góðviðrisdegi í Nesinu, með útsýni yfir stóran hluta Skagafjarðar. Aðspurð um afkomu búsins í dag í samanburði við fyrir bankahrunið segir Guðrún að miðað við það vinnuframlag sem bændur inna af hendi á búum sínum þá er afkoma þeirra ekki ásættanleg – það hefur lítið breyst í þeim efnum. „Við höfum nýtt þær byggingar sem fyrir voru á búinu og byggt við eftir þörfum. Það er auðvitað ódýrari leið en hjá þeim sem fóru út í að byggja nýtísku hátæknifjós. Því miður hefur stækkun búanna ekki skilað þeirri tekjuaukningu sem vænta mátti,“ segir Guðrún og útskýrir að það sé dýrt að kaupa kvóta og svo hefur verð á kjarnfóðri, áburði og olíu algjörlega farið úr böndunum eftir hrun. „Í vetur byggðum við 1.800 m3 haugtank og keyptum 14 tonna haugsugu og slöngubúnað, til að bæta nýtinguna á skítnum, koma honum á túnin á besta tíma. Þessar fjárfestingar kosta sitt, en til lengri tíma litið á þetta að spara áburð og bæta þannig reksturinn,“ segir hún. Aðildarviðræður Íslands að ESB báru á góma, enda mikið hitamál hjá bændum í dag. Samkvæmt Guðrúnu eru yfir 90% bænda á móti inngöngu í Evrópusambandið. „Fyrir okkur kúabændur væri það náttúrulega nánast rothögg,“ segir Guðrún og útskýrir nánar: „Núna búum við í skjóli tollverndar sem verður úr sögunni við inngöngu í sambandið. Yfir helmingur af okkar framleiðslu fer í osta sem er sáraeinfalt að flytja inn í gámum ef tollmúrarnir falla. En sem almennur Íslendingur þá er það náttúrulega algjörlega fráleitt að framselja yfirráð yfir okkar auðlindum til Brussel.“ Mannabein í bakgarðinum Í Keldudal er einnig rekin ferðaþjónusta og segir Guðrún hana upphaflega hafa byrjað þegar hætt var að nota gamla húsið á jörðinni sem íbúðarhúsnæði. „Leifur og Kristín gerði húsið upp og leigðu það ferðamönnum í kjölfarið. Þá kom í ljós að nokkuð meiri eftirspurn var eftir gistingu hér en þau gátu annað,“ útskýrir Guðrún. „Við ákváðum því árið 2002 að byggja sumarhús til útleigu. Við fengum til þess styrk frá Framleiðnisjóði og komum húsinu að stórum hluta upp sjálf þannig að þetta voru ekki mikil fjárútlát.“ Þegar Þórarinn var að taka grunninn að ferðaþjónustuhúsinu komu í ljós merkar minjar sem áttu eftir að varpa áður óþekktu ljósi á sögu jarðarinnar – kirkjugarð frá 11. öld og landnámsskála. „Ég kom niður á kirkjugarðinn þegar ég var að taka grunninn að ferðaþjónustuhúsinu og við fengum Þór Hjaltalín frá Fornleifavernd á staðinn til að kíkja á þetta. Fyrst fundum við bara fjórar grafir og okkur datt reyndar alls ekki í hug að þær myndu enda í 54!“ segir Þórarinn. „Fyrst var bara tekinn upp sá hluti sem var undir húsinu svo að við gætum byrjað að byggja. Sumarið eftir var vestari hlutinn tekinn upp - með teskeiðum,“ útskýrir Guðrún og hlær. Þegar búið var að hreinsa allt burt kom svo í ljós að undir vestasta hluta garðsins var langhús, væntanlega frá landnámi. Þórarinn segir það bíða betri tíma að klára upp- gröftinn á skálanum. Þetta vor fannst líka kumlateigur með fjórum gröfum um 500 metra norðan við bæinn. „Árið 2007 byggðum við við íbúðarhúsið en þá fundum við fjós fyrir um 18 gripi sem hefur líklega verið í notkun á sama tíma og skálinn. Þetta var ansi skemmtilegur tími, sérstaklega þegar var verið að grafa upp kirkjugarðinn. Það eru margir spenntir fyrir þessu,“ segir Guðrún en á Keldudal var ekki minnst í ritheimildum fyrr en á 13. öld og því ljóst er að þessir merku fornleifafundir varpa ljósi á sögu Kelddælinga nokkur hundruð ár fyrr en ætlað var í fyrstu og gefa einstaka sýn á lifnaðarhætti fólks frá upphafi Íslandsbyggðar og í frumkristni. Græjan lofar góðu Hjónin í Keldudal hafa verið útsjónasöm og ófeimin við að fara ótroðnar slóðir til að bregðast við hinum ýmsum hindrunum sem verða á vegi þeirra, jafnt og öðrum bændum. Þá eru þau m.a. búin að fylla upp í liðlega 3 km af skurðum á jörðinni. „Það var farið miklu offari í skurðgreftri á árum áður og svo minnkar þörfin fyrir skurðina þegar landið þornar upp. Það er ógrynni af landi sem fer undir skurði og það gerir alla jarðrækt, jarðvinnslu og fóðuröflum mun auðveldari þegar skurðirnir eru ekki til staðar,“ segir Guðrún en skurðirnir eru ýmist drenaðir með rörum og börkum eða grófri möl og grjóti. Þau fjárfestu nýverið í vökv- unarkerfi til að sporna gegn þeim þurrkum sem hafa herjað á Norðurlandið undanfarin sumur. „Vökvunarkerfin eru notuð út um allan heim, þó svo að þau séu núna fyrst að koma til Íslands. Það er afar lítil úrkoma hér í Hegranesi en steininn tók þó úr í fyrrasumar þegar stór hluti af túnunum okkur þurrkbrann,“ útskýrir Þórarinn. Þegar Finnbogi Magnússon í Jötunn-Vélum heimsótti hjónin í Keldudal síðasta vetur til að kynna fyrir þeim vökvunarkerfi hafði hann með í för sérfræðinga frá Ítalíu sem kortlögðu jörðina fyrir þau og ráðlögðu þeim hvaða tegund hentaði og hvernig best væri að koma kerfinu fyrir. „Hér er nóg að vatni svo að þetta er tiltölulega einfalt hjá okkur. Vatni er dælt með rafmagnsdælu að vökvunarhjóli sem er með 400 metra slöngu. Til að byrja með knúðum við dæluna með varaaflsstöð sem við áttum, en núna erum við búin að leggja rafstreng að dælustað sem dugar fyrir stóran hluta af túnunum,“ útskýrir Þórarinn en rafmagnið er mun ódýrara en olían. „Í dag er heilmikil vinna að færa kerfið til, sérstaklega þar sem langt er í vatn. Ætlunin er að byggja upp fastar vatnslagnir frá dælustaðnum þannig að fljótlegt sé að koma kerfinu upp þegar þarf. Þetta er mest á tilraunastigi ennþá, engin þekking er hér á landi hve mikið á að vökva og hve oft. Við erum þó þegar búin að fá nokkra reynslu á kerfið og erum t.d. búin að vökva nýrækt frá því í fyrra sem við erum nú þegar búin að slá tvisvar sinnum og stefnum á þriðja slátt í lok ágúst. Við vökvuðum kálakur við sáningu sem er tilbúinn til beitar og 6 ha nýrækt sem við vökvuðum lítur ágætlega út, það er að segja, sá hluti hennar sem við náðum að vökva,“ útskýrir hann. „Einnig getur verið mikilvægt að geta vökvað strax eftir áburðardreifingu eða drulludreifingu þannig að áburðarefnin fari strax að virka og drullan er þvegin niður í svörðin þannig fóður spillist ekki. Í sumar erum við búin að dæla um 15.000 tonnum af vatni á tún og akra, en 200 tonn á hektara jafngilda 20 mm úrkomu,“ segir Þórarinn í lokin. Vökvunarhjólið verður til sýnis á Sveitasælu sem fram fer í Reiðhöllinni Svaðastaðir um helgina og þá geta þeir sem hafa áhuga séð hvernig búnaðurinn vinnur. Vökvunarkerfið heldur grasinu grænu í Keldudal. Horft yfir búið í Keldudal með Blönduhlíðina í baksýn. Mynd: GL Skítur borinn á túnin með haugsugu og slöngubúnaði sem hjónin fjárfestu nýverið í. Breiddin á búnaðinum er 16m. Mynd: GL.

x

Feykir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.