Morgunblaðið - 13.04.2018, Síða 31

Morgunblaðið - 13.04.2018, Síða 31
Kaliforníu í desember 2016. Þar áttum við dýrmætar samveru- stundir. Erla kynntist Jóni Bjarna og eignuðust þau saman dásam- legu Helgu Júlíönu sem var ljósið í lífi mömmu sinnar. Fjöl- skylda Erlu stóð þétt við bakið á henni í hennar erfiðu veik- indum. Sendi ég þeim öllum sem og vinum Erlu mínar inni- legustu samúðarkveðjur. Minningin um einstaka vin- konu lifir. Kolbrún Ósk Ívarsdóttir. Elsku hjartans Erlan mín, nú kveð ég þig í síðasta sinn í þessu lífi en trúi því að við eig- um eftir að hittast aftur. Þegar ég hugsa til baka þá er svo margs að minnast og mikið hægt að segja, en orð á stundu sem þessari eru svo fátækleg. Við hjá Félagsþjónustunni í Mjódd duttum heldur betur í lukkupottinn þegar þú komst til okkar sem félagsráðgjafarnemi og síðar sem fullgildur fé- lagsráðgjafi. Ég var sú heppna því ég fékk að vera, ekki bara samstarfsfélagi þinn heldur líka vinkona. Það voru ófá skiptin sem við spjölluðum um lífið og tilveruna, við studdum hvor aðra þegar á móti blés og er ekki hægt að hugsa sér betri vinkonu en þig. Þær voru ófáar samveru- stundirnar sem við áttum í at- hvarfinu, við sátum þar og bið- um eftir að Jói lögga og Bjössi kæmu með unglingana til okk- ar. En þar sem unglingarnir í Breiðholtinu voru öll til fyrir- myndar þá var oft ekki mikið að gera. Við nýttum tímann hins vegar vel, við þurftum að borða allt nammið sem við náðum okkur í á nammibarinn og svo var spjallað um allt og ekkert, við trúðum hvor annarri fyrir hinum ýmsu leyndarmálum, reyndum að vera lausnarmið- aðar og valdeflandi hvor fyrir aðra. Þú varst alltaf svo um- hyggjusöm og passaðir upp á Þóruna þína, þú passaðir alltaf upp á að ég væri með og væri upplýst um það sem skipti máli. Þegar þú tókst þá ákvörðun að skipta um vinnu og fara yfir til Barnaverndar þá passaðir þú svo vel upp á að tilkynna mér það af varfærni, því þú vissir svo vel hvað mér fannst um það. Ég var bara eigingjörn og vildi hafa þig alltaf, þú varst orðin stór partur af mér og mínu lífi. Þrátt fyrir þennan að- skilnað okkar í vinnu þá hélst vináttan. Við vorum miklar af- mælisstelpur, við héldum alltaf upp á afmælisdagana okkar, fórum á deit í hádeginu, gáfum hvor annarri gjafir og pössuð- um að gleðja hvor aðra á þess- um dögum okkar. Þú hafðir meira að segja fyrir því að senda gjöf til mín frá Brasilíu þegar þú varst þar og gast ekki fagnað með mér og svo fylgdir þú henni eftir með símtali á af- mælisdaginn. Ég man hvað Helgi varð móðgaður þegar ég sagði að þetta símtal hefði verið dýrmætasta gjöfin þetta árið. Þú passaðir svo vel upp á mig, hringdir spes í mig til Frakk- lands til að tilkynna mér að það væri von á litlu fallegu Helgu Júlíönu, þú lést mig líka vita þegar veikindin komu upp og hélst mér upplýstri því þú vildir ekki að ég frétti neitt frá öðrum en þér. Þú varst svo góð við stelpurnar mínar og héldu þær svo mikið upp á þig, Sólrúnu fannst svo vænt um kransakök- una frá ykkur mömmu þinni á fermingardaginn. Ég er svo þakklát fyrir tím- ann sem við áttum saman, piparkökuskreytingarnar um jólin með litlu snúllu og síðasta skiptið sem við hittumst, við kvöddumst svo vel og gafst þú mér svo gott knús áður en ég fór. Allar þessar minningar ylja og maður huggar sig við þær. Takk, elsku Erlan mín, fyrir samfylgdina, við sjáumst síðar. Elsku Helga Júlíana, fjöl- skylda og aðstandendur allir, ég bið guð og góða vætti að styrkja ykkur í sorginni. Þóra G., Helgi, Jóhanna Rut, Andrea Rán og Sólrún Ósk. Elsku Erla. Hér sitjum við í 8-villt-hópn- um án þín og finnst erfitt að átta okkur á að þú sért farin frá okkur. Þó að þú hafir átt við erfið veikindi að stríða undan- farin ár þá bar andlát þitt skyndilega að. Við byrjuðum að hittast sem hópurinn 8-villt árið 2008 þegar við störfuðum öll saman á Þjónustumiðstöð Breiðholts og varst það þú sem hélst hvað best utan um hópinn og skipulagðir hver ætti að halda næsta hitting, Erla Excel eins og við kölluðum þig. Það sem hefur einkennt þín sam- skipti í hópnum er hversu traust og góð vinkona þú ert, alltaf jákvæð og drífandi og samgladdist alltaf með öðrum. Þú varst mikill rokkari í þér og passaðir upp á það að Helga Júlíana fengi að kynnast alvöru tónlist eins og þú kallaðir það. Helga Júlíana var þér allt og þú geislaðir þegar þú talaðir um snúllukrúttið þitt. Að horfa á ykkur tvær saman var eins og að horfa á tvo sólargeisla að njóta lífsins. Hláturinn, gleðin og hamingjan skein frá ykkur mæðgunum. Að eiga vin er vandmeðfarið. Að eiga vin er dýrmæt gjöf. Vin, sem hlustar, huggar, styður, hughreystir og gefur von. Vin sem biður bænir þínar, brosandi þér gefur ráð. Eflir þig í hversdagsleika til að drýgja nýja dáð. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Elsku Erla, heimurinn er fá- tækari án þín. Þú ert og verður alltaf partur af 8-villt. Bryndís Ósk, Dögg, Íris Ósk, Jóhanna Erla, Jóna Guðný, Kristinn og Sigrún Ósk. Það er með trega og sorg í hjarta að ég kveð mína elsku- legu vinkonu. Allt frá því að leiðir okkar lágu saman fyrst haustið 1999, þar sem við störf- uðum í félagsmiðstöðinni Árseli, myndaðist sterkur og traustur vinskapur okkar á milli sem varði allt fram á síðasta dag. Á stuttum en skemmtilegum tíma náðum við að bralla margt saman; útilegur, tónleikar, sum- arbústaða- og utanlandsferðir svo fátt eitt sé nefnt. Á tímabili var það fastur liður í tilverunni hjá okkur að horfa á Friends- þættina saman í litlu íbúðinni á Mánagötunni og misstum við ekki úr einn einasta þátt. Þetta var ómetanlegur tími sem við áttum saman sem ég mun ávallt minnast með mikilli hlýju. Fyr- ir hugskotssjónum mínum líða ótal góðar minningar um ein- staka manneskju og einstaka einlæga vináttu sem aldrei bar skugga á. Erla hafði alla þá mannkosti sem sönn vinkona þarf að hafa til að bera. Hún var yndisleg vinkona; traust, hæfileikarík, gáfuð, lífsglöð og dásamlega skemmtileg í alla staði. Erla var ákveðin og hafði sterkar skoðanir sem hún var aldrei feimin við að láta í ljós. Það er þungbært að kveðja nána vinkonu alltof snemma. Erla beið í lægri hlut fyrir sam- eiginlegum óvini okkar, krabba- meininu, eftir hetjulega bar- ráttu þar sem hún gaf aldrei upp vonina. Við studdum ávallt hvor við aðra gegnum súrt og sætt, sigra og ósigra. Ég mun sakna samverustunda með þér og ótal símtala við þig, elsku Erla. Elsku Helga Júlíana mömmugull og fjölskylda Erlu. Ykkur votta ég mína innileg- ustu samúð. Megi fallegar minningar um elsku Erlu dvelja með okkur að eilífu. Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér hvert andartak er tafðir þú hjá mér við sólskinsstund og sæludraumur hér minn sáttmáli við Guð um þúsund ár. (Halldór Laxness) Elska þig, þín vinkona, Ágústa. Í dag kveðjum við góða vin- konu og móður yndislegrar stelpu. Elsku Erla, þín verður sárt saknað, það líður ekki sá dagur að við hugsum ekki til þín. Okkur langar að kveðja þig með þessu fallega ljóði, Nú ríkir kyrrð í djúpum dal, þótt duni foss í glúfrasal, í hreiðrum fuglar hvíla rótt, þeir hafa boðið góða nótt. Nú saman leggja blómin blöð, er breiddu faðm mót sólu glöð, í brekkum fjalla hvíla hljótt, þau hafa boðið góða nótt. Nú hverfur sól við segulskaut, og signir geisli hæð og laut, er aftanskinið hverfur hljótt, það hefur boðið góða nótt. (Magnús Gíslason) Við sendum foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum Erlu okkar innilegustu samúð- arkveðjur, megi Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg. Minningin um góða vinkonu lifir. Gyða Gunnarsdóttir og Hólmfríður Einarsdóttir. Elsku, elsku spúsí mín! Hvað er hægt að segja á svona stundu? Þegar maður er alls ekki tilbúinn að kveðja en aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Ef það hefði verið ein- hver sem hefði getað sigrast á þessum veikindum með vilja- styrk, lífskrafti og dugnaði þá hefði það verið þú, elsku vin- kona, en þessi veikindi reynd- ust því miður ósigrandi. Nú hef- ur skarð myndast í líf okkar allra sem verður aldrei hægt að fylla, bara hægt að læra að lifa með, vitandi það að héðan í frá verður lífið alltaf fátæklegra án þín. En þegar litið er til baka, vá hvað við nýttum tímann okkar vel saman og létum marga drauma rætast! Námstíminn okkar í félagsráðgjöfinni og framhaldsnámið í Sydney þar sem þú bættir við þig mast- ersgráðu. Öll ævintýrin sem við upplifðum í Ástralíu, þar sem við sáum Daintree-regnskóginn og Great Barrier Reef mætast. Fórum til Tasmaníu sem fól m.a. í sér spítalaferð eftir köngulóarbit. Lestarferðin til Adelaide, sólarupprásin við Ul- uru, fljúgandi kakkalakkar sem við kölluðum „Fúsa“ til að gera þá vinalegri í fóbíu-meðferðar- skyni, strandferðirnar niður á Bondi og heimsókn foreldra þinna þar sem var reglulega dást að verkfræðiundri Anzac- brúarinnar. Og allir yndislegu vinirnir sem við eignuðumst þar, við vorum alveg sammála um að vinalegra fólk fyrirfinnst ekki neins staðar í heiminum! Nema þá helst í Argentínu sem við upplifðum saman nokkrum árum síðar þegar við létum annan draum rætast, að vinna sem sjálfboðaliðar í Suður-Am- eríku og ferðast þar um. Þar sem við sáum nokkur af undr- um veraldar m.a. Machu Picchu, Nazca-línurnar og Salar de Uyuni. Upplifðum einnig spúsujól með Tryggva á ósnertu eyjunni Ihla Grande og nutum okkur í botn í elsku Arg- entínunni okkar. Eftir allt þetta ævintýrabrölt þá áttum við samt eftir að upplifa það allra mikilvægasta, að verða ást- fangnar og að verða mömmur! Ég man eftir þeim hamingju- tíma þegar þið Jón Bjarni vor- uð að kynnast og svo tveimur árum seinna kom elsku Helga Júlíana ykkar í heiminn, yfir- krúttsprengja sem bræðir öll hjörtu. Ómetanlegur tími sem við náðum saman með börnun- um okkar á Grikklandi og á Spáni, enda líta Tristan og Tinni á Helgu Júlíönu eins og litlu systur sína, vilja alltaf fá hana í heimsókn og „passa“ hana. En hún er bara þannig að allir vilja allt fyrir hana gera, alveg eins og mamma sín. Enda held ég að ég geti með sanni sagt að ég þekki ekki elskaðri manneskju en þig, elsku spúsí mín! Við eigum eftir að sakna þín svo sárt og það er ennþá óhugs- andi að geta ekki talað við þig, séð þig eða knúsað þig. Hugur okkur og hjarta eru búin að vera hjá þér og fjölskyldu þinni, sem er búin að standa við hlið þér í gegnum þessi veikindi eins og klettur og hafa ekki vik- ið frá þér. Þú getur treyst því að elsku Helga Júlíana þín fær ósjálfrátt heila spúsufjölskyldu í arf sem mun gera allt sem hún getur til að vera til staðar fyrir hana og halda minningunni um þig, þessari stórkostlegu mann- eskju, vinkonu og mömmu sem þú varst, lifandi eins lengi og við lifum. Þín elskandi alltaf, Anna Dóra, Tryggvi, Tristan og Tinni. „Set fire to the rain“. Þegar Erla sagði mér yfir Facebook Messenger að hún hefði greinst aftur með krabbamein sendi ég henni þetta lag. Hún hafði áður sent mér „Fight song“. Síðan þá hefur lagið með Adele verið Erlu lag í mínum huga. Hún stóð sig endalaust vel í að svara rigningu með eldi og við sem fylgdumst með á hliðarlínunni vorum full aðdáunar og lotn- ingu. Ég hef árangurslaust reynt að muna hvenær ég sá Erlu fyrst. Hún var alltaf þarna í bakgrunninum frá því á há- skólaárunum þegar hún og Anna Dóra vinkona urðu góðar vinkonur í félagsráðgjöfinni. Í minningunni frá þessum tíma var Erla glaðleg, orkumikil, fé- lagslynd og traust. Ljóst hár og létt líkamsbygging. Það var bjart yfir Erlu. Erla var sú fyrsta í vina- hópnum til að greinast með krabbamein. Ég frétti af henni í gegnum vinkonurnar en sá ekki mikið af henni. Þar til ég greindist með krabbamein sjálf. Búsett í London fór ég í gegn- um mína meðferð þar. En með nútímatækni rétti Erla út hönd sína. Hún hafði hafði þá nýlokið stífri meðferð og var að aðlag- ast lífinu aftur á nýjan leik. Hún hafði greinst með erfiða tegund af brjóstakrabbameini. Af ýmsum ástæðum leitaði ég ekki til stuðningssamtaka fólks með krabbamein í Lond- on. Kannski var aðalástæðan á endanum sú að ég hafði Erlu. Hún fylgdist vel með og vissi nákvæmlega hvað var í gangi. Þrátt fyrir að við hefðum fengið ólík krabbamein tengdi hún við mína reynslu og var óþrjótandi við að skilja, hvetja og gefa góð ráð. Ég er og mun alltaf vera henni endalaust þakklát fyrir hennar ómetanlega stuðning á þessu erfiða tímabili í mínu lífi. Við vinkonurnar vorum mjög slegnar þegar Erla greindist aftur síðastliðið vor, einungis ári eftir að hún kláraði upp- haflega meðferð. Það var auð- velt að fyllast óskhyggju þegar horft var á þessa hraustu, fal- legu konu og ástríku móður. Erla var alltaf dugleg að stunda íþróttir. Á háskólaárunum var hún fyrst allra á fætur til að fara út að hlaupa meðan við hinar sváfum. En 4. stigs krabbamein er ekkert grín. Það er lífsins alvara. Nú hefur elsku Erla okkar kvatt. Hún gerði það vel eins og allt annað. Með reisn og virð- ingu og fókusinn á það sem skipti hana mestu máli. Litla gullið hana dóttur sína. Fjöl- skyldu Erlu sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Erla fékk kannski ekki langt líf en hún gaf meira af sér en margir myndu á heilli mannsævi. Eva Gunnarsdóttir. Elsku Erla okkar, fyrir 17 árum útskrifuðumst við úr fé- lagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Útskriftarhópurinn var ekki stór en við kynntumst vel. Við áttum frábær námsár saman. Við brölluðum ýmislegt saman, bæði í náminu og í félagslífinu. Þú varst einstök manneskja og alltaf til í eitthvað skemmtilegt. Þú varst dugleg að vinna með skólanum t.d. í félagsmiðstöð- inni og dýrkuðu krakkarnir þig. Útskriftaferðin okkar til Barce- lona var dásamleg og fer seint úr minni. Útgeislun þín var ein- stök, alltaf brosandi og tilbúin að hjálpa öðrum. Þú aðstoðaðir mörg börn og fjölskyldur þeirra á þínum starfsferli og margir eiga þér margt að þakka. Það var áfall að heyra að þú værir komin með krabbamein, þú stóðst þig eins og hetja og varst búin að sigra á þessum ill- víga sjúkdómi, eða það héldum við og sáum fram á að líf þitt með yndislegu dóttur þinni væri framundan. Það var því áfall að heyra að þú hefðir greinst aftur af þessum illvíga sjúkdómi og enn sárara að hann hafi unnið. Við vitum að þér þótti vænt um að fá nöfnuna Erlu Lind Daggardóttur sem fæddist í desember 2017. Elsku Erla, tíminn með þér núna er liðinn en minningin lifir að eilífu. Að fá að kynnast þér verðum við ævinlega þakklátar fyrir, takk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Elsku fjölskylda, megi Guð gefa ykkur styrk í sorginni. Minningin um Erlu okkar lifir í hjarta okkar allra um ókomna tíð. Útskriftahópur í félagsráð- gjöf HÍ 2001, Anna Dóra, Anný, Auður, Brynja, Dögg, Elín, Elísa, Guðlaug Jóna, Helga, Inger Lill Jakobína, Kristín G., Kristín Ó., Sólveig Huld og Þórdís. Á afmælisdaginn hennar Erlu sit ég hér með tárin í aug- unum og skrifa minningargrein um hana í stað þess að heyra í henni og óska henni til ham- ingju með daginn. Erlu kynntist ég vorið 2003 vegna barnanna minna því þá gerðist hún ráðgjafi okkar, þá nýútskrifuð sem félagsráðgjafi. Leiðir okkar lágu saman næstu átta árin, stundum með hléum, þangað til hún fór til Barna- verndar. Hún útvegaði mér góðan ráðgjafa sem gekk vel þangað til hún rændi honum aftur ef svo má segja. Þegar henni var nú allra náðarsamleg- ast bent á það sagði hún: Úps! Það var nú ekki fallega gert. Engu að síður lágu leiðir okkar Erlu áfram saman en ekki leng- ur á faglegum grunni heldur sem vinkonur. Mörgu góðu fólki hef ég kynnst í gegnum tíðina með minn barnahóp, fólki sem hefur stutt vel við bakið á mér en að öðrum ólöstuðum hefur Erla verið einstök. Hún passaði ætíð vel upp á sína skjólstæð- inga og var góð manneskja. Sem dæmi um mannkosti Erlu hringdi hún t.d. alltaf á Þor- láksmessu til að athuga hvort ekki væri allt í góðum gír fyrir jólin. Eitt sinn kom hún veik á teymisfund vegna eins barnanna, svo mikilvægt fannst henni að mæta og fylgja öllu vel eftir. Svo var mikið hlegið að því að tvo vetur mættu ein- tómar Erlur og Guðrúnar á fundina. Það var alltaf eitthvað skoplegt að gerast. Þótt Erla væri löngu hætt að vera ráðgjafinn minn þá héldum við alltaf sambandi, al- veg fram undir það síðasta. Við ætluðum að hittast nokkrar saman sem höfum haldið sam- bandi í gegnum tíðina og vor- um við Erla búnar að hlakka mikið til. Vonandi verður bráð- lega af þeim hittingi og trúi ég því að Erla verði þá með okkur í anda. Það væri sannarlega hægt að segja margar skemmtilegar sögurnar af samskiptum okkar Erlu en ég læt hér staðar num- ið. Hún var einstök manneskja og góðhjörtuð og kveð ég hana með miklum söknuði. Ég votta litlu prinsessunni hennar og fjölskyldu mína dýpstu samúð. Guðrún Elísa Guðmundsdóttir. Vin sínum skal maður vinur vera, þeim og þess vin. En óvinar síns skyli engi maður vinar vinur vera. (Úr Hávamálum) Ég varð þeirrar gæfu að- njótandi að fá að kynnast Erlu þegar við vorum smástelpur í Árbæjarskóla. Hún er ein af þessum manneskjum sem þú munt aldrei gleyma að hafa hitt. Hún hafði sterkar skoð- anir og vildi alltaf hjálpa. Ég kynntist henni í gegnum Öddu vinkonu hennar. Ég dáðist allt- af að henni og hennar lífsskoð- unum. Hún var ótrúlega fyndin og skemmtileg og alltaf fjör í kringum hana. Ég samhryggist innilega dóttur hennar, fjölskyldu og vinum. Sigrún María Ammendrup. Erla hóf störf hjá Barna- vernd Reykjavíkur vorið 2011. Áður starfaði hún á einni af þjónustumiðstöðvum Reykja- víkurborgar, í Breiðholti. Erla nálgaðist starf sitt frá fyrstu stundu af fagmennsku, já- kvæðni og dugnaði. Hún var félagslega virk og vel liðin af samstarfsfólki, sem margir urðu hennar nánustu vinir. Í gegnum erfið veikindi sín stóð hún keik og gaf lítið eftir. Til fyrirmyndar var hvað Erla lagði mikla áherslu á að halda góðum tengslum við starfsstað- inn og vinnufélagana. Hún vildi vinna meðan hún hafði getu til og tók þátt í félagsstarfi vinnu- staðarins fram undir það síð- asta. Söknuður okkar vinnu- félaganna er mikill og hugur okkar er hjá telpunni hennar litlu, ættingjum og vinum. Við leitum huggunar í eftirfarandi ljóðlínum og kveðjum Erlu okkar. Vertu ekki grátinn við gröfina mína góða, ég sef ekki þar. Ég er í leikandi ljúfum vindum, ég leiftra sem snjórinn á tindum. Ég er haustsins regn sem fellur á fold og fræið í hlýrri mold. Í morgunsins kyrrð er vakna þú villt, ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt. Ég er árblik dags um óttubil og alstirndur himinn að nóttu til. Gráttu ekki við gröfina hér- Gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér. (Höf. ók., þýtt úr ensku) Fyrir hönd starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri. MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. APRÍL 2018

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.