Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 18

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Blaðsíða 18
18 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Mikilvægi næringarástands móður á meðgöngu og tengsl þess við þroska, vöxt og heilsu barnsins til skemmri og lengri tíma hefur víða verið lýst í rannsóknum (Barker, 2007; Koletzko o.fl., 2014; Netting o.fl., 2014; Ramakrishnan o.fl., 2012). Í þessari grein verður fjallað um aðferðafræðilegar áskoranir í næringarfræði, íslenskar rannsóknir sem tengjast mataræði á meðgöngu og hugmyndir um það hvernig hægt væri að innleiða markvissa næringarmeðferð í mæðravernd á Íslandi til þeirra kvenna sem mest þurfa á slíkri meðferð að halda. Fæðumynstur kvenna á meðgöngu sem einkennist af ríflegri neyslu ávaxta og grænmetis, fisks og hollrar fitu og um leið minni neyslu á næringarsnauðum fæðutegundum tengist minni líkum á meðgöngueitrun, fyrirburafæðingum og öðrum meðgöngukvillum í stórum norrænum rannsóknum (Brantsaeter o.fl., 2009; Englund-Ögge o.fl., 2014; Haugen o.fl., 2008; Knudsen o.fl., 2008; Meltzer o.fl., 2011). Íslensk rannsókn (n=162) frá árunum 2012-2013 sýndi að heilsusamlegt mataræði kvenna á meðgöngu tengist minni líkum á meðgöngusykursýki, eftir að leiðrétt hafði verið fyrir þáttum á borð við aldur, fjölda fyrri barna, þyngd fyrir meðgöngu, orkuinntöku á meðgöngu, vikulegri þyngdaraukningu og hreyfingu (OR: 0,36 95% öryggismörk: 0,14, 0,94) (Tryggvadóttir o.fl., 2016). Neysla lykilnæringarefna fyrir fósturþroska, svo sem omega-3 fitusýra, joðs og D-vítamíns var af skornum skammti hjá hluta kvenna og fæðuval var almennt ekki eins gott og best væri kosið (Gunnarsdóttir o.fl., 2016; Tryggvadóttir o.fl., 2016 ), sem er í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna, bæði erlendra og innlendra (Rodriguez-Bernal o.fl., 2013; Haugen o.fl., 2008; O‘Neill o.fl., 2011; Ólafsdóttir o.fl., 2006). Það er ljóst að næring á meðgöngu er mikilvæg. Brýn þörf á skimunartæki Sú aðferð sem helst er notuð til að rannsaka mataræði í stórum faraldsfræðilegum rannsóknum er tíðnispurningalisti (Food Frequency Questionnaire) (Brantsaeter o.fl., 2009; Knudsen o.fl., 2008). Til að fá nákvæmar upplýsingar um orkuneyslu, framlag orkugefandi næringarefna (fitu, próteina og kolvetnis) til heildarorkuneyslu auk neyslu einstakra næringarefna þá þarf slíkur listi að vera mjög ítarlegur (að lágmarki 180 spurningar eða 10 blaðsíður með ítarlegum spurningum um neyslu mismunandi matvæla). Þar af leiðandi tekur dágóðan tíma að svara listanum (allt að klukkutíma). Aðrar aðferðir sem notaðar eru til að kanna mataræði eru ennþá tímafrekari og um leið dýrari en tíðnispurningalistar. Má þar nefna skráningu neyslu í nokkra daga (yfirleitt þriggja til sjö daga matardagbók) (Gunnarsdóttir o.fl., 2016), upprifjun á mataræði (Þorgeirsdóttir o.fl., 2011) og fæðissögu sem fer fram í viðtali við næringarfræðing (tekur yfirleitt um klukkustund). Tímafrekar aðferðir eru í senn dýrar í framkvæmd og fráhrindandi og ekki fýsilegur kostur í klínísku starfi. Brýn þörf er á einföldu skimunartæki til að finna þær konur sem gætu verið að stofna eigin heilsu og fóstursins í hættu með of lítilli neyslu næringarefna sem gegna lykilhlutverki við fósturþroska eða með óheilsusamlegu fæðumynstri. Slíkt skimunartæki þarf ekki einungis að endurspegla heildargæði mataræðis móður á meðgöngu heldur er einnig mikilvægt að skilgreining á hollustu fæðumynsturs út frá spurningalistanum tengist þekktum áhættuþáttum á meðgöngu eða í fæðingu. Það borða ekki allar konur yfir kjörþyngd óhollan mat Töluverð reynsla er komin á skimun fyrir vannæringu (orku- og próteinskorti) meðal sjúklinga á sjúkrastofnunum (Stratton o.fl., 2006; Þórsdóttir o.fl., 1999), meðan skimun fyrir óheilsusamlegu mataræði (nutritional risk) á meðgöngu þekkist ekki. Þyngd fyrir þungun og þyngdaraukning á meðgöngu eru hins vegar breytur sem hafa verið skráðar í sjúkraskrá (mæðraskrá) víða um heim um árabil. Í dag er vel þekkt að þyngd móður fyrir þungun ásamt mikilli þyngdaraukningu á meðgöngu tengist ýmsum kvillum á meðgöngu og aukinni tíðni ofþyngdar hjá barninu (Cnattingius o.fl., 2013; Lau o.fl., 2014). Því hefur þyngd fyrir þungun (líkamsþyngdarstuðull) víða verið notuð til að meta þörf kvenna fyrir lífsstílsíhlutanir á meðgöngu. Íhlutanir sem fela í sér bætt mataræði og aukna hreyfingu skila yfirleitt ágætis árangri með tilliit til þyngdaraukningar á meðgöngu (Muktabhant o.fl., 2015). Hins vegar eru verndandi áhrif lífstílsíhlutanna með tilliti til áhættu fyrir meðgöngusykursýki ekki eins skýr (Bain o.fl., 2015; Poston o.fl.,2015). Hluti skýringarinnar gæti legið í því að þátttakendur í þessum rannsóknum voru valdir á grundvelli þyngdar fyrir þungun en ekki á grundvelli þess hvernig mataræði þeirra (eða hreyfing) var í upphafi meðgöngu. Það er líkt og gert sé ráð fyrir að allar konur yfir kjörþyngd hefðu gagn af því að breyta mataræði sínu. Ein áhugaverðasta niðurstaða nýlegrar íslenskrar rannsóknar var sú að konur yfir kjörþyngd sem borðuðu hollan mat reyndust ekki vera í meiri hættu á að fá meðgöngusykursýki heldur en konur í kjörþyngd (Tryggvadóttir o.fl., 2016) og óverulegur munur virtist vera á mataræði kvenna í kjörþyngd og þeirra sem voru annað hvort of þungar eða of feitar fyrir þungun (Gunnarsdóttir o.fl., 2016). Bendir þetta til þess að sú hefð að velja konur inn í lífsstílsíhlutanir á grundvelli þyngdar eingöngu sé ekki endilega besta nálgunin. Það að velja þátttakendur inn í lífstílsíhlutun á grundvelli mataræðis er hins vegar flókið, þar sem sú aðferðafræði sem viðurkennd er í dag til að kanna mataræði einstaklinga er mjög kostnaðarsöm. Víða um heim leita menn að nýjum aðferðum til að meta fæðuval F R Æ Ð S L U G R E I N Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur, Næringastofu Landspítala. Samstarfsaðilar: Laufey Hrólfsdóttir næringarfræðingur, Bryndís Eva Birgisdóttir næringarfræðingur, Þórhallur Ingi Halldórsson líftölfræðingur, Ingibjörg Th Hreiðarsdóttir ljósmóðir Hildur Harðardóttir læknir. Næringarmeðferð í mæðravernd á Íslandi staða þekkingar og framtíðarsýn.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.