Ljósmæðrablaðið

Årgang

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Side 12

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Side 12
12 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Sigrún Ingvarsdóttir, ljósmóðir í fósturgreiningu á Landspítala Kristín Rut Haraldsdóttir, ljósmóðir í fósturgreiningu á Landspítala INNGANGUR Einn þáttur af nútíma mæðra- og meðgönguvernd eru fósturskimanir og fósturgreiningar. Þær hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár. Hér áður fyrr voru legástungur mjög almennar hjá konum 35 ára og eldri en með tilkomu hnakkaþykktarmælingar við tólf vikna ómun og síðar samþætts líkindamats hefur það gjörbreyst. Þær konur sem nú fara í legástungu hafa flestar farið í samþætt líkindamat og fengið niðurstöður um auknar líkur á litningafrávikum. Auk þess er ákveðinn hópur kvenna sem fer í legástungu vegna erfðasjúkdóma. Fósturskimun er í sífelldri þróun og miklar framfarir hafa átt sér stað á þessu sviði. Á undanförnum árum hefur fósturskimun í móðurblóði sem hægt er að framkvæma frá tíundu viku meðgöngu verið að ryðja sér til rúms. Þar er hægt að skima fyrir litningafrávikum með meira næmi en fyrri skimunarpróf gerðu. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun hér á landi um upptöku slíkrar skimunar. Legástungur Saga fósturgreiningar er ekki löng, en þó má finna heimildir frá miðbiki síðustu aldar þess efnis að sérfræðingar leituðu leiða til að rannsaka fósturvef. Árið 1949 uppgötvuðu Murray L. Barr og félagar hans í Lundúnum, að hægt væri að aðgreina kven- og karlkynsfóstur. Árið 1955 fannst aðferð til að skoða kynlitninga í legvatni og í framhaldi af því birtist fyrsta greinin um að fóstri hefði verið eytt vegna kynbundins litningafráviks eftir legvatnsástungu. Næstu fimmtán árin þar á eftir voru legvatnsástungur í þróun og leitað var leiða til að gera þær eins öruggar og hægt væri. Franski frumuerfðafræðingurinn Jerome LeJeune uppgötvaði árið 1959 að ástæður Downs heilkennis væri þrístæða á litningi 21 (Cowan, 1994). Legvatnsástungur urðu fljótt mjög almennar hjá konum 35 ára og eldri, sérstaklega í Bandaríkjunum eftir að fjöldi foreldra sem eignuðust fötluð börn fóru í málarekstur við lækna sem ekki höfðu boðið þeim litningapróf. Bandarísk samtök fæðinga- og kvensjúkdómalækna sem og samtök barnalækna ráðlögðu í framhaldinu að rétt væri að bjóða verðandi foreldrum upp á litningarannsókn (Cowan, 1994). Aldursviðmið voru mismunandi, en flestar þjóðir miðuðu við að bjóða konum sem voru á aldrinum 35 til 38 ára upp á legvatnsástungu (Holland, Stewart og Masseria, 2006). Litningarannsóknir hófust á Íslandi árið 1967 og fyrstu árin var aðaláherslan lögð á að finna og skrá Downs heilkenni. Legvatnsástungur hófust hér á landi árið 1973, en fyrstu fimm árin voru sýnin send til Danmerkur til rannsóknar. Litningarannsóknir á legvatnsfrumum hófust hér á landi árið 1978 og árið 1983 hófst undirbúningur að fylgjuvefsrannsóknum, en fyrsta sýnið var tekið árið 1984 (Jóhann Heiðar Jóhannsson, 2001). Legvatnsfrumur eru lifandi frumur sem fljóta um í legvatninu en þær eru fyrst og fremst taldar upprunnar frá fóstrinu. Legvatnssýni eru tekin við 16 vikna meðgöngu og tekur um tvær vikur að fá niðurstöður úr legvatnsástungu. Sýnataka úr fylgjuvef hefur komið að miklu leyti í staðinn fyrir legvatnsástunguna, en samheiti fyrir þessar tvær aðferðir, legvatnsástungu og fylgjusýnitöku kallast legástunga. Hægt er að greina litningagerð fóstursins með fylgjusýnitöku þar sem frumur fylgjuvefsins eru af sama uppruna og frumur fóstursins og hafa því sömu litningagerð. Fylgjusýni má taka frá 11 vikna meðgöngulengd og fæst bráðabirgðasvar eftir tvo daga. Frumur í fylgjuvefnum eru í mun örari skiptingu en húðfrumur í legvatninu, sem gerir mögulegt að fá svarið fljótt. Hluti sýnisins er ræktaður áfram í 10-14 daga til að fá fullnaðargreiningu, en sjaldgæft er að ósamræmi sé í niðurstöðum hennar og bráðabirgðasvarsins (Hulda Hjartardóttir, 2001). Líkur á fósturláti í kjölfar legástungu eru um 1% ef um einburameðgöngu er að ræða en aðeins hærri ef um tvíburameðgöngu er að ræða (Kristín Rut Haraldsdóttir, Helga Gottfreðsdóttir og Reynir Tómas Geirsson, 2014). Frá árinu 1978 bauðst öllum konum á Íslandi, 35 ára og eldri, að fara í legvatnsástungu til að greina litningagerð fósturs. F R Æ Ð S L U G R E I N Fósturskimun og fósturgreining Fortíð – nútíð – og framtíð?

x

Ljósmæðrablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.