Morgunblaðið - 28.04.2018, Side 36
36 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. APRÍL 2018
✝ Sigrún Olsenfæddist í
Reykjavík 4. maí
1954. Hún lést 18.
apríl 2018.
Foreldrar henn-
ar voru Lilja
Enoksdóttir, f. 7.9.
1928, og Olaf Ol-
sen, f. 27.6. 1924,
d. 28.7. 1999.
Systkini Sigrúnar
eru Linda, f. 1958,
Edda, f. 1959, Kjartan, f. 1961,
og hálfsystir, Erna, f. 1952.
Árið 1989 giftist Sigrún Þóri
Barðdal listamanni, f. 1958.
Foreldrar hans voru Sesselja
Engilráð Guðnadóttir og Óli
Sigurjón Barðdal. Dóttir Þóris
og fósturdóttir Sigrúnar er
Sara Barðdal Þórisdóttir. Unn-
usti hennar er Hákon Víðir
Haraldsson, synir
þeirra eru Alex-
ander og Baltasar.
Sigrún lauk
stúdentsprófi frá
Verslunarskóla Ís-
lands 1974. Hún
starfaði hjá Loft-
leiðum til skamms
tíma. Sigrún stund-
aði málaralist við
listaháskólann í
Stuttgart. Hún
stofnaði Heilsubótardaga á
Reykhólum og rak þá í nokkur
ár. Sigrún bjó víða í útlöndum
um tíma.
Sigrún stofnaði ásamt eigin-
manni sínum Lótushús, þar sem
hún var skólastjóri.
Minningarathöfn um Sigrúnu
verður í Salnum í Kópavogi í
dag, 28. apríl 2018, kl. 13.
Elsku yndislega systir! Það er
svo skrítið að vera ekki á leið til
þín eða vera hjá þér. Hjarta mitt
er fullt af sorg og söknuði. Ég
verð að halda áfram án þín. Þú
sagðir svo oft við mig: Linda mín,
þetta er allt alveg eins og það á að
vera.
Þú varst elst okkar fjögurra al-
systkina, fyrirmyndin og alltaf til
staðar. Þú varst ekki bara systir
mín, einnig mín besta vinkona.
Það skipti ekki máli hvar þú varst
stödd í heiminum; tengingin við
þig var svo sterk. Þú áttir það til
að hringja í mig og athuga hvort
allt væri í lagi. Það þýddi ekkert
að blekkja þig, þú fannst það á
þér ef eitthvað var að.
Það er ekki í þínum anda að ég
mæri þig í skrifum mínum hér,
þú vannst alla tíð í hljóði.
Fyirir 34 árum, er þú varst í
námi við listaháskólann í Stutt-
gart, varstu mjög veik. Þú
greindist loks með krabbamein
eftir mikla og erfiða leit. Fyrst
töldu læknarnir þig vera með
annan sjúkdóm og settu þig í
meðferð við honum. Þegar loks-
ins fannst hvað var að var
krabbameinið komið á lokastig.
Fæstir trúðu því að þú myndir
lifa þetta af. En uppgjöf var ekki
til hjá þér, þú barðist hetjulega.
Þarna urðu stakkaskipti í þínu lífi
og leitin að tilgangi lífsins hófst
fyrir alvöru. Það var svo margt
sem þú áttir eftir að gera.
Ein mesta gæfa þín í þessu lífi
var að kynnast Þóri Barðdal er
varð svo eiginmaður þinn.
Þú stofnaðir Heilsubótardaga
á Reykhólum sem þið hjónin rák-
uð í mörg ár. Á ferð ykkar um
Indland, fyrir rúmum 20 árum,
kynntust þið þekkingarskólanum
Brahma Kumaris World Spiri-
tual University. Þá varð ekki aft-
ur snúið. Þið höfðuð fundið ykkar
tilgang í þessu lífi. Þið hjónin
stofnuðuð Lótushús þar sem þið
rákuð þennan skóla á Íslandi og
þú varst skólastjóri.
Þið Þórir voruð í því fallegasta
sambandi sem ég hef séð. Hann
vék ekki frá þér í þínum erfiðu
veikindum og gerði allt fyrir þig
sem var í mannlegu valdi að gera.
Börnunum mínum tengdist þú
sterkum böndum. Þú varst
frænka sem þau elskuðu öll. Þú
kenndir þeim svo margt og lagðir
inn fallegt veganesti sem þau búa
alltaf að. Alveg sérstakt samband
var alltaf milli ykkar Brjáns,
frumburðar míns, sem eignaðist
svo litla Sigrúnu Sól og tengingin
hélt áfram.
Í mínum huga ertu mesti lista-
maður sem ég veit um og myndir
þínar prýða víða veggi um allan
heim.
Elsku systir, ég er endalaust
þakklát fyrir að hafa getað verið
svona mikið með þér í veikindum
þínum, það voru mín forréttindi.
Þú ert ein fallegasta sál sem ég
þekki.
Elsku mamma hefur þurft að
horfa upp á frumburð sinn ganga
í gegnum erfið veikindi nú í ann-
að sinn. Þórir hefur þurft að sjá á
eftir konunni sinni og besta fé-
laga. Nú reynir á okkur öll sem
eigum um sárt að binda að hafa
orð þín að leiðarljósi: Treystið líf-
inu, þá verður allt í lagi.
Þín systir,
Linda.
Elsku frænka, ekki var ég
undir það búinn að skrifa þessi
orð svona snemma, minningarorð
um þig. Ég vissi þó að hverju
stefndi en samt var ég alltaf að
vona að þetta gerðist ekki. Þrátt
fyrir ótrúlega þrautseigju, æðru-
leysi og jákvæðni hafði miskunn-
arlaus sjúkdómur betur eftir svo
margra ára baráttu.
Fyrsta minning mín um þig
sem upp kemur í hugann er frá
því þegar ég faldi mig aftur í gráa
Escortinum til að fá að koma með
þér heim þegar ég mátti það ekki.
Og minningarnar eru margar.
Þegar ég eltist, þá átti ég alltaf
skrítnu frænku sem öllum fannst
dularfull nema mér. Hún borðaði
ekki kjöt og var listamaður. Þetta
fannst vinunum alltaf undarlegt.
En ég vildi bara vera hjá ykkur
Þóri.
Þegar mér fannst öll sund vera
lokuð í tilveru minni, þá varst þú
alltaf til staðar fyrir mig, vildir
mér alltaf það besta. Það hvarfl-
aði aldrei að þér að loka á mig.
Sama hvernig ástandið var á mér,
alltaf varst þú til staðar.
Það er mér ógleymanlegt þeg-
ar ég var á sjó á Flateyri og var
ýmist á heimstími eða útstími á
nóttunni og þurfti að halda mér
vakandi. Þá gat ég undantekn-
ingalaust hringt í þig og við
ræddum allt og ekkert, oft tím-
unum saman.
Ég gleymi því ekki þegar þú
fórst með mig til Englands þegar
ég ætlaði að fara að læra kokk-
inn. Þér leist ekki betur en svo á
skólann, að þú tókst mig bara aft-
ur heim til Íslands. Þér var ekki
sama.
Það er engum öðrum en ykkur
að þakka að ég er að fást við það
sem ég er að gera í dag. Þið send-
uð mig til Bath á Englandi í nám
og lögðuð mikla áherslu á að ég
færi þessa leið. Án þessarar
hvatningar hefði þetta ekki orðið.
Þegar ég horfi til baka, þá er
það svo ótrúlega margt sem við
þrjú höfum gert saman. Við höf-
um ferðast víða um heiminn og
upplifað margt og átt ótal
ánægjustundir og hláturinn og
gleðin var aldrei langt undan.
Það er mér til dæmis mjög
minnisstætt þegar þú sagðir okk-
ur Þóri þegar við vorum að fara á
sýningu saman í fyrsta skiptið, að
við yrðum borða ólívurnar beint
af trjánum. Þær fóru svo illa í
Þóri að það endaði næstum með
útafkeyrslu!
Elsku frænka, þetta eru mér
og okkur öllum erfið tímamót. Þú
varst mér svo kær, kærari en
flest, greiddir alltaf götu mína og
veittir mér handleiðslu og vernd
á erfiðum tímabilum og lýstir
mér leið. Fyrir þetta allt fæ ég
aldrei fullþakkað og ég vona og
veit að dóttir mín og nafna þín,
Sigrún Sól, minnist þín með mik-
illi væntumþykju og ber nafn þitt
með stolti.
Við Auja, Alexander Veigar,
Guðjón Máni og Sigrún Sól
kveðjum þig með sárum söknuði
og þakklæti fyrir að hafa fengið
að vera hluti af lífi þínu. Þótt
sorgin og treginn sé ólýsanlegur
á þessari stundu, þá er það líka
léttir að vita að þú hefur fengið
frelsi frá þrautum og meini. Frið-
urinn sem einkenndi allt þitt fas
umlykur þig nú.
Við fjölskyldan á Álftanesinu
sendum Þóri, okkar kæra vini og
trausta förunaut frænku, dýpstu
samúðarkveðjur á skilnaðar-
stund. Sömuleiðis sendum við
ömmu Lilju hlýjar kveðjur. Hún
syrgir með okkur og kveður sína
elstu dóttur. Hvíl í friði, elsku
frænka, og takk fyrir allt.
Brjánn Guðjónsson.
Elsku frænka, er ég sit hér og
skrifa, hugsa ég mikið um þær
minningar sem við eigum saman,
en það er erfitt að finna réttu orð-
in til að lýsa þér því eins og þú
sagðir svo oft sjálf, varstu ekki
„þessi venjulega frænka“.
Þú varst svo mikið meira en
bara frænka, þú varst alltaf til
staðar þegar eitthvað bjátaði á.
Þegar ég kom og þurfti að tala
við einhvern, varðst þú oft fyrir
valinu. Þú varst svo hlý og vissir
alltaf réttu orðin til þess að segja.
Þegar ég hugsa til baka átta ég
mig á því hversu mikill leiðtogi þú
varst, allir þeir viskumolar sem
þú skildir eftir og öll kunnáttan
sem þú deildir með þér er
ógleymanleg. Því auk þess að
vera hin heimsins besta frænka í
mínum augum, hefur þú haft
áhrif á svo mörg önnur líf til
þroska og aðstoðað þau með
visku þinni í gegnum tíðina.
Núna bíður þín annað hlutverk
og er því þínu hlutverki hér lokið
að sinni.
Ég er virkilega þakklátur fyrir
þann tíma sem við áttum saman
og mun ég búa að þeim minning-
um alla mína tíð.
Margt er það og margt er það
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina
sem enginn frá mér tekur.
(Davíð Stefánsson)
Styrmir Jónasson Olsen.
Elsku Sigrún.
Ég man eins og það hafi gerst í
gær þegar ég hitti ykkur Þóri
fyrst. Brjánn hafði sagt mér
mjög skýrt hversu mikils virði
þið væruð honum svo ég var mjög
stressuð að ykkur líkaði ekki við
mig. Ég held ég hafi hætt að vera
stressuð um leið og þú opnaðir
hurðina því nærvera þín var allt-
af svo góð.
Þú varst engin venjuleg
frænka heldur varstu okkur fjöl-
skyldunni eins og móðir, tengda-
mamma, amma og frænka en
fyrst og fremst vinur. Ég gat allt-
af leitað til þín, sama hvað það
var þá varstu til staðar, þú hafðir
alltaf svo mikla trú á mér í hverju
sem var og sérstaklega í móður-
hlutverkinu, sem færði mér auk-
inn kraft.
Við áttum svo ótal góðar
stundir saman. Þær eru þó
nokkrar sem standa upp úr eins
og þegar við Sigrún Sól sóttum
Brjánsa í fæðingarorlofinu og
komum í hádegismat til ykkar á
Bakkabrautinni reglulega. Þar
var ýmislegt rætt, mikið hlegið
og Sigrún Sól þar í sviðsljósinu
eins og alltaf hjá frænku sinni.
Eftir að þið fluttuð í næstu götu
þá var svo gott að kíkja við og
spjalla og krakkarnir fengu útrás
í alls konar fimleikaæfingum og
þrautum með frænku. Þú pass-
aðir þig að eiga alltaf til skvísu og
jógúrt fyrir krakkana enda var
það orðið regla hjá þeim að fá það
þegar við kíktum við.
Þú varst Sigrúnu Sól svo góð
og sambandið ykkar svo ótrúlega
fallegt en hún var ekki orðin stór
þegar þið voruð báðar farnar að
biðja reglulega um að vera einar í
friði saman. Hún hikaði ekki við
að biðja mig vinsamlegast og fara
og þú ekki við að senda Þóri í ein-
hver verkefni.
Ykkar tími saman var alltaf
svo mikil gæðastund hjá ykkur
báðum, Sigrún átti alltaf sína
skúffu hjá ykkur sem hún gekk í
eins og heimilismaður, átti sinn
stól í bílnum hjá frænku og elsk-
aði það þegar þú sóttir hana í
leikskólann. Það verður erfitt að
upplifa stóra hluti í hennar lífi
með þig ekki með okkur en ég
veit að þú munt alltaf fylgjast
með henni.
Það sem stóð upp úr á brúð-
kaupsdaginn okkar Brjáns í
haust var að hafa þig með okkur.
Að ganga inn kirkjugólfið og sjá
að þú gast mætt gerði daginn
fullkominn og við munum vera
ævilega þakklát fyrir það.
Ég veit ekki hvernig við mun-
um fara að án þín eða hvernig ég
mun geta hugsað um Brján og
Sigrúnu án þín og þinnar leið-
sagnar en ég mun nýta mér það
sem þú hefur kennt mér og hugsa
til þín. Þórir mun þó sitja uppi
með okkur og við vitum að við
munum geta leitað til hans.
Það eru margir að syrgja ein-
staka konu og votta ég þeim sam-
úð mína.
Við munum kunna að meta líf-
ið, að hafa fengið að hafa þig með
okkur og allt sem þú hefur gefið
okkur á hverjum degi.
Guðrún Auður Böðvarsdóttir.
Sigrún Olsen
✝ Iðunn Geirs-dóttir var fædd
á Eskifirði 7.
september 1971.
Hún lést á heimili
sínu á Reyðarfirði
21. apríl 2018.
Foreldrar Iðunn-
ar eru Geir Hólm, f.
9.1. 1933, bygg-
ingameistari, og
Perla Hjartar-
dóttir, f. 3.4. 1938,
húsmóðir á Eskifirði. Systur Ið-
unnar eru Olga Geirsdóttir, f.
15.6. 1957, m. Anthony Palmer
og eiga þau þrjú börn, Ingibjörg
Geirsdóttir, f. 1.1. 1961, m.
Snorri Guðmundsson og eiga
þau þrjú börn, Kristín Geirs-
dóttir, f. 9.3. 1967 og á hún tvö
börn.
Iðunn útskrif-
aðist sem stúdent
frá Mennta-
skólanum á Egils-
stöðum og síðan
sem matvælafræð-
ingur frá Háskóla
Íslands. Eftir há-
skólanám vann Ið-
unn sem gæðastjóri
hjá Myllunni-Brauð
hf.
Eiginmaður Ið-
unnar er Ásgeir Jón Ásgeirsson,
fjármálastjóri hjá Launafli ehf.
Reyðarfirði, og eiga þau dæt-
urnar Berglindi Eiri, f. 26.7.
2000, og Heiðdísi Söru, f. 11.5.
2007.
Útför Iðunnar fer fram frá
Reyðarfjarðarkirkju í dag, 28.
apríl 2018, og hefst klukkan 14.
Árið 1971 áttu foreldrar okkar
von á fjórða barninu og við syst-
urnar (14, 10 og 4 ára) vorum
náttúrlega að bíða spenntar eftir
litla bróður. Þegar komið var að
fæðingu vorum við sendar í gist-
ingu til ömmu okkar og afa.
Um morguninn er amma hin
kátasta en minnist ekkert á barn-
ið sem fæðst hafði um nóttina og
við þorðum ekki að spyrja. Vorum
með í maganum yfir því hvort
þetta hefði ekki örugglega verið
strákur. Á leiðinni heim til for-
eldranna þá mættum við manni
sem kallaði: Var eitthvað að ger-
ast í nótt? Og þá svarar sú gamla
fullum rómi: „Já, fjórða af sömu
sort!!“ Vonbrigðin voru svakaleg
en það breyttist nú fljótt þegar
við sáum þessa litlu prinsessu í
vöggunni og vorum við náttúrlega
alsælar og sagði mamma að hún
ætlaði sko að gera þessa hnátu al-
veg vitlausa af dekri.
Þegar stúlkan var skírð sátum
við hlið við hlið í kirkjunni og þeg-
ar við heyrðum nafnið Iðunn lit-
um við hvor á aðra því þetta nafn
höfðum við bara aldrei heyrt áð-
ur. Í nokkra daga á eftir var mað-
ur að koma í gættina og kalla:
„Mamma, hvað heitir hún aftur?“
Iðunn systir okkar greindist
með illvígan sjúkdóm fyrir níu ár-
um og hefur þessi barátta aldeilis
tekið á hana og þá sem henni
standa næst.
Þvílík baráttukona hún var
þessi elska.
Árið 2015 eftir erfiða meðferð
ákváðum við Kristín systir okkar
að bjóða Iðunni til Tenerife í
systraferð, þar átti nú aldeilis að
dekra við litlu systur. Þrekið var
ekki mikið þegar hún kom en við
keyptum á hana íþróttaskó og á
hverjum degi var farið í göngur til
að byggja hana upp og sáum við
hana styrkjast dag frá degi.
Þarna áttum við systur saman
yndislegan tíma í sól, sangríu og
allskonar dekri og mun þessi
samvera okkar aldrei gleymast.
Við vorum alltaf á leiðinni þangað
aftur allt til endaloka en jú það er
allt í lagi að eiga sér drauma þó
maður viti kannski að þeir muni
ekki rætast. Það var allavega
mikið planað og mikið hlegið þeg-
ar verið var að rifja upp ferðina
góðu.
Húmorinn var sko á sínum stað
hjá Iðunni og fannst henni ekkert
eins skemmtilegt og þegar maður
var með einhvern fíflagang í
kringum hana.
Við systur höfum verið heppn-
ar með foreldra okkar og hver
aðra. Aldrei bar skugga á okkar
samband – við tvístruðumst út um
allan heim, Olga flutti til Ástralíu,
Inga til Skotlands og Kristín til
Svíþjóðar og búum við þar allar
enn, en þökk sé tækninni þá heyr-
umst við nánast daglega.
Kveðjustundir eru alltaf erfið-
ar og þó maður telji sig vera tilbú-
inn undir endalokin þá er sorgin
mikil. Í síðasta samtali sem við
systur áttum þá var hún alveg
tilbúin að kveðja, var að plana
jarðarför sína og sagðist vera
þakklát fyrir þann aukatíma sem
hún fékk með fjölskyldu sinni.
Elsku Geiri, Berglind og Heið-
dís, megi minning um yndislega
móður og eiginkonu lifa um
ókomna tíð.
Inga, Kristín og Olga.
Elsku hjartans Iðunn okkar,
þær eru margar ljúfar minning-
arnar sem fljúga hjá um allt það
sem þú hefur gert fyrir mig á
þeim áratugum sem við höfum
þekkst.
Stundum eru orð óþörf og það
fann ég oft hjá þér. Vissulega gát-
um við jú alltaf rætt um heima og
geima en svo var líka hægt að
sitja bara með góðan kaffibolla og
njóta líðandi stundar. Það var ein-
hvern veginn svo „næs“ að sitja í
eldhúskróknum hjá ykkur, horfa
jafnvel bara upp í fjall og drekka
kaffið þitt. Kaffið sem þér, eins og
mér, þótti svo afskaplega gott.
Ég veit ekki hvort þú áttaðir
þig einhvern tímann á því hversu
mikið hvolpavitið hljóp með mig í
gönur þegar ég kynntist þér fyrst
aðeins fimm ára gamall. Geiri
hafði svo sannarlega nælt sér í
sætustu stelpuna á ballinu. Ég
man það svo vel hversu mikið ég
sótti í þig, hengdi mig hreinlega á
þig. Setti varalit á mig og kyssti
þig á kinnina til að merkja mér
þig.
Æðruleysið, styrkurinn og
hvatningin sem þú gafst mér síð-
ar á lífsleiðinni í mínum veikind-
um er eitthvað sem ég mun alltaf
eiga og geyma. Ég lærði margt af
þér og þú sýndir mér hvernig
aldrei ætti að gefast upp þó á móti
blési. Að geta leitað til þín og
Geira var mér ómetanlegur
styrkur í einu og öllu. Hjá þér var
manngæskan í garð annarra svo
sterk, sama hvað gekk á í ykkar
baráttu þá var þér alltaf svo um-
hugað um að aðrir í kringum ykk-
ur hefðuð það sem best.
Okkur þykir svo óendanlega
vænt um þær stundir sem börnin
okkar áttu með þér. Þú alltaf að
spyrja um þau og takandi myndir
af þeim þegar þau hittu þig. Það
sama má segja um stelpurnar
þínar þær Berglindi og Heiðdísi.
Gleðin sem þær gefa af sér í garð
barnanna er svo yndisleg og
ómetanleg.
Við fjölskyldan hefðum viljað
fá svo miklu lengri tíma með þér.
Við Þóra erum þakklát fyrir
hversu vel þú tókst á móti nýjum
fjölskyldumeðlimum þegar við
byrjuðum okkar samband. Eins
fyrir stuðninginn og kærleikann
sem þú sýndir okkur þegar við
þurftum á því að halda. Takk fyrir
börnin okkar, væntumþykjuna og
alúðina sem skein frá þér gagn-
vart þeim.
Elsku Geiri, Berglind og Heið-
dís. Hugur okkar er hjá ykkur og
við verðum alltaf til staðar fyrir
ykkur.
Takk fyrir allt og allt.
Kveðja,
Örn Ingi, Þóra Björt og börn.
Elsku Iðunn okkar.
Það er svo margs að minnast
og margs að sakna. Við getum lit-
ið ein 30 ár aftur í tímann og
minnst þeirra stunda þegar þið
Geiri voruð að byrja að slá ykkur
upp og við kynntumst þér í fram-
haldinu. Við minnumst líka
menntaskólaáranna þegar við
bjuggum öll saman á Bergþóru-
götunni og stigum okkar fyrstu
skref í búskap, við vorum ekki
endilega alltaf sammála um hvað
skyldi elda en allt gekk samt ótrú-
lega vel.
Ekki síst finnst mér þó gaman
að rifja upp allar stundirnar sem
við höfum átt eftir að við eignuð-
umst stelpurnar okkar. Útileg-
urnar í hjólhýsinu voru frábærar,
dásamlegt að drekka saman
morgunkaffið, annaðhvort í hýs-
inu hjá mér eða þér eða jafnvel úti
ef gott var veður. Auðvitað var
svo tilheyrandi að hella rauðvíni í
glas að kvöldi. Við eigum líka dýr-
mætar minningar úr Spánarferð-
unum okkar saman. Þér fannst
alltaf best að liggja undir sólhlíf-
Iðunn Geirsdóttir HINSTA KVEÐJA
Vísa veginn, vaka yfir
allar góðar vættir bið
Ástvinunum öllum vera
vegavísir fram á við
Leiða áfram, lýsa veginn
ljúfum dætrum, báðum tveim
Létta byrðar, lyfta þunga
úr hugum bæði og hjörtum þeim
Veita vernd og vonir vekja
fjölskyldunni sértu hjá
Lífsins gleði láttu þekkja
léttir þegar dregur frá
Minning sú er eftir lifir
mætri konu vitni ber
Megi Guð og góðar vættir
geyma hennar orðsins spor
(bsi)
Með kærleika og virð-
ingu kveð ég Iðunni mína
Geirs og sendi aðstandend-
um hlýjar kveðjur samúðar
og hluttekningar.
mbl.is/minningar
Benný Sif Ísleifsdóttir.