Morgunblaðið - 07.03.2018, Side 33
MENNING 33
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. MARS 2018
56 10 000
TAXI
BSR
Góð þjónusta
yfir 90 ár10%
afsláttur
fyrir 67 ára
og eldri
ICQC 2018-20
Á háskólatónleikum í hádeginu í
dag, miðvikudag, verður frumflutt
nýtt verk eftir Ingibjörgu Ýri
Skarphéðinsdóttur og Unu Svein-
bjarnardóttur. Einnig verða flutt
tónverk eftir Þorkel Sigurbjörnsson
og Karólínu Eiríksdóttur. Tónleik-
arnir hefjast kl. 12.30 í kapellu aðal-
byggingar Háskóla Íslands og er að-
gangur ókeypis.
Á tónleikunum verða tónlist og
söngur í höndum fjögurra tónlistar-
kvenna: Catherine Maria Stankie-
wicz leikur á selló, Hafdís Vigfús-
dóttir á flautu og Sólrún Franzdóttir
Wechner á sembal. Hildigunnur
Einarsdóttur messósópran syngur.
Um höfunda nýja verksins má
segja að Ingibjörg Ýr Skarphéð-
insdóttir lauk tónsmíðanámi við LHÍ
vorið 2016. Hún hefur unnið með
leikurum, sviðshöfundum, leik- og
kammerhópum og kvikmyndagerð-
armönnum innan og utan veggja
LHÍ. Hún er virkur félagi í listhópn-
um Hlökk. Una Sveinbjarnardóttir
er konsertmeistari Kammersveitar
Reykjavíkur, leikur jafnframt með
Sinfóníuhljómsveit Íslands. Umleik-
is, diskur með tíu frumsömdum
verkum Unu, kom út 2014.
Flytjendurnir á tónleikunum eru
fjölmenntaðir. Catherine Maria
Stankiewicz stundaði framhaldsnám
í Bern og Kaliforníu, hefur unnið til
verðlauna fyrir leik sinn og er stofn-
andi alþjóðlega kammerhópsins En-
semble Estelliah. Hafdís Vigfús-
dóttir stundaði framhaldsnám í Hol-
landi og í Noregi, leikur með ýmsum
sveitum og flytur kammertónlist.
Hildigunnur Einarsdóttir stundaði
framhaldsnám í Þýskalandi og Hol-
landi og lauk nýverið námi í skap-
andi tónlistarmiðlun frá LHÍ. Og
Sólrún Franzdóttir Wechner lærði
fyrst á fiðlu en hóf sembalnám 2006
og lauk námi frá Tónlistarskólanum
í Reykjavík 2012. Þá hélt hún til
náms í Þýskalandi og er nú í fram-
haldsnámi í Frankfurt.
Flytjendurnir Á efnisskrá tónleikanna eru verk eftir íslensk tónskáld.
Verkin samin og
flutt af konum
Háskólatónleikar í hádeginu í dag
Tónlistarmaðurinn David Byrne
hefur beðist afsökunar á því að
enga konu sé að finna á lista yfir þá
sem komu að gerð nýjustu breið-
skífu hans, American Utopia. Byrne
sendi frá sér yfirlýsingu á mánudag
þar sem hann harmar þetta eftir að
hafa nokkru fyrr þakkað sam-
starfsmönnum sínum í bloggi á net-
inu en þeirra á meðal eru Brian
Eno, Dev Hynes, Sampha og Jack
Penate. Nokkrir þeirra sem lásu
bloggfærsluna bentu Byrne í fram-
haldi á að enga konu væri að finna
á listanum yfir þá sem gerðu plöt-
una með honum, 25 karlar alls.
Byrne segir m.a. í yfirlýsingu
sinni að jafnrétti og fjölbreytni séu
honum mikilvæg og að kynjahalli sé
vissulega vandamál í tónlistargeir-
anum. „Ég sé eftir því að hafa ekki
ráðið til verksins konur og unnið
með þeim að þessari plötu – það er
fáránlegt og ekki lýsandi fyrir mig
og engan veginn í takt við vinnu-
brögð mín í áranna rás,“ skrifar
Byrne og fagnar því að vakin hafi
verið athygli á þessum mistökum.
Þá viðurkennir hann að með þessu
sé hann orðinn hluti af vandanum,
þ.e. að hafa ekki ráðið eina einustu
konu. „Ég hef aldrei talið sjálfan
mig í hópi „þessara náunga“ en
býst við því að ég sé það upp að ein-
hverju marki,“ skrifar Byrne en
síðustu plötu sína, Love This Giant,
vann hann í samstarfi við tónlistar-
konuna St. Vincent.
Morgunblaðið/Ómar
Mistök David Byrne harmar að eingöngu karlar hafi unnið með honum að American
Utopia. Byrne tók þátt í Listahátíð í Reykjavík árið 2010 og var myndin tekin af því tilefni.
Byrne biðst afsökunar á kvennaleysi
Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi
varð eitt sinn að orði að fátækt
væri vond og ljót og gerði fólk
óhamingjusamt.
Það má með sanni yfirfæra á til-
veruna á dönsku eyjunni Lange-
land um miðja 20. öld í nýrri
skáldsögu Merete Pryds Helle, þar
sem barnmargar fátækar fjöl-
skyldur sem eyjuna byggja eru
þungamiðja söguþráðar.
Stúlkan Marie er þar í lykilhlut-
verki. Við fylgjum henni frá því
hún er nokkurra ára gömul og til
fullorðinsára og flutt til Kaup-
mannahafnar.
Rithöfundur-
inn hefur sagt
frá því að sög-
una byggi hún
meðal annars á
sögu eigin fjöl-
skyldu, einkum
móðurfjölskyldu,
og þótt svo hefði
ekki verið, þá
eru í sögu sem þessari mörg sann-
leiksbrot og margt í tilverunni sem
má yfirfæra á erfiði fjölskyldna og
kvenna hér á landi fyrr á öldum og
fyrri hluta síðustu aldar.
Marie elst upp á barnmörgu
heimili þar sem harðneskjan étur
uppi blíðuna, ef ekki strax þá á
einhvern hátt á endanum. Hýð-
ingar á sunnudögum eru formlegt
fyrirkomulag en eru þó í öll mál
þótt sérstaklega séu þær teknar
fyrir á hvíldardaginn. Og börnin
læra það sem fyrir þeim er haft,
systkinin berja og níðast hvert á
öðru, síðar í lífinu á öðrum. Marie
reynir á sinn hátt að flýja fortíð-
ina, flytur til Kaupmannahafnar,
giftist, eignast eigin börn. En for-
tíðin hefur ekki lokið sér af með
hana.
Lesandinn fær ekki aðeins inn-
sýn í líf barna þessa tíma heldur
einnig ýmiss konar félagslegar að-
stæður, svo sem hvernig það var
að missa heilsuna, hvernig það var
að fæðast fatlaður, sorgina sem
fylgdi því að eignast barn utan
hjónabands og þurfa að gefa það,
eiga of mörg börn eða geta ekki
eignast börn.
Hversu fjölbreytt fjölskyldu-
mynstur og líf sem Helle dregur
fram í bók sinni er þó eitt sem á
við um það allt; líf kvenna var
snautt af munaði. En það er held-
ur engin tilvera án fegurðar og
Helle nær að kútvelta sögunni nið-
ur aurugar en grösugar brekkur í
senn, það sem ljær lífinu fegurð
verður eitthvað svo ógnarfagurt í
þessu umhverfi enda fjallar heim-
speki bókarinnar mikið um fegurð
og þá fegurð alþýðunnar, saman-
ber upprunalegan titil bókarinnar;
Folkets skønhed.
Það sem að baki býr er einhvers
konar yfirfull ættarkista af atburð-
um, djúpum sorgum og stundar-
gleði, sem manni finnst blaðsíð-
urnar 400 stundum hreinlega ekki
duga undir eða ná að beisla.
Sumir lesendur hafa lýst því
þannig að þeir hafi ekki getað lagt
frá sér bókina, svo helteknir voru
þeir af sögunni, en undirrituð upp-
lifði þetta þveröfugt. Lesturinn var
stundum svo átakanlegur að það
var einmitt reglulega þörf á pásu,
en það leið ekki á löngu uns gripið
var í bókina á nýjan leik.
Merete Pryds Helle dettur ekki
ofan í þá gildru að nota tungu-
málið til að hlaða ofan á dramatík-
ina. Þess í stað sýnir hún góða
færni í að láta söguþráðinn líða um
stokka og steina og líkt og sögu-
persónurnar, sem þurfa að geta
séð atburði lífs síns á mildari hátt
til að tóra, eltir hún það sjónar-
horn.
Magnea J. Matthíasdóttir kemur
þessum raddblæ höfundar vel til
skila í þýðingu sinni, þessari
hversdagslegu fegurð á grófum
fleti en Magnea heldur framúr-
skarandi vel utan um texta sög-
unnar, með greinilega djúpri til-
finningu fyrir yfirbragði hans.
Pryds Helle „Líkt og sögupersónurnar, sem þurfa að geta séð atburði lífs
síns á mildari hátt til að tóra, eltir hún það sjónarhorn,“ segir um söguna.
Fagurt á grófum fleti
Skáldsaga
Það sem að baki býr bbbbn
Eftir Merete Pryds Helle
Magnea J. Matthíasdóttir þýddi.
Mál og menning, 2018. Kilja. 413 bls.
JÚLÍA MARGRÉT
ALEXANDERSDÓTTIR
BÆKUR