Feykir - 30.08.2012, Side 8
8 Feykir 32/2012
ÞA K K I R
Þökkum innilega samúð og hlýhug við andlát
og útför bróður okkar og mágs
Jóns Hjörleifssonar
Kimbastöðum Skagafirði
sem lést 17. júlí og var jarðsettur 28. júlí.
Sigurþór Hjörleifsson
Unnur Hjörleifsdóttir
Svavar Hjörleifsson, Guðrún Antonsdóttir
Hróðmar Hjörleifsson
Reynir Hjörleifsson, Sigríður K. Skarphéðinsdóttir
börn, barnabörn, barnabarnabörn og aðrir vinir og vandamenn.
Hann var fallegur sumar-
dagurinn þegar við vinir og
ættingjar Jóns á Kimba-
stöðum kvöddum hann hinstu
kveðjunni. Sólin skein í heiði
og lýsti upp hvern kima þessa
fagra héraðs sem hann hafði
bundið við tryggðir og geymdi
stærstan hluta ævistarfsins.
Jón fæddist á Auðnum á
Vatnsleysuströnd elstur 6
barna foreldra sinna. Fyrstu tíu
ár ævinnar dvaldist hann hjá
föðurforeldrum á bænum
Snartartungu í Bitru í
Strandasýslu en fluttist haustið
1936 til foreldranna suður í
Reykjavík og gekk þar í
barnaskóla þann vetur.
Veturinn 1937 festu foreldrar
hans kaup á Kimbastöðum og
fluttust þangað búferlum um
vorið með syni sína en dóttirin
fóstraðist upp hjá móður-
foreldrum. Fimmtán ára varð
Jón fyrir þeirri lífsreynslu að
veikjast af berklum og lá
rúmfastur á sjúkrahúsinu á
Sauðárkróki í fögur ár og
dvaldist síðan á Reykjalundi
einn vetur við endurhæfingu.
Baráttan við þessi veikindi
settu mark sitt á Jón og munu
án vafa hafa dregið úr þrótti
hans þótt hann léti það ekki
uppi sakir meðfæddrar
kappsemi og karlmennsku.
Hann tók til við bústörf þegar
eftir heimkomuna og réðst
einnig tvo sumarparta til vinnu
utan héraðs. Tuttugu og tveggja
ára gamall lagði hann leið sína í
Héraðsskólann á Laugum í
Reykjadal og dvaldist þar tvo
vetur við nám. Seinni veturinn
tók hann með sér tvo reiðhesta,
keypti handa þeim fóður og
þjálfaði þá um veturinn í
frístundum frá náminu. Ekki
varð af frekari skólagöngu
enda mun ekki annað hafa
vakað fyrir honum en að bæta
sér upp þá skólagöngu sem
örlögin höfðu svipt hann með
sjúkdómslegunni. Vinna við
bústörf átti vel við Jón á
Kimbastöðum og þegar eftir
skólagönguna hóf hann störf
við búið og kom sér jafnframt
upp nokkrum bústofni. Hann
var náttúrubarn að upplagi og
dýravinur. Hestar höfðu frá
fyrstu búskaparárum fjöl-
skyldunnar á Kimbastöðum
skipað ríkan sess jafnt til
bústarfa sem ferðalaga og
yndisauka. Jón hafði mikið
yndi af hestum og var laginn
hestamaður enda nær alltaf vel
ríðandi. Kimbastaðir höfðu
verið í eyði um nokkurra ára
skeið þegar fjölskylda Jóns
fluttist þangað. Túnið hafði
verið nytjað en öll hús í
niðurníðslu og bærinn ekki
hæfur til íbúðar. Á þessu varð
fljótt breyting og Kimbastaðir
urðu í fremstu röð góðbýla
jafnt og tækni fleytti fram í
héraðinu. Þar tókust í hendur í
sátt gamli tíminn og sá nýi og
gengu í merkilegt bandalag.
Byggingar risu af myndarbrag,
túnasléttur margfölduðust að
stærð og vélar og tækni ruddu
á brott úreltum vinnuaðferðum
en jafnframt var íhaldssemi
viðhöfð í hverju því sem
ábúendur töldu sér betur að
skapi. Yfir öllu þessu var sú
reisn sem engum duldist og
byggðist ekki síst á óvenju-
legri snyrtimennsku og vand-
aðri umgengni ásamt hóflegri
sparsemi og virðingu fyrir
verðmætum. Yfir heimilis-
brag á Kimbastöðum var
jafnan menningarsvipur. Þar
ríkti hin þekkta íslenska
gestrisni þar sem allir voru
jafnir, en þangað lögðu líka
gjarnan leið sína skáld og
listamenn héraðsins og undu
við söng og ljóðalestur í
félagsskap með húsráðendum.
Þegar þau Kimbastaðahjón
létust með árs millibili í byrjun
níunda áratugarins tóku þeir
bræður Jón og Hróðmar
fljótlega þá ákvörðun að hægja
á umsvifum búrekstrarins. Þar
kom að hrossaræktin og
umsvif henni tengd urðu
aðalviðfangsefnið. Þar náðu
þeir skjótt góðum árangri og
eignuðust tryggan hóp
kaupenda víðs vegar um land.
Kært var með þeim bræðrum
Jóni og Hróðmari og sam-
heldni og samvinna jafnan
með miklum ágætum og
duldist það engum þeim sem
þangað lögðu leið sína. Eftir að
um hægðist með bústang tóku
þeir sig gjarnan upp og
ferðuðust um byggðir sem
óbyggðir nær og fjær; stundum
tveir saman en einnig gjarnan í
fylgd vina og kunningja.
Kimbastaðafeðgar voru félags-
menn lengi í Hestamanna-
félaginu Léttfeta og Létt-
fetafélagar áttu mikil og góð
samskipti við Kimbastaða-
heimilið enda lágu þangað
ófáir reiðtúrarnir. Þess má geta
að við Jón unnum með Haraldi
ráðunaut á Sjávarborg að
stofnun – og sátum lengi í
stjórn – fyrstu hrossaræktar-
deildar í Skagafirði, en þær
deildir urðu síðar kjarninn í
Hrossaræktarsambandi Skag-
firðinga.
Jón á Kimbastöðum var
vinsæll og virtur af öllum þeim
sem honum kynntust. Hann
var greindur vel yfir meðallag,
lundin var traust og fram-
gangan djarfmannleg og
glaðvær. Honum hefði verið
opin leið til léttrar vinnu á
skrifstofum en hugur hans
stóð til sveitastarfanna og þar
kaus hann að eyða kröftum
sínum. Hann lét þó til leiðast
að setjast í hreppsnefnd
Skarðshrepps um nokkurn
tíma og starfaði þar af fullum
heilindum svo sem honum var
eiginlegt í hverju efni. Þess
mátti sjá glögg merki í
minningargreinum sem birtust
á útfarardaginn að honum var
einkar lagið að umgangast
ungmenni sem löðuðust að
honum og minntust hans með
hlýju og söknuði. Síðustu árin
voru Jóni nokkuð örðug.
Þrótturinn þvarr jafnframt því
að sjónin dapraðist mjög og
varð ekki að gert. Við því var
að nokkru brugðist með
hljóðbókum auk þess sem
Hróðmar lagði sig fram við að
bæta honum upp sjónmissinn
með lestri héraðsfrétta og
dagblaða. Flesta daga hafði
hann fótavist og rölti þá
gjarnan til hesthúss að heilsa
upp á vini sína þar ef veður
voru hæg. Brá sér jafnvel á bak
á góðum degi enda nægur
kostur traustra gæðinga jafnan
nærtækur. Góðvinir og
ættingjar úr nágrenninu gerðu
honum heimsóknir sem jafnan
juku honum gleði. Með okkur
Jóni var góð vinátta um langa
tíð og eftir að vík opnaðist
milli vina ræddum við saman í
síma nokkuð reglulega.
Að Kimbastöðum kom ég
ævinlega er ég átti leið norður
og gaf mér jafnan góðan tíma
með þeim bræðrum. Það er
óvenjulegt nú á tímum að
setjast í hlýtt og notalegt eldhús
þar sem nútímaþægindum
hefur verið tekið með hófsemi
og eldur logar glatt undir katli
á kolaeldavél. Ég á auðvelt með
að kalla fram myndina af vini
mínum þar sem hann stendur
við eldhúsbekkinn við uppá-
hellinguna. Gjarnan að drepa
tittlinga – sem var eftirminni-
legur kækur hans – vegna
einhvers sem í tal hafði borist
því maðurinn var launglettinn
og bjó að góðri frásagnargáfu.
Það var hlutverk Jóns við
heimilishaldið eftir að þeir
bræður urðu húsráðendur að
hella á könnuna og betra kaffi
drakk ég hvergi en þar.
Jón á Kimbastöðum var
vaskur ferðamaður og góður
ferðafélagi í öllum skilningi
þess hugtaks. Honum eru
sendar þakkir fyrir vináttuna
og hlýjar kveður inn á löndin
handan Miklavatnsins.
Árni Gunnarsson
frá Reykjum
M INN I NG
Jón Hjörleifsson
bóndi Kimbastöðum
Fæddur 1. apríl 1926 Dáinn 17. júlí 2012