Breiðfirðingur - 01.04.1992, Page 181
ÞJÓÐTRÚARSÖGUR AF SNÆFELLSNESI
179
ust á holt og mýrasund og sumstaðar voru berar klappir.
Voru þarna kölluð Sundholt.
Ég hafði gaman af að eigra um á þessum stöðum og skoða
það, sem fyrir augu bar, grös og blóm í brekkum og litfagra
steina í smálækjum, sem þarna voru hér og þar. Ég mun
hafa verið á sjötta árinu, er ég lifði það atvik, sem ég nú vil
segja frá:
Eitt sinn í góðu veðri var ég þarna stödd á klöpp einni og
var hún alveg slétt að ofan. Heyri ég þá sérkennilegt hljóð
frá kletti þessum. Ég fór að leggja við hlustir. Þetta var
greinilegt strokkhljóð. Það var eins og hamast væri við að
strokka. En annað hljóð var það, sem ekki vakti síður
athygli mína. Það var eins og tvær konur væru í hrókaræðum
þarna niðri í klöppinni. Þær tuldruðu og tuldruðu hver með
sínum málrómi og skiptust á að tala. Málhreimur þeirra og
áherslur voru nokkuð breytilegar líkt og títt er um fólk í
áköfum samræðum. En engin heyrði ég orðaskil.
Lengi hlustaði ég á þetta greinilega strokkhljóð og talið í
konunum og þótti meira en lítið undarlegt, að þetta skyldi
heyrast þarna neðan úr klettinum.
Að lokum varð ég hálfsmeyk og flýtti mér heim. Mér
fannst eitthvað óeðlilegt og jafnvel óhugnanlegt við þetta
mannamál á þessum eyðilega stað og eins strokkhljóðið,
sem ég heyrði þarna svo greinilega.
Ekki heyrði ég þessi sérkennilegu hljóð síðar, þótt ég
kæmi aftur að þessari sömu klöpp.
Ég mun samt ekki hafa verið sú eina, sem heyrði þessi ein-
kennilegu hljóð: Pálína systir mín, sem var eldri en ég, sagði
mér frá því löngu síðar, að eitt sinn er hún var ein að leika
sér á þessum slóðum löngu fyrr, hefði hún heyrt þessi dular-
fullu hljóð. Eftir hennar frásögn að dæma virtust henni þessi
hljóð vera alveg hliðstæð þeim, sem ég hef reynt að lýsa hér
að framan.