Breiðfirðingur - 01.04.1992, Page 48
46
BREIÐFIRÐINGUR
Svo dró hún þennan vöndul í gegnum allar dúllurnar og er
komið var að kögrinu, þá hélt þetta dúllunum saman og var
breitt úr kögrinu. Þetta gat verið svo fallegt. Síðan ófum við
jólakörfur. í þær höfðum við glanspappír sem var utan um
stílabækur krakkanna frá árinu áður. Það voru ansi fallegir
og breytilegir litir á stílabókunum.
í byrjun desember voru allir skrifaðir á lista sem komu á
jólaföstunni (jólasveinar). Mamma steypti tólgarkerti og var
ég alltaf með henni. Það voru búnir til kveikir úr Ijósagarni
eða jafnvel léreftsrenningar snúnir saman. Svo var þetta sett
á prik svona þrír á hverja spýtu og eitthvað þungt fest neðst
í hvern kveik. Svo var sett sjóðandi heitt vatn í strokkinn og
bráðin tólg sett ofan á vatnið. Síðan var spýtunni með
kveikjunum difið ofan í strokkinn, hvað eftir annað þar til
mömmu fannst kertin orðin nógu sver. Þannig voru steypt
40-50 kerti.
Þar næst var að búa til laufabrauðin, ég man ekki hvað
þau voru mörg en það var mjög mikið. Það var skammtaður
stór skammtur á jóladagskvöldið og þá fékk hver 3-4 laufa-
brauð og 2 tólgarkerti, heilt stórt strengsli af lúðuriklingi,
stóran bita af pottbrauði, Vi lundabagga reyktan, stóran
smjörbita og gríðarstóran hangikjötsbita, hert rafabelti, sem
var steikt á glóð og margt fleira sem ég man ekki. Þetta hafði
fólkið að grípa til ef það langaði í aukabita. Bagga systir mín
var aldrei nein matmanneskja. Hún hafði sinn skammt til að
borga strákunum fyrir að hella úr skólpfötu, fara út með
öskufötu eða taka af henni aðra smásnúninga.
Jólainnkaup
Þegar kom fram í miðjan desember, var von á Gullfossi til
Flateyjar frá Kaupmannahöfn. Þá var von á jólapakka frá
Siggu föðursystur minni til ömmu. Sigga vann þá á tannsmíða-
stofu þar, en hún var lærður tannsmiður. Pabbi fór því
vestur í Flatey sama dag og skipið kom. Það þurfti líka að