Breiðfirðingur - 01.04.1992, Page 175
Á TINDI VALLAHNÚKS
173
sem frelsandi engill. Saman leiddust þær út úr dalnum, uns
þær komust niður úr þokunni, og fóru þá hvor til síns heima.
Henni er þetta atvik eftirminnilegt æ síðan.
En nú er það ég, sem stend hér á fjallsgnípu hátt ofan við
þennan umrædda dal og horfi ofan á þokuna, sem fyllir hann
hinum ógegnsæja flóka sínum.
Ég var nú búinn að vera alllengi á tindi þessa háa fjalls,
umvafinn kyrrð og birtu næturinnar og hafði notið í ríkum
mæli hins stórbrotna og sérkennilega útsýnis, sem hér
bauðst.
IX.
Niður í þokuna
Nú fer ég að hugsa til heimferðar. Ég geng niður hlíðina, þar
sem ég hafði komið upp, og nálgast þokubakkann smátt og
smátt. Og brátt hverf ég niður í sortann. Hann umlykur mig
á alla vegu. Aldrei er maður eins einmana og í dimmri þoku
langt frá mannavegum.
Ég hafði reynt að setja á mig helstu kennileiti á leiðinni
hingað, en þau eru fá, og á eyðilegri heiði er villugjarnt. Ég
treysti þó, að allt mundi fara vel, og að ég kæmist klakklaust
á leiðarenda.
Ég kemst niður fyrir fjallsræturnar, þangað sem heiðin
tekur við, og brátt kem ég að tjörnunum vinalegu í Vatna-
dölum, sem ég áður hafði gengið framhjá.
X.
Skrifarinn skemmtilegi
Ég sest niður á barð við eina tjörnina. Lognið og kyrrðin er
algjör sem áður. Óðinshansi (skrifari) kemur syndandi frá
þeim enda tjarnarinnar, sem fjær er. Hann syndir í hringi og
gárar vatnið lítilsháttar. Hugfanginn fylgist ég með kvikum
hreyfingum þessa litla fugls. Þetta er fyrsta lífsmerkið, sem
ég verð var við á þessari nóttu. Ég lít á úrið. Það er að elda
aftur. Morgunninn er á næsta leiti.