Morgunblaðið - 14.02.2018, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 14.02.2018, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. FEBRÚAR 2018 Hversu þreytt sem þú varst, hvað sem þrautin var sár, þá var hugur þinn samt eins og himininn blár, eins og birta og dögg voru bros þín og tár. Og nú ljómar þín sól bak við lokaðar brár. (Jóhannes úr Kötlum) Dagný, Elva, Gerður, Guðrún, Hrund Ó., Hrund S., Jórunn, Valdís, Valey, Þór- hildur, Þura. Í næsta nágrenni við okkur hefur búið undanfarin mörg ár fjögurra manna fjölskylda og stundum fimm ef hvuttarnir eru taldir með. Arndís Halla og Eyj- ólfur Rúnar ásamt dætrum tveim, Marín Rós og Rakel Rún. Katla Kristín í okkar fjölskyldu og Rak- el Rún í hinni hafa átt vináttusam- band síðan skólaganga hófst í leikskóla, allt til þessa dags, eða í 13 ár, þegar þær nú sækja nám í Fjölbrautaskóla Vesturlands hér á Akranesi. Það gefur auga leið að kynni takast á milli fjölskyldna við þær aðstæður og ýmislegt það er ber við í lífinu verður vitað og tilefni til umræðu í fjölskyldunum. Þannig fréttum við fljótt þegar í ljós kom að Arndís hafði veikst og árum saman höfum við fylgst með baráttu Arndísar og fjölskyldu hennar, við sjúkdóm sem erfitt er að ná tökum á. Við héldum stund- um að nú væri sigur unninn en sjúkdómurinn tók sig upp aftur og aftur. Það sem rekur okkur til að setja orð á blað er að láta í ljós að- dáun á baráttuvilja ungrar móður og eiginkonu. Þrátt fyrir alla erf- iðleika og vafalaust mikinn sárs- auka var Arndís alltaf viðræðugóð og glaðleg í fasi í þau skipti sem við hittumst og sama yfirbragð einkennir Rakel Rún og reyndar alla fjölskylduna. Það þarf hetjur í þetta verkefni sem fjölskyldan stóð frammi fyrir og horfðist í augu við alla daga. Við héldum að Arndís myndi í krafti vilja og stefnufestu sinnar yfirvinna sjúkdóminn. Svo reynd- ist ekki vera. Í dag er hún kvödd og hugur okkar hefur æði oft hvarflað til eftirlifenda sem nú ganga í gegn um þunga raun. Megi Guðs blessun umvefja fjöl- skyldu Arndísar og minning hennar gefa styrk og frið um ókomin ár. Katla Kristín, Svanborg og Ófeigur. Elsku Arndís Halla. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta, þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfin úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Ég mun minnast þín með hlýju í hjarta og þakklæti fyrir allt. Elsku Eyfi, Marín, Rakel, Gugga, Jói, Ástrós, Halldór og fjölskyldur, hugur minn er hjá ykkur. Sara Diljá Hjálmarsdóttir. Ég var svo lánsöm að vera ljós- móðir Arndísar Höllu þegar hún fæddist. Nú er elsku hjartans ljósustúlkan mín búin að kveðja þessa jarðvist, aðeins 41 árs að aldri. Við vorum svo heppin að þau hjónin dvöldu hjá okkur í Aust- urgerði í tæpt ár. Það var aldrei lognmolla í kringum hana nöfnu mína. Hún var ætíð glöð, kát, opin og einstaklega góð í umgengni. Eiginmaður hennar, hann Eyvi, er líka gull af manni. Þau hjónin voru ætið samhent og alltaf gam- an að vera nálægt þeim, þótt tæp 30 ár séu á milli okkar. Lánið hélt áfram að leika við okkur þegar við vorum það lán- söm að hafa hana Marín Rós, eldri dóttur þeirra, hjá okkur einn vet- ur. Hún kenndi okkur sannarlega margt, enda er hún sami frum- kvöðulinn og móðir hennar. Við minnumst þess sérstaklega að þegar Arndís Halla greindist með krabbamein í annað sinn fór Mar- ín Rós í það að láta búa til bleika boli með áletruninni „Team Arn- dis“. Hún fékk vini og vandamenn til að kaupa boli til að styrkja móður sína. Það varð til þess að um 200 manns komu saman í Smáralindinni einn laugardag, allir klæddir bleiku bolunum. Arndís Halla mætti án þess að vita hvað til stóð. Já, eplið fellur sannarlega ekki langt frá eikinni. Ekki er Rakel Rún, yngri dóttir þeirra, síðri. Það leikur allt í höndum og huga þessara stúlkna. Mikið þótti mér vænt um er Arndís Halla hringdi í mig til að fá upplýsingar um menntun í mark- þjálfun. Þá var hún búin að mennta sig sem þroskaþjálfi og vildi bæta við sig. Ég hafði sjálf tekið markþjálfun tveimur árum áður og var mér það mikill heiður að hún skyldi leita til mín. Sló hún mér svo sannarlega við á mark- þjálfunarsviðinu, þar sem hún byrjaði fljótlega að halda fyrir- lestra sem tengdust líðan með krabbamein og sjálfsbjörg við því. Hún nefndi fyrirlestra sína „mik- ill hlátur og smá grátur“, og var mér sagt að hörðustu karlmenn hefðu tárast yfir að hlusta á fyr- irlestra hennar. Mér finnst ég alltaf hafa átt mikið í elsku Arndísi Höllu minni og höfum við verið töluvert í sam- bandi. Hún kvaddi mig alltaf – „til þín elsku Halla tanta og ljósa mín“. Og ég segi til baka, þakka þér fyrir allt elsku Arndís Halla, ljósubarnið mitt og nafna. Það er í senn dálítil kaldhæðni en jafnframt gleðilegt að við Tóti erum stödd núna í San Diego í Kaliforníu, sem Arndís Halla sagði að væri uppáhaldsborgin sín. Þau hjónin og dæturnar bjuggu hér í rúmlega eitt ár. Það var þá sem krabbameinið upp- götvaðist hjá henni og byrjaði hún sína fyrstu meðferð hér. Við Tóti vottum Eyva, Marín Rós og Rakel Rún innilegustu samúð okkar. Einnig innilegar samúðarkveðjur til Jóhannesar og Guðbjargar, foreldra Arndísar Höllu, Pálínu, ömmu hennar, Jó- hönnu og Stefáns, tengdaforeldra hennar og Halldórs Bjarkars og Ástrósar Unu, systkina hennar. Guð blessi minningu Arndísar Höllu. Halla og Þórarinn. Elsku Arndís Halla okkar. Þú duglega, duglega vinkona okkar. Þú einstaka vinkona okk- ar. Þú hugrakka vinkona okkar. Þú hjartahlýja vinkona okkar. Við eigum eftir að sakna þín svo mikið en við vitum að þú tekur á móti okkur hinum megin og þá getum við sungið saman aftur „Let It Be“ og kannski rifjað upp gamla körfuboltatakta. Við geymum stundina sem við áttum með þér í ágúst sem gull í hjarta okkar. Elskum þig upp í geim og heim aftur. Með þessu ljóði langar okkur að minnast þín. Hún var einstök perla. Afar fágæt perla, skreytt fegurstu gimsteinum sem glitraði á og gerðu líf samferðamanna hennar innihaldsríkara og fegurra. Fáar perlur eru svo ríkulega búnar, gæddar svo mörgum af dýrmætustu gjöfum Guðs. Hún hafði ásjónu engils sem frá stafaði ilmur umhyggju og vináttu, ástar og kærleika. Hún var farvegur kærleika Guðs, kærleika sem ekki krafðist endurgjalds. Hún var vitnisburður um bestu gjafir Guðs, trúna, vonina, kærleikann og lífið. Blessuð sé minning einstakrar perlu. (Sigurbjörn Þorkelsson) Elsku Eyfi, Marín Rós, Rakel Rún og fjölskylda, við vottum ykkur samúð og biðjum guð að styrkja ykkur í sorginni. Elísa, Hildigunnur og Sóley. Legg ég nú bæði líf og önd, ljúfi Jesú á þína hönd; síðast þegar ég sofna fer, sitji guðs englar yfir mér. (Hallgrímur Pétursson) Takk, elsku Arndís Halla, fyrir allt sem þú gerðir með mér og fyr- ir mig. Ég mun alltaf muna eftir þér. Þín, Þórdís Eva. Ótal minningar um Arndísi streyma í gegnum hugann þessa köldu febrúardaga. Við höfðum þekkst frá því að við vorum sex ára og af nógu að taka. Mig langar hins vegar að setja nokkur orð á blað um allra seinustu árin. Máltækið segir réttilega: „Sá er vinur sem í raun reynist.“ Arn- dís var samkvæmt því einstakur vinur. Þegar ég skildi fyrir nokkr- um árum reyndust þau hjónin mér svo vel að ég fæ seint full- þakkað. Ég dvaldi langdvölum á Skógarflötinni, fékk m.a.s. mitt eigið herbergi og við grínuðumst með að Eyfi og Arndís væru helg- arforeldrar mínir. Þar fékk ég fyrstu áfallahjálp, endalausar ráð- leggingar og uppbyggilegan félagsskap. Stundum fékk ég samviskubit yfir því að bera á borð mín vanda- mál, svo hversdagsleg sem þau voru miðað við baráttuna sem Arndís háði. Hún tók þá hins veg- ar burt samviskubitið með því að gera ljóst að hún hefði gott og gaman af því að hlusta og hjálpa. Dætur mínar fengu líka notið góð- vildar þeirra hjóna og elskuðu að koma á Skógarflötina. Þegar tíminn leið og ný sam- bönd komu til voru Eyfi og Arndís áfram til ráðgjafar og stuðnings. Raunar átti Arndís stóran þátt í að losa mig undan skuldbinding- arfælninni í kjölfar skilnaðar. Stuðning fékk ég einnig þegar veikindi komu upp í kringum mig og þegar starfsumsókn mín lenti í stormviðri. Og þótt stuðningurinn væri mikill í erfiðleikum var heldur enginn skortur á stuðningi við hamingjuna. Minnisstætt er þegar ég í gleði- kasti vakti hjónin með gítarspili og söng snemma morguns. Flest- um hefði verið vísað út en söngn- um var tekið fagnandi og ég fékk að ljúka tónleikunum óáreittur uppi í hjónarúmi! Það er líka dæmigert að þegar ástin bar að dyrum, og ég skilaði mér ekki heim á réttum tíma á Skógarflötina, fékk ég svohljóð- andi SMS frá Arndísi: „Eiki minn, ekki vera hræddur að koma með deitið heim á Skógarflötina. Love, mamma.“ 17. janúar síðastliðinn eignuð- umst við Sandra yndislegan lítinn dreng. Upp komu veikindi fljót- lega eftir fæðingu og drengurinn greindist í kjölfarið með Downs- heilkenni. Eins og vanalega var Arndís mætt til að veita stuðning. Þannig sendi hún okkur m.a. svohljóðandi skilaboð á vökudeildina aðeins rúmri viku fyrir andlát sitt: „Ég mun vera til staðar alltaf fyrir ykkur, hann og systkinin ef þið viljið. [] Ég ætla ekki að vera með einhverja ræðu hér en endilega leitið til mín eins og þið viljið og vonandi get ég nú gefið eitthvað af mér í framtíðinni.“ Ég veit að Arndís fylgist með drengnum og okkur öllum úr fjar- lægð og sit eftir fullur af þakklæti fyrir að hafa átt hana að vinkonu. Sá stuðningur sem ég fékk frá þeim hjónum á allra síðustu árum, meðan Arndís barðist við ólækn- andi krabbamein, segir ótrúlega mikið um það hvernig manneskja hún var. Ég vona að stuðningur minn við hana og þau hafi komið að einhverri hjálp og mun gera allt sem ég get til að styðja þau Eyfa, Marín og Rakel í framtíð- inni. Ég kveð þig með miklum sökn- uði, hjartans helgarmamma mín. Elsku Eyfi, Marín, Rakel, Jói, Gugga, Halldór og Ástrós, Guð gefi ykkur styrk á erfiðum tímum. Eiríkur Jónsson. Elsku vinkona. Takk fyrir að hafa verið sam- ferða okkur í lífi, starfi og leik, betri ferðafélagi en þú ert vand- fundinn og við söknum þín sárt. Leiðir skilja nú í bili en þau áhrif sem þú hafðir á okkur munu verða okkur dýrmætt veganesti um ókomin ár. Takk fyrir gleðina, hláturinn, rauðvínskvöldin, spjall- ið, hjálpsemina, jákvæðnina, æðruleysið og allar þær ómetan- legu samverustundir sem við átt- um saman. Við erum ríkari af því að hafa þekkt þig og átt vináttu þína. Við sendum Eyfa, Marín, Rak- el og fjölskyldu Arndísar okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þau ljós sem skærast lýsa, þau ljós sem skína glaðast þau bera mesta birtu en brenna líka hraðast og fyrr en okkur uggir fer um þau harður bylur er dauðans dómur fellur og dóm þann enginn skilur. En skinið logaskæra sem skamma stund oss gladdi það kveikti ást og yndi með öllum sem það kvaddi. Þótt burt úr heimi hörðum nú hverfi ljósið bjarta þá situr eftir ylur í okkar mædda hjarta. (Friðrik Guðni Þórleifsson) Halldóra, Rósa, Vilborg, Bryndís, Júlíana, Heiðrún, Sesselja, Arnheiður og Þorbjörg. Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, LÚÐVÍK ÞÓRARINSSON bakarameistari, Ólafsvík, lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Jaðri, Ólafsvík, mánudaginn 5. febrúar. Útför hans fer fram frá Ólafsvíkurkirkju föstudaginn 16. febrúar klukkan 14. Blóm og kransar afþakkað, en þeim sem vilja minnast hans er bent á Minningarsjóð Jaðars, kt. 510694-2449, reikningur 0190-05-60761. Hrefna Lúðvíksdóttir Gísli Páll Björnsson Inga Birna Lúðvíksdóttir Guðlaug Lúðvíksdóttir Kristjón Guðmundsson Hildur Lúðvíksdóttir Jón Þór Lúðvíksson Bjarney Jörgensen barnabörn og barnabarnabörn Elskulega eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, INGIGERÐUR KRISTÍN JÓNSDÓTTIR, Ökrum í Reykjadal, lést fimmtudaginn 8. febrúar. Útförin fer fram í Einarsstaðakirkju laugardaginn 17. febrúar klukkan 14. Aðstandendur þakka starfsfólki Skógarbrekku á Heilbrigðisstofnun Norðurlands umhyggju og hlýhug. Þormóður Ásvaldsson Þórveig K. Þormóðsdóttir Ásvaldur Ævar Þormóðsson Laufey Skúladóttir Jón S. Þormóðsson Sigríður S. Þormóðsdóttir Svala Guðrún Þormóðsdóttir Baldur Þorgilsson Jörgen Heiðar Þormóðsson Gerður Ólafsdóttir Sigurveig D. Þormóðsdóttir Jóhann Sigmarsson barnabörn og barnabarnabörn Elskulegur sambýlismaður, faðir, tengdafaðir, afi, langafi og langalangafi, JAKOB SIGURÐUR ÁRNASON húsgagnasmíðameistari, áður til heimilis að Laugarnesvegi 54, lést á hjúkrunarheimilinu Grund miðviku- daginn 7. febrúar. Útförin fer fram frá Áskirkju föstudaginn 16. febrúar klukkan 11. Guðrún Marteinsdóttir Árni Sævar Sigurðsson Agnes Jónsdóttir Kristín Lilja Sigurðardóttir Árni Gunnarsson Sigurbjörg M. Sigurðardóttir Sveinþór Eiríksson Anna Auðbjörg Jakobsdóttir Ólafur Sigurðsson Árný Sigríður Jakobsdóttir Ívar Ívarsson Lilja Jakobsdóttir Sævar Óskarsson og fjölskyldur Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, GUÐRÚN SIGURÐARDÓTTIR, Melási 12, Garðabæ, lést á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ föstudaginn 9. febrúar. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju mánudaginn 19. febrúar klukkan 13. Sjöfn Lárusdóttir Hólmfríður Magnúsdóttir Þorlákur Magnússon Þórhildur Pétursdóttir Guðrún Þóra Magnúsdóttir Óskar Knudsen ömmubörn og langömmubörn Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir, amma og langamma, KRISTÍN ERLA ÞÓRÓLFSDÓTTIR, Eyktarási 24, lést í faðmi fjölskyldu eftir skammvinn veikindi á líknardeild Landspítalans í Kópavogi sunnudaginn 11. febrúar. Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í Grafarholti föstudaginn 16. febrúar klukkan 15. Gylfi Guðmundsson Freyr Einarsson Íris Eiríksdóttir Sandra Sif Gylfadóttir Halldór Bjarki Christensen Hlynur Gylfason Sigríður Rún Siggeirsdóttir barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.