Ljósmæðrablaðið

Ukioqatigiit

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Qupperneq 10

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Qupperneq 10
10 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 R I T S T J Ó R N A R G R E I N „Viltu segja mér aftur frá því þegar Þorvaldur fæddist í svona baði heima hjá sér?“ Við Sveindís, 6 ára dóttir mín, erum að skoða myndir úr nýlegri bók Becky Reed sem heitir Fæðingar í kastljósið (e. Birth in Focus). Þorvaldur er sonur bestu vina okkar og hann fæddist heima. Þetta er uppáhaldsbók Sveindísar um þessar mundir og hún gægist í bókina þegar færi gefst og spyr eðlilegra spurninga um komu barna í heiminn. „Mamma, var þetta svona þegar ég fæddist? Var svona spegill sem var hægt að horfa á þegar hausinn minn var að koma? Var líka svona slím og líka svona hvítt á húðinni minni?“ Ljósmóðirin, mamma hennar, reynir að svara öllum spurningum af kostgæfni og strá fræjum tilhlökkunar til fæðingar framtíðar fyrir þessa litlu stúlku. Halli, strákurinn minn 8 ára sem er yfirleitt mjög spenntur fyrir öllu lesmáli, hefur aftur á móti engan áhuga á ljósmynduðum fæðingum ókunnugra kvenna. Hann leggur lítillega við hlustir en heldur áfram að lesa Harry Potter. Bók Becky Reed er hins vegar yndislestur fyrir ljósmóður. Reed var ein af stofnendum Albany módelsins sem var ljósmæðrarekin barneignarþjónusta í fátæku hverfi Lundúnaborgar í lok síðustu aldar og í upphafi þessarar. Leiðarstef starfseminnar var samfella í þjónustu, virðing fyrir sjálfræði barnshafandi kvenna og ljósmæðra, hvatning og trú á eðlilegar fæðingar og mikilvægi umhverfis við fæðingar. Allar barnshafandi konur, hvort sem voru í eðlilegu ferli eða í áhættumeðgöngu, gátu valið þetta þjónustuform. Þegar ég fór á mína fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu ljósmæðra í Glasgow árið 2006 var ég svo heppin að fá að hlusta á Becky Reed kynna þessa starfsemi og hef fylgst með hennar störfum síðan. Flestir fræðimenn í ljósmóðurfræðum sem hafa skrifað um mismunandi þjónustuform í barneignarþjónustu líta á Albany módelið sem fyrirmynd í þjónustu við konur, enda var útkoma fæðinga og inngripa ólík því sem við eigum að venjast. Meðal annars valdi tæpur helmingur kvenna að fæða heima og 70% kvenna kaus að fæða án verkjalyfja. Þessar niðurstöður voru sérlega áhugaverðar fyrir þær sakir að konurnar sem kusu þessa þjónustu voru margar hverjar í aukinni áhættu meðal annars vegna félagslegra aðstæðna, auk þess sem aukinn fjöldi kvenna af erlendum uppruna valdi þetta þjónustuform (Reed og Walton, 2009; Reed, 2016). Bókin er byggð á frásögnum Becky Reed, ásamt frásögnum mæðra, feðra, systkina og fæðingarfélaga. Hver fæðingarsaga er skreytt ljósmyndum á afar fallegan hátt. Það sem strax kemur upp í hugann við lestur bókarinnar er virðing fyrir því hversu ólíkar konur eru þegar kemur að því að velja fæðingarstað og umgjörð eigin fæðingar. Töfrar bókarinnar felast meðal annars í því hvernig staðið er á faglegan hátt með upplýstri ákvörðun konunnar, þótt vissulega séu sumar heimafæðingarsögurnar ólíkar því sem við myndum „leyfa“ í íslensku samhengi. Hér er til dæmis að finna frásögn konu sem gengur með tvíbura, sem eru báðir í sitjandi stöðu, og það er hennar eindregna ósk að fæða heima. Við fáum innsýn í afdráttarlausan vilja móðurinnar og hennar frásögn um mikilvægi þess að hennar val sé virt, þrátt fyrir ráðleggingar fagfólks um annan fæðingarmáta. Hlutverk ljósmóðurinnar er að standa með konunni og taka faglegar ákvarðanir þegar að fæðingunni kemur. Í þessu tilfelli er til dæmis sjúkrabíll til taks þegar fæðingin byrjar. Á endanum fæðast tvíburarnir á ólíkum fæðingarstað. Annar fæðist heima en hinn fæðist á sjúkrahúsi nokkrum klukkutímum síðar þar sem hríðir detta niður og ekki er sprengdur belgur í heimahúsi á seinni tvíbura. Út í gegn hrífst maður af þeirri virðingu sem borin er fyrir konunni. Þá er áhugavert að grípa niður í frásögn Reed af fæðingu fjölbyrju sem er að fæða sitt sjötta barn: Þrátt fyrir að flestar konur kjósi stuðning og aðstoð í fæðingum, eru sumar sem vilja vera einar. Það var augljóst að Sheelagh vildi vera í friði og í eigin heimi í fæðingunni, með Dan, manninn sinn, í hæfilegri fjarlægð og okkur ljósmæðurnar hennar tvær í kallfæri. Við sátum saman á neðri hæðinni og undirbjuggum okkur fyrir að taka á móti barninu. Við hlustuðum á þessi fallegu hljóð sem eiga sér stað þegar framgangur fæðingar er eðlilegur og allt gengur vel. Það er sorglegt að hæfileikinn til að lesa í þess konar framgang er í hættu á að glatast hjá ljósmæðrum dagsins í dag, þar sem fleiri og fleiri konur eru undir áhrifum lyfja í fæðingum og framgangur fæðingar er metinn með innri skoðun og útvíkkun skráð á línugraf (Reed, 2016, bls. 97). Mér finnst gott að lesa þessi viðvörunarorð Becky Reed. Við sem vinnum við fæðingar verðum að minna okkur á að ábyrgð okkar sjálfra á að vernda eðlilegar fæðingar er mikil. Ljósmæður hafa ítrekað lýst því hvernig þær telja að umhverfi áhættuhugsunar, sem er hluti af vinnumenningu á stórum fæðingardeildum, geti haft neikvæð áhrif á verndun eðlilegra fæðinga (Hunter, Berg, Lundgren, Olafsdóttir og Kirkham, 2008; Keating og Flemming, 2009; Kennedy, Grant, Walton, Shaw-Battista og Sandall, 2010). Rannsóknir hafa sömuleiðis ítrekað sýnt að minni ljómóðurreknar einingar, samfella í þjónustu, trú á hugmyndafræði ljósmæðra og heimafæðingar séu þær leiðir sem líklegastar séu til árangurs fyrir verndun eðlilegra fæðinga, (Bocklehurst o.fl., 2010; Sandall, Soltani, Gates, Shennan og Devane, 2013). Mér er það líka minnisstætt að á ráðstefnu um mannréttindi í fæðingum í Belgíu fyrir nokkrum árum fjallaði hollenskur lögfræðingur um það hversu sérstakt það væri að í skipulagi fæðingaþjónustu væri gengið út frá því að hægt væri að búa til kerfi sem byggðist á einsleitni, að gengið væri út frá því að ólíkar konur hefðu sömu/svipaðar þarfir. Staðreyndin væri hins vegar sú að konur eru eins ólíkar og þær eru margar og þarfir þeirra í þeirri óvissuferð sem barnsfæðing er sömuleiðis. Hamingjuóskir til Bjarkarinnar og barnshafandi kvenna Steinunn H. Blöndal, ljósmóðir

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.