Ljósmæðrablaðið

Volume

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Page 4

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Page 4
4 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Enn kemur Ljósmæðrablaðið út, á 95. aldursári, um mitt sumar þegar sól stendur sem hæst. Á sama tíma er komið að ritnefndar- og ritstjóraskiptum. Hrafnhildur Ólafsdóttir skilar góðu verki eftir sex ára setu í ritstjórastólnum og eru henni þökkuð vel unnin störf. Ritnefndin og nýr ritstjóri Ólöf Ásta Ólafsdóttir, sem nú tekur við, mótar ritstjórnarstefnu næstu tveggja ára, fram að 100 ára afmæli Ljósmæðrafélagsins sem verður fagnað vorið 2019 þegar Norræna ljósmæðraráðstefnan verður haldin í Reykjavík. Það ár er gert ráð fyrir að útgáfa Ljósmæðrablaðsins verði veigameiri, samfara útgáfu sérstaks afmælisrits og nýs ljósmæðratals, sem löngu er kominn tími til að gefa út. Litlar sem engar breytingar eru á útliti blaðsins sem nú lítur dagsins ljós, en búast má við einhverjum breytingum þegar fram í sækir. Ýmsar hugmyndir hafa verið settar fram, til dæmis varðandi forsíðu, uppsetningu og efnistök. Áætlað er að bæta rafræna útgáfu, fjölga ritrýndum greinum en einnig fræðslugreinum samþykktum af ritstjórn sem nýtast til sí- og endurmenntunar. Þá eru uppi hugmyndir um að halda áfram að víkka efnistök blaðsins jafnvel þannig að blaðið höfði til stærri hóps og þá geta möguleikar opnast fyrir frekari dreifingu. Í auknum mæli verður blaðið menningarlegt á sviði ljósmóðurfræða og þverfræðilegt á gagnrýnan hátt, um heilsueflingu, heilbrigðisþjónustu, kven- og kynheilbrigði, foreldrahlutverk, fjölskylduna, barneignarferlið og nýja barnið. Þetta blað er eins og síðustu ár prentað hjá Prentun.is í Hafnarfirði, litlu fyrirtæki með stórt hjarta eins og segir á heimasíðu þess. Þar er veitt persónuleg þjónusta og kappkostað er að vinna blaðið samkvæmt nýjustu tækni, á hagkvæman hátt á umhverfisvænan pappír. Skrifstofa Ljósmæðrafélagsins sér um að afla auglýsinga í blaðið og þær standa undir kostnaði við útgáfuna og er það vel. Að venju er umfjöllunarefni blaðsins fjölbreytt, í formi fræðslugreina, fréttatilkynninga og með birtingu mynda úr námi og fag- og félagsstarfi ljósmæðra. Frásagnir eru frá stjórn og ýmsum hópum ljósmæðra sem þróa sig faglega og sækja af dugnaði námskeið og ráðstefnur á vegum Ljósmæðrafélagsins, ljúka doktorsprófi eða hljóta viðurkenningar fyrir að vera ungur vísindamaður á Landspítala. Fastir liðir eru á sínum stað; ljósmæður ræða um mál ofarlega í huga sem hvetja okkur til dáða og nemaverkefni birtast en lítið gagn er af þeim lokuðum á netinu eða uppi í hillum. Nýburagulan, greining og meðferð á henni, er tekin fyrir í fræðslugreinum, annars vegar er um að ræða BS verkefni í læknisfræði og hins vegar klínískt fræðilegt verkefni 2. árs nema í ljósmóðurfræði. Við fáum líka að kynnast nýjungum í meðferð á meðgöngu, í fyrsta lagi um næringarmeðferð og öðru lagi um breytingar á skipulagi meðgönguverndar frá því að vera eingöngu einstaklingsbundin til að vera líka veitt í hóp. Saga og þróun í fósturgreiningu er einnig tekin til umfjöllunar og sagt frá skipulagi starfsnáms og sérhæfingu ljósmæðra á þessu mikilvæga sviði. Það er ljóst að umönnun og samband ljósmæðra við konur og fjölskyldur þeirra byggir á faglegri færni í að þekkja og mæta ólíkum þörfum kvenna og hafa innsæi og kunnáttu í að höndla óvissuna sem fylgir barneignarferlinu. Bakgrunnur, væntingar og þarfir kvenna kalla á ólíka umönnun og ljósmóðurmeðferð. Mannréttindi og þörf fyrir mannlega nánd er þó í grunninn öllum konum og fjölskyldum mikilvæg og sameiginleg, eins og kom fram í erindi Lesley Page hérlendis á Alþjóðadegi ljósmæðra 5. maí síðast liðinn. Gagnreynd þekking í ljósmóðurstarfi og niðurstöður fjölda rannsókna sýna einnig fram á að ljósmóðurrekin og samfelld þjónusta sé lykilatriði fyrir örugga og farsæla fæðingu. Velta má upp þeirri spurningu hvort það sé í raun forsvaranlegt að bjóða ekki upp á eða þróa samfellt þjónustuform til ávinnings fyrir barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra, svokallaða MFS þjónustu. Þá þarf að leita svara við hvers vegna svo erfitt það hefur reynst bæði hér á landi og víða um heim að bjóða upp á og viðhalda slíkri þjónustu. Segja má að ljósmæður úti á landi, þar sem konur geta fætt í heimabyggð, hafi haldið merkinu á lofti og síðustu ár rekið eins konar fæðingarheimili með samfellda þjónustu að leiðarljósi innan heilbrigðisstofnana með eða án aðgangs að skurðstofu. Nú hafa þau gleðitíðindi gerst í Reykjavík að ljósmæður hafa að nýju, eftir rúm 20 ár, opnað fæðingarheimili utan sjúkrahúss. Til heiðurs þeim prýða þær forsíðu þessa blaðs. Ljósmæðrablaðið tekur undir með Steinunni H. Blöndal sem skrifar í ritstjórnargrein: „Með Þori, Getu og Vilja hafa þessar hugrökku Bjarkarljósmæður nú náð settu markmiði. Til hamingju og megi starfsemin vaxa og dafna barnshafandi konum og fjölskyldum þeirra til gæfu“. Ný ritstjórn Ljósmæðrablaðsins hlakkar til að fá efni frá ljósmæðrum í blaðið. Ljósmæðrablaðið er okkar vettvangur til samskipta og faglegs þroska innan stéttarinnar og í þágu kvenna og fjölskyldna í ljósmóðurstarfi. Lyklum skilað Núverandi og fyrrverandi ritstjóri Ólöf Ásta Ólafsdóttir og Hrafnhildur Ólafsdóttir. R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.