Feykir


Feykir - 30.08.2012, Blaðsíða 9

Feykir - 30.08.2012, Blaðsíða 9
32/2012 Feykir 9 ( ÁSKORENDAPENNINN ) berglindth@feykir.is Haustið nálgast, það finnur maður á lyktinni þegar maður hnusar út í loftið. Það er einhver sérstakur ilmur af hausti í loftinu, svona blandaður angann af berjum, kólnandi veðri sem kitlar í nefið og gróðri sem byrjaður er eilítið að fölna. Alveg eins og þegar maður finnur ilmandi angan af vori, finnur maður lykt af hausti. Tilhlökkun í brjóstum sumra barna brýst fram, skólinn að byrja og þau hlakka til að sjá félaga sína sem hafa á einhvern óskiljanlegan hátt horfið út í vorið og sumarið við skólalok. Kunnugleg andlit fara að sjást aftur og ný að koma í ljós. Misjafnt er hvernig börn og unglingar upplifa skólagöngu, fyrir suma er þessi tími, tími martraðar, en fyrir aðra er þessi tími besti tíminn lífsins. Sumir eru heppnari en aðrir. Ég er á meðal þeirra heppnu. Ég átti góða vini í skóla á mínum grunnskólaárum, vini sem eru enn vinir mínir í dag og ég er í góðu sambandi við. Ég átti bæði stráka- og stelpuvini. Bekkjaskiptingin var frekar óhagstæð, sérstaklega í danstímum, þá aðallega fyrir strákana. Við vorum sem sagt fjórar stelpurnar en átján strákarnir í bekknum. Bekkurinn minn var upp úr 6. bekk þekktur fyrir að vera erfiðasti bekkurinn í skólanum, strákarnir sáu um fjörið og óþekktina. Oft fann ég til með kennurum mínum og oft leið mér illa yfir því hvernig drengirnir gátu látið, það var enginn friður til að læra. Stundum heyrðist í kennurunum þegar drengirnir létu sem verst og kennarinn var búinn að vísa stórum hluta af bekknum út úr tíma (það var nú oft markmiðið til að komast út í fótbolta) að það yrði aldrei neitt úr þeim, þar sem þeir nenntu ekkert að læra. Ég held að það hafi nú ekki verið meðvitað hjá blessuðum kennurunum okkar að reyna að brjóta okkur niður andlega, en samt held ég að upp frá þessu hafi ég sjálf farið að finna fyrir prófakvíða sem fylgdi mér síðar í gegnum skólagöngu og upp í háskóla. Í hverjum skóla er að minnsta kosti eitt hrekkjusvín. Það var einnig í mínum skóla. Aðal hrekkjusvínið skólans var strákur sem var yngri en ég. Hann var hærri og mun þreknari en ég og maður forðaðist að horfa framan í hann hvar sem maður mætti honum. Einhverra hluta vegna lenti ég þó aðeins einu sinni í viðskiptum við þennan pörupilt. Það var einn dag að ég þurfti að sendast eitthvað í bæinn. Ég fór á græna DBS hjólinu mínu sem ég fór allra ferða minna á. Sennilega hef ég verið á fleygiferð á hjólinu, því að alltaf var verið að keppast við tímann. Þegar ég er komin í götu hrekkjusvínsins tek ég eftir því að hann kemur æðandi út úr garðinum og í áttina til mín. Hann réttir út aðra höndina þar sem ég renni hjá honum og á mér skellur þessi rokna kinnhestur. Ég missi stjórn á hjólinu og dett. Þegar ég hafði áttað mig á því hvað gerst hafði rann á mig eitthvað æði, svo brjáluð varð ég af reiði og sársauka. Við þetta var mér gefinn einhver kraftur sem ég hef aldrei síðan skilið. Ég henti frá mér hjólinu, hljóp öskrandi á eftir hrekkjusvíninu, náði honum fljótt og hafði hann undir. Með annarri hendinni hélt ég hausnum föstum og með hinni hendinni, snéri ég upp á eyra stráksins. Þannig dró ég strákinn, ég sem hafði fengið verðlaun í skólanum fyrir háttvísi, upp að húsinu heima hjá honum, hratt upp hurðinni að vaskahúsinu og síðan að eldhúsinu, henti honum fyrir framan fætur móður hans sem sötraði kaffi í mestu makindum og sagði við hana: „Hér hefur þú hrekkjusvínið hann son þinn og hér hefur þú sannanir.“ Það var nefnilega með þennan dreng, eins og stundum vill verða að móðir hans trúði aldrei neinu illu upp á drenginn, það var yfirleitt einhverjum öðrum um að kenna þegar kvartað var undan bolabrögðum hans og fantaskap. Að þessu sinni var hlustað, enda sönnunargagnið, eldrautt og þrútið handafar á andliti mínu eftir skellinn. - - - - - Matthildur skorar á Arnrúnu Höllu Arnórsdóttur að taka við pennanum. Matthildur Ingólfsdóttir skrifar frá Sauðárkróki „Hér hefur þú hrekkjusvínið hann son þinn“ ( MYND VIKUNNAR ) Við skoðun á ýmsum pappírum og myndum í dánar- búi foreldra minna Ingibjargar Óskarsdóttir og Jóns Dagssonar fann ég einstaklega skemmtilega mynd. Ég ímynda mér að hún sé tekin sumarið 1961 í kaffitíma sennilega eftir hádegi, og að þeir sem á myndinni eru, sitji undir vinnupöllum við sjúkrahúsið þegar það var í byggingu en það var tekið í notkun haustið 1961. Klæðnaður á körlunum sýnist mér benda til að þeir hafi verið að vinna utan á húsinu. Fremstur á myndinni er Jói múr (Jóhann Guðjóns- son), þá Gunnar Jóhannsson (dóttir hans er Hrönn Gunnarsdóttir), Raggi múr (Ragnar Guðmundsson) og Jón Dagsson. Jón og Gunnar voru bræður. Jói múr var meistari þeirra allra og þeir unnu saman þessir fjórir til margra ára við múrverk. Ragnar Guðmundsson var frækilegur og landsþekkt- ur íþróttamaður á þessum árum. Árið 1957 vann hann langstökk karla á landsmóti UMFÍ á 6.36 m og Skinfaxi segir 1961 að besta hlaupafrek ársins í 100 m eigi Ragnar Guðmundsson UMSS 11.0 sek. Sumarið 1962 keppir hann á Norðurlandsmóti í frjálsum á Akureyri og sigrar í langstökki með 6.12 m og er annar í 100 m á 11.3 sek. Bjarni Dagur Jónsson Fjórir múrarar Felur í sér fórnarlund fyrri tíma saga. Mæddur smali með sinn hund mátti víða kjaga. Það var oft og einatt kalt eftir fé að líta. Þegar nepjan þjáði allt þurfti á jaxla að bíta. Þó við ramman reynsludóm ræktarviljinn herðist, lítill karl á lökum skóm lúinn oft þá gerðist. Ungur smali einn og sér elur hugsun marga. Heillir sinnar hjarðar ver, hefur mörgu að bjarga. Ábyrgð hans er ekki smá, oft því kvíði í huga. Ærin þörf að varast vá, voldug skylda að duga. Þannig ábyrgð þroskuð var þjóðlífs upp frá grunni. Byggt upp ærlegt eðlisfar úti í náttúrunni. Vantar nú þann góða grunn, glöggt það sagan kennir. Lífs við breytta aðfalls unn annað málin spennir. Þeir sem stjórna þjóðar lýð þekktu dáð og lensku, ef þeir hefðu á æskutíð átt við smalamennsku! Vísur um smalamennsku FRÁ LESENDUM RÚNAR KRISTJÁNSSON SKRIFAR BORGARFLÖT 7 SAUÐÁRKRÓKI SÍMI 4557171 NYPRENT@NYPRENT.IS ÞEGAR ÞÚ ÞARFT HÖNNUN - PRENTUN SKILTI - STRIGAMYND

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.