Morgunblaðið - 14.06.2018, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 14. JÚNÍ 2018FRÉTTIR
©The Financial Times Limited 2014. Öll réttindi áskilin. Ekki til endurdreifingar, afritunar eða endurritunar með neinum hætti. Öll ábyrgð á þýðingum er Morgunblaðsins og mun Financial Times ekki gangast við ábyrgð á þeim.
Af síðum
Að þessu sinni var ekkert um kossa,
faðmlög eða gróðursetningar. Innan
við tveimur mánuðum eftir að Donald
Trump og Emmanuel Macron sýndu
gagnkvæma alúð í Washington ein-
kenndust endurfundir þeirra á fundi
G7-ríkjanna í Kanada af skömmum
vegna nýrra tolla Bandaríkjanna og
hvítu þumalfari á hendi Trumps eftir
þéttingsfast handaband Frakklands-
forsetans.
Atlaga Trumps um helgina að því
fyrirkomulagi sem tíðkast hefur á
alþjóðavettvangi eftir seinni heims-
styrjöld hefur orðið til þess að draga
úr karlarómantíkinni (e. bromance)
milli hans og Macrons, og gert
Frakklandsforseta enn harðari í
þeirri afstöðu sinni að Evrópusam-
bandið eigi að standa á sínu í milli-
ríkjaviðskiptum, málaflokki sem ESB
lítur á sem kjarnann í samskiptum
sínum við Vesturheim. Macron og
Angela Merkel lýstu niðurstöðu G7-
fundarins þannig að hann hefði „opn-
að augu“ þeirra og „valdið von-
brigðum“. En uppákoman í Quebec
undirstrikar einnig hve mikið þessir
tveir helstu leiðtogar ESB munu
þurfa að reiða sig hvor á annan í því
kuldaskeiði sem nú ríkir á sviði al-
þjóðastjórnmálanna.
Breytt nálgun Macron
„Skjall mun ekki gera neitt gagn.
Við erum núna komin á það stig þar
sem tekist er á af meiri þunga,“ segir
François Heisbourg, sérfræðingur í
alþjóðastjórnmálum.
„Þetta mun þjappa Þýskalandi og
Frakklandi enn betur saman,“ segir
Josef Janning, fræðimaður hjá hug-
veitunni European Council on For-
eign Relations í Berlín. „Merkel og
Macron nálguðust Trump með ólík-
um hætti og bæði brenndu sig á því.
Það gæti farið svo að við lítum til
baka til G7-fundarins sem viðburðar
sem markaði kaflaskil.“
Á fyrsta ári sínu í embætti hefur
hinn ungæðislegi og frjálslyndi Mac-
ron teygt sig langt til að koma á vin-
samlegum tengslum við Trump, á
grunni efnahagslegra og hernaðar-
legra tengsla Evrópu og Bandaríkj-
anna.
En það að ganga á eftir Banda-
ríkjaforseta hefur skilað litlu öðru en
að skapa Macron pólitísk vandræði
heima fyrir. Frá því að Macron fór í
opinbera heimsókn til Washington í
apríl hefur Bandaríkjastjórn slitið
kjarnaorkuvopnasamningnum við Ír-
an, hækkað tolla á ál og stál frá Evr-
ópu og hótað að hækka innflutnings-
gjöld á þýska bíla enn frekar.
Hörkulegri nálgun Macron er að
hluta viðbragð við gagnrýni heima
fyrir, um að tilraunir hans til þess að
fá Trump á sitt band hafi gengið of
langt. En sérfræðingar hafa bent á að
meiri harka endurspegli líka löngun
Frakklandsforseta til að nýta sjald-
gæft tækifæri til að sýna fram á sjálf-
stæði og afl ESB.
Eining innan ESB um viðskipti
Ólíkt því sem gildir um málaflokka
á borð við varnarmál og efnahags-
legan samruna, þar sem stjórnvöld
hvers lands hafa ráðið för, hefur verið
samstaða innan ESB um milliríkja-
viðskipti, sem framkvæmdastjórnin í
Brussel hefur haft með höndum.
Það hefur verið gleðiefni fyrir Mac-
ron, sem lagt hefur áherslu á að
styrkja fullveldi ESB, að þetta hefur
auðveldað sambandinu að bregðast
með hraði við bandarískum tollum
með samsvarandi mótaðgerðum.
Munurinn er skýr þegar þetta er bor-
ið saman við vangetu ESB til að koma
með einhver viðbrögð við efnahags-
þvingunum Bandaríkjanna gagnvart
Íran.
Heisbourg segir Macron hafa get-
að leyft sér að sýna Trump meiri
hörku því að Evrópa sé samstíga þeg-
ar komi að viðskiptamálum. „Það er á
því sviði sem ESB hefur raunveru-
legt vægi sem stofnun,“ segir hann.
Merkel, sem hefur tekið upp mun
formlegri samskipti við Bandaríkja-
forseta, styður stefnu Frakklands-
forsetans. Að mati sérfróðra aðila var
niðurstaða G7-fundarins til þess að
sýna kanslaranum hve brýnt það er
fyrir ráðamenn í Berlín að auka sam-
stöðu ESB-ríkjanna og styrkja
tengslin við París.
„Merkel og Macron vita það betur
nú en áður að þau þurfa hvort á öðru
að halda,“ segir Janning.
Enn mun reyna á samstöðuna
En miklar prófraunir eru í vænd-
um. Greinendur hafa bent á að það
verður ekki síst það efnahagslega
tjón sem tollastríð gæti valdið, og
ítrekaðar hótanir Trumps um að
beina spjótum sínum að þýsku bílum,
sem munu reyna á einingu ESB-
ríkjanna.
„Aðalatriði er hvort Þýskaland
mun áfram fylgja Frakklandi að mál-
um eftir því sem átökin harðna,“ seg-
ir Bruno Tertrais, aðstoðar-
forstöðumaður hjá hugveitunni
Foundation for Strategic Research í
París.
Og nú þegar aðeins eru nokkrir
mánuðir í leiðtogafund NATO-
ríkjanna heldur Trump áfram að
minna á hve ósáttur hann er við fram-
lag Þýskalands til hernaðar-
bandalagsins.
„Þýskaland borgar 1% (rólega) af
landsframleiðslu sinni til NATO en
við greiðum 4% af MUN hærri lands-
framleiðslu. Þykir einhverjum að vit
sé í þessu? Við verndum Evrópu (sem
er gott) og töpum á því stórfé, og lát-
um síðan misnota okkur með ósann-
gjörnum hætti í viðskiptum. Breyt-
ingar eru í vændum!“ skrifaði hann í
tísti á mánudag.
Háttsettir þýskir embættismenn
kölluðu eftir því á ný á mánudag að
Evrópa sneri bökum saman. „Það
sem skiptir máli er að Evrópubúar
haldi áfram að vinna sem ein heild, og
að við munum eingöngu sætta okkur
við sanngjarna og löglega gerða
samninga. Einnig skiptir máli að við
stöndum vörð um opna markaði og
frjáls viðskipti á milli þjóða,“ sagði
Peter Altmaier, viðskiptaráðherra
Þýskalands, í útvarpsviðtali.
„Við teljum að Bandaríkjaforseti
og ríkisstjórn hans ættu núna að vita
það vel að Evrópubúar munu verja
hagsmuni sína og bregðast við hvers
kyns einhliða ákvörðunum Banda-
ríkjanna.“
Kallar eftir „hollustu“
Merkel sagði í sjónvarpsviðtali við
heimkomuna frá Kanada að hin nýja
stefna Bandaríkjanna hefði aukið
þörfina á „hollustu“ Evrópusam-
bandsríkjanna gagnvart hverju öðru.
„Það þýðir að við sem búum hér í
Evrópu þurfum að sýna hvert öðru
hollustu. Fyrst af öllu þurfum við
ætíð að sýna okkar eigin landi holl-
ustu, en því næst þurfum við að sýna
Evrópusambandinu hollustu, líka
þegar um ákvarðanir á sviði utanrík-
ismála er að ræða,“ sagði Merkel.
Kanslarinn lét líka í ljós stuðning
sinn við gagnaðgerðir ESB í tolla-
málum, þrátt fyrir hættuna á að þær
kynnu að stigmagna vandann. „Að
gera ekki neitt [til að svara banda-
rísku tollunum] getur líka verið
áhættusamt, því að þá er hætt við að
við lítum út fyrir að vera algjörlega
berskjölduð fyrir þvingunum ....... Við
höfum gripið til gagnaðgerða að
þessu sinni, en á mjög yfirvegaðan
hátt og hófsaman.“
Janning segir að sú aukna spenna
sem hlaupið hefur í samskiptin við
Bandaríkjastjórn gæti, þegar upp er
staðið, orðið Þýskalandi og Frakk-
landi hvati til að sætta ólík sjónarmið.
Einnig á sviðum þar sem löndin eru á
öndverðum meiði, allt frá umbótum á
evrusvæðinu yfir í utanríkisviðskipti.
„Ég hugsa að þetta geti breytt af-
stöðu Þýskalands til að gera umbæt-
ur á evrusvæðinu Nú þegar eru teikn
á lofti,“ segir hann.
Tertrais segir að það gæti enn
borgað sig að fylgja þeirri vingjarn-
legu nálgun sem Macron notaði á
Trump í fyrstu. „Gott persónulegt
samband kemur að gagni á erfiðum
tímum. Slíkir tímar eru einmitt
núna,“ sagði hann.
Viðskiptamál kæla alúð Macrons og Trumps
Eftir Anne-Sylvaine Chassany
í París og Tobias Buck í Berlín
Á fyrsta ári sínu í embætti
hefur Emmanuel Macron
lagt sig fram við að eiga
kumpánleg samskipti við
Donald Trump en á fundi
G7-ríkjanna kvað við nýj-
an tón, m.a. vegna gagn-
rýni heima fyrir.
AFP
Eftir uppákomuna á fundi G7-ríkjanna í Kanada telja sérfræðingar að Angela Merkel og Emmanuel Macron séu betur
meðvituð en áður um hversu mikið þau þurfa hvort á öðru að halda í samskiptum við Donald Trump og Bandaríkin.
VIÐAR
HÁGÆÐA VIÐARVÖRN
Fáanleg í PALLAOLÍU, TRÉVÖRN,
GRUNNMÁLNINGU, HÁLFÞEKJANDI
og ÞEKJANDI viðarvörn.
Litirnir eru fjölmargir og hægt að fá
sérblandaða hjá okkur.
Komdu til okkar og spurðu um VIÐAR!
Borgartúni 22 og Skútuvogi 2, Reykjavík • Dalshrauni 11, Hafnarfirði • Hafnargötu 54, Reykjanesbæ
Gleráreyrum 2, Akureyri • Sími 588 8000 • Opið 8.00–18.00 alla virka daga og 10.00–14.00 alla laugardaga