Ljósmæðrablaðið

Ukioqatigiit

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Qupperneq 32

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2017, Qupperneq 32
32 Ljósmæðrablaðið - júlí 2017 Hópmeðgönguvernd: Er það eitthvað fyrir okkur? INNGANGUR Styrkleikar meðgönguverndar á Íslandi eru margir. Má þar til dæmis nefna samfellda þjónustu á meðgöngu, markvissa skimun og greiningu á meðgöngutengdum vandamálum. Með aukinni áherslu á skimanir og greiningar á undanförnum árum, hefur tími ljósmæðra fyrir fræðslu, undirbúning fyrir fæðingu og foreldrahlutverkið minnkað (Helga Gottfreðsdóttir, Þóra Steingrímsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Hildur Kristjánsdóttir, 2016). Í staðinn er barnshafandi konum og verðandi foreldrum nú boðið upp á fræðslunámskeið gegn gjaldi utan hefðbundinnar mæðraverndar, en þess utan sækja konur sér í auknu mæli fræðslu í rituðu máli og myndum á samfélagsmiðlum og alnetinu. Það hefur sýnt sig að á meðgöngu hafa konur ríka tilhneigingu til að leita í reynslu annarra kvenna, bera sig saman við þær og spegla sig í hópi kvenna sem eru í svipuðum aðstæðum (Rising, 1998). Hér á landi hefur orðið gríðarleg aukning á slíkum samræðum á samfélagsmiðlum til dæmis í formi bumbuhópa. Hóparnir geta verið uppbyggjandi og styrkjandi fyrir konur, en þeir hafa hins vegar þann ókost að þar lifa oft góðu lífi ýmsar mýtur og sögusagnir. Að auki geta sögur og ráð kvenna innan þessara hópa valdið streitu og kvíða hjá öðrum konum sem þar eru. Til þess að bregðast við þörf kvenna fyrir samskipti við aðrar konur í svipuðum aðstæðum, og til að auka fræðslu og stuðning á meðgöngu hafa ljósmæður víða í hinum vestræna heimi brugðið á það ráð að veita meðgönguvernd í hópum. Hópmeðgönguvernd (e. Group Antenatal Care / CenteringPregnancy) sameinar þrjá grunnþætti meðgönguverndar sem eru áhættumat, fræðsla og stuðningur. Hópmeðgönguvernd hvetur konur til þess að taka ábyrgð á eigin heilsu á meðgöngu sem er talið líklegt að ýti undir aukið sjálfstraust (C. Klima, Norr, Vonderheid og Handler, 2009; Rising, 1998; Rising, Kennedy og Klima, 2004; Wedin, Molin og Crang Svalenius, 2010). Greinin, sem fjallar um hópmeðgönguvernd og upplifun kvenna af því að taka þátt í slíkum hópum, byggir á lokaverkefni Ellu Bjargar Rögnvaldsdóttur til kandídatsprófs í Ljósmóðurfræði. Hópmeðgönguvernd í hnotskurn Í hópmeðgönguvernd eru myndaðir hópar með sex til tólf konum sem eiga von á barni á svipuðum tíma og hvatt er til að makar eða stuðningsaðilar taki einnig þátt (Andersson, Christensson og Hildingsson, 2013; Teate, Leap, Rising og Homer, 2011). Skipulag hópanna byggir á sama grunni og hefðbundin meðgönguvernd og hittist hver hópur í 90-120 mínútur í hvert skipti. Gert er ráð fyrir að fyrsta koma í meðgönguvernd sé einstaklingsviðtal eins og í hefðbundinni meðgönguvernd þar sem fram fer ítarlegt áhættumat og fræðsla en aðrir tímar fara fram í hópum. Í byrjun hvers hóptíma fer fram heilsumat og síðan tekur við fræðsla og umræður undir handleiðslu ljósmóður. Konurnar taka virkan þátt í að fylgjast með heilsu sinni en þær mæla sjálfar blóðþrýsting, vigta sig og prófa þvag fyrir eggjahvítu. Aðrar athuganir eins og legbotnsmæling og hlustun fósturhjartsláttar fer fram á dýnu eða bekk til hliðar innan sameiginlegs rýmis, gjarnan á bakvið skerm eða tjald. Skoðunin tekur nokkrar mínútur en ef gera þarf frekari skoðanir (svo sem innri skoðun) er konum boðið að hitta ljósmóður í næði eftir hóptímann. Það sama á við ef kona hefur þörf fyrir að ræða viðkvæm málefni í einrúmi með ljósmóður en flest málefni sem þannig koma upp eru þó rædd í hópnum ýmist þannig að konan beri sjálf fram spurningu eða ljósmóðirin taki upp umræður um efnið að fyrra bragði. Hópmeðgönguvernd hentar bæði hraustum konum í eðlilegri meðgöngu sem og konum með áhættuþætti á borð við meðgöngusykursýki, háþrýsting og andlega vanlíðan. Konur sem sækja þjónustu ljósmæðra og lækna í áhættumæðravernd er líka boðið Emma Swift, ljósmóðir í Björkinni og doktorsnemi Ella B Rögnvaldsdóttir, ljósmóðir á Landspítala Dr. Helga Gottfreðsdóttir, ljósmóðir, dósent Háskóla Íslands

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.