Morgunblaðið - 30.04.2018, Side 26

Morgunblaðið - 30.04.2018, Side 26
26 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 30. APRÍL 2018 VIÐTAL Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is „Þá, rétt eins og í dag, kallaði það á blöndu af kæruleysi og hugrekki að ákveða að gerast rithöfundur,“ segir Þórarinn Eldjárn þegar hann er spurður hvernig það atvikaðist að hann lagði fyrir sig skriftir. Hann segir starfið þess eðlis að ekki sé alltaf hægt að sjá til lands, og rithöfundurinn geti aldrei vitað fyrir víst hvort tekjurnar af skrifunum dugi til að reka heimili. „Efnahagslega tókst okkur samt að komast nokkuð vel af. Við vorum svo lán- söm að þegar fyrsta bókin kom út stundaði ég nám í bókmenntafræði í Svíþjóð þegar þar ríkti gullöld og námsmenn með fjölskyldur nutu leigustyrkja, barnapeninga og alls konar fyrirgreiðslu. Að náminu loknu, þegar alvara lífsins tók við, tókst mér síðan að halda áfram að láta enda ná saman með ýmiss konar rit- störfum og þýðingum.“ Fjögur rit fyrir hvern bókstaf Á næsta ári fagnar Þórarinn 45 ára rithöf- undarafmæli. Af því tilefni gefur bókaútgáfan Gullbringa, sem Þórarinn og fjölskylda stofn- uðu á sínum tíma, út fyrstu fjögur ritin í löngum flokki sem fengið hefur yfirskriftina Lespúsl. Ritin eru númeruð frá A1 til A4 og hafa að geyma smásögur, ævintýri og sonn- ettur. Verða næstu Lespúslin númeruð Á1 til Á4, B1 til B4, og þannig koll af kolli. „Sig- urður Oddsson, sem á heiðurinn af kápunni og annaðist umbrot ritanna fyrir okkur, hefur hannað heilt stafróf frá a til ö svo að ritin verða samtals 128 talsins ef fram heldur sem horfir,“ útskýrir Þórarinn. Það átti þátt í að kveikja hugmyndina að Lespúsli að árið 2017 tók Þórarinn sig til og birti, á hverjum miðvikudegi, eitt ljóð úr sarpi sínum á Fésbók og kallaði það ljóðviðrun. „Það getur verið fróðlegt að gramsa í gömlu dóti, og þegar ég renndi í gegnum allar ljóða- bækurnar mínar þá kom í ljós að margt í þeim var miklu skárra en mig minnti,“ segir hann glettinn. Útgáfa Lespúsls-ritanna var hug- mynd Unnar konu Þórarins og Halldórs sonar hans og þjónar, rétt eins og ljóðviðrunin á Facebook, m.a. þeim tilgangi að leyfa les- endum að enduruppgötva gömul verk. „Ljóðin og sögurnar sitja föst í alls kyns bókum sem seljast upp, detta í sundur eða verða óað- gengilegar af einhverjum sökum, og gleymast með tímanum.“ Þórarinn ætti ekki að eiga í miklum vanda með að fylla 128 rit, því á löngum ferli hefur hann afkastað miklu. Reiknast Þórarni til að samtals hafi verið birt í kringum 700 ljóð eftir hann, 70 smásögur og sex skáldsögur að ógleymdum ótal bóka- og leikritaþýðingum. „Það er endalaust hægt að stilla saman úr þessu höfundarverki og úr nógu að velja. Svo bætist áfram við í hinn endann og koma t.d. út tvær nýjar ljóðabækur í haust, önnur fyrir börn og hin fyrir fullorðna,“ segir Þórarinn og upplýsir að hann sé með enn fleiri verk í smíð- um, þar á meðal eina skáldsögu. Eru smásögur minna merkilegar? Það virðist sama hvað Þórarinn tekur sér fyrir hendur að skrifa, að það heppnast yf- irleitt vel og er hann jafnfimur að skrifa ljóð og sögur. Er áberandi hvað hann hefur samið margar smásögur og berst talið að stöðu smá- sagnaformsins í íslenska bókmenntaheim- inum. Þórarinn segist kannast við það viðhorf að íslenskum rithöfundum þyki eftirsóknarverð- ast að skrifa skáldsögur í fullri lengd. „Hjá okkur hefur tilhneigingin verið sú að höfundar byrja á að gefa út eina eða tvær ljóðabækur, senda svo frá sér eins og eitt smásagnasafn og loks skáldsögu og finnst hún vera það eina sem blífur. Þeir tala jafnvel um smásagna- safnið eins og eitthvað sem þeir sópuðu saman úr skúffunni.“ Það er leiðinlegt að á Íslandi skuli smásag- an vera sett á lægri stall. Ef svipast er um úti í heimi má víða finna allt annað viðhorf til smásagna, og fjölda framúrskarandi höfunda sem semja fyrst og fremst smásögur og njóta mikillar virðingar fyrir. Þórarin grunar að markaðsöflin hafi átt þátt í að móta sýn ís- lenskra rithöfunda til smásögunnar. „Það er viðtekin skoðun að smásagnasöfn geti ekki selst eins vel og skáldsögur, sem er ein- kennilegt viðhorf og á örugglega ekki við í dag enda smásagan bókmenntaform sem ætti að henta nútímamanninum vel. Fólk hefur lítinn tíma fyrir lestur og mér finnst að það ætti að vera auðveldara að finna lausa stund til að lesa eina smásögu en til að glíma við 700 blað- síðna glæpadoðrant.“ Áherslan á lengri skáldsögur veldur jafnvel því að höfundum hættir til að gera verk sem eru óþarflega löng, og ekki laust við að eftir því sé tekið ef skáldsögur eru ekki mörg hundruð blaðsíður að lengd. „Við sjáum þessa þróun t.d. á norrænu glæpasögunum. Á sjö- unda áratugnum, þegar Sjöwall og Wahlöö sendu frá sér bækurnar um lögreglumanninn Martin Beck, sem kalla má langafa allra slitnu og lífsþreyttu skandinavísku lögreglumann- anna sem á eftir hafa fylgt, þá voru þær um 150-200 blaðsíður að lengd en nú þykir aumt ef slík saga er undir 400 blaðsíðum.“ Miklu minna fjallað um bókmenntir Starfsumhverfi rithöfunda hefur breyst mikið frá því Þórarinn sendi frá sér sína fyrstu bók fyrir tæplega hálfri öld. Ritað mál á undir högg að sækja og bóksala hefur dreg- ist saman jafnt og þétt. Ef svipast er um á ís- lensku bókmenntasenunni virðast ungir rit- höfundar ekki mjög áberandi og þykir sumum ástæða til að óttast að lítil nýliðun eigi sér stað. Þórarinn segir skiljanlegt að fólk komist að þessari niðurstöðu, en grunar að þvert á móti sé veruleg gróska í íslenskum bók- menntum og hægt að vænta mikils af næstu kynslóð íslenskra rithöfunda. Hann segir gróskuna t.d. sjást vel í háskólunum þar sem töluverður áhugi er á námi í ritlist og þar sé enginn skortur á efnilegum höfundum sem eiga vafalítið eftir að láta rækilega að sér kveða. „Það sem hefur breyst er að bókmennta- umfjöllun á opinberum vettvangi er orðin miklu minni. Hér í gamla daga voru gefin út mörg dagblöð í Reykjavík og á hverju einn- asta þeirra starfaði fastráðinn bókmennta- gagnrýnandi. Þeir sem gáfu út bækur gátu átt von á því að um þær yrði fjallað, og birtir rit- dómar,“ segir Þórarinn. „Núna er opinber umfjöllun um bókmenntir alveg hipsum haps, og helst að fyrir jólin séu almennir en bók- hneigðir blaðamenn dubbaðir upp sem bók- menntagagnrýnendur, og snúa sér svo að ein- hverju öðru strax í janúar.“ „Fróðlegt að gramsa í gömlu dóti“ Morgunblaðið/Kristinn Magnússon  Þórarin Eldjárn grunar að það sé markaðsöflunum að kenna að í íslenskum bókmenntaheimi virð- ast smásögur settar skör lægra en skáldsögur í fullri lengd  Er smásagan samt bókmenntaform sem ætti að henta vel nútímamanninum sem er í stöðugri tímaþröng  Út eru komin fyrstu fjögur ritin með úrvali af eldri verkum Þórarins og gætu orðið 128 talsins þegar upp er staðið Heild Þegar kápum fyrstu fjögurra ritanna er raðað saman mynda þær bókstafinn „a“. Smásagnafeimni „Hjá okkur hefur tilhneig- ingin verið sú að höfundar byrja á að gefa út eina eða tvær ljóðabækur, senda svo frá sér eins og eitt smásagnasafn og loks skáldsögu og finnst hún vera það eina sem blífur. Þeir tala jafnvel um smásagnasafnið eins og eitthvað sem þeir sópuðu saman úr skúffunni,“ segir Þórarinn.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.