Morgunblaðið - 23.05.2018, Page 31
MINNINGAR 31
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. MAÍ 2018
og magafylli fyrir austan á milli
þess sem við riðum út með hon-
um og fleiri gleðigjöfum á Hér-
aði. Síðan var riðið norður aftur,
en í stað öræfanna á austurleið-
inni var þrædd gamla þjóðleiðin á
heimleiðinni.
Það var sama hvar við áðum,
alls staðar var okkur tekið sem
höfðingjum. Meistari Egilsen var
vel kynntur og aufúsugestur á
hverjum bæ. Nú hefur hann lagt
á gæðing sinn og ríður á góð-
gangi inn í sumarlandið. Það
glittir í tóbakspontu í hendi og
Grundarvatn í vasa. Góða ferð,
gæskur.
Gísli Sigurgeirsson.
Hann hringdi gjarnan seint á
kvöldin þegar ys dagsins hafði
hljóðnað og okkur gafst tími til að
spjalla. Um allt og ekkert, gaml-
ar samverustundir og samtíma-
atburði, einnig það sem fram
undan var. Um vini okkar sem
hann sá ætíð í því spaugilega ljósi
sem var svo ríkur þáttur í fari
hans. Engan mann hef ég þekkt
sem hafði jafnsterka nærveru í
símtali, sér í lagi þegar hláturinn
yfirbugaði hann. Þá var eins og
hann sæti andspænis mér við eld-
húsborð en ekki í nokkur hundr-
uð kílómetra fjarlægð. Ætíð gaf
hann mér meira en ég gat nokkru
sinni endurgoldið. Sömu sögu
hafa áreiðanlega flestir vina hans
að segja. Gunnar Egilson var ein-
faldlega þannig maður.
Minningar blika, stjörnur á
næturhimni. Atvik í hestaferð
lýsir ódrepandi jákvæðni og hug-
arró Gunnars. Hann átti öflugan
hest, töluvert erfiðan sá var
reyndar tekinn að reskjast er hér
var komið. Í forreiðinni heyrðum
við kunnuglegt fnæs að baki okk-
ar og litlu síðar fór sá bleikálótti
fram úr okkur á stökki. Ég náði
að kalla til Gunnars og spyrja
hvort það yrði í lagi með hann. Já
allt í himnalagi, sagði hann, Lyk-
ill rýkur ekki nærri því eins hratt
og hann gerði í gamla daga!
Gunnar var nautnamaður á
neftóbak og ölkær í betra lagi en
fór vel með hið síðarnefnda svo
að sjaldan sá á honum vín. En
aldur og ósérhlífni í hversdags-
striti tóku sinn toll og undanfarin
ár hefur líkaminn tæplega haldið
í við hugann. Síðasta og mesta
höggið var Gunnari greitt í mynd
heilablæðingar sem flæddi á
augabragði yfir hugarlendur
hans og slökkti tveimur dögum
síðar á lífsandanum. Líklega
hefði hann sjálfur kosið að kveðja
einmitt þannig, snögglega og án
málalenginga, en við sem eftir
sitjum hefðum í sjálfselsku okkar
sannarlega viljað hafa hann
miklu lengur hjá okkur. En að
því kemur að við hittumst öll aft-
ur og þá verður haldið í hesta-
ferðalag. Án tilgreinds áfanga-
staðar eða lokadags en ég verð
illa svikinn ef leiðin minnir ekki
meira en lítið á ávöl og algróin
heiðalönd Þingeyjarsýslu. Þá má
treysta því að Gunnar Egilson
mun gera það sem honum fór
alltaf best. Að sitja hest sinn
keikur og ausa af tilgerðarlausu
örlæti úr Grundarvatns- og gleði-
brunni sínum.
Og láta dægrin ljóma.
Ari J. Jóhannesson.
Fáeinum dögum eftir að við
fluttumst til Egilsstaða 1972 rák-
umst við á Gunnar Egilson þar
sem hann kom ríðandi á Gusti
sínum eftir Egilsstaðanesinu.
Var þetta upphafið að afar sterk-
um vináttuböndum með fjöl-
skyldum okkar sem haldist hafa
æ síðan.
Við hjónin bjuggum á Egils-
stöðum í nokkur ár og urðum
strax heimagangar á heimili
þeirra Gunnars og Auðar. Fjöl-
skylda þeirra bauð okkur að vera
með þeim á þeirra helgustu
stundum og um jól og áramót
vorum við mikið hjá þeim. Var
það afar vel þegið af okkur sem
áttum enga ættingja á Héraði og
urðu þau strax okkar fjölskylda.
Á Egilsstöðum stóð heimili
þeirra alltaf opið öllum og líklega
hefur húsinu aldrei verið læst á
meðan þau bjuggu þar. Gunnar
var mikill selskapsmaður og
gleðigjafi og sóttist fólk eftir
nærveru hans. Á Egilsstöðum
höguðu forlögin því þannig að um
nokkuð langt skeið stóð hann
vaktina sem flugumferðarstjóri
alla daga ársins. Í dag þætti slíkt
vinnuálag ekki boðlegt. En af
trúmennsku vann hann allan sól-
arhringinn ef því var að skipta.
Ef stund gafst skaust hann á
hestbak og stundum mátti sjá
hann og Ingimar vin hans á Eg-
ilsstöðum leggja af stað í reiðtúr
undir miðnætti.
Ári eftir að við fluttumst í
Eyjafjörð fluttu Gunnar og fjöl-
skylda til Akureyrar og skömmu
síðar að Grund í Eyjafirði. Með
kaupum Gunnars og Auðar á
Grund jukust umsvif Gunnars í
hestamennsku til muna. Var
hann afar stoltur og glaður að
hafa náð að festa sér Grund. Þó
svo að ein fegursta sveitakirkja
landsins stæði við hliðina á íbúð-
arhúsi þeirra var Gunnar ekki
mikið að ónáða sig við að sækja
kirkju. Þrátt fyrir þetta bar hann
hlýjan hug til kirkjunnar sem
hann sýndi í verki þegar þess
þurfti með.
Gunnar var mikill sögumaður
og kunni ógrynni af gamansögum
af Héraði. Eftir að við hjónin
fluttum til Reykjavíkur hringd-
umst við oft á og yfirleitt leiddist
samtalið að því að Gunnar rifjaði
upp góðar sögur frá Egilsstaða-
dvöl okkar. Ef við spurðum um
snjóalög á Grund harðneitaði
hann ævinlega að nokkur snjór
væri sjáanlegur, aðeins græn
tún.
Gunnar var afar orðheppinn
og eru margar tilvitnanir í hann
fleygar í vinahópi þeirra hjóna.
Þá var einn eiginleiki sem fylgdi
Gunnari, en það var glópalánið
sem hann kallaði svo. Þetta
glópalán var einstakt. Sem dæmi
má nefna þegar hann fór ríðandi
norður í land, en týndi ávísana-
heftinu úti í móum á leiðinni.
Þegar hann áði á sveitabæ í
Bárðardal var ávísanaheftið
komið þangað áður en hann náði
að sakna þess. Einu sinni var
hann á ferðinni með fjölskylduna
akandi um Evrópu með tjaldvagn
í eftirdragi. Þegar þau komu í lok
ferðar á tjaldstæði í Kaupmanna-
höfn bilaði bíllinn og þurftu þau
að skilja hann eftir þar. Svo
heppilega vildi til að næsti bíll á
eftir inn á tjaldstæðið var íslensk
fjölskylda sem var alveg til í að
hengja tjaldvagninn aftan í sinn
bíl og taka þau með í bílinn til
Bergen svo að þau kæmust heim
með Norrænu.
Við vottum Auði, Þorsteini,
Bryndísi, Kjartani, Snæfríði,
Öglu og fjölskyldum þeirra inni-
lega samúð okkar og munum við
leggja okkur fram um að halda
minningu hans á lofti.
Jónína G. Jósafatsdóttir
Bjarni B. Arthursson.
Með mikilli eftirsjá sé ég á bak
traustum vini mínum, Gunnari
bónda á Grund, er kvaddi þetta
jarðlíf fyrirvaralítið nú í upphafi
gróandans. Hygg ég að harmur
sé að æði mörgum kveðinn, því
Gunnar var niðjasæll ættfaðir og
ákaflega vinmargur. Ræktaði
hann þau tengsl af fágætri
atorku til endadægurs, eins og
þrotlaus símanotkun hans bar
vitni um. Hann var vitur maður
og góðgjarn og sakir nærfærni
sinnar og aðgátar í nærveru sálar
var hann aðgengilegur trúnaðar-
vinur og mörgum samferða-
mönnum sínum afar mikils virði.
Hann var ráðhollur mannasættir,
sem jafnan lagði gott eitt til mála
af asaleysi og yfirvegun. Vegna
þroskaðs skilnings síns á mann-
legu eðli og breyskleika sá hann
oft aðra fleti á málum en aðrir
gerðu. Hann var réttsýnn hug-
sjónamaður, sem jafnan stóð með
hinum hrakta.
Gunnar man ég sem ungling,
þótt við kynntumst ekki að gagni
fyrr en hálfri öld síðar. Hann var
þá sumarstrákur á Guðlaugsstöð-
um í Blöndudal og naut þar sér-
stakrar hylli húsbænda, heima-
fólks og nágranna sakir geðprýði
sinnar, fjörmikils dugnaðar og
glaðværðar. Hann þótti vera
prýddur gerðarþokka. Þá þegar
var nautn hans af því að fást við
hross orðin afar áberandi og virt-
ist hún endast honum til enda-
dægurs.
Gunnar átti sérlega auðvelt
með að komast í kynni við fólk og
heilla það með persónu sinni, því
bæði sýndi hann viðmælanda sín-
um virðingu og áhuga, en var
jafnframt léttur í viðmóti með
kraumandi húmor undir niðri.
Sagnamaður var hann einstakur
og varð það honum hvalreki mik-
ill að búa um drjúglangt skeið
austur á Héraði, þar sem íbúar
virtust flestir hinn ágætasti efni-
viður í gamansögur. Gunnar
hafði ennfremur skarpan skiln-
ing á kímnigáfu viðmælenda
sinna. Hann var hvarvetna au-
fúsugestur, sem fegraði geðblæ
hverrar samkundu með nærveru
sinni einni saman en ekki síður
hnyttnum tilsvörum, sagnalist og
söng. Gallar hans og neftóbaks-
notkun hurfu í skuggann af kost-
um hans.
Gunnar var í eðli sínu við-
kvæmur listamaður, sem að
nokkru leyti lifði fyrir ánægju
stundarinnar og treysti á að mál-
in redduðust. Hann helgaði hinni
frjóu lífsnautn og mannlegum
samskiptum tilveru sína. Til
dauðadags gat hann hlakkað til
komandi mannfagnaða líkt og
barn til jólanna. Hann bjó að
fornri kunnáttu í fiðluleik og org-
anleik, var ágætlega lagviss og
hafði gott vit á skáldskap. Hann
var enda af skáldum kominn og í
ættum hans má finna þjóðfræg
stórmenni á sviði klassískra
fræða, myndlistar, tónlistar, fé-
lagsmála og sálusorgunar. Hann
fetaði slóð frelsarans í handverki
sínu. En mestur listamaður var
hann í umgengni sinni við menn
og skepnur.
Miklar þakkir kann ég hinum
horfna vini fyrir margvíslega
greiðasemi hans og þrotlaust ör-
læti. Hann mun engum gleymast,
sem á vegi hans urðu.
Pétur Ingvi Pétursson.
„Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna,
vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina.“
„Hefurðu heyrt þessar stór-
kostlegu vísur hans Hjálmars?
Hann er snillingur.“
Þannig mæltist Gunnari Egil-
son og hóf að þylja gullfallegar
vísur Hjálmars Freysteinssonar
við fallega lagið frá Gotlandi,
Vem kan segla, þar sem við lág-
um hlið við hlið á Fjórðungs-
sjúkrahúsinu á Akureyri.
Ég hafði þá nýfengið gervihné
og Gunnar með nýja gervimjöðm,
en báðir með gömlu raddböndin,
sem við þöndum með þessum
sannindum um vináttuna óborg-
anlegu.
Við höfðum áður kynnst á Rót-
arýfundum og gátum sannarlega
tekið undir með okkar fjórprófi
Rótarýmanna að sannleikur
þessa texta stæðist það:
· Er það satt og rétt?
· Er það drengilegt?
· Eykur það velvild og vinar-
hug?
· Er það öllum til góðs?
Við náðum gott betur en að
rifja upp okkar fyrra samstarf,
svo sem þegar við lékum saman
undir söng á einhverri Rótarý-
gleði, hann á fiðlu langafabróður
síns, Benedikts Gröndal, og ég á
píanó eða hljómborð.
Við spauguðum mikið hvor í
sínu rúminu og þótti okkur, að
eigin sögn, við vera svo skemmti-
legir, að við hétum því að liggja
ætíð saman á sjúkrastofum, ef
svo bæri undir.
Jafnvel datt okkur í hug að
benda heilbrigðisráðherra á þá
sparnaðarleið að enginn sjúkling-
ur yrði skráður inn á sjúkrahús
nema að hann stæðist inntöku-
próf í lágmarksfyndni.
Við náðum þeirri ótrúlegu
samstöðu að vera útskrifaðir með
góða húmorseinkunn og vorum
sendir saman í endurhæfingu á
Kristnesspítala.
Þvílík gleði, eins og þá sem ég
upplifði með Gunnari á Grund, er
í minningunni eins og sólskin á
sumardegi.
Síðast var það að loknum
Fuglakabarett þeirra Daníels
Þorsteinssonar og Hjörleifs
Hjartarsonar í Laugarborg síð-
asta vetrardag sem við féllumst í
faðma glaðir og reifir, fagnandi
sumri og fengum okkur pínku
prís í nefið.
Mér finnst ég ekki geta sýnt
þessum perluvini mínum meiri
virðingu, en með seinni vísu
Hjálmars Freysteinssonar.
Vinátta okkar Gunnars var
mér verðmætust eðalsteina.
Ég votta Auði, Þorsteini,
Bryndísi, Kjartani, Snæfríði,
Öglu og öllum öðrum aðstand-
endum innilega hluttekningu við
fráfall góðs drengs.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina
en viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
Jón Hlöðver Áskelsson.
Gunnar mágur minn Egilson
var meðal skemmtilegustu
manna sem ég hef kynnst á lífs-
leiðinni. Hann var mikill söng- og
stemningsmaður og hafði gaman
af því að segja sögur, enda ein-
staklega fundvís á það broslega í
tilverunni. Sögurnar sagði Gunn-
ar með tilþrifum og tilheyrandi
eftirhermum án þess að vera
nokkurn tíma meinlegur eða
meiðandi. Oftar en ekki var grín-
ið á hans eigin kostnað eða þeirra
hjóna, hans og Auðar. Hann var
einstakt ljúfmenni, hlýr og greið-
vikinn með afbrigðum og vildi allt
fyrir aðra gera. Hann var ótrú-
lega vinmargur enda laðaðist fólk
úr öllum áttum að þessum glað-
væra og skemmtilega manni.
Fyrir vikið var oft mjög gest-
kvæmt á heimili þeirra Auðar
hvort sem það var á Egilsstöðum,
á Akureyri eða frammi á Grund í
Eyjafirði.
Ein mesta upphefðin sem mér
hlotnaðist í samskiptum okkar
nafna var þegar hann bauð mér
að skoða „glerlistasafnið“ á
Grund en þar stundaði hann þá
kristilegu iðju að breyta vatni í
vín. Hann var lunkinn víngerð-
armaður og gjöfull á veigarnar.
Þannig kom ekki annað til greina
þegar framundan var stórafmæli
hjá Snæfríði systur hans en að
hann leysti okkur út með stóran
kassa af guðaveigum til að nota í
veislunni. Hef ég sjaldan ekið
jafn varlega milli Reykjavíkur og
Akureyrar því ekki hefði verið
gott að lenda í umferðaróhappi
með slíkan varning í skottinu.
Allt gekk þetta áfallalaust og
veislan var hin skemmtilegasta
enda enginn skortur á söngolíu,
þökk sé nafna mínum og Grund-
arvatninu hans. Ég tel óhætt að
greina frá þessu nú enda málið
löngu fyrnt.
Sem fyrr segir var Gunnar
góður sögumaður, eins og reynd-
ar þau systkin öll og þegar þau
koma saman er glatt á hjalla og
mikið hlegið. Þannig var það
sannarlega kvöld eitt rétt eftir að
efnahagskreppan skall á haustið
2008. Þá höfðu systkinin, grun-
laus um hvað í vændum var,
ákveðið með góðum fyrirvara að
fara ásamt mökum til Kaup-
mannahafnar og heimsækja Dav-
íð bróður þeirra sem þar var bú-
settur. Hörmungarsögur af hruni
Íslands höfðu þá um nokkurt
skeið verið meðal helstu fyrir-
sagna fjölmiðla á Norðurlöndum.
Eitt kvöldið þegar hópurinn fór
út að borða var nafni í sérstak-
lega miklu stuði. Má segja að
hópurinn hafi verið í samfelldu
hláturskasti allt kvöldið og var
þetta farið að vekja athygli ann-
arra gesta á staðnum. Þegar við
vorum í þann mund að yfirgefa
veitingahúsið gat virðuleg norsk
kona sem sat við næsta borð ekki
lengur orða bundist og spurði
hvaðan úr veröldinni þessi fjör-
ugi hópur kæmi. Þegar hún
heyrði að við værum frá Íslandi
varð hún mjög undrandi og sagði
þessi eftirminnilegu orð: „Mikið
er gott að þið Íslendingar getið
enn hlegið.“ En þannig var það í
kringum Gunnar Egilson, það
var sama hvort þjóðarskútan var
á mikilli siglingu eða við það að
sökkva, það voru aldrei leiðindi
eða lognmolla í kringum okkar
mann. Fyrir það og allt annað
þökkum við samferðafólk hans
nú þegar leiðir skilja. Auði, sem
staðið hefur eins og klettur við
hlið manns síns alla tíð, sendi ég
mínar dýpstu samúðarkveðjur
sem og öllu fólkinu þeirra Gunn-
ars á Grund.
Gunnar E. Kvaran.
Glaður og reifur skyli gumna
hver uns sinn bíður bana. Þetta
spakmæli Hávamála lýsir vel lífs-
hlaupi vinar míns Gunnars Eg-
ilson.
Fyrir skömmu ókum við fjög-
ur, vinahópur fjölskyldunnar,
norður í Grund í Eyjafirði í heim-
sókn. Frá því í haust hafði þetta
staðið til en alltaf var eitthvað
sem tafði.
Eins og búast mátti við feng-
um við góðar móttökur á Grund.
Þar var glatt á hjalla, mikið
spjallað, hlegið og sagðar sögur.
Allir voru kátir og hressir, ekki
síst sjálfur „Grundarjarlinn“
Gunnar Egilson. Aðeins fjórum
dögum seinna bárust þær
óvæntu og sorglegu fréttir að
Gunnar hefði fengið heilablóðfall
sem dró hann til dauða tveim
dögum síðar.
Fyrir um það bil 60 árum flutt-
ust ung og glæsileg hjón, Gunnar
og Auður Egilson, til Egilsstaða
og settust að í lítilli íbúð í flug-
turninum á Egilsstaðaflugvelli
þar sem Gunnar hóf störf sem
flugumferðarstjóri. Síðar byggðu
þau sér fallegt heimili í Egils-
staðakauptúni og bjuggu þar í
nær tvo áratugi þar til þau fluttu
til Akureyrar og Gunnar gerðist
flugumferðarstjóri við Akureyr-
arflugvöll. Fljótlega eftir komu
þeirra austur kynntumst við og
einlæg vinátta myndaðist milli
fjölskyldna okkar. Sameiginlegt
áhugamál var hestamennskan og
margra skemmtilegra reiðtúra
og ferðalaga er að minnast. Má
þar nefna árlega Urriðavatnsreið
og Jónsmessureið. Í Urriðavatn
riðum við að vetrinum, lentum
stundum í norðanbyl en létum
það ekki hefta för og höfðum að
mælikvarða að ef hundarnir ekki
snéru aftur þá var fært. Oft rið-
um við út alla Jónsmessunóttina,
völdum skemmtilega og fallega
reiðleið, t.d. um Egilsstaðaskóg
og slepptum alveg svefni. Mottó-
ið var: Ekki eyða fegurstu sum-
arnóttunum í svefn á meðan mað-
ur er ungur, geyma það þar til í
skammdeginu eða ellinnar, þá
gefst nægur tími til að sofa.
Minnisstæð er ferð okkar Guð-
rúnar, Gunnars og Auðar og
yngstu barnanna í fjölskyldunum
á heimsmeistaramót íslenska
hestsins í Hollandi 1979. Farið
var með ferjunni Norröna og ekið
suður England, um Frakkland og
Belgíu til Hollands og til baka um
Þýskaland, Jótland, yfir til Sví-
þjóðar og til Bergen og svo aftur
með Norröna heim. Þessi fimm
vikna ferð var heilt ævintýri með
ýmsum uppákomum sem um
væri hægt að skrifa heila bók.
Ári eftir að Gunnar og Auður
fluttu norður hringdi hann í mig
og spurði hvort hann mætti koma
austur og ríða út með okkur,
jafnvel taka einn gaur með sér að
norðan. Það var auðsótt mál og
nokkru seinna komu hann og
gaurinn (sem reyndar heitir fullu
nafni Hólmgeir Valdimarsson)
austur. Riðið var út alla helgina,
hestamenn heimsóttir og gleði
haldið á lofti. Þetta varð árlegur
viðburður í nokkur ár og gekk
undir því virðulega nafni Gaura-
gangur. Stundum var breytt til,
farið norður, Gauragangurinn
haldinn þar og riðið út með Ak-
ureyringum.
Eftir að við fluttum til Hvann-
eyrar hélt Gauragangurinn
áfram og eyfirskir gaurar komu í
heimsókn og riðu út með hesta-
fólki á Hvanneyri og nágrenni
eða hestafólk frá Hvanneyri fór
norður. Í minningunni er þetta
eins og segir í vísunni: Eigi man
eg allt sem skeði, en eitt er víst að
þá var gleði.
Það var stór og djörf ákvörðun
þegar Gunnar keypti Grund ll í
Eyjafirði en mikið gæfuspor og
þar hefur sælureitur fjölskyld-
unnar verið síðan. Fyrir nokkru
var Gunnar spurður hvort hann
færi ekki að hætta þessu búskap-
arbasli, seldi Grund og tæki því
rólega. „Frá Grund fer ég ekki
lifandi,“ svaraði hann þá og hefur
nú sannað þá ákvörðun.
Nú er gleðigjafinn Gunnar Eg-
ilson allur. Hans er sárt saknað
en minningin um góðan og
traustan vin mun ylja mér um
hjartarætur á meðan ég tóri.
Blessuð sé minning hans.
Auði og fjölskyldu sendi ég
innilegar samúðarkveðjur.
Ingimar Sveinsson.
Fyrstu heimildir um „pott-
verja“ á Hrafnagili er að finna í
Víga-Glúmssögu þegar Þorgrím-
ur á Espihóli sat fyrir Arnóri sem
sótti malt í Gásir til að lífga upp á
brúðkaup sitt á Þverá fremri
(Munkaþverá). Þá sat Þorgrímur
í Hrafnagilslaug með sínum fylgi-
sveinum og hröktu þeir Arnór yf-
ir á austurbakka Eyjafjarðarár
en náðu að taka af honum mjöð-
inn! Þannig er löng hefð fyrir því
að slappa af í heitum potti á
Hrafnagili.
Gunnar á Grund er farinn úr
heita pottinum hér í Hrafnagils-
laug þar sem hann átti fast sæti
og skáp nr. 5. Hann lék á als oddi
í spjalli yfir kaffibolla að loknu
sundi með okkur á föstudags-
morgni en seinni partinn fékk
hann þungt heilablóðfall og var
allur tveimur dögum seinna.
Hann skilur eftir sig skarð sem
verður vandfyllt. Nær alltaf var
hann maður léttleikans og átti
auðvelt með að sjá björtu hlið-
arnar á málunum. Það var aðeins
þegar hann varði verk Jóhönnu
Sigurðardóttur að alvaran kom í
ljós. Kratablóðið var ekta. Gunn-
ar var gæfumaður og mikill fjöl-
skyldumaður. Allir hestamenn
þekkja hann og líklega taka
a.m.k. tveir hestamenn á móti
honum þarna hinum megin,
Magnúsar tveir. Hann var mikill
gleðigjafi og sagði sögur af ýms-
um þekktum mönnum og hermdi
gjarnan eftir þeim. Svo var hann
lykilmaður í gleðiflokknum
Hryllingi en þeir félagar riðu um
héruð en drápu engan heldur
drukku heilsudrykki á áningar-
stöðum og kváðu vísur enda
margir snjallir hagyrðingar í
hópnum.
Aðalstarf Gunnars var flugum-
ferðarstjórn, bæði á Egilsstöðum
og Akureyri, en til að hafa svig-
rúm fyrir sitt áhugasvið, hrossa-
rækt, keypti hann höfuðbólið
Grund hér í Eyjafjarðarsveit.
Þar skildi hann við þennan heim,
tók hnakk sinn og hest og reið
rakleitt til Lykla-Péturs og bað
um hagagöngu sem hefur vænt-
anlega verið auðfengið mál. Þar
eigum við von á að hann muni
taka á móti okkur pottverjum
þegar okkar tími kemur. Blessuð
sé minning hans og við sendum
innilegar samúðarkveðjur til
Auðar konu hans og fjölskyldu.
Fyrir hönd sundfélaga í
Hrafnagilslaug,
Páll Ingvarsson, Reykhúsum.
Fleiri minningargreinar
um Gunnar Egilson bíða birt-
ingar og munu birtast í blað-
inu næstu daga.