Ljósmæðrablaðið

Ukioqatigiit

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Qupperneq 16

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Qupperneq 16
16 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Fósturgreining er nákvæm rannsókn sem krefst vandaðra vinnubragða og góðrar undirstöðuþekkingar. Undanfarin misseri hefur farið af stað langþráð þjálfun nýliða í fósturgreiningu á Landspítala. Um er að ræða eins árs skipulagt nám á Göngudeild fósturgreiningar hér heima og erlendis, þar sem bóknám og verkleg kennsla er samþætt. Kristín Rut Haraldsdóttir sérfræðiljósmóðir í fósturgreiningu sér um skipulag námsins og heldur utan um nemana á námstímanum. Stuðst er við námsefni Fetal Medcine Foundation (FMF) sem hefur verið leiðandi í kennslu og rannsóknum á sviði fósturgreiningar. Einnig er sótt námskeið hjá Royal College of Obstetricians and Gynaecologists (RCOG) í London. Á síðustu 18 mánuðum hafa þrjár ljósmæður hafið þetta nám og hefur ein nú þegar lokið námi og tvær eru komnar vel áleiðis. Fósturgreining var alveg nýr starfsvettvangur fyrir okkur sem ljósmæður þar sem fyrra nám og reynsla nýttust aðeins að hluta og minna en á mörgum öðrum stöðum. Okkur langar að segja aðeins frá náminu og upplifun okkar af því. Áður en byrjað er á kennslu í fósturgreiningu er nemandinn kynntur fyrir störfum ljósmóður á fósturgreiningardeild þar sem nemandinn fylgir reyndum ljósmæðrum í allar tegundir ómskoðana. Þetta var spennandi en jafnframt ofurlítið ógnvekjandi. Á skjánum birtust myndir af litlum geimverum sem ýmist kúrðu í hinum ýmsu stellingum eða voru ekki kyrrar eitt augnablik. Ljósmæðurnar renndu af mikilli fimi í gegnum skoðun eftir skoðun. En eftir stóð neminn sem eitt stórt spurningarmerki, hvernig sá hún nýrun? Hvað á lærleggur að vera langur og hvernig læri ég þetta? Hér runnu á okkur tvær grímur, hvað vorum við búnar að koma okkur út í? Smám saman áttuðum við okkur á því sem á skjánum var og við tók næsta skref. Næsta skref fólst í að við sjálfar lærðum tæknina við að ná þeim sneiðmyndum sem fósturrannsóknirnar byggja á. Byrjað er á að kenna 20 vikna skoðun, misjafnt er hversu langan tíma það tekur að ná færni en algengt er að það taki um þrjá mánuði. Meðan á þessari þjálfun stendur er áfram unnið í bóklega náminu, tekið hjartanámskeið hjá FMF og rýnt í myndbönd af fósturgöllum. Sótt er tveggja daga námskeið hjá RCOG í London. Nemandinn safnar grunnmyndum sem 20 vikna skoðunin byggist á í „loggbók“ og eftir að færnin hefur verið metin fær viðkomandi leyfi til að framkvæma skoðun við 20 vikur sjálfstætt. Hér byrjaði sem sagt leitin að fóstrinu, neminn með „prób“ í hönd og fullur eftirvæntingar. En það er ekkert grín að ná að mynda kríli sem er að meðaltali 25cm langt, vegur um 300g, liggur í alls konar stellingum, og syndir um í nægu vatni. Okkur fannst við rosa klárar ef við náðum að mæla koll OG ná réttri mynd af heilanum. Smátt og smátt batnaði færnin og við fengum meira sjálfstraust. Við áttum okkar góðu daga þar sem við náðum öllum myndunum og líka erfiða daga þar sem ekkert virtist ganga upp. Sem betur fer sjá reyndar ljósmæður um að leiðbeina og styðja við okkur nemana því þegar erfiðlega gekk þurftum við svo sannarlega á uppörvun og stuðningi að halda. Hér byrjum við algerlega á byrjunarreit. Það er ekki hægt að lesa sér til um fósturgreiningu og byrja bara, það þarf langa og stranga þjálfun og við vorum fljótar að átta okkur á því. Flestir sem koma í skoðun fara út með góðar fréttir og glaðir með að hafa fengið að horfa á barnið sitt stutta stund. Því miður er ekki alltaf svo og við þurfum stundum að færa erfiðar fréttir. Það er kannski þar sem fyrri reynsla úr hjúkrun og ljósmóðurstarfinu nýtist vel. Næsta verkefni var að læra að meta vöxt hjá fóstri og gera blóðflæðimælingar. Áfram heldur lesturinn og leiðbeinandi er með nemanda þar til hann hefur náð færni til að gera þessa skoðun sjálfur. Aftur er misjafnt hvað það tekur langan tíma en núna er komin færni í tækninni sem gerir þetta auðveldara. Þegar hingað var komið héldum við að við værum nú „meðetta“, en svo var nú ekki alveg enda þessi rannsókn talsvert frábrugðin 20 vikna skoðun. Með aukinni reynslu kom þó sjálfstraustið við þessa skoðun og við gátum haldið áfram. Þegar nemandi hefur náð góðri færni í ofantöldu hefst kennsla í 11-14 vikna skimun. Þar er eins og áður stuðst við námskeið á netinu hjá FMF og nemandi tekur próf, sendir myndir til FMF og að fengnu samþykki þeirra er viðkomandi kominn með formleg réttindi til að framkvæma 11-14 vikna ómun og mæla hnakkaþykkt. Þetta leyfi þarf síðan að endurnýja árlega. Unnið er að því að allir þeir sem gera 20 vikna ómun fái einnig til þess formlegt leyfi frá FMF, sambærilegu við það sem gildir fyrir 11-14 vikna skimunina. Fram að þessu hefur ekki verið um það að ræða heldur uppfyllir nemandi ákveðin hæfniviðmið sem leiðbeinendur á deildinni meta. Námið í fósturgreiningu er bæði áhugavert og spennandi en gerir líka miklar kröfur um fagmennsku, þolinmæði og nákvæmni. Einnig er það krefjandi að fara úr því að vera fullfær í starfi þar sem hæfni og þekking manns nýtist og fara því sem næst á byrjunarreit aftur. Við hefðum eflaust farið nálægt því að gefast upp einhverstaðar á leiðinni ef ekki væri fyrir dásamlegt samstarfsfólk sem hefur hvatt okkur áfram og stappað í okkur stálinu. Eftir eitt ár í starfsnámi á fósturgreiningardeild ætti viðkomandi að hafa færni í allar helstu skoðanir sem eru framkvæmdar á deildinni. Oft er það þó svo að fyrstu árin þarf að leita ráða og fá hjálp við erfiðari verkefni. Það má með sanni segja að góð samvinna sé milli fagstétta á deildinni, þar sem læknar sem og ljósmæður vinna saman að því að veita framúrskarandi þjónustu til sinna skjólstæðinga. Það er metnaður deildarinnar að þar starfi einungis þeir sem hafa aflað sér menntunar og öðlast færni til að sinna ómskoðunum þungaðra kvenna. Guðrún Huld Kristinsdóttir og Signý Dóra Harðardóttir Starfsnám í fósturgreiningu á Göngudeild mæðraverndar og fósturgreiningar á Landspítala Höfundarnir Guðrún Huld og Signý Dóra.

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.