Morgunblaðið - 13.06.2018, Blaðsíða 17
FRÉTTIR 17Erlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 13. JÚNÍ 2018
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
„Það hefur ekki verið auðvelt að ná
þessum árangri. Hjá okkur var það
fortíðin sem hélt aftur af okkur og
gamlar venjur og fordómar skyggðu
á sýnina,“ sagði Kim Jong-un,
leiðtogi Norður-Kóreu, á fundi sín-
um með Donald J. Trump Banda-
ríkjaforseta, en leiðtogarnir hittust á
glæsihóteli á Sentósaeyju í Singapúr
í fyrrinótt. Ljóst er að fundur þessa
tveggja leiðtoga er sögulegur og
undirrituðu þeir Kim og Trump sátt-
mála sem sagður er færa Kóreu-
skaga nær kjarnorkuafvopnun.
„Við höfum í dag átt sögulegan
fund og ákveðið að skilja fortíðina
eftir. Og erum nú í þann mund að
skrifa undir sögulegt skjal,“ sagði
Kim er hann sat við hlið Trumps.
„Heimurinn mun sjá mikla breyt-
ingu. Ég vil færa Trump forseta
þakkir mínar fyrir að hafa gert þetta
að veruleika,“ bætti Kim við, en því
næst skrifuðu leiðtogarnir tveir und-
ir áðurnefndan sáttmála.
„Við höfum þróað með okkur mjög
sérstakt samband þannig að fólk
mun verða mjög hrifið og ánægt. Og
við munum sjá um mjög stórt og
mjög hættulegt vandamál í heimin-
um. Ég vil því þakka Kim formanni.
Við höfum eytt miklum tíma saman í
dag og ég myndi segja að útkoman
fyrir okkur væri betri en nokkurn
hefði getað órað fyrir,“ sagði Trump
Bandaríkjaforseti við sama tilefni.
Frekari viðræður áformaðar
Í sáttmálanum segir meðal annars
að Bandaríkin og Norður-Kórea
muni vinna áfram að friði og stöðug-
leika á svæðinu og að Kim Jong-un
ítreki staðfastan vilja sinn til að af-
kjarnorkuvæða Kóreuskaga.
„Bandaríkin og Norður-Kórea
skuldbinda sig til að koma á nýjum
samskiptum [á milli ríkjanna] í sam-
ræmi við vilja íbúanna um frið og vel-
megun,“ segir í sáttmálanum. Þá er
þar einnig kveðið á um að jarðneskar
leifar fallinna hermanna og stríðs-
fanga verði sendar aftur til síns
heima. Er hér vísað til þeirra her-
manna sem féllu í Kóreustríðinu,
sem hófst 25. júní 1950. Stríði þessu
er ekki enn formlega lokið en vopna-
hléi var komið á 27. júlí 1953. Frétta-
skýrendur telja líklegt að Trump
hafi lagt talsverða áherslu á þetta
ákvæði enda til þess fallið að auka
vinsældir hans heimafyrir.
„Bandaríkin og Norður-Kórea
skuldbinda sig til frekari viðræðna,
undir forystu utanríkisráðherra
Mike Pompeo og embættismanns
Norður-Kóreu af sambærilegri tign
við fyrsta tækifæri,“ segir einnig.
Verða heræfingar settar á ís?
Á fundi Kim Jong-un og Donalds
Trump lýsti hinn síðarnefndi því yfir
að hlé yrði gert á árlegum heræfing-
um Bandaríkjamanna og Suður-
Kóreu á Kóreuskaga. Sagði forset-
inn æfingarnar kostnaðarsamar og
„ögrandi“. Fréttastofa Reuters
greinir frá því að tilkynning þessi
hafi komið ráðamönnum í Seúl á
óvart, sem og herforingjum innan
Bandaríkjahers.
Talsmaður forseta Suður-Kóreu
sagðist þurfa að „komast að því“
hvað Trump ætti við með yfirlýsing-
unni. Bætti hann við að stjórnvöld í
Seúl væru þó reiðubúin að kanna
ýmsa þætti til að „hjálpa viðræðun-
um að þokast áfram“. Talsmaður
Bandaríkjahers í Suður-Kóreu sagð-
ist ekki hafa fengið nein tilmæli um
að hætta heræfingum landanna.
Lítið um stórar yfirlýsingar
Viðbrögð margra ráðamanna við
niðurstöðu fundar Bandaríkjafor-
seta og leiðtoga Norður-Kóreu voru
fremur varfærin en jákvæð í gær.
Þannig hvatti Antonio Guterres,
framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóð-
anna, alþjóðasamfélagið til að sýna
samkomulagi Trumps og Kim stuðn-
ing. Forsætisráðherra Japans,
Shinzo Abe, sagði loforð Norður-
Kóreu um að afkjarnorkuvæðast
vera „mikilvægt“ og Atlantshafs-
bandalagið (NATO) sagðist styðja
allar tillögur sem leiddu til þess að
Kóreuskagi afkjarnorkuvæddist.
Chris Hill, fyrrverandi sendiherra
Bandaríkjanna gagnvart Suður-
Kóreu, gaf hins vegar lítið fyrir fund-
inn. „Auðgleymanlegur. Sameigin-
leg yfirlýsing veikari en nokkur
önnur frá árinu 1992. Það eru engin
skref fram á veginn, enginn vegvísir,
engin diplómatísk áætlun,“ hefur
fréttastofan SkyNews eftir honum.
Talsmaður ríkisstjórnar Írans,
Mohammad Bagher Nobakht, varaði
Kim við því að treysta Trump. Sagði
hann Bandaríkjaforseta líklegan til
að svíkja samninga og benti í því
samhengi á ákvörðun Trumps um að
draga land sitt út úr kjarnorkusamn-
ingnum við klerkastjórnina í Teher-
an. „Við erum að eiga við mann sem
ógildir undirskrift sína.“ Þá sögðu
ráðamenn í Kreml það almennt já-
kvætt að Kim og Trump ræddust við.
Miklar breytingar boðaðar
Forseti Bandaríkjanna og leiðtogi Norður-Kóreu hittust á fundi á Sentósaeyju í Singapúr Skrifað
var undir sáttmála sem færir Kóreuskaga skrefi nær kjarnorkuafvopnun Fortíðin sögð skilin eftir
AFP
Sögulegt Leiðtogar Norður-Kóreu og Bandaríkjanna ganga hlið við hlið við hlé frá fundarhöldum.
Stjórnvöld í Noregi eru sögð munu
óska eftir því við Bandaríkjamenn að
þeir tvöfaldi fjölda landgönguliða
sinna þar í landi, lengi viðveru þeirra
og staðsetji þá á svæðum sem eru
nærri Rússlandi. Er það fréttastofa
Reuters sem greinir frá þessu.
„Það er víðtækur stuðningur fyrir
þessu á þinginu,“ sagði Ine Eriksen
Søreide, utanríkisráðherra Noregs,
en fjöldi bandarískra landgönguliða í
Noregi er nú 330. Munu ráðamenn í
Ósló fara fram á að þeir verði 700
talsins árið 2019. Søreide segir þetta
þó ekki þýða fasta og langvarandi
viðveru Bandaríkjahers í Noregi.
„Það eru engar bandarískar her-
stöðvar á norskri grundu.“
Þær sveitir sem nú eru í Noregi
komu þangað árið 2017 og var það í
fyrsta skipti frá lokum síðari heims-
styrjaldar sem erlendir hermenn
stóðu þar vaktina. Áttu þeir fyrst að
hafa viðveru í landinu í sex mánuði,
en sá tími var framlengdur sl. júní.
Verða næstu sveitir landgönguliða
staðsettar í Noregi í fimm ár. Að
sögn Reuters vildi rússneska sendi-
ráðið í Ósló ekki veita viðbrögð þeg-
ar eftir því var leitað. khj@mbl.is
Tvöfaldi styrk sinn
Norsk stjórnvöld vilja fá fleiri banda-
ríska landgönguliða Verði 700 talsins
AFP
Herveldi Bandarískir landgönguliðar æfa með hersveitum Filippseyja.
Nokkuð vel virtist fara á með Donald J. Trump Bandaríkjaforseta og Kim
Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, á fundi þeirra í Singapúr. Á milli fundar-
halda mátti sjá leiðtogana á göngu um glæsihótelið þar sem viðburður-
inn fór fram og í eitt skipti var gengið upp að Skepnunni, eins og bryn-
varin bifreið Bandaríkjaforseta er gjarnan kölluð.
„Við vitum að þessir menn voru að reyna að finna leið til þess að ná
saman og hvað er mönnum eðlilegra en að skoða bíla hvor annars. Eins
einfalt og það hljómar – þarna er Skepnan, embættisbifreið forsetans, og
þarna er Kim Jong-un að kíkja inn í hana. Og síðan ganga þeir í burtu,“
sagði fréttamaður CNN er stöðin sýndi upptöku af atburðinum.
Skepnan er engin smásmíð, hátt í 5 tonna brynvarin Cadillac-bifreið
sem á að geta staðið af sér flugskeyti, handsprengjur og gasvopn. Sjálfur
mætti Kim á brynvarinni Mercedes Maybach-bifreið.
Trump sýndi Kim „Skepnuna“
LEIÐTOGARNIR GÁFU SÉR TÍMA TIL AÐ SKOÐA BÍL
PÖNTUN AUGLÝSINGA: Til 25. júní.
Landsmót hestamanna
Veglegt sérblað tileinkað Landsmóti hestamanna
fylgir Morgunblaðinu föstudaginn 29. júní
Blaðið mun gera mótinu, og hestamennsku
góð skil með efni fyrir unnendur íslenska hestsins.
NÁNARI UPPLÝSINGAR:
Sigríður Hvönn Karlsdóttir
Sími: 569 1134
siggahvonn@mbl.is
SÉRBLAÐ