Breiðfirðingur - 01.04.1992, Blaðsíða 105
UMRÆÐUR UM SELINN
103
Eiríkur Kúld vildi ekki viðurkenna að selurinn fældi fisk-
inn af miðunum. Hann sagði m.a: „I Dritvík gengu áður 70
skip, en nú er þar enginn bátur; en þar er selurinn einmitt
ekki friðaður og hefur aldrei verið.“
Jón Ólafsson (1850-1916) þingmaður Suður-Múlasýslu
kvaðst vera þingmanni Snæfellinga mjög þakklátur fyrir
þetta frumvarp og kvað það samrýmast vel frumvarpi um
friðun fugla, en eftir því „skulu allir ránfuglar ófriðhelgir og
rjettdræpir; þvílíkt rándýr sjávarins er selurinn, og mætti
hann því gjarnan sömu lögum hlíta og til dæmis valur og
kjói.“
Arnljótur Ólafsson, 1823-1904, 1. þingmaður Eyjafjarð-
arsýslu sagði m.a.:
Það eru að eins 2 athugasemdir, sem jeg vildi gjöra.
Önnur er sú, að þar sem hinn háttvirti þingmaður Barð-
strendinga vitnaði til 50. greinar stjórnarskrárinnar, að
eignarrjetturinn væri friðhelgur, og mætti því ekki taka
þessi forrjettindi af mönnum, þá vil jeg fyrst geta þess, að
veiðirjettur er enginn eignarjettur, heldur atvinnurjettur, og
þá heyrir málið ekki undir 50. gr., heldur 51. gr. stjórn-
arskrárinnar, sem hljóðar svo:
„Öll þau bönd, er hamla frelsi í atvinnuvegum og jafn-
rjetti manna til atvinnu, og eigi eru byggð á almennings-
heillum, skal af taka með lagaboði.“
Þingmaður Barðstrendinga kvað selveiðina við Breiðafjörð
varða almenningsheill, og þar að auki væru veiðiréttindi
nokkur hluti af eignarréttinum og heyrði því undir 50. grein
en ekki þá 51.
Þegar gengið var til atkvæða um það hvort málið skyldi
ganga til 2. umræðu, var það samþykkt með 14 atkvæðum
gegn 3. Önnur umræða fór fram í Neðri deild á 25. fundi, 28.
júlí, og urðu þar nokkrar umræður. Þegar forseti bar undir
atkvæði hvort málið skyldi ganga til 3. umræðu, var það fellt
með jöfnum atkvæðum, 11 gegn 11. Viðhaft var nafnakall,
„og frumvarpið þar með fallið.“59)