Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 6

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 6
6 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Nú sit ég í Toronto í Kanada eftir nýafstaðna þátttöku á miðstjórnarfundi alþjóðasamtaka ljósmæðra, ICM. Þetta eru langir og strangir fundir í fjóra daga. Þar er farið yfir ýmis mál er varða ljósmæður heimsins og þá þjónstu sem þær veita. Eins og áður þegar ég hef verið á alþjóðlegum samkomum átta ég mig betur á því hve við og okkar norrænu nágrannar búum vel að barnshafandi konum og nýburum. Hve menntun okkar ljósmæðra er góð í alþjóðlegum samanburði og sjálfstæði okkar ljósmæðra virt enn sem komið er að minnsta kosti. Að því sögðu þýðir það ekki að allt sé fullkomið hér hjá okkur eða að við megum sofna á verðinum. Það sem hrjáir gjarnan þau lönd sem standa framarlega í þjónustu við barnshafandi konur er að vilja gera svo vel að of mikið er gert of snemma, til að gera örugglega ekki of lítið of seint. Í nútímasamfélagi blasir það við að heilsufar þjóða er allt annað en áður var. Konur koma nú inn í meðgönguvernd með ýmsa lífsstílssjúkdóma eða aðra sjúkdóma sem áður voru nær óþekktir. Áður fyrr heyrði það til undantekninga ef kona var með heilsufarslegt vandamál í upphafi síns barneignarferils. Nú þarf alheimsátak til að draga úr lífsstílssjúkdómum eins og sykursýki, háþrýstingi og offitu í alþjóðasamfélaginu öllu. Eftir nokkur ár munu konur þá ef til vill verða hraustari þegar þær hefja barneignir. Hér eru sóknarfæri fyrir ljósmæður og hugmyndin um heilsueflingu fyrir barnsburð (e. preconceptional care) ætti að verða eitt af markmiðum ljósmæðra, þar geta þær nýtt þekkingu sína barnshafandi konum og fjölskyldum þeirra til góðs. Í Kanada mátti glöggt heyra á tali ljósmæðra frá öðrum þjóðum að það er sami vandi víðast hvar. Erlendar ljósmæður óttast einnig alþjóðlega tilhneigingu til enn frekari sjúkdómsvæðingar barnseignarþjónustunnar og þar með minnkun á sjálfstæði ljósmæðra. Fækkun fæðingarstaða, minnkað framboð á samfelldri þjónustu og aukin tíðni inngripa eru allt dæmi um aukna sjúkdómsvæðingu í barneignarferli. Á Íslandi er vandinn sá sami. Við höfum miðstýringu fæðingarstaða þar sem flestir eiga að fæðast á Hringbraut, þar sem í raun aðeins þær fæðingar sem annaðhvort móðir eða barn eru ekki fullkomlega hraust ættu að fara fram. Það er tilhneiging til aukinna inngripa þrátt fyrir að rannsóknarniðurstöður gefi ef til vill ekki tilefni til þess. Þetta leiðir til minnkandi sjálfstæðis ljósmæðra. Þá er það umhugsunarefni að oft gengur illa að koma niðurstöðum rannsókna ljósmæðra í gagnið. Fáar eða engar ljósmæður eru í opinberum valdastöðum og oft fá raddir þeirra lítinn hljómgrunn í stórum ákvarðanatökum. Ljósmæður hafa sömuleiðis oft engan talsmann innan stofnana og alltof oft er það rödd hjúkrunar sem talar fyrir ljósmæður. Við ljósmæður þurfum að markaðssetja okkar störf og okkar rannsóknir. Við þurfum að hægja á hraða og vera hér og nú. Í dag eru hugtök eins og slow food, slow travelling og fleira mætti telja tengt gæðum. Ég leyfi mér að koma fram með nýtt hugtak: Slow midwifery. Í því felst að veita þjónustu þar sem samveran og virðing fyrir fjölskyldunni er í fyrirrúmi, reynt er að tóna niður hraða samfélagsins og talað er við barnið í bumbunni í stað þess að taka myndir af því. Síðast en ekki síst er mikilvægt að nota jákvæð orð og tala til dæmis frekar um öryggi í stað áhættu með það að markmiði að konan upplifi vellíðan og öryggi í hjarta sínu, hvar sem hún er stödd í ferlinu. Nú er ég ekki að segja að á Íslandi sé ekki margt mjög gott og vel gert – við megum bara aldrei verða of ánægðar með okkur né sofna á verðinum. Allt gott má bæta – alveg eins og engin ein regla á við um allar konur. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á að nú rennur gerðardómur út þann 31. ágúst næst komandi og þá fáum við tækifæri til að eiga samtal við „ríkið“. Ég þori ekki að segja ganga til samninga, því að síðast var ekki um það að ræða. „Ríkið“ var ekki tilbúið til samninga. Við förum hins vegar ótrauðar í þessar viðræður og hlökkum til. Við unnum áfangasigur í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar við ljósmæður unnum mál okkar vegna vangoldinna launa, frá því í verkfalli fyrir rúmum tveimur árum. Því máli verður væntanlega áfrýjað til Hæstaréttar, en vonandi verða það skynsamir og siðprúðir dómarar sem sitja þar og staðfesta dóm héraðsdóms okkur og réttlætinu í vil. Ég óska öllum ljósmæðrum og fjölskyldum þeirra til sjávar og sveita gleðilegs sumars og góðra stunda. Áslaug Íris Valsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands Hugleiðingar um daginn og veginn Á VA R P F O R M A N N S L M F Í

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.