Morgunblaðið - 26.03.2018, Side 29
MENNING 29
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. MARS 2018
ICQC 2018-20
AF TILRAUNUM
Ragnheiður Eiríksdóttir
heidatrubador@gmail.com
Úrslit Músiktilrauna 2018fóru fram á vordegi íHörpu síðasta laugardag
og andrúmsloftið var fullt af von og
eftirvæntingu, alveg eins og best
verður á kosið. Þarna voru mættar
10 hljómsveitir, allar samankomnar
til að gera sitt besta, og salurinn í
Norðurljósum var fullur af vinum,
aðstandendum og áhugafólki um ís-
lenska tónlist sem lætur þennan ár-
lega viðburð ekki fram hjá sér fara.
Alvara lífsins tók við
Eftir að sigursveitin í fyrra,
Between Mountains, hafði lokið for-
spili sínu (og sýnt okkur hversu vel
þær eru að sigrinum komnar) var
komið að alvöru lífsins og Grey Hil
Mars steig á svið. Sveitin skartar
prýðis-lagahöfundi sem greinilega
á ágætt safn af lögum, því hún bætti
tveimur nýjum lögum við eitt lag úr
undankeppninni. Lokalagið, If I
look back, var mjög gott, einhvers
konar þjóðlaga-grugg. Bandið þarf
bara aðeins að spila sig betur sam-
an og fara svo að gefa út plötur og
halda tónleika.
200 Mafía, fjölmennasta band
Tilraunanna í ár með átta rappara
innanborðs, stóð sig ágætlega, en
sérstaklega var endurvinnsla
þeirra á Fóstbræðrastefinu vel til
fundin, og eiginlega stórfurðulegt
að þetta stef hafi enn verið á lausu
til að láta breyta sér í góðan rapp-
takt. Beint í upptökur með þetta,
strákar!
Umbra, tríó úr Reykjavík sem
leikur tilraunakennda leikhús-
tónlist, komst nokkuð vel frá sínu
en bætti afar litlu við frá undan-
kvöldinu. Þarna er blússandi
ímyndunarafl á ferð, en liðsmenn
þurfa að æfa sig í að velja og hafna
og raða hugmyndum betur, því
stundum er bara allt of mikið í
gangi á sama tíma.
Karma Brigade, 6 ungmenni á
aldrinum 15-16 ára voru næst á
svið. Sveitin leikur afar vandaða og
fágaða popptónlist og það er magn-
að að jafn ungir krakkar séu að
semja svo „fullorðna“ tónlist. Dag-
mar Ýr Eyþórsdóttir rafmagnsgít-
arleikari stal senunni því gítar-
leikur og gítarsóló hennar voru
hreint afbragð.
Síðasta hljómsveit fyrir hlé var
Ljósfari sem spilar eiginlega gleði-
popp í anda sveitaballapopps tíunda
áratugarins. Lokalagið þeirra, sem
hafði verið samið daginn áður, var
útvarpsvænn sumarslagari. Beint á
Bylguna með þetta, strákar!
Eftir viðeigandi japl, jaml og
fuður og stigvaxandi spennu var
komið að síðari hluta og Mókrókar
tóku við sviðinu. Þeir tengdu öll
þrjú lögin saman og hófu dagskrá á
ómstríðu nótunum og unnu sig inná
melódískari lendur í mögnuðu tón-
listarferðalagi. Þarna var heiðar-
legt og alvöru flæði í gangi og veru-
lega reyndir spilarar á ferð.
Madre Mía eru þrjár 14-15 ára
stelpur af Skaganum og um mikil
efni er þar að ræða. Það er helst að
lagasmíðar séu ekki alveg komnar
nógu langt, en hin 14 ára bassaleik-
andi söngkona Katrín Lea Daða-
dóttir var frábær og lokalag þeirra
var mjög skemmtilegt þótt það
þyrfti að þétta aðeins spila-
mennsku. Æfa bara meira, stelpur!
Academic lék tvær rólegar
ballöður sem komust ekkert á neitt
sérstakt flug, nema helst að þær
flugu nokkuð átakalaust framhjá.
Lokalagið var hressara, og greini-
lega best æft og þar var ögn meira
að gerast hjá þeim.
Þá var næst komið að Atería,
þremur stúlkum sem leika einhvers
konar ný-goth. Lögin og textarnir
voru dimmir og djúpir og einbeit-
ing liðsmanna skrúfuð upp í hæstu
stillingu. Hljóðfærin voru trommur,
selló, bassi, gítar, hljómborð og dul-
arfullar raddanir sem settu íslensk-
an þjóðlagablæ á lagasmíðarnar,
ekkert ósvipað og það sem Kolrassa
krókríðandi gerði á sinni fyrstu
plötu.
Síðasta sveit á svið í Músiktil-
raunum 2018 var Hugarró, tríó
skipað 16 ára drengjum úr Eyja-
fjarðarsveit, og mættu þeir fílefldir
til leiks. Þarna var líka eina raun-
verulega rokkbandið í úrslitum í ár
og því um að gera að vera í stuði.
Hugarró er langt frá því að vera ró-
legt og líflegur gítarleikari og
söngvari á stóran þátt í því. Ný-
bylgjurokkið þeirra var mjög sann-
færandi, og hljómsveitin hefur sinn
eigin hljóm sem er bæði hrár og
frumlegur.
Úrslitin kynnt
Þegar atkvæði voru öll talin og
dómnefnd hafði lokið störfum voru
niðurstöður eftirfarandi:
Atería stóð uppi sem sigursveit
Músiktilrauna 2018. Í öðru sæti
voru Mókrókar og í því þriðja var
Ljósfari. Önnur verðlaun voru eft-
irfarandi:
Söngkona Músiktilrauna var
Eydís Ýr Jóhannsdóttir úr sveitinni
Sif. Gítarleikari Músiktilrauna var
Þorkell Ragnar Grétarsson úr Mó-
krókum. Bassaleikari Músiktil-
rauna var Snorri Örn Arnarson úr
Ljósfara og Jóhönnu Elísu.
Trommuleikari Músiktilrauna var
Þórir Hólm Jónsson úr Mókrókum.
Hljómborðsleikari Músiktilrauna
var Jóhanna Elísa Skúladóttir. Raf-
heili Músiktilrauna var Darri
Tryggvason og verðlaun fyrir ís-
lenska textagerð hlaut Agnar Dofri
Stefánsson úr Agnarsmár. Hljóm-
sveit fólksins var svo kosin af áhorf-
endum sjónvarps og í sal, og hlust-
endum Rásar 2, og Karma Brigade
hlaut þau verðlaun. Mókrókar var
svo kosin Blúsaðasta bandið.
Skemmtilegri keppni er þá lok-
ið, einu sinni enn, og niðurtalning
getur hafist fyrir næsta ár.
Magnað tónlistarferðalag
» Þarna voru mætt-ar 10 hljómsveitir,
allar samankomnar til
að gera sitt besta, og
salurinn í Norðurljósum
var fullur af vinum.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fyrsta sæti Atería vann Músiktilraunir 2018. „Lögin og textarnir voru dimmir og djúpir,“ segir í greininni.
Annað sæti Hjá Mókrókum var „alvöru flæði í gangi og verulega reyndir spilarar á ferð“. Þriðja sæti Ljósfari „spilar eiginlega gleðipopp í anda sveitaballapopps tíunda áratugarins.“